Uppdregin öxi, lagt á forseta og Hermann fúli

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

1.

Karl og kona voru handtekin vegna átaka þar sem öxi var dregin upp við Smáralind í Kópavogi á sjöunda tímanum í kvöld.“ 

Frétt á visir.is.       

Athugasemd: Þetta er nú meiri ruglfréttin á Vísi og raunar líka á mbl.is, sem lepur „fréttina“ upp úr fyrrnefnda vefmiðlinum. Ekki þykir það merkileg blaðamennska að afrita fréttir úr öðrum fjölmiðlum. Í því felst eiginlega uppgjöf.

Öxi var dregin upp“, segir Vísir í sjö línu frétt. Stuttu síðar í fréttinni er sama orðalagið endurtekið. Einnig er tvítekið að sá sem fyrir árásinn varð hafi ekki skaðast mikið.

Hvað merkir að draga upp öxi? Gæti þýtt að teikna hana, rissa. Líkur benda til að eigandi hafi dregið hana upp og ætlað að nota sem vopn. Í fyrirsögninni segir: 

Ráðist á mann með öxi í Kópavogi.

Hér er fréttin í heilu lagi. Ég hef leyft mér að gerast ritstjóri og stika í það sem blaðamaðurinn þarf að laga.

Karl og kona voru handtekin vegna átaka þar sem öxi var dregin upp við Smáralind í Kópavogi á sjöunda tímanum í kvöld. Lögregla telur að átökin megi rekja til innheimtu á einhvers konar skuld. Sá sem varð fyrir árásinni er sagður með minniháttar áverka.

Fólkið er sagt þekkjast og að um einhvers konar uppgjör hafi verið að ræða. Samskipti þeirra hafi endaði með átökum þar sem öxi var dregin upp. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu voru árásaraðilarnir handteknir og eru nú vistaðir í fangageymslu.

Sá sem varð fyrir árásinni er ekki talinn alvarlega særður eftir hana.

Blaðamaðurinn er líkast til alsendis óvanur skrifum. Hann reynir að lengja „fréttina“ með endurtekningum, fórnarlambið er ýmist sagt með minniháttar áverka eða ekki alvarlega sært. Hvað er „einhvers konar skuld“? Málið tengist ýmist innheimtu eða uppgjöri. „Átökin má rekja til innheimtu“ sem er loðið og illskiljanlegt orðalag. Fréttin er á einhvers konar löggumállýsku sem er a skjön við venjulegt ritmál og einnig talmál. Hverjir eru „árásaraðilar“? Hvernig eru „aðilar“ „vistaðir“ hvað er „fangageymsla“?

Sem sagt, fréttin er tómt rugl sem er birt án þess að ritstjóri eða fréttastjóri geri nokkra tilraun til að laga „fréttina“. Og á mbl.is  hefur enginn neitt að athuga við bullið lekur áfram. Ritstjórar og fréttastjórar beggja fjölmiðla eru ábyggilega saman í frí á einhverri huggulegri sólarströnd.

Tillaga: Gul viðvörun vegna hvassviðris og úrkomu.

2.

„„Við ætlum að vera miklu hófstilltari,“ sagði Mattis við aðstoðarmenn sína eftir að hann lagði á forsetann.“ 

Frétt á visir.is.       

Athugasemd: Hvað skyldi nú blaðamaðurinn eiga við í þarna við? Jú, með góðum vilja mætti segja að einhver hafi slitið símaviðtali við forsetann. Það er þó alls ekki víst.

Orðasambandið að leggja á einhvern getur merkt að leggja símtólið á símtækið, slíta samtali. Þetta sögðu menn iðulega fyrir tíma handsíma, gsm. Nú er símtölum yfirleitt slitið, fáir leggja á eða skella á enda varla hægt.

Orðasambandið getur þýtt ýmislegt annað. Nefna má að leggja fæði á sem þýðir að hatast við. Leggja á gæti þýtt galdur, eða hvað sagði ekki Búkolla í ævintýrinu:

Legg ég á, og mæli ég um, að þú verðir að svo stórri móðu, að ekki komist yfir nema fuglinn fljúgandi.

Og hárið úr hala kýrinnar varð að stóru fljóti.

Svo getur vel verið að þessi orð hafi einfaldari merkingu, maðurinn hafi lagt eitthvað á forsetann, til dæmis bók en iðulega var biblía eða sálmabók á brjóstkassa líks í kistu. Trump myndi nú bara hafa gott af því.

Enn má tína til. Oft leggur fólk á ráðin um að gera eitthvað fyrr eða síðar.

Af þessu má ráða að ekki er einhlítt hvað Mattis þessi hafi gert er hann „lagði á forsetann“.

Vera má að ég sé ekki mjög skarpur en blaðamenn þurfa að vera það svo þeir skiljist. Í upphafi hélt ég að ég hafi skilið en er ekki jafnviss eftir að hafa skrifað þetta.

Tillaga: Við ætlum að vera miklu hófstilltari,“ sagði Mattis við aðstoðarmenn sína eftir að hann sleit samtalinu/símtalinu við forsetann.

3.

Hermann„Ég held ekki að allur þessi náttúrulegi matur sé að gera þér nokkuð gott!“ 

Hermann, skopmynd á bls. 29 í Morgunblaðinu 05.09.2018.      

Athugasemd: Í gamla daga voru nýliðar í blaðamennsku látnir vinna við að þýða skopmyndir og sögur. Þóttu það ekki virðuleg verkefni. Þar af leiðandi var málfarið í þeim stundum ekki upp á marga fiska. Það var og er miður því ungt fólk les skopið ekki síður þeir sem eldri eru.

Hermann í Mogganum er kostulegur. Flestir þekkja náunga eins og hann, stórskrýtinn, sérgóðan, frekan og veit allt betur en aðrir, svona fúll á móti eins og oft er sagt.

Á teikningunni sem ofangreind tilvitnun fylgir hefur Hermann tekið upp á því að borða náttúrulegt fæði, salat og ábyggilega fleira. Afleiðingin er sú að hann er allur orðinn loðinn og ófrýnilegur. Ekki er þetta nú fyndnasta útgáfan af Hermanni, en látum það vera.

Sá sem þýðir textann hefði átt að hafa skipti á fornöfnum. Í stað þess að segja nokkuð gott fer betur á því að segja neitt gott. Hið fyrrnefnda er jákvætt en hið seinna neikvætt.

Flestir sem hafa um ævina náð góðum lesskilningi samfara miklum orðaforða átta sig á þessu. Hinir, þeir sem lítið hafa stundað lestur, eiga auðvitað bágt með að skilja muninn.

Tillaga: Ég held ekki að allur þessi náttúrulegi matur sé að gera þér neitt gott!

4.

Þýskaland og Tyrkland deila, Washington og Moskva skiptast á fúkyrðum, Hvíta húsið mótmælir, Kreml hefur í hótunum. 

Bækur, ritdómur eftir Björn Bjarnason á bls. 30 í Morgunblaðinu 05.09.2018.      

Athugasemd: Björn Bjarnason, fyrrum ráðherra og alþingismaður, skrifar áhugaverðan ritdóm um bókina Stjórnmál eftir Timothy Snyder í þýðingu Guðmundar Andra Thorssonar, alþingismanns.

Bókin fær góða dóma hjá Birni. Hann segir meðal annars í dómnum:

Í erlendum fréttatextum er gjarnan talað um lönd, borgir og jafnvel byggingar eins og um gerendur sé að ræða: Þýskaland og Tyrkland deila, Washington og Moskva skiptast á fúkyrðum, Hvíta húsið mótmælir, Kreml hefur í hótunum. 

Vissulega skilst þetta á íslensku en betra er að segja: stjórnir Þýskalands og Tyrklands deila, ráðamenn í Washington og Moskvu skiptast á fúkyrðum, talsmaður Bandaríkjaforseta mótmælir, Kremlverjar hafa í hótunum. Guðmundur Andri velur báðar þessar leiðir í þýðingu sinni.

Varla þarf að fjölyrða frekar um ofangreinda tilvitnun. Ég er sammála Birni. Þar af leiðandi ætti ekki að segja að bíl hafi ekið á ljósastaur frekar að bíl hafi verið ekið á ljósastaur. Bíll getur aldrei verið gerandi nema auðvitað að hann hafi verið stjórnlaus. Alltaf skiptir máli hvernig atburðum er lýst.

Tillaga: Stjórnir Þýskalands og Tyrklands deila, ráðamenn í Washington og Moskvu skiptast á fúkyrðum, talsmaður Bandaríkjaforseta mótmælir, Kremlverjar hafa í hótunum.

5.

„Joachim Löw, landsliðsþjálf­ari Þjóðverja í knatt­spyrnu, staðfesti í dag að það væri eng­inn mögu­leiki á að Mesut Özil sneri aft­ur í landsliðið …“ 

Frétt á mbl.is.      

Athugasemd: Í ofangreindri tilvitnun fer blaðmaðurinn rangt með tíð sagnarinnar að snúa. Landsliðsþjálfarinn fullyrðir þetta og því á að nota viðtengingarhátt nútíðar, ekki þátíðar og en síður framsöguhátt í þátíð en í báðum tilvikum er 3. pers. eintölu eins, sneri.

 

Tillaga: Joachim Löw, landsliðsþjálf­ari Þjóðverja í knatt­spyrnu, staðfesti í dag að það væri eng­inn mögu­leiki á að Mesut Özil snúi aft­ur í landsliðið …

6.

„Jarðskjálfti að stærð 6,7 hef­ur skilið eft­ir sig mikla eyðilegg­ingu á Hokkaido, nyrstu eyju Jap­an, en skjálft­inn bæt­ist við röð ham­fara sem dunið hafa á land­inu und­an­farna daga, vik­ur og mánuði.“ 

Frétt á mbl.is.      

Athugasemd: Velta má vöngum um orðalagið, hvort jarðskjálfti hafi skilið eftir sig eyðileggingu rétt eins og hann væri fellibylur. Mér finnst réttara að orða þetta á annan hátt, til dæmis að skjálftinn hafi valdið mikill eyðileggingu. Jarðskjálfti verður en fellibylur fer yfir.

Tillaga: Jarðskjálfti að stærð 6,7 valdið mikilli eyðilegg­ingu á Hokkaido, nyrstu eyju Jap­an. Hamfarir hafa hafa á land­inu und­an­farna daga, vik­ur og mánuði.


Bloggfærslur 6. september 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband