Öldur tosa, löggan biðlar, ég er góður og borinn er út rógburður

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum. 

Uppstytta

Fyrir kemur að það hætti að rigna. Þá er sagt að það stytti upp. Það sem styttir upp er rigningin. 

Samt megum við ekki segja: „rigningin stytti upp“. Það verður að vera ópersónulegt: rigninguna stytti upp eða hríðina ef svo vill til. Og svo er hið notalega orð uppstytta, um regnhlé.

Málið, blaðsíða 24 í Morgunblaðinu 11.2.2019.

1.

„Alda hefði til að mynda getað tosað hann út, auk þess sem jökl­arn­ir séu á hreyf­ingu, sem geti valdið mik­illi hættu. 

Frétt á mbl.is.           

Athugasemd: Ísjakar verða seint kallaðir jöklar. Vonandi þarf ekki að rökstyðja þetta nánar. Í fréttinni segir frá útlendum ferðamanni sem klifraði upp á ísjaka utan við Jökulsárlón. Var hann í talsverðri hætt, ólga í sjónum og ísjakar á hreyfingu.

Blaðamaðurinn skrifar víðast hvar ísjakar en í óbeinni ræðu skrifar hann eftir viðmælandanum að jakarnir hafi verið jöklar. Hugsanlega hefur blaðamaðurinn skriplað eitthvað á tölvuborðinu.

Dálítið frumlega en barnalega orðað að alda „tosi“. En hvað er það sem fær hluti í fjöruborði til að færast frá landi? Jú, sjórinn getur skolað ýmsu á land en það sem liggur í fjöruborðinu getur hæglega borist út, líklega einna helst þegar fellur frá en einnig í brimi.

Tillaga: Alda hefði til að mynda getað tosað hann út, auk þess sem jakarnir séu á hreyf­ingu, sem geti valdið mik­illi hættu.

2.

„Lög­regl­an í Dublin biðlar til al­menn­ings um aðstoð vegna … 

Frétt á mbl.is.           

Athugasemd: Sögnin að biðla er nátengt orðinu biðill og merkir að biðja sér konu, biðja um hönd hennar. Þetta hefur áður verið nefnt hér.

Sá sem biðlar er biðill. Orðið er einnig skylt sögninni að biðja. Lögreglan í Dublin getur eðlilega ekki verið á biðilsbuxum.

Blaðamenn sem hafa farið í íslenskutíma í mennta- eða fjölbrautaskóla, tóku eftir í tímum og fengið, þó ekki hafi verið meira en meðaleinkunn, eiga að skilja blæbrigði málsins. 

Einhver þekkingin á að sitja eftir í hausnum hjá mönnum. Ef ekki þá þurfa þeir einhvern skynsaman mann sem getur lesið yfir fréttirnar áður en þær eru birtar. Svo vantar alltaf menn niðri á höfn, eins og Guðni rektor sagði stundum þegar menn stóðu sig illa.

Tillaga: Lögreglan í Dublin biður almenning um aðstoð vegna …

3.

„Nei takk, ég er góður! 

Algengt svar við boði.           

Athugasemd: Þegar ég kem í heimsókn til Lovísu systur minnar býður hún mér yfirleitt veitingar. Viltu þetta eða hitt, spyr hún. Alltof oft segi ég: Nei takk, ég er góður. Þá svarar hún jafnan dálítið pirruð: Ég veit að þú ert góður, en viltu eitthvað að drekka. Þá átta ég mig á bullinu.

Þetta er auðvitað einföld enska eins og fram kemur hér:

Also this word means No thanks when one says I am good to and idea or suggestion that is proposed to him or her […], so it can be used as an answer meaning I don't want to do it […]

Svo ósköp þægilegt er að þýða einfalda ensku yfir á íslensku. Þar með er ekki sagt að þýðingin sé góð íslenska vegna þess að góður er lýsingarorð sem lýsir eiginleikum, væntingum eða álíka. 

Á íslensku getum við sagt nei takk og það hefur ákveðna þýðingu. Sá sem segist vera góður getur ekki verið að afþakka neitt, er hvorki saddur, lystalaus eða áhugalaus. Hann er vingjarnlegur, vel gerður, hagfelldur og svo framvegis. Góður merkir ekki nei takk. 

Setjum sem svo að orðalagið ég er góður geti merkt nei takk. Hvað segjum við þá ef svarið á að vera já takk? Hér vefst manni tunga um höfuð því ekkert svar er til vegna þess að engin hefð er fyrir þessu á íslensku.

Ég hef reynt að taka mig á en stundum kemur það fyrir að ég glopra þessu út úr mér. Margur talar hraðar en hann hugsar.

Tillaga: Nei takk.

4.

„Hún er kona sem er kom­in sjö mánuði á leið og henni hef­ur verið veitt eft­ir­för og það er bor­inn út róg­b­urður um hana … 

Frétt á mbl.is.            

Athugasemd: Ég er dálítið ofsagt. Varla hægt að bera út rógburð vegna þess að rógburður merkir útbreiðsla á lygum. Réttar er að orða þetta þannig að bera út róg.

Þetta er illa skrifuð frétt, stíllaus og vandræðalega slök þýðing.

Tillaga: Hún er kom­in sjö mánuði á leið, elt og hún rægð …


Bloggfærslur 12. febrúar 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband