Metfé, skotmark og viðeigandi jólalög

Orðlof

Skemmstur dagur

Bæði orðin sólhvörf og sólstöður eru notuð í sömu merkingu í íslensku, um það þegar sólin er allra hæst á lofti í júní og þegar hún sýnir sig styst í desember áður en dag tekur að lengja á ný. …

Í þessu samhengi er orðið hvörf haft í merkingunni „þáttaskil“ eða „umskipti“,þ.e. þegar eitthvað snýst, breytist, tekur nýja stefnu. Af sama stofni er sögnin hverfa sem getur m.a. merkt „snúa“. Sú merking orðsins kemur vel fram t.d. þegar talað er um að einhver eigi að einhverju að hverfa, hverfi aftur til fyrri starfa eða hverfi aftur heim (sbr. afturhvarf) og þar fram eftir götum. 

Til er einnig kvenkynsorðið hverfa í merkingunni „hlið“, sbr. orðin rétthverfa og ranghverfa, um réttuna og rönguna á flíkum. Sagt er að eitthvað snúist í andhverfu sína, og lýsingarorðið andhverfur merkir hið sama og andsnúinn. 

Í hugann kemur einnig orðið hverfisteinn, þ.e. steinn sem er látinn snúast, og orðasambandið á hverfanda hveli (hvel merkir „hjól“), um það sem er fallvalt og getur hæglega breyst, eins og hjól snýst. Í Grettis sögu er í orðasambandinu haft hjól en ekki hvel; Ásmundur hærulangur segir um son sinn að sér þyki „á mjög hverfanda hjóli um hans hagi“.

Tungutak, Ari Páll Kristinsson, blaðsíðu 26, Morgunblaðið 21.12.2019. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Reynsluleysi flugvirkja olli alvarlegu flugatviki.“

Fyrirsögn á mbl.is.                

Athugasemd: Má vera að orðið atvik sé nú alfarið notað yfir óhapp, bilun, slys eða álíka. Í heilbrigðisgeiranum eru skráð „atvik“, það er óheppileg tilvik, óhöpp, slys og svo framvegis.

Í íslenskri orðsifjabók segir:

at-vik h. árás, áverki; atburður, aðstæður; atlot; sóttur eða aðkeyptur hlutur; sbr. nno. åtvik greiðvikni. Leitt af so. víkja að (at).

Þegar svo er komið að orðið óhapp þykir svo neikvætt að finna þarf nýtt orð sem ekki hræðir almenning. Þá er gripið til orðsins atvik. Vandinn er hins vegar sá að smám saman verður merking þess orðs í hugum fólks hið sama og óhapp, slys eða annað sem enginn vill lenda í. Þá þarf að finna annað orð …

Tillaga: Engin tillaga.

2.

„Carlo Ancelotti verður að öllum líkindum nefndur sem knattspyrnustjóri Everton á næstu dögum ef marka má heimildir enskra fjölmiðla.“

Frétt á visir.is.                 

Athugasemd: Margt má segja um málsgreinina en þó helst að hún segir ekki það sem blaðamaðurinn ætlast til. Spurst hefur út að maðurinn verði líklega ráðinn sem knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarliðsins Everton. Hann er ekki nefndur sem slíkur, hann er eða verður þegar hann hefur tekið við starfinu. 

Eitt er að vera nefndur, annað að vera útnefndur og hvorugt merkir að vera ráðinn, síst af öllu hið fyrrnefnda. Hins vegar eru oft margir tilnefndir en enginn hreppir hnossið annar en ofannefndur Ancelotti.

Sá sem er nefndur getur merkt margt. Í málið.is segir:

kalla nafni, gefa nafn; minnast á; tilnefna

Verði Acelotti ráðinn er ekki hægt að segja að hann sé nefndur, miklu frekar útnefndur. Hið síðastnefnda er þó sjaldnast notað um ráðningu í starf.

Tillaga: Carlo Ancelotti verður að öllum líkindum ráðinn sem knattspyrnustjóri Everton á næstu dögum ef marka má heimildir enskra fjölmiðla.

3.

„Banksy-verk seldist á metfé.“

Frétt á visir.is.                 

Athugasemd: Margt er misskilið af blaðamönnum sem ekki eru vel lesnir. Segja má að kynslóðin sem ólst ekki upp við lestur sé fyrir nokkru farin að stunda blaðamennsku. Ekki er furða þótt hún viti ekki hvað metfé merkir.

Eiður Guðnason sagði í málfarspistlum sínum á Molum:

Morgunblaðsfrétt (10.9.2014) hefst á þessum orðum: „Met­fé var greitt fyr­ir gaml­an Range Rover á upp­boði í Englandi um helg­ina.“ Orðið „metfé“ merkir ekki met upphæð heldur kostagripur.

Vel getur verið að tungumálið sé að breytast gömul og gild orð frá fyrri tímum öðlist nýja merkingu.

merkti upphaflega kindur. Enn er talað um kvikfénað. Gömul orð ganga í endurnýjun lífdaga í nútímamáli. Hagfræðin hefur lag á endurnýjun talar um kvikt fé, sem er laust fé, lausafé. 

Ásgeir Daníelsson, hagfræðingur, sagði til dæmis í málstofu  hagfræðideildar HÍ 14.10.2011:

Það getur verið slæmt ef mikið af mjög kviku fé leitar til tiltekins lands. Ástæðan er annars vegar að það getur leitt til óæskilegrar hækkunar á gengi myntarinnar og hins vegar að fjármálakerfið á erfitt með að nýta þetta fé skynsamlega vegna þess hversu kvikt það er. 

Væntanlega þarfnast þetta engrar skýringa við en skyldi hagfræðingurinn vera að tala um útigangsfé, fé sem er ekki í banka en er geymt undir koddum eða í skrifborðsskúffum. 

Allir vita að til er banki sem nefnist Kvika, sem merkir lifandi iðandi ...

Tillaga: Engin tillaga.

4.

„Skot­mark United mætt til Kat­ar.“

Frétt á mbl.is.                 

Athugasemd: Í fréttinni er fjallað um fótboltakappa sem enska liðið Manchester United langaði til að fá í sínar raðir. Af einhverjum undarlegum ástæðum er kapppinn kallaður „skotmark“ í fyrirsögn fréttarinnar.

Hér er illa farið með íslenskt orð. Skotmark er það sem skotið er á með byssu, boga eða öðrum tólum. Það getur verið fast mark. Stundum er skotið á fólk, leyniskyttur reyna að myrða þá sem þær sjá. 

Kennedy var skotmark Oswalds. Japanska borgin Hiroshima var skotmark bandaríska hersins í seinni heimsstyrjöldinni. Skytta á hvalveiðiskipi hefur hval sem skotmark.

Fyrirtæki sem vill fá mann í vinnu hefur hann ekki að skotmarki. Það segir sig sjálft. Með hverju ætti að skjóta manninn? 

Fyrirsögnin er svo mikið bull að ekki tekur nokkru tali. Hvaða önnur verkefni er ritstjórum og öðrum stjórnendum á fjölmiðli svo mikilvæg að þeir geti ekki leiðbeint og kennt viðvaningum í blaðamennsku. Íþróttablaðamaður sem kann skil á öllum íþróttum en getur ekki tjáð sig skilmerkilega er ómögulegur blaðamaður.

Tillaga: Engin tillaga.

5.

Í samstarfi við … ætla ég að gefa TVEM heppnum besties: … Uppáhalds krullujárnið mitt at the moment sem gerir þessar fallegu beachy bylgjur

„Frétt“, birt á dv.is.                 

Athugasemd: Lesandi síðunnar sendi mér ofangreinda tilvitnun sem DV hafði uppskorið af Twitter og birt ásamt fleiri tístum og kallar „frétt“. Með þessari furðulegu „frétt“ fylgja myndir af nokkrum ungum konum sem sumar hverjar líta ekki út fyrir að vera lífs en aðrar virðast hafa verið „lagfærðar“ af veruleikafirrtum hönnuðum. Sorglegt að sjá.

Sumar þessara kvenna eru sagðar „áhrifavaldar“ en óljóst er hver markhópurinn er, íslensku- eða enskumælandi. Að minnsta kosti virðist sú sem samdi ofangreint ekki geta tjáð sig á íslensku.

Framhald tilvitnunarinnar er hér, táknmyndum er sleppt:

You know the drill!!

1. Likea þessa mynd

2. Followa @sunnevaeinarss , @marcinbaneiceland og @hhsimonseniceland

3. Tagga ur glow up bestie

Sagt hefur verið að fegurðin komi að innan. Af þessu má draga þá ályktun að hún er að minnsta kosti ekki skrifleg. 

Tillaga: Engin tillaga.

5.

„Hamrahlíðarkórinn og Kór Menntaskólans við Hamrahlíð leiddu Friðargönguna og sungu viðeigandi lög.“

Myndatexti á blaðsíðu 4 í Morgunblaðinu 24.12.2019.                

Athugasemd: Þetta er flatneskja. Birt er falleg mynd af ungu fólki í Hamrahlíðarkórnum og ber það kyndla og syngur. Stemningin er nærri því áþreifanleg en svo les maður textann og öll fegurðin gufar upp.

Hvernig dettur blaðamanni í hug að segja að kór sem gengur á Þorláksmessu niður Laugaveginn syngi „viðeigandi lög“? Líklega er það þakkarvert að hann skuli ekki hafa sungið „óviðeigandi lög“. Það hefði þá verið saga til næsta bæjar. 

Ég þori að fullyrða að kórarnir hafi sungið jólalög og mikið óskaplega vildi ég hafa verið nærri og mátt hlusta og njóta.

Tillaga: Hamrahlíðarkórinn og Kór Menntaskólans við Hamrahlíð leiddu Friðargönguna með söng.


Bloggfærslur 24. desember 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband