Allar upplifanirnar á hjóli og gera stóra hluti

Orðlof

Ensk orðasambönd

Erlendur uppruni einn og sér er ekki gild ástæða til að amast við einhverju orðalagi, og þótt samböndin eins og enginn væri morgundagurinn, sama hvað og af ástæðu séu greinilega öll komin úr ensku finnst mér ástæða til að gera upp á milli þeirra. 

Fyrstnefnda sambandið hvorki breytir né útrýmir einhverju sem fyrir er í málinu – það má alveg segja að það auðgi málið. Í síðarnefndu samböndunum tveimur er aftur á móti verið að breyta hefðbundnu íslensku orðalagi að ástæðulausu. Betra væri að halda sig við hefðina.

Vefsíða Eiríks Rögnvaldssonar málfræðings.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Arna Sigríður Albertsdóttir segir að allar upplifanirnar á hjóli standi upp úr.“

Undirfyrirsögn á blaðsíðu 6 í íþróttablaði fatlaðra í Morgunblaðinu 19.10.2019.               

Athugasemd: Upplifun er eintöluorð og ekki til í fleirtölu. Þótt „upplifanir“ virðist sennileg orðmyndun er reyndin önnur. Blaðmenn og aðrir sem skrifa í blöð verða að átta sig á þessu. 

Staðreyndin er sú að blaðamaður sem hefur ekki sæmilegan orðaforða skrifar rýrt mál. Þetta eiga ritstjórar fjölmiðla að vita.

Tillaga: Arna Sigríður Albertsdóttir segir að öll ævintýrin á hjóli standi upp úr.

2.

„… fléttar saman frásagnir ýmissa aðila sem hafa kynnst Klopp á einhvern hátt á lífsleiðinni.“

Viðtal á blaðsíðu í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 20.10.2019.               

Athugasemd: Rétt er að segja að flétta saman frásögnum, það er í þágufalli.

Það segir sig sjálft að þeir sem kynnst hafa Klopp hafa gert það á einhvern hátt á lífsleiðinni, annað er ómögulegt. Því er eðlilegra að að hafa málsgreinina eins og segir í tillögunni hér fyrir neðan.

Klopp er aðalþjálfari fótboltafélagsins Liverpool. Í greininni er rætt við Raphael Honigstein, blaðamann sem skrifað hefur bók um manninn.

Í greininni segir:

Til að kynnast Klopp betur talaði Honigstein við þá sem störfuðu með Klopp, þar með talið núverandi og fyrrverandi lærisveina, framkvæmdastjóra og aðstoðarþjálfara …

Ekki kemur fram að Honigstein hafi rætt við leikmenn sem Klopp hefur þjálfað. Það hlýtur að draga mikið úr gildi bókarinnar. Skrýtið að blaðamaðurinn skuli ekki hafa spurt Honigstein að þessu. Hins vegar er ekki vitað hverjir eru þessir „lærisveinar“. Má vera að Klopp reki fótboltaskóla fyrir börn og unglinga í frístundum sínum þó ekkert komi fram um það í viðtalinu.

Varla er hægt að kalla fólk „aðila“.

Tillaga: … fléttar saman frásögnum þeirra sem hafa kynnst Klopp.

3.

„Körfuboltakvöld: Óafsakanlegt hjá Ísak.“

Frétt á visir.is.                

Athugasemd: Mannsnafnið Ísak er hér rétt beygt. Orðið beygist svona: 

Ísak, um Ísak, frá Ísak/Ísaki, til Ísaks.

Ég þurfi að vísu að fletta upp á beygingarlýsingunni á bni.is því mér finnst að þágufallið eigi að vera Ísaki. Ég hafði ekki rangt fyrir mér, nafnið getur líka beygst eins og ég hélt. 

Tillaga: Engin tillaga.

4.

„Við förum í Meistaradeildina á næsta ári og við ætlum okkur að gera stóra hluti þar.

Frétt á blaðsíðu 27 í Morgunblaðinu 21.10.2019.               

Athugasemd: Núorðið segist ungt fólk ekki ætla að standa sig vel heldur vill það „gera góða hluti“. Ummælin eru höfð eftir afburðagóðri fótboltakonu sem varð Svíþjóðarmeistari.

Í fréttinni segir einnig:

Við erum að byggja upp eitthvað mjög gott hérna að mínu mati og ég er mjög spennt að halda því áfram.

Ekki veit ég hvað svona kallast þegar fólk kann ekki að orða hugsanir sínar en segist þess í stað vera „að gera eitthvað gott“. „Eitthvað“ á þá að standa fyrir hluta eða öllu sem það gerir vel en sá sem hlustar eða les er engu nær.

Líklega hefði blaðamaðurinn átt að lagfæra orð fótboltakonunnar og skrifa:

Við höfum byggt upp mjög gott lið að mínu mati og ég er mjög spennt að halda því áfram.

Ríó Tríóið söng fyrir mörgum árum um þá sem eru að gera það gott og hér er viðlagið tvíræða:

Allir eru að gera það gott nema ég.
Allir eru að gera það gott nema ég.
Ég get sungið líka, mín altrödd yndisleg,  
en allir eru að gera það gott nema ég.

Blaðamenn eiga að lagfæra orðalag þegar það á við, ekki bera út vitleysur eða lélega samsuðu. 

Tillaga: Við förum í Meistaradeildina á næsta ári og þar munum við standa okkur vel.

 


Bloggfærslur 21. október 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband