Lifa lífstíl, bleik súkkulöð og minna fólk

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

 

Ensk íslenska

Ef „verðið fellur um einhver 3 prósent“ hlýtur hver venjulegur lesandi að verða spenntur: hvaða 3 prósent? 

Nema hann sé svo glöggur að sjá í gegnum enskuna og þýða sjálfkrafa: um svo sem 3 prósent; um ein 3 prósent; um svo mikið sem 3 prósent o.s.frv. – eftir því hvað hann heldur að meint hafi verið. 

Málið á bls. 58 í Morgunblaðinu 23.08.2018.

 

1.

Það er búið að vera ansi þreytandi að fylgjast með Norðurlandabúum á Instagram að lifa lífsstíl sem venjulega er takmarkaður við fólk sem býr á suðlægari slóðum.“ 

Víkverji á bls. 41 í Morgunblaðinu 18.08.2018.        

Athugasemd: Orðasambandið að lifa lífstíl gengur ekki upp. Ótrúlegt að höfundi Víkverja skuli sjást yfir þetta.

Tillaga: Þreytandi að fylgjast með Norðurlandabúum á Instagram sem notið hafa aðstæðna sem er þekktari meðal fólks á suðlægari slóðum.

2.

Ásgeir Kol­beins elsk­ar bleikt súkkulaði.“ 

Fyrirsögn á mbl.is.         

Athugasemd: Hér áður fyrr elskaði fólk hvert annað, maka sinn og jafnvel viðhaldið sitt og gerir hugsanlega enn. Sumir elskuðu landið sitt eins og Guðmund Magnússon skáld sem ritaði undir höfundarnafninu Jón Trausti. Hann orti Íslandsvísur, stórfagurt kvæði sem sungið er með lagi Bjarna Þorsteinssonar og gæti verið þjóðsöngur Íslendinga. Fyrsta erindið er svona:

Ég vil elska mitt land,
ég vil auðga mitt land,
ég vil efla þess dáð, ég vil styrkja þess hag.
Ég vil leita´ að þess þörf,
ég vil létta þess störf,
ég vil láta það sjá margan hamingjudag.

Í dag elska menn allan andskotann ef svo má að orði komast. Fólk elskar tyggjó, bílinn sinn, símann, hestinn, skóna, sokkanna, þvottavélina, bollann, kött, páfagauk, hund, hest, hamstur, lamblæri, veganfæði kók, koníak, viskí, bjór og er þó aðeins fátt eitt nefnd af elskulegum hlutum, dýrum, mat fatnaði en fjölmargt vantar. Og svo er tilnefndur maður sem heitir Ásgeir Kolbeins sem sumir þekkja en aðrir ekki. Hann ku elska bleikt súkkulaði. Í minn æsku þótti okkur krökkunum súkkulaði gott, við elskuðum það ekki en þráðum fátt heitar. Þá var súkkulaðið bara brúnt, annað þekktist ekki.

Um daginn var öllum silkihúfum landsins boðið í partí til að smakka á bleiku súkkulaði frá þeim bræðrum Nóa og Síríusi. Af svipbrigðum fallega fólksins á myndunum, en þær birtust á vefmiðli Moggans, finnst öllum ókeypis súkkulaði gasalega gott. Öllum nema honum Ágeiri. Hann eeeelskar bleeeeik súkkulöð enda kallaður smekkmaður í „fréttinni“.

Ekki er gott að segja hvers vegna smekkmaðurinn er svona elskur að bleika gottinu, það kemur ekki fram enda er þetta svokölluðu skrýtnifrétt. Blaðamanni og ljósmyndara er boðið í partí með fallega fólkinu og allir fá ókeypis gott. Gaman, gaman.

Við hin sem þurfum að borga fyrir bleik súkkulöð finnst alveg rosalega gaman að sjá fallega fólkið í sínu fínasta pússi hnusa og bragða á gotteríinu. Við hreinlega eeeelskum soleiis myndir ossalega migið ...

Tillaga: Vonlaust að toppa þessa fyrirsögn, best að taka eina róandi.

3.

Skemmtiferðaskipamógúll leigir út Hörpu og Sinfoníuna.“ 

Fyrirsögn á visir.is.          

Athugasemd: Þegar fyrirsögnin er illa gerð eru miklar líkur á að öll fréttin sé það líka. Blaðamaðurinn ætlaði líklega að flytja okkur þá frétt að forstjóri fyrirtækis sem gerir út skemmtiferðaskip hafi leigt tónleikahúsið Hörpu fyrir sig og sitt fólk. Hann komst ekki andskotalaust frá þessu því hann hélt því fram í fyrirsögn og texta að forstjórinn hafi leigt Hörpu út.

Auðvitað er þetta stórskemmd frétt, eins og glöggir lesendur átta sig á. Eitt er að leigja bíl og annað að leigja út bíla, svo dæmi sé tekið um bílaleigu og þann sem skiptir við hana. Þetta ættu allir að skilja nema ef til vill lítil börn eða fullorðnir einstaklingar með barnslegan þroska.

Raunar er óskiljanlegt hvers vegna forstjórinn er kallaður „mógúll“ í fréttinni. Raunar er fréttin uppfull af vitleysum og villum og fyrir neðan virðingu fólks eða eyða tíma sínum í að lesa hana. Höfundurinn ætti að finna sér annað starf, blaðamennska hentar honum ekki nema því aðeins að hann leggi á sig að lesa bækur í nokkur ár til að öðlast málskilning og orðaforða sem er nauðsynlegur öllum blaðamönnum og raunar þeim sem áhuga hafa á skriftum.

Tillaga: Engin tillaga gerð, fyrirsögn enda fréttin tóm vitleysa.

5.

Minna fólk kalli ekki á minni menntun.“ 

Fyrirsögn á mbl.is.          

Athugasemd: Við fyrstu sýn kann „minna“ að vera atviksorðið lítið í miðstigi (lítið, minna, minnst). Sé svo á blaðamaðurinn sem skrifaði fréttina við að lágvaxið fólk kalli ekki á minni menntun? Viðtengingarhátturinn skemmir doldið fyrir skilningi lesandans.

Ef ekki er verið að tala um lágvaxið fólk, hvað er þá verið að segja með þessari fyrirsögn? Sjálf fréttin skýrir hana ekki.

Minna hefur margar merkingar. Hér eru upptalningar úr malid.is:

  • lítið Atviksorð, stigbreytt
  • lítill Lýsingarorð
  • minn Eignarfornafn
  • Minna Kvennafn
  • minna Sagnorð, þátíð minnti
  • minni Hvorugkynsnafnorð

Við nánari umhugsun gæti merking fyrsta orðsins verið fáir (fár, lýsingarorð í et. kk.). Þá kviknar skilningur lesandans og fyrirsögnin gæti orðið samkvæmt tillögunni hér að neðan.

Svona barnslegt orðalag er nokkuð algengt. Dæmi; sumir fullyrða að margt fólk hafi verið á fundinum, aðrir segja að minna fólk hafi verið þar. Hið seinna gæti átt við hæð fólks

Niðurstaðan er því þessi: Þó fólki fækki þarf það ekki að draga úr kröfum um fullnægjandi menntun þeirra sem eftir eru.

Blaðamaðurinn þarf að vanda sig, ef hann gerir það ekki á ritstjóri að grípa í taumanna og prófarkalesa fréttina.

Viðtengingaháttur í fyrirsögnum er oft ruglandi og tíðum rangt notaður.

Tillaga: Færra fólk dregur ekki úr kröfum um menntun.

6.

Vegfarandinn var fluttur á sjúkrahús í alvarlegu ástandi af þyrlu eftir að lögreglan mætti á staðinn.“ 

Frétt á bls. 17 í Morgunblaðinu 24.08.2018.         

Athugasemd: Hér er verið að segja of mikið í langri málsgrein. Reglan er sú að setja punkt sem víðast en ekki lengja málið með aukasetningum sem hætta er á að rugli lesandann. Má vera að sumir skilji ofangreinda steypu. Stundum kunna þó ákveðnar upplýsingar að vera óþarfar. Hér getur lesandinn hæglega gert ráð fyrir því að fyrst flogið var með vegfaranda á sjúkrahús hafi lögreglan þegar verið komin enda kemur hún víðast á sama tíma og sjúkrabíll.

Vegfarandinn var fluttur af þyrlu. Hér er röng forsetning notuð.

Alvarlegt ástand er orðasamband sem er afar algengt í fjölmiðlum. Vegfarandinn var stunginn með hnífi. Liggur ekki beinast við að hann sé alvarlega særður frekar en að segja hann í alvarlegu ástandi. Hið seinna er afleiðing af hinu fyrra.

Loks er ekki úr vegi að nefna röð orða í setningu. Ekki er nóg að hrúga saman orðum. Þeim þarf að raða skipulega og svo úr verði skiljanleg frásögn.

Tillaga: Vegfarandinn var fluttur alvarlega særður með þyrlu á sjúkrahús.

7.

Undanþágan sem Höllin er á fellur úr gildi á endanum.“ 

Fyrirsögn á visir.is         

Athugasemd: Ég held að eðlilegast sé að orða ofangreinda fyrirsögn eins og hér er gerð tillaga um.

Tillaga: Undanþágan sem Höllin er á fellur á endanum úr gildi.

 

 

 


Bloggfærslur 24. ágúst 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband