Enginn efstu manna vinstri flokkanna býr í úthverfum

KortMér brá þegar ég sá meðfylgjandi kort. Það sýnir einfaldlega hvar efstu menn á listum Samfylkingar, Vinstri grænna og Pírata eiga heima. 

Þetta eru allt meira eða minna, og afsakið orðbragðið, miðbæjarrottur. 

Grafarvogsbúar, Breiðhyltingar, Árbæingar og fólk í Úlfarsárdal, ætlið þið að kjósa yfir ykkur fólk sem hefur enga hagsmuni á að sinna þessum hlutum borgarinnar?

Þrátt fyrir að nú séu fjórir flokkar í meirihlutasamstarfi í borgarstjórn virðist sami rassinn undir þeim öllum. Borgarstjórinn stjórnar þvert á flokka, hann er andlit meirihlutans.

Ekki er ekki furða þó þetta fólk geti hjólað allan ársins hring í vinnuna sína. Við sem búum í úthverfunum eigum þess ekki kost nema í undantekningartilvikum. Þeim er líka í nöp við okkur, við fyllum göturnar á morgnanna og seinni part dags og ábyggilega allt þar á milli.

sömu andlitinFormaður skipulagsnefndar vill ekki heyra á það minnst að byggðar séu mislæg gatnamót, enda er ólíklegt að hann hafi séð slík. Hann heldur því fram að það sé flökkusaga að þau geti dregið úr slysum. Hann nefnir það ekki að þau geti auðveldað umferð.

Vinstri meirihlutinn slátraði Sundaleið, akvegi yfir í Grafarvog. Fyrir að hætta við þá framkvæmd var samið við ríkisvaldið að peningarnir færu í Strætó. Ekkert breyttist við það, enn nota aðeins 4% íbúa þann samgöngumáta. Langflestir aka. Og til þess að koma okkur út úr bílunum er allt gert til að tefja fyrir akandi umferð. Ekkert má gera til að greiða fyrir akstri bíla. Svona nefnist einfaldlega svindl.

Kortið gerði Vilhjálmur Andri Vilhjálmsson, lögfræðingur.

Neðri myndin er af efstu mönnum Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna, raðað eftir stafrófi.


Fátt segir í fjölmiðlum um Píratann sem gerðist sósíalisti

kicked-in-buttUndarleg er þögnin sem ríkir um Birgittu Jónsdóttur, stofnanda og fyrrum þingmann Pírata og fleiri flokka. Hún er komin yfir í Sósíalistaflokkinn. Ekki Samfylkinguna eða Vinstri græna, nei, í gamaldags flokk sem kennir sig við úrelta hugmyndafræði.

Ríkisútvarpið þegir. Fréttablaðið þegir. Visir.is þegir. Stundin þegir. Dv.is þegir ... nei, afsakið, lítil klausa birtist á vefsíðunni í dag, sjá hér.

Eru þetta ekki samt stórmerkilegar fréttir. Forystumaður Pírata, fyrrum formaður flokksins og andlit hans í mörg ár er hættur. Auðvitað vita þeir sem fylgst hafa með að Birgittu var ýtt út úr forystu flokksins. Hún var talin og herská, andstyggileg og leiðinleg. Hún skyggði á aðra sem vildu baða sig í kastljósi fjölmiðla þegar stunduð eru asnaspörk.

angry_ass_2547955Henni var sparkað fyrir síðustu Alþingiskosningar og hún tók því ekki þegjandi þó lítið væri um það fjallað í fjölmiðlum. Það hentaði ekki pólitískri stefnumörkum fjölmargra fjölmiðlamanna að segja frá sprungum í Pírataflokknum.

Annað var uppi þegar fréttist að stjórnmálaflokkur sem síðar fékk nafnið Viðreisn var í undirbúningi og að honum stæðu flokksbundnir Sjálfstæðismenn, nokkuð þekkt nöfn, ætlaði allt um koll að keyra í fjölmiðlum. Samfylkingarliðið og Vinstri grænir sem starfa sem blaða- eða fréttamenn þóttust nú aldeilis komast í feitt.

Ekki minkaði Þórðargleðin þegar ljóst varð að fyrrverandi formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins gengu í Viðreisn. Þá gladdist fréttastofa Ríkisútvarpsins og fleiri fjölmiðlar hafa síðan átt margar gleðistundir.

Auðvitað er ekki saman að jafna Pírötum og Sjálfstæðisflokknum. Það er hins vegar stórmerkilegt að forystumaður Pírata, konan sem sagði flokkinn vera ópólitískan, hún fer í Sósíalistaflokkinn.

Þar með „faller brikkene på plass, eins og Norðmaðurinn sagði, og Íslendingurinn bætti við að þarna væri pússlið sem vantaði. Nú sést greinilega að Píratar eru ekkert annað en lið sem aðhyllist gamaldags hugmyndafræði sem vinsæl var í upphafi og fram undir miðja síðustu öld.


Bloggfærslur 24. maí 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband