Biðla eða biðja, tjónvaldur og ónæðisvaldur

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

Bónið eða bænin

„Enginn fór bónlaus frá henni“ var sagt um greiðvikna konu. Ekki verið að sjá eftir bóninu þar.
En grínlaust: bón er þarna bæn, beiðni og að fara bónleiður til búðar er að fara erindisleysu.
Maður leitar til manns, biður hann bónar, er neitað og fer heim (til búðar) bónleiður, þ.e. óbænheyrður.

Málið á blaðsíðu 28 í Morgunblaðinu 22.1.2019

 

1.

„Kyngir niður snjó á höfuð­borgar­svæðinu. 

Frétt á visir.is.      

Athugasemd: Þegar setning byrjar á sagnorði býst lesandinn við því að um spurningu sé að ræða. Svo er ekki, hér er um fullyrðingu að snjó kyngi niður.

Held þó að víðar hafi snjóað um sunnan og vestanvert landið en blaðamaðurinn heldur. 

Tillaga: Snjó kyngir niður á höfuðborgarsvæðinu.

2.

„Rithöfundur í fyrsta sinn valinn. 

Fyrirsögn á blaðsíðu 12 í Morgunblaðinu 21.1.2019.      

Athugasemd: Í íslensku getur sagnorð staðið nokkuð víða í setningu en útkoman er ekki alltaf góð.

Sögnin í fyrirsögninni hér að ofan er aftast í setningunni, sem er vont. Hún hljómar illa og þá efast oft lesandinn um fréttina og flettir bara blaðinu áfram án þess að lesa hana. 

Hér er lítill leikur. Hvar er hægt að setja sagnorðið:

  1. Rithöfundur í fyrsta sinn valinn.
  2. Rithöfundur í fyrsta valinn sinn.
  3. Rithöfundur í valinn fyrsta sinn.
  4. Rithöfundur valinn í fyrsta sinn.
  5. Valinn rithöfundur í fyrsta sinn.

Sumir þessara kosta geta gengið, aðrir eru bull. Sá þriðji bendir til þess að rithöfundurinn sé dáinn, hafi fallið í valinn (nafnorð) (vantar þó eitt „í“). Hlýtur að vera eftirsóknarvert geta fallið í valinn oftar en einu sinni.

Tillaga: Rithöfundur valinn í fyrsta sinn.

3.

„Danska ríkisútvarpið hefur eftir lögreglunni að einstaklingurinn sem lést hafi reynt að forðast eldsvoðann með því að stökkva út um gluggann af fjórðu hæð. 

Frétt á vef Ríkisútvarpsins.     

Athugasemd: Maður er vissulega einstaklingur og bæði orðin geta átt við karl og konu. Lítil hefð er fyrir því að tala um einstakling.

Á vef Danmarks Radio, DR, segir:

- Personen sprang ud fra et vindue i fjerde sals højde. Ambulancefolk fandt vedkommende liggende i kritisk tilstand, og kort efter erklærede en læge personen for død, siger vagtchef Henrik Moll.

Danir tala um „en person“, persónu, sem við notum sjaldan. Fréttamaðurinn veit ekki alveg hvernig hann á að þýða og grípur því til þess ráðs að tala um einstakling. Það getur svo sem verið í lagi en er ekki algengt. Í dönsku fréttinni kemur ekki fram hvort sá sem dó hafi verið karl eða kona. 

Ég er ekki mjög klár í dönsku en getur verið að það sem Danir kalla „fjerde sal“ sé fimmta hæð á íslensku? Þetta er dálítið lúmsk spurning vegna þess að ekki telja allir hæðir á sama hátt.

Í Bandaríkjunum er almennt talið að fyrsta hæð sé sú sem gengið er inn í frá götu. Bretar segja sömu hæð vera jarðhæð (ground floor). Í fasteignaauglýsingum hér á landi virðast íbúðir á fyrstu hæð oft sagðar á jarðhæð og þar fyrir ofan er önnur hæð og svo framvegis. Engin verslun virðist þó vera sögð á jarðhæð, þá er talað um fyrstu hæð. Eflaust eru margar undantekningar frá þessu.

Tillaga: Danska ríkisútvarpið hefur eftir lögreglunni að maðurinn sem lést hafi verið að flýja eldinn og því stokkið út um glugga á fjórðu hæð.

4.

„Biðla til ökumanna að skafa allan hringinn. 

Frétt á visir.is.     

Athugasemd: Sögnin að biðla er nátengt orðinu biðill og merkir að biðja sér konu, biðja um hönd hennar. Biðill er sá sem biðlar. Orðið er einnig skylt sögninni að biðja

Enginn er lengur biðill, ungt fólk þekkir varla orðið. Karlar og konur biðja milliðalaust um hönd þess sem því líst afar vel á. Við feður sitjum uppi með orðin hlut, heimur versnandi fer (hér þyrfti að vera brosmerki svo enginn haldi að þetta sé eitthvað annað en spaug).

Með þetta í huga er varla hægt að segja lögreglan sé á biðilsbuxum, heldur biður hún ökumenn um að skafa glugga bílsins. Skafa hringinn, það skilst alveg og er bara ansi gott. 

Merkingin sagnarinnar að biðla hefur ef til vill breyst, en er það réttlætanlegt? Löggan getur eðli máls vegna ekki biðlað, orðið leyfir það ekki. BSRB getur ekki heldur biðlað, ekki Alþingi eða Frímúrar. Sum orð eru bara þannig gerð að merkingunni verður varla breytt. Ekki geta konur kvænst … Man í augnablikinu ekki eftir fleiri sagnorðum sem eru svona órjúfanlega tengt öðru kyninu. Þó geta konur verið skipstjórar, stýrimenn, fengið sveinspróf og jafnvel tekið pungapróf. Geta ekki karlar verið ljósmæður, flugfreyjur og hjúkrunarkonur (úbbs … þetta má ekki segja)?

Fólk nennir ekki að skafa snjó og ís af öllum gluggum bíla sinna og ekki heldur af fram og afturljósum.

Tillaga: Hvetja ökumenn til að skafa allan hringinn.

5.

„Tjón­vald­ur í vímu og á van­bún­um bíl 

Fyrirsögn á mbl.is.      

Athugasemd: Hvað þykistu eiginlega vera? sögðum við krakkarnir í gamla daga þegar einhver skar sig úr hópnum. Líklega er þetta enn sagt. Þetta datt mér í hug þegar ég las fyrirsögnina því auðvitað flögraði það að mér að þetta orð „tjónvaldur“ væri ættað frá lögreglunni. Hvað þykist hún eiginlega vera? 

Löggan er svo klár að finna upp orð og hún skrifar stofnanamállýsku, beitir orðum sem enginn notar. Svona uppskrúfaður texti er frekar leiðigjarn og enn verra er þegar blaðamenn apa hann eftir.

Í stuttu máli er fréttin svona: 

Tjónvaldur undir áhrifum vímuefna fékk höfuðhögg er hann hafnaði á ökukennslubifreið en ók af vettvangi á vanbúinni bifreið sinni á hverri hjólbarðar eru ónýtir.

Svona talar löggan. Í endursögn á kaffistofu hjá mér var þetta orðað svona: 

Dópaður  náungi ók bíl á ónýtum dekkjum á annan. Hann flúði en löggan náði honum skömmu síðar.

Þetta kallast næstum því eðlilegt mál, laust við orðskrúð og rembing.

Fréttin er miklu lengri. Þar er margoft sagt frá aumingjans mönnum sem „vistaðir“ voru í „fangageymslu“. Einn olli ónæði annar var í „annarlegu ástandi“. Þegar ég starfaði sem blaðamaður var farið með svona „ónæðisvalda“ og fyllibyttur eða dópista á lögreglustöðina og þar settir í fangelsi, settir inn.

Svo finnst þessi gullna málsgrein í fréttinni:

Marg­ir öku­menn létu ekki slæma færð á höfuðborg­ar­svæðinu stöðva sig þrátt fyr­ir að hafa neytt áfeng­is eða annarra vímu­efna áður en lagt var af stað út í um­ferðina.

Greinilegt er að sumir treysta sér ekki edrú í ófærðina. Er það ekki bara skiljanlegt? Svo er það hitt gullkornið:

Þrír öku­menn voru stöðvaðir í hinum ýmsu hverf­um höfuðborg­ar­svæðis­ins í nótt og áttu þeir það all­ir sam­eig­in­legt að vera und­ir áhrif­um fíkni­efna.

Þessi málsgrein er hrákasmíði. Á henni má skilja að þessir þrír hafi margsinnis verið stöðvaðir hér og þar en ekki handteknir, teknir aftur og aftur. Líklega er það ekki rétt.

Tillaga: Frábær fyrirsögn.

6.

„5 dögum síðan

Fyrirsögn á vef lögreglunnar.  

Vefsíða löggunnarAthugasemd: Vefur lögreglunnar er eflaust ágætur. Hann er samt frekar dönskuskotinn. Fyrir ofan hverja frétt stendur hversu langt síðan hún var birt. Dæmi:

3 dögum síðan
Umferðaróhapp á Kjalarnesi

Þetta gerir danska lögreglan ekki. Á vefsíðu hennar er fréttir en þar er látið nægja að birta dagsetninguna sem er alveg til fyrirmyndar. Væri danska löggan eins og sú íslenska gæti frétt hjá þeim verið svona:

3 dager siden
Politiet går eftir hensynslöse syklister og knallertkorere

Staðreyndin er þessi: Þegar við segjum á íslensku „fyrir þrem dögum síðan erum við undir áhrifum af dönsku máli en þar er sagt „for tre dager siden“

Merkingin á íslensku breytist ekkert þó við sleppum atviksorðinu síðan. Þar að auki telst réttara mál að segja fyrir þrem dögum.

Niðurstaðan er sú að löggan þarf að lagfæra vefinn sinn, að minnsta kosti að þessu leyti.

Með tilliti til þess sem sagt var í athugasemd fimm mætti löggan líka draga verulega úr stofnanamállýsku sinni, helst sleppa henni alveg.

Tillaga: Fyrir 3 dögum.


Bloggfærslur 23. janúar 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband