Leita af peningum og skógur á svæði þar sem skógræktarfélagið ræktaði skóg

Orðlof

Kynusli

Aðalatriðið í þessu er umburðarlyndi og virðing fyrir öðru fólki og málnotkun þess. Þau sem vilja hafna karlkyni sem ómörkuðu kyni þurfa að hafa í huga að við erum flest alin upp við að karlkynið hafi þetta hlutverk, og í þeirri málnotkun felst engin karlremba.

Þau sem vilja halda í karlkynið sem ómarkað kyn þurfa að sýna því skilning að ýmsum finnst karlkynið eingöngu vísa til karlmanna og þar með vera útilokandi. Málið þolir alveg að mismunandi málvenjur séu í gangi samtímis.

Vefsíða Eiríks Rögnvaldssonar.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Ef UEFA er annt um að berjast við kynþáttaníð þá verða næstu skref að vera stiga frádráttur og útilokun úr keppnum.“

Fyrirsögn á vísir.is.               

Athugasemd: Þetta er ekki vel skrifað. Kynþáttaníð er hvorki maður né dýr og því er barist gegn slíku. 

Þegar stigi sem stendur upp við húsvegg er fjarlægður má kalla það stigafrádrátt. Sé ætlunin að draga stig af öðru liði er það bara sagt beinum orðum, óþarfi að búa til nafnorðið „stigafrádráttur“ (á að vera í einu orði). Illt er ef blaðamaðurinn kann ekki að gera því skil á íslensku sem hann les á ensku.

Tillaga: Vilji UEFA hamla á móti kynþáttaníði vera þarf að grípa til þess að draga stig af liðum og jafnvel útiloka þau frá keppni.

2.

„… að hann hafi ekki heyrt neitt af rasismanum sem hafi átt að hafa skeð.“

Frétt á vísi.ris.               

Athugasemd: Þetta er óboðlegt. Blaðamenn verða að lesa fréttir sína yfir fyrir birtingu og skilja hvenær þeim hefur orðið á. 

Svona er málsgreinin öll:

Margir Búlgarar vildu þó ekki kannast við það og sagði meðal annars þjálfari þeirra að hann hafi ekki heyrt neitt af rasismanum sem hafi átthafa skeð.

Fréttin er skelfilega rýr. Lesandinn veit sáralítið eftir lesturinn. Þetta er þó verst: að maðurinn hafi ekki heyrt það sem hafi átthafa skeð. 

Hvernig í ósköpunum er hægt að skrifa svona? Enginn á ritstjórn Vísis les yfir fréttir samstarfsmanna sinna og heimskuleg skrif frá að standa þar óleiðrétt um aldur og ævi. Ekkert gæðakerfi í notkun. Lesendur skipta engu máli.

Þó má segja að blaðamanninum sé ekki alls varnað þegar hann þýðir ruddalegt enskt orðalag („fu… off“) sem halda kjafti.

Sögnin „ske“ þykir vont mál og sést sárasjaldan í fjölmiðlum og er raunar afar lítið notað í talmáli.

Atviksorðið kannski er líka tökuorð í dönsku og á málið.is segir:

kanske, gd. kand (vel) ske.

Kannski hefur fyrir löngu öðlast þegnrétt í málinu.

Tillaga: Margir Búlgarar vildu þó ekki kannast við það. Þjálfari þeirra sagðist ekki hafi ekki heyrt nein rasísk ummæli.

3.

„Furðuský á Hverfisgötu.“

Fyrirsögn á visir.is.                

Athugasemd: Auðvitað er skýjafar ekki bundið við götur, hvorki í Reykjavík né annars staðar. Blaðamaðurinn sá að sér og hefur nú lagfært fyrirsögnina og er hún svona:

Egglaga ský vöktu athygli í höfuðborginni.

Engu að síður man Google gömlu fyrirsögnina, hann gleymir engu sá andskoti.

Tillaga: Engin tillaga.

4.

„Hundur hefur það hlutverk að leita af peningum.“

Fyrirsögn á visir.is.                

Athugasemd: Hér hefur eitthvað farið úrskeiðis, sem getur verið skiljanlegt hjá fólki sem hefur ekki tilfinningu fyrir notkun og af. Líklega eru flestir þeirra sem alist hafa upp við lestur bókmennta með notkun þessara forsetninga nokkurn veginn á hreinu. Það þarf þó alls ekki að vera svo. 

Eiríkur Rögnvaldsson skrifar mjög gagnlegar leiðbeiningar um þetta á vefsíðu sinni. Þar segir hann meðal annars:

Grunnmerking er í áttina til en grunnmerking af er frá, burt. Þar sem þessi grunnmerking er skýr verður þess ekki vart að forsetningunum sé blandað saman, svo að ég viti. 

Enginn segir *Ég gekk í átt af húsinu eða *Ég tók bókina honum svo að ég viti. En þegar ekki liggur í augum uppi að þessi grunnmerking eigi við má búast við víxlum, þannig að af sé iðulega notað þar sem hefð er fyrir að, og öfugt. Þetta sést greinilega ef maður skoðar dæmin í Málfarsbankanum sem hér var vísað til.

Mikilvæg er að lesa allan pistilinn því Eiríkur segir meðal annars í lok hans: 

Ef fólk hefur vanist notkun annarrar forsetningarinnar þótt hin sé talin „rétt“ sé ég enga ástæðu til að breyta því. Ég er t.d. vanur að tala um að gera mikið af einhverju og töluvert fleiri dæmi eru um það á tímarit.is en gera mikið að sem er talið rétt. Ég held bara mínu striki.

Þetta er nokkuð merkilegt viðhorf hjá prófessor í íslenskri málfræði og víst að ekki eru allir sammála.

Tillaga: Hundur þjálfaður í að leita að peningum.

5.

„Sumar leiðirnar liggja um skógi vaxin svæði eins og svæðið við Hamrahlíð þar sem Skógræktarfélag Mosfellsbæjar hefur ræktað skóg.“

Myndatexti á forsíðu Morgunblaðsins, sjá mbl.is.                

Athugasemd: Þetta er hörmulega lélegur texti, útbíaður í nástöðu, innihaldslaus og stíllaus. Fleirum en mér kann að þykja svona skrýtið, því á blaðinu vinna margir frábærir „skíbentar“. Í stað þess að nota þá er textagerðinni úthýst til Indverja sem aðeins er mæltur á sanskrít og býr ofarlega í hlíðum Himalayjafjalla. Sá afgreiðir málin hratt og vel með aðstoð Google Translate.

Nei, ég er ekki að reyna að vera fyndinn. Flestar innlendar bækur eru prentaðar í útlandinu og stundum virðist textinn í íslenskum fjölmiðlum líka vera saminn þar.

Myndatextinn er ekki einu sinni áferðarfallegur né sennilegur. Höfundurinn talar um skóginn þar sem Skógræktarfélagið hefur ræktað skóg. Þvílíkt bull.

Þar að auki eru skógi vaxin svæði og svæði með skógi. Er höfundinum sjálfrátt eða talar púki í gegnum hann?

Í heild er myndatextinn á forsíðunni svona: 

Úlfars­fell er mjög vin­sælt fjall á höfuðborg­ar­svæðinu. Þar er hægt að velja um ýms­ar göngu­leiðir sem liggja upp á fellið. Af fell­inu er mjög gott út­sýni yfir höfuðborg­ar­svæðið.

Gang­an á Úlfars­fell tek­ur um eina og hálfa klukku­stund fyr­ir fólk í þokka­legu formi og vel þjálfaðir eru enn fljót­ari en það. Hæsti tind­ur­inn, Stóri­hnúk­ur, er á aust­an­verðu fjall­inu og er hann 295 metra hár.

Sum­ar leiðirn­ar liggja um skógi vax­in svæði eins og svæðið við Hamra­hlíð þar sem Skóg­rækt­ar­fé­lag Mos­fells­bæj­ar hef­ur ræktað skóg.

Ýmist er Úlfarsfell sagt fjall eða fell. Á það má velja um ýmsar gönguleiðir, ekki margar heldur ýmsar. Samt eru þær margar. 

Gangan á fjallið er sögð taka 90 mínútur. Enginn í þokkalegu formi er svo lengi að fara 1,5 km leið, nema því aðeins að hann þurfi að aðlagast hæðarmismuninum eins og gert er á Everest.

Ekki veit ég hvenær hæsti hnúkur Úlfarsfells fékk nafnið Stórihnúkur. Þannig er hann ekki merktur á gamla Atlaskortið mitt, er raunar nafnlaus þar. En eitthvað verða tindar að heita.

Tillaga: Engin tillaga.


Bloggfærslur 18. október 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband