Almenningsrými fyrir almenning, nú blæs upp og jeij gafakortaforrit

Orðlof

Mæddur

Orðið merkir nú niðurdreginn, jafnvel sorgmæddur, þjakaður af sorg, en upprunaleg merking er móður, eiginlega mjög móður. Menn mæddust, urðu móðir, mæddir. […] 

Dæmi eru orðsins í ONP og í OH eru dæmi frá því á 17. öld og fram á miðja 20. öld. Þeir sem komu dreyttir heim úr ferðalagi voru farmóðir. 

Bókin Geymdur og gleymdur orðaforði, Sölvi Sveinsson.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Nýtt Hlemmtorg verður endurskapað sem almenningsrými fyrir alla aldurshópa með aðgengi fyrir alla.“

Frétt á blaðsíðu 16 í Morgunblaðinu 7.12.2019.              

Athugasemd: Hvað er „almenningsrými“? Og hvað er „almenningsrými fyrir alla aldurshópa“? Að síðustu hvað er „… með aðgengi fyrir alla“.

Þetta er bar þvæla, innihaldslaust og marklaust tal. Ástæðan er einfaldleg sú að það sem er „rými“ fyrir almenning hlýtur að vera fyrir alla aldurshópa því almenningur er allt fólk, ekki bara sumt. Ella stendur þetta „almennings“ og „alla“ ekki undir loforðunum. 

Í fréttinni segir:

Nýtt yfirborðsefni, setaðstaða, leik- og dvalarsvæði ásamt gróðri verða ríkjandi þættir á nýju Hlemmtorgi ásamt vistvænni nálgun á meðhöndlun yfirborðsvatns.

Hvað merkir „ríkjandi þættir“? Ekkert. Þarna fellur höfundurinn enn og aftur í yfirborðslegt orðagjálfur. Hann hefði einfaldlega getað sagt að „… leik- og dvalarsvæði ásamt gróðri verða á nýju Hlemmtorgi …“. En það er ekki eins fínt og upphafið orðalag. Var annars höfundinum uppálagt að „pakka“ tillögunum inn í áferðafallegar umbúðir. Þá vaknar sá grunur að innihaldið sé ekki upp á marga fiska.

Tillaga: Nýtt Hlemmtorg verður endurbyggt fyrir almenning.

2.

„Þar hangir enn skilti með slagorði nasista: Arbeit macht frei (Vinnan gerir yður frjálsa). Í kjölfarið lagði Merkel blómvönd að Svarta veggnum ... “

Frétt á blaðsíðu 23 í Morgunblaðinu 7.12.2019.              

Athugasemd: Hér er orðalagið „í kjölfarið“ ranglega notað, á alls ekki við. Miklu betra að nota atviksorðið eftir. Val orða verður að hæfa tilefninu. Ekki segja eins og maðurinn í heitapottinum sem lenti í miklum þrætum: Rýkur nú moldin hér í pottinum. Orðalag verður að hæfa aðstæðum.

Tillaga: Þar hangir enn skilti með slagorði nasista: Arbeit macht frei (Vinnan gerir yður frjálsa). Á eftir lagði Merkel blómvönd að Svarta veggnum,

3.

„Er farið að blása upp?“

Frétt í Ríkisútvarpinu kl. 08.00, 10.12.2019.             

Athugasemd: Þannig spurði fréttamaðurinn í upphafi fréttanna og veðurfræðingurinn svaraði: „Já, það er farið að blása upp.“

Þetta er skrýtið orðalag. Svo einhæf er orðanotkunin að ekki lengur er notuð sögnin að hvessa á þeim degi sem búist er við því versta veðri sem komið hefur í áraraðir.

Jú, fréttamaðurinn notaði sögnina að hvessa síðar í fréttunum, það má virða honum til betri vegar.

Allir fjölmiðlar eru uppfullir af „vindi“. Þar masar hver um annan þveran um „að það sé farið að blása“ eða „vindur sé að fara að aukast“.

Af hverju eru ekki notuð gömul og gild íslensk orð í stað þess að tala eins og barn um mikinn eða lítinn vind?

Tillaga: Er farið að hvessa?

4.

„Gjafakortin upp úr skúffu og inn í smáforritið YAY.“

Frétt á blaðsíðu 12 í Morgunblaðinu 10.12.2019.            

Athugasemd: Ungir menn hanna tölvuforrit sem ábyggilega er afar gott og þarft. Þeir nefna það YAY, ufsilon-a-ufsilon, eða á ensku „jeij“.

Ég veit ekki hvernig á að bera þetta nafn fram, á óþjálli íslensku eða óviðeigandi ensku. Forritið er hins vegar ætlað fyrir Íslendinga og hvers vegna ber það ekki þjált íslenskt nafn? Svarið er einfalt, íslenskunni hnignar vegna þess að unga fólkinu finnst hún ekki nógu góð.

Af hverju mega gjafakort ekki heita gjafakort eða álíka

Tillaga: Gjafakortin upp úr skúffu og inn í smáforrit.

5.

„Hlaut þrjá­tíu og þre­fald­an lífstíðardóm.“

Frétt á mbl.is.            

Athugasemd: Þetta er nú frekar klúðurslegt orðalag þó ekki sé það beinlínis rangt. Þó blaðamaðurinn hafi verið stoltur yfir fréttinni sinni hefðu aðrir reynt að umorða fyrirsögnina því hún stingur í augu.

Á vef BBC segir í fyrirsögn:

Serial rapist Joseph McCann given 33 life sentences.

Þarna er þetta sagt á einfaldri og skiljanlegri ensku. Þá ætti að vera auðvelt að skýra þetta út á íslensku eins og hér er gerð tillaga um. Tók bara fjórar sekúndur.

Tillaga: Hlaut þrjátíu og þrjá lífstíðardóma.


Bloggfærslur 10. desember 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband