Blaðamenn skrifa almennt of langar málsgreinar

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

Ekki til eftirbreytni

Enska fornafnið some getur bæði þýtt einhver og nokkur, m.a. Það hefur smitað okkur svo að við segjum iðulega „einhverjum árum seinna“ (nokkrum árum seinna), „þetta munar einhverjum milljónum“ (þetta munar milljónum), að ógleymdu „þetta eru einhverjir tíu menn“ (einir tíu eða um það bil tíu menn).

Pistillinn Málið á bls. 66 í Morgunblaðinu 7. júní 2018

 

1.

„Haf­ís og ís­jak­ar nálg­ast landið.“ 

Fyrirsögn á mbl.is.       

Athugasemd: Hver er munurinn á hafís og ísjaka? Jú, ísjaki flýtur á sjó eða vatni, jafnvel finnast þeir á þurru eftir að fjarað hefur undan þeim.

Má vera að þetta sé einhver hártogun. Hafís getur vissulega verið ísjakar og ísjakar hafís. Mér finnst hins vegar að nóg sé að segja að hafís nálgist landið. Þeir sem til þekkja og eru ekki börn, vita að á undan meginísnum reka ísjakar. Hvort tveggja er þó hafís, jafnvel þó að hann hafi brotnað úr jökli í grænlenskum fjörðum.

Tillaga: Hafís nálgast landið.

2.

„Ég gat ekki sofið þegar við vor­um í sund­ur,“ sagði Amal Cloo­ney í ræðu sinni um eig­in­mann sinni Geor­ge Clooney.“ 

Úr frétt á mbl.is.       

Athugasemd: Ég myndi ekki heldur sofa ef ég væri í sundur nema ef vera skyldi svefninum langa.

Bein þýðing gengur ekki alltaf. „When we were apart,“ er þarna þýtt, þegar við vorum í sundur. Þeir sem hafa einhverja tilfinningu fyrir málinu vita að þetta gengur ekki upp. Þó gerðist það oftsinnis á skóla- og sveitaböllum í gamla daga að fólk var rifið í sundur. Líklega hefur eitthvað annað verið í gangi þar en það sem Clooney konan á við.

Sundur er atviksorð og merkir stundum að taka eitthvað sem er eitt og gera að tvennu. Rífa í sundur, saga í sundur, slíta í sundur og svo framvegis. Á rómantískan hátt má segja að karl og kona (par) séu eitt en það er ekki svo þegar öllu er á botninn hvolft. Þegar þau eru ekki saman eru þau aðskilin (ekki þó skilin að borði og sæng eða lögum, sem þó getur verið).

Tillaga: Ég get vart sofið þegar við erum ekki saman, sagði Amal Clooney í ræðu sinni um eiginmann sinn, Georg Clooney.

3.

Tveir koma til með að starfa í alþjóðlegri stjórn­stöð lög­gæslu í Moskvu og þrír munu fylgja ís­lenska landsliðinu á þá staði sem Ísland kepp­ir á og fylgja rúss­nesk­um lög­reglu­mönn­um við eft­ir­lit í kring­um stuðnings­manna­svæði og leik­vang. 

Úr frétt á mbl.is.       

Athugasemd: Eitt af því versta sem ég verð fyrir í skrifum er nástaða orða, það er nálægð sömu eða skyldra orða. Má vera að einhver telji það nú óttalegan „kverúlantahátt“ að setja þetta fyrir sig. Stíll er þó alltaf mikilvægur. Gæti skrifari ekki að sér getur hann skemmt textann og um leið missir lesandinn áhugann og veit oft ekki hvers vegna. Athyglin hverfur.

Hér að ofan hefði blaðamaður auðveldlega getað komist hjá þessari nástöðu sem blasir við lesendum. Í fyrsta lagi er málsgreinin of löng.

Gott er að fylgja reglu Jónasar Kristjánssonar, fyrrum ritstjóra, sjá hér. „Settu punkt sem víðast,“ segir hann, og það ekki að ástæðulausu. Krakkar í blaðamennsku og jafnvel eldri jálkar eru margir of sparir á punkta. 

Svo er það nástaðan. Ég mæli með tillögunni hér að neðan. Sögnin að fylgja hefur ótvíræða tengingu áfram og óþarfi er að endurtaka hana.

Tillaga: Tveir munu starfa í alþjóðlegri stjórn­stöð lög­gæslu í Moskvu. Þrír munu fylgja ís­lenska landsliðinu á keppnisstaðina og verða þar með rúss­nesk­um lög­reglu­mönn­um við eft­ir­lit.

4.

Karol­ina varð af­skap­lega glöð þegar hún fékk frétt­irn­ar því hún sagðist hafa verið á leiðinni að kaupa miða fyr­ir sig og sína fjöl­skyldu og því ljóst að hún er búin að spara sér heil­mik­inn pen­inga.“ 

Úr frétt á mbl.is.       

Athugasemd: Frekar er þetta nú illa skrifað og af lítilli kunnáttu. Munum reglu Jónasar Kristjánssonar, að setja punkt sem oftast. Ekki reyna að teygja lopann, þá á skrifarinn það á ættu að lesandinn missi athyglina.

Í málsgreininni eru 35 orð, helmingi fleiri en ráðlagt er.

Jónas segir: 

Þú þarft að neyða þig til að skrifa stuttar málsgreinar. Þá hefur þú ekki pláss fyrir froðuna, orðtökin, klisjurnar og endurtekningarnar, sem þú mundir annars setja inn. Þessi regla hjálpar þér að fylgja öðrum reglum. Hún spúlar froðunni úr texta þínum.

Þessi regla er tær snilld, hvorki meira né minna. Blaðamaðurinn sem skrifaði ofangreinda tilvitnun hefði átt að þekkja hana. Þá hefði hann skrifað svipað eins og í tillögunni hér að neðan.

Loks má geta þess að í íslensku kemur afturbeygða fornafnið á eftir nafnorðinu. Það er fjölskylduna sína en ekki sína fjölskyldu. Hið síðarnefnda er undir enskum áhrifum.

Tillaga: Karol­ina varð af­skap­lega glöð þegar hún fékk frétt­irn­ar. Hún sagðist hafa verið á leiðinni að kaupa miða fyr­ir sig og fjöl­skyldu sína. Nú hefur hún sparað sér heil­mik­inn pen­inga.


Lýðurinn ákærir, dæmir og tekur af lífi ... en úbbs!

Hvar eru nú hælbítarnir sem reyndu að rakka niður æru Braga Guðbrandssonar með því að tengja hann við barnaníð og fleira ógeðfellt. Ég tek eindregið undir orð Ögmundar Jónassonar, fyrrum ráðherra og alþingismann, en hann segir meðal annars um mál Braga á vefsíðu sinni:

Á undanförnum mánuðum hefur Bragi Guðbrandsson, forstöðumaður Barnaverndarstofu (nú í leyfi), verið borinn þungum sökum í nokkrum fjölmiðlum og á Alþingi. Honum var gefið að sök að hafa gerst brotlegur við lög, farið út fyrir verksvið sitt og jafnvel lagst á sveif með barnaníðingi!

Núverandi félags- og jafnréttisráðherra fékk einnig sinn skammt. [...]

Stundin birti myndir og fyrirsagnir sem tengdu Braga Guðbrandsson illri meðferð á börnum og Kjarninn sagði á þá leið að nú væru allir raftar dregnir á flot til að verja spillinguna en einhverjir þingmenn stæðu sem betur fer í fæturna til að berjast gegn ósómanum. [...]

Ég minnist þess varla að eins hörð hríð hafi verið gerð að æru nokkurs embættismanns og æru Braga Guðbrandssonar í þessu makalausa máli.

Í þessu samhengi má nefna að hermt er að þingmaður hafi gengið svo langt að hafa samband við sendiráð Norðurlandanna hjá Sameinuðu þjóðunum til að vara við níðingnum í framboði!

En nú er kominn niðurstaða óháðrar rannsóknarnefndar. Og viti menn, sakborningurinn Bragi Guðbrandsson er að fullu sýknaður og hreinsaður af svívirðilegum áburði á hendur honum í svokölluðu Hafnarfjarðarmáli, sem sagt er hafa verið hið alvarlegasta í þeirri gagnrýni sem fram var borin á hendur honum og þar sem honum var ætlað að hafa farið út fyrir sitt verksvið sitt í trássi við lög.

Ásmundur Einar Daðason, núverandi félagsmálaráðherra, má einnig vel við una því hann hefur haldið hárrétt á málum samkvæmt niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar, með einni undantekningu þó. Og það er að hafa látið niðurstöður ráðuneytisins frá því í ráðherratíð Þorsteins Víglundssonar, standa óhaggaðar því í ljós kemur að þær voru settar fram að óathuguðu máli. Með öðrum orðum, ráðuneytið hafi verið búið að gera forstjórara Barnaverndarstofu að skotspæni áður en úttekt hefði farið farið fram. Auk þess hefðu stjórnsýslureglur verið þverbrotnar. Ráðuneytið fær almennt slæma útreið í skýrslunni og er legið á hálsi fyrir að hafa ekki rannsakað þau mál sem þar voru færð upp á borð áður en niðurstaða var fengin. Þetta þýðir að alrangt er hjá Þorsteini Víglundssyni, fyrrum ráðherra að í niðurstöðum ráðuneytisins hefði verið að finna lokapunktinn í málinu. [...]

Núverandi félagsmálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, hefur stigið afgerandi skref til að laga stjórnsýsluna og á hann fyrir það lof skilið. Hann hefur gert rétt í því að stíga upp úr gömlum hjólförum á þessu málasviði og horfa til framtíðar.

En nú þegar Ásmundur Einar og höfuðsakborningurinn Bragi Guðbrandsson hafa báðir verið „sýknaðir", hvað gera þá hinir sjálfskipuðu dómarar? Þar er ég til dæmis að tala um formann velferðarnefndar Alþingis (Halldóra Mogensen, pírati] sem hafði uppi stór orð; þingkonuna [pírati?] sem hafði samband við norrænu sendiráðin til að rægja íslenska frambjóðandann; sleggjudómarann, fyrrum félagsmálaráðherra, Þorstein Víglundsson, sem sjálfur situr uppi með svarta Pétur, fjölmiðlamennina sem átu upp allan áburðinn gagnrýnislaust og svo hina sem voru beinir gerendur í aðförinni.

Ætlar þetta fólk, hinir sjálfskipuðu dómarar, að biðjast afsökunar?

Gott hjá Ögmundi.

Hver er svo þessi sjálfskipaði baráttumaður fyrir „réttlætinu“ sem rægði Braga Guðbrandsson við norrænu sendiráðin. Var það annar pírati? Mikilvægt er að fá að vita hver ærumorðingi er.

Þetta á að kenna fólki að betra er að kynna sér málin áður en haldið er í öfgafulla „réttlætisherferð“ í anda Trump. Aldrei nokkurn tímann er skynsamlegt að skjóta og spyrja svo. Lýðurinn vill taka mann af lífi og þegar í ljós kemur að sá var saklaust segir það bara „úbbs“.

Fjölmörg dæmi eru um svona samantekin ráð að berja á einstaklingum í þjóðfélaginu, stjórnálamönnum, embættismönnum og einstaklingum sem fátt hafa til saka unnið. Enn og aftur hengir lýðurinn morðingja Lúkasar uppi í ljósastaur, en úbbs ... þarna ærslast Lúkas algjörlega ódauður.


mbl.is Verið „afskaplega sársaukafullt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. júní 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband