Nefnifallssýki, skammstafanir og auðkenni

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

Nafnorðastíll

Í nafnorðastíl eru innihaldsríkustu orðin í setningu nafnorð en frekar valin sagnorð sem hafa almenna merkingu.

Ef valin eru sagnorð sem hafa nákvæma eða sértæka merkingu þá verða setningar líflegri og kraftmeiri. Dæmi: 

Ísabella tók ákvörðun um að kaupa bílinn. > Ísabella ákvað að kaupa bílinn. 
Aukning sölunnar varð mikil. > Salan jókst mikið.

Málvísir, handbók um málfræði handa grunnskólum. Góð bók sem ætti að vera á borðum allra áhugamanna um íslenskt mál, ekki síst blaðamanna.

1.

Þórarinn þykir þó leitt að sjá Eyþóri gerð skil á afar neikvæðan máta …“

Frétt á dv.is.           

Athugasemd: Skaði er að því að blaðmenn hafi ekki skilning á fallbeygingu nafnorða og sérnafna. Þórarinn er þarna í röngu falli, ætti að vera þágufalli. Nafnið beygist svona:

ef. Þórarinn
þf. Þórarin
þgf.Þórarni
ef. Þórarins

Blaðamaðurinn framleiðir skemmda frétt, hann er haldinn nefnifallssýki en skilur ekki heldur hvað nástaða er:

… Eyþóri Þorlákssyni í vinsæla söngleiknum Elly sem hefur verið sýnd við fádæma vinsældir í Borgarleikhúsinu undanfarin tvö ár.

Mikilvægt er að lesa frétt yfir áður en henni er skilað út á vefinn. Það hefur blaðamaðurinn ekki gert eða, sem er verra, hann hefur ekki skilning á málinu. Söngleikurinn Elly hefur verið sýndur.

Og það er fleira aðfinnsluvert í fréttinni:

Þessi lýsing sé ekki rétt og Þórarinn telur sig í góðri stöðu til að leggja mat á sannleiksgildi lýsingarinnar þar sem hann þekkti Eyþór náið í meira en hálfa öld.

Þessi málsgrein er klúður. Ruglingsleg frásögn, tafs og ekki hjálpar nástaðan. Betra hefði verið að orða þetta svona:

Þórarinn telur lýsinguna á Eyþóri ranga, hann þekkti manninn og viti að lýsingin er röng.

Eftirfarandi er ekki vel orðað:

Eyþór hafi líka meðal annars verið fyrstur Íslendinga …

Þetta er slæmt klúður, stílleysið er algjört. Sé atviksorðinu líka sleppt verður setningin skárri.

Tillaga: Þórarni þykir þó leitt að sjá Eyþóri gerð skil á afar neikvæðan máta …

2.

R. e-n til e-s

Frétt á dv.is.           

Athugasemd: Skammstafanir eru oftast ljótar. Þetta er mín skoðun. Sú kenning er uppi að þær hafi komið til í prentuðu máli svo hægt sé að spara pláss í blýsetningu. Sú tækni er úrelt því nú þarf aldrei að spara pláss, aðrar leiðir eru betri. Ég hallast að þessari kenningu.

Áður fyrr var talið að stytta mætti algeng orð eða orðasambönd og gat munað nokkru þegar góðir setjarar vildu ekki láta málsgrein enda á örorðum og punkti í nýrri línu (á, æ, að, til og svo framvegis (ekki „o.s.frv.“).

Samfellda hugsun á að tjá í setningu eða málsgrein, helst án þess að punktur eða tölustafir brjóti hana upp. Undantekningar eru dagsetningar, ártöl og hugsanlega stærri tölur.

Einstaklega stíllaust og hjákátlegt er að lesa svona:

Hérna gekk 1 maður hverja 1 klukkustund nema um kl. 6 þá voru þeir 7.

Aldrei að byrja setningu á tölustaf eins og hér sést og forðast nástöðu:

    1. Apríl tíðkast aprílgöbb í 4 fjölmiðlum og 3 vefsíðum.

Hægt er að spinna upp klúðurslega frásögn með skammstöfunum, dæmi (þetta er spaug):

Sr. Jón las skv. venju bls. 2 og síðan e.k. frásögn frá u.þ.b. 10 f.Kr. í a.m.k 1/2 klst. 7 mín. og 2 sek. eða u.þ.b. til kl. 12.

Þetta er auðvitað ólæsilegt og frekar óskemmtilegt. Á svipaðan hátt verður manni um og ó þegar fyrir augu ber svona skýringar á malid.is (þetta er ekki spaug):

2 reka, †vreka (st.)s. ‘hrekja burt eða á undan sér, vísa burt; slá, hamra járn; starfrækja; þvinga, neyða: r. e-n til e-s; hefna: r. e-s; óp. hrekjast (fyrir straumi, vindi)’; sbr. fær. og nno. reka í svipaðri merk., sæ. vräka ‘kasta burt, hafna’, fsæ. räka ‘hrekja á braut’, sæ. máll. räka ‘berast fyrir straumi; flækjast um’; sbr. ennfremur fe. wrecan ‘hrekja burt, hefna,…’, fhþ. rehhan, fsax. wrekan ‘hegna, hefna,…’, gotn. wrikan ‘ofsækja’. Líkl. í ætt við lat. urgeÌ&#132;re ‘þrengja að, knýja, ýta á’, fi. vrájati ‘ráfar, reikar’ og e.t.v. fsl. vragÅ­ ‘fjandmaður’, lith. varÌ&#131;gas ‘neyð, eymd’; af ie. *u̯reg- (*u̯erg-) ‘þjarma, þrýsta að, knýja, ofsækja’ (ath. að baltn. og slavn. orðin gætu eins verið í ætt við vargur og virgill). Sum merkingartilbrigði so. reka í norr. gætu stafað frá föllnum forskeytum, sbr. t.d. reka ‘hrekja burt’ e.t.v. < *fra-wrekan, sbr. fe. forwrecan; ‘hefna’ < *uzwrekan, sbr. fe. aÌ&#132;wrecan (s.m.). Sjá rek (1 og 2), -reka (1), rekald, reki, rekinn (1 og 2), rekja (4), rekning(u)r (1 og 2), rekstur (2) og rakstur (1), rétt kv., rétt(u)r (3), rækindi, rækja (3) og rækur (1); ath. rökn (1) og raukn (1).

Er ekki hægt að gera betur í svona afbragðsgóðum vef? Í tilvitnuninni er mikill fróðleikur og því betra að lesa hægt og rólega til að allt skiljist. Greinaskil eru yfirleitt gott hjálpartæki en ekki notuð.

Tillaga: Reka einhvern til einhvers.

3.

„Í sam­ræmi við vinnu­regl­ur banda­lags­ins flugu tvær orr­ustuþotur ít­alska flug­hers­ins til móts við vél­arn­ar til að auðkenna þær.“

Frétt á mbl.is.           

Athugasemd: Hvað er nú þetta? Ekki var það svo að óþekktu vélarnar þyrftu auðkenningar við heldur var ætlunin sú að bera kennsl á þær.

Nafnorðið auðkenni merkir það sem greinir eitt frá öðru, sérkenni eða einkenni af einhverju tagi. Jurtir hafa auðkenni sem greinir þær frá hverri annarri.

Auðkenni lögreglumanna er fatnaðurinn sem þeir klæðast (leynilöggan er undantekning). Auðkenni fjallamannsins er til dæmis gönguskórnir sem síst af öllu eru samkvæmisklæðnaður.

Þá er það sagnorðið, að auðkenna. Á malid.is segir um orðið:

setja sérstakt mark á (e-ð) til aðgreiningar eða einkennis

eiganda hunds er skylt að auðkenna hund sinn
allar götur bæjarins eru auðkenndar með skilti
ég auðkenndi nokkur atriði textans með gulum lit

Hér ætti að vera ljóst að ítalski flugherinn ætlaði sér ekki að „aukenna“  flugvélarnar. Það hefði hefði verið alvarlegt mál því þær reyndust vera rússneskar. 

Líklegast er að blaðamaðurinn hafi látið enska nafnorðið „identification“ og sagnorðið „to identify“ rugla sig í ríminu. Hvorugt þeirra dugar hér.

Mjög mikilvægt er að blaðamaður hafi góð tök á íslensku því ábyrgðin er mikil. Röng orðanotkun í fjölmiðlum ruglar lesendur og þá er hættan sú að sumir skilji hreinlega ekki þegar orðin eru notuð í réttu samhengi.

Þegar ofangreint hafði verið skrifað birtist frétt um sama mál á visir.is og orðalagið er svipað. Í henni segir að ætlunin hafi að auðkenna óþekktu flugvélarnar.

Af þessu má draga þá ályktun að orðalagið er ekki komið frá blaðamönnunum sem skrifuðu fréttirnar heldur frá Landhelgisgæslunni. Þar þurfa þeir að taka sig á sem skrifa fréttatilkynningar, þetta er einfaldlega óboðlegt.

Blaðamenn Morgunblaðsins og Vísis hefðu að sjálfsögðu átt að umorða textann áður en hann var birtur. „Kranablaðamennska“ er ekki meðmæli fyrir fjölmiðil. Þeir eiga að vita betur en hugsunarleysið er algjört.

Tillaga: Í sam­ræmi við vinnu­regl­ur banda­lags­ins flugu tvær orr­ustuþotur ít­alska flug­hers­ins til móts við vél­arn­ar til að bera kennsl á þær.


Óþekktir yfirburðir, eftirköst og drasla til

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

Þýða er ekki þíða

Sé maður ekki alveg smekklaus finnst manni sögnin að affrysta ljót en sögnin að þíða falleg. 

Í stað þess að „affrysta“ mat skulum við þíða hann. Hann þiðnar þá, í stað þess að „affrystast“ (affrjósa?) og verður þiðinn í stað þess að verða „affrosinn“ (affreðinn?). 

En þíðum hann alltaf með í-i.

Málið á blaðsíðu 52 í Morgunblaðinu 14.3.2019.

 

1.

„Þingið hefur nú tvisvar fellt með óþekktum yfirburðum „eina samninginn sem völ er á“.“

Leiðari Morgunblaðsins 14.3.2019          

Athugasemd: Þetta er skrýtið. Höfundur er að segja frá vandræðum bresku ríkisstjórnarinnar vegna Brexit, brottför landsins úr ESB. Breski forsætisráðherrann á í miklum vandræðum í þinginu. Hann segir að samningurinn hafi verið felldur með „óþekktum yfirburðum“.

Hvað er óþekkt? Atkvæðagreiðslan í breska þinginu þann 10. mars fór þannig að 391 greiddi atkvæði gegn og 242 með. Ekkert er þarna óþekkt nema óþekktin í þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna sem greiddu ekki atkvæði eins og ríkisstjórnin vildi.

Þegar leiðarahöfundur talar um „óþekkta“ yfirburði á hann við að þeir hafi verið meiri en áður hafa þekkst. Orðalagið er út ensku. Enskumælandi segja: „Something is unheard of“. Við tölum á annan veg hér á landi nema ætlunin sé að útbreiða „ísl-ensku“. Ekki má samt nota lýsingarorðið „óheyrilegur“ í þessu sambandi.

Það sem er óþekkt er ekki þekkt. Danmörk sigraði Ísland með fjórtán mörkum gegn tveimur og er fátítt að lið vinni með slíkum yfirburðum í fótbolta (ekki „óþekktum“ yfirburðum).

Tillaga: Þingið hefur nú tvisvar fellt „eina samninginn sem völ er á“ með meiri yfirburðum en þekkst hafa í atkvæðagreiðslum í breska þinginu.

2.

Eftirköst Christchurch-árásarinnar rétt að byrja.“

Frétt á blaðsíðu 15 í Morgunblaðinu 18.02.2019.         

Athugasemd: Hér eru stuttar vangaveltur um merkingu fyrirsagnarinnar, sérstaklega nafnorðsins eftirköst. Er ekki alveg viss um hvort blaðamaðurinn átti sig á orðinu. Af efni fréttarinnar má ráða að ekki er víst að eftirköstin séu öll slæm.

Í hugum flestra merkir orðið neikvæðar afleiðingar. Til dæmis er hausverkur oft eftirköst of mikillar áfengisdrykkju. Setji ég dísil á bensínbíl verður hann ógangfær, það eru slæm eftirköst. 

Sá sem kaupir lottómiða myndi aldrei orðað það sem svo að vinningurinn sé eftirköst kaupanna. Ekki heldur eru það eftirköst að fá afslátt við kaup á vöru.

Að þessu sögðu væri skárra að nota orðið afleiðingar. Til dæmis telja margir að takmarkanir á byssueign séu nauðsynleg aðgerð en aðrir eru ósammála.

Tillaga: Afleiðingar árásanna í Christchurch eru margvíslegar.

3.

Hann draslar til – rífur kjaft og hundsar allt sem hann er beðinn um.“

Frétt á dv.is.         

Athugasemd: Sögnin að drasla er alþekkt. Þegar einhver draslar þarf hinn sami eða aðrir að taka til. Þannig gerast hlutirnir á bestu heimilum, vinnustöðum og jafnvel úti í sjálfri náttúrunni. Annars er þetta skemmtileg frétt á DV, fjallar um unglinginn sem á að vísa út af heimilinu því hann draslar svo mikið. Og unglingurinn er köttur.

Stundum renna sama orð og orðasambönd. Sá sem tekur til segist gera það vegna þess að einhver „draslaði til“. Þetta síðasta er auðvitað bull. 

Á malid.is segir: 

‘draga með erfiðismunum, róta e-u til; slarka, svalla’ … so. drasla virðist auk þess nafnleidd af *drasil-, sbr. drösla af drösull (2) (s.þ.). Sjá drasa og dræsa.

Gaman er að sjá þarna tenginguna við drösul, þá glaðnar yfir mörgum. Á malid.is segir um það orð:

‘hestur; †hestsheiti’. Uppruni óljós. Orðið hefur verið tengt við gr. (lesb.) thérsos ‘hugrekki’, sbr. gotn. gadaursan ‘dirfast’. Vafasamt. E.t.v. fremur sk. drösla og eiginl. s.o. og drösull (2). 

Ýmsir hafa haft það á móti þessari ættfærslu að hestsheitið hljóti að vera hrósyrði, en slíku er valt að treysta, nöfn af þessu tagi eru oft tvíhverf og heitið hefur e.t.v. í upphafi merkt taumhest, beislisfák eða jafnvel staðan hest.

Má vera að Jónas Hallgrímsson hafi ekki haft gæðing í huga er hann orti:

Drottinn leiði drösulinn minn,
drjúgur verður síðasti áfanginn.

Þetta er auðvitað úr ljóðinu Sprengisandur. Furðulegt er annars hvað mann rekur langt í spjalli um orð. 

Tillaga: Hann draslar, rífur kjaft og hundsar allt sem hann er beðinn um.

 


Bloggfærslur 18. mars 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband