Mennskir meðlimir, líki fargað og heilt yfir

Orðlof

Fortóv

Umsjónarmaður vekur athygli á góðu bréfi hingað til blaðsins sem birtist 20. júlí sl. Höfundur bréfsins er Einar Ólafsson bókavörður í Kópavogi. Fyrirsögn þess er Altan, helíkopter og e-mail. Einar rifjar upp hvernig þessi framandlegu orð hafa vikið eða gætu vikið fyrir góðum orðum á tungu okkar. 

Ég var orðinn vel stálpaður, ef ekki fullorðinn, þegar ég vissi hvað fyrirbærið altan var, sem við nefnum nú svalir, hvað þá að ég léti mér detta í hug að þetta væri náskylt orðinu altari (hvort tveggja sk. lat. altus=hár).

Afi og amma sögðu fýrspýtur, en pabbi og mamma eldspýtur, hvað þá þeir sem yngri voru. Amma sagði konfílútta, en allir aðrir, sem ég umgekkst, umslag. Skóhlífar voru í kaupstaðnum Akureyri nefndar galosíur og ofnar á Seyðisfirði radíatorar. 

Einar nefndi líka orðið fortóv=gangstétt, en það heyrði ég sagt v-laust. Nú segir enginn maður sukkull, allir reiðhjól eða bara hjól, og sögnin að sukkla er steindauð.

Íslenskt mál, Gísli Jónsson, Morgunblaðið.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Enginn mennskur meðlimur hersveitarinnar sem stóð að aðgerðinni lét lífið en Milley greindi frá því að þegar al-Baghdadi hafi sprengt sig í loft upp hafi einn hundanna sem tóku þátt í að elta hann uppi fallið.“

Frétt á visir.is.                

Athugasemd: Þetta er hugsunarlaus þýðing. Hermenn falla í ófriði en ekki hundar eða önnur dýr. Þau eru tíðum drepin.

Færa má fyrir því sterk rök að hundurinn hafi verið hluti hersveitarinnar. Hins vegar réttlætir það ekki orðalagið fremst í málsgreininni. Þetta er bein þýðing úr ensku og verður hjákátleg, jafnvel hlægileg á íslensku.

Takið eftir þessu: „Milley greindi frá því ... hafi ... fallið“. Ég veit ekki hvað svona kallast þegar aukasetningar flækja málið og kjarninn kemur ekki fram fyrir en síðast. Gott ráð gegn svona flækju er að setja punkt sem víðast.

Á vef BBC stendur þetta:

The Pentagon says no US personnel were killed in the raid but one of the dogs pursuing Baghdadi was seriously injured. Gen Milley said the dog´s name was classified.

Þarna kemur ekkert fram um „mennska meðlimi“. 

Arfaslæmt getur verið að þýða frá orði til orðs. Þess í stað þarf oft að umorða á íslensku sem er betra en að gera eins og blaðamaðurinn.

Skyldi hundurinn ekki hafa heitið Kátur („Happy“)? Ekki hefur enn tekist að tilkynna öllum aðstandendum hans um „andlátið“. Hann lætur eftir sig tík og fjölda hvolpa. 

Í Vísnahorni Morgunblaðsins 29.10.2019 er þessi smellna limra:

Um Bagdadí eitt sinn var ort 
að illvirki væru hans sport. 
En djúpt oní helli
drapst hann með hvelli
í vesti af vitlausri sort.

Höfundurinn er Bjarni Sigtryggsson.

Tillaga: Enginn í hersveitinni lét lífið í aðgerðinni. Milley sagði hins vegar frá því að einn hundanna hafi drepist þegar al-Baghdadi drap sig með sprengju.

2.

„Átti nokkrar góðar markvörslur.“

Frétt kl. 22:00 á vef Ríkisútvarpsins 28.10.2019                

Athugasemd: Betur fer á því að segja að markvörðurinn hafi varið vel heldur en markvörslur. Frekar ætti nota sagnorð en nafnorð. Út á það gengur íslenskt mál.

Tillaga: Varði nokkrum sinnum mjög vel.

3.

„Jarðnesk­um leif­um Bag­hda­di hef­ur verið fargað.“

Frétt á mbl.is.                 

Athugasemd: Aldrei er talað um að farga líki. Það er ljótt orðalag og óvirðulegt. Víðast í frétt AFP er talað um „burried at sea“ og „put into the sea“, hvort tveggja æði ólíkt orðalagi í frétt mbl.is. 

Í fréttinni segir:

Lík hers­höfðingja rík­is íslams, Abu Bakr al-Bag­hda­di, var „grafið“ á sjó ...

Svona á ekki að skrifa, jafnvel þó sagnorðið sé innan gæsalappa. Yfirleitt er talað um útför á sjó.

Á málið.is segir að sagnorðið farga merki að eyða, einkum úrgangi, til dæmis farga bílhræjum. Notkun á sagnorðinu farga í fréttinni er ekki í samræmi við málhefð.

Tillaga: Útför Baghdadi var á sjó.

4.

„Nafnið Valkostur fyrir Þýskaland er þannig til komið að þegar þessi flokkur var í burðarliðnum …“

Forystugrein Morgunblaðsins á blaðsíðu 14, 29.10.2019.                 

Athugasemd: „Valkostur“ er arfaslæmt orð. Ólafur Oddsson, íslenskukennari, í MR ávítaði mig fyrir að nota það í ritgerð. Ég mat Ólaf mikils og fór að ráðum hans. Í ritinu Gott mál sem hann samdi og MR gaf út árið 2004 segir einungis:

Heldur rislítið er orðið valkostur en það þýðir: val eða völ.

Raunar er orðið samsett úr tveimur orðum sem þýða nokkurn vegin hið sama. Þýska orðið „alternative“ er eins á ensku og merkir einfaldlega val eða kostur, annað hvort, ekki hvort tveggja. Það er vissulega frekar rislítið, raunar gagnslaust, og gæti því vel hæft flokki eins og AfD en það er annað mál.

Hefð er fyrir því að þýða á íslensku erlend heiti, til dæmis nöfn landa, þjóðerni, borgarnöfn, flokksheiti og svo framvegis. Miklu skiptir að vel takist til svo ekki verði úr kjánalegt orðalag. Þar af leiðir að þýski stjórnmálaflokkurinn sem nefnist AfD, „Alternative für Deutschland“ sé einfaldlega nefndur „Val fyrir Þýskaland“ eða einfaldlega AfD.

Tillaga: Nafnið Val fyrir Þýskaland er þannig til komið að þegar þessi flokkur var í burðarliðnum …

5.

„Ég fylgdist með báðum leikjum íslenska karlalandsliðsins í handbolta gegn Svíum um nýliðna helgi og það ber að þakka SportTV fyrir að sýna báða leikina í beinni útsendingu.“

Bakþankar á blaðsíðu 25 í Morgunblaðinu 29.10.2019.                 

Athugasemd: Íþróttablaðamenn eru margir slakir í skrifum eins og þessi tilvitnun ber glögglega með sér. Höfundi dálksins er sama um nástöðuna, sér hana ekki eða hefur ekki lesið skrifin yfir að þeim loknum. 

Of mikið er að kalla síðustu helgi „nýliðna helgi“. Um helgina dugar.

Í dálknum talar höfundur um „jákvæðan hausverk“, slíkt er ekki til. Hugsanlega á hann við að þjálfari landsliðsins í handbolta geti valið úr stórum hópi góðra leikmanna. 

„Markvarslan var heilt yfir frekar slök“. Hvernig er hægt að skrifa svona? „Heilt yfir“ hvað? Var markvarslan slök allan leikinn? Sé svo má alveg segja það þannig.

Fleira má gagnrýna en niðurstaðan er sú að höfundurinn þarf að finna einhvern á Mogganum til að lesa skrif sín yfir, laga og bæta. Nóg er þar af vel ritfærum blaðamönnum.

Tillaga: Ég fylgdist með báðum leikjum íslenska karlalandsliðsins í handbolta gegn Svíum um helgina og þakka SportTV fyrir að sýna þá í beinni útsendingu.


Bloggfærslur 29. október 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband