Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, á að segja af sér

Halldóra MogensenHalldóra Mogensen, þingmaður Pírata, hefur krafist afsagnar Ásmundar Einars Daðason, velferðarráðherra, því hún telur að hann hafi sagt þinginu ósatt um tiltekið mál sem var í meðförum barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar og Barnaverndarstofu. Styðst hún eingöngu við umfjöllun fréttamiðilsins Stundarinnar í þessum efnum en hefur ekki haft fyrir því að kynna sér málsatvik.

Samkvæmt Halldóru og Stundinni liggur alveg ljóst fyrir að Ásmundur ráðherra „laug“ eins og það var snyrtilega orðað.

Nú hafa hins vegar komið fram nýjar upplýsingar sem varpa allt öðru ljósi á málavexti og það var ekki ráðherrann sem laug.

Ögmundur JónasonÖgmundur Jónasson, fyrrum ráðherra og alþingismaður Vinstri grænna, skrifar oft skynsamlega á vefsíðu sinni. Oftar en ekki les ég pistla hans þó langorðir séu. Í pistli dagsins spyr hann í fyrirsögn: „Mun Halldóra Mogensen, formaður,m velferðarnefndar Alþingis, segja af sér?

Ögmundur ræðir málið af mikilli yfirvegun og þekkingu og hann segir:

Í ljósi alls þessa hef ég fylgst með nýjum félagsmálaráðherra taka á málum. Ég hef veitt því athygli hvernig hann hefur reynt að leysa mál af yfirvegun og sanngirni, jafnframt því að horfa til framtíðar um bætt skipulag.

Hugsanlega væri hægt að gagnrýna hann fyrir að hafa ekki haldið stífar fram málstað Barnaverndarstofu, sem hefur sætt gagnrýni fyrir að rækja aðhaldshlutverk sitt of harkalega eins og í máli sem rakið var í sjónvarpsþættinum Kveik, sem nýlega var sýndur í Ríkissjónvarpinu.

Um önnur mál sem tengjast Barnaverndarstofu hefur verið dylgjað, en skiljanlega hefur ekki verið unnt að ræða þau opinberlega sökum persónuverndar.

Í gær var sá múr hins vegar brotinn og kemur þá í ljós að á máli sem stór orð hafa verið látin falla um eru fleiri hliðar en ein. Sjá: https://www.mbl.is/frettir/innlent/2018/04/28/eg_er_ekki_kunningi_braga/

Ásmundur Einar DaðasonOg síðar segir Ögmundur:

Í umræðu í spjallþáttum og á Alþingi hafa verið settar fram sverar ásakanir, þá ekki síst á hendur Braga Guðbrandssyni, sem gegnt hefur starfi forstjóra Barnaverndarstofu. Greinilegt er að nokkrir þingmenn róa að því öllum árum að grafa undan framboði hans í barnanefnd Sameinuðu þjóðanna.

Upphrópanir Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingkonu Pírata í Silfri Egils ekki alls fyrir löngu, að órannsökuðu máli af hennar hálfu, voru umsvifalaust birtar á vefsíðu RÚV sem stórfrétt án þess þó að gengið væri eftir því að Þórhildur Sunna fyndi ásökunum sínum stað.

Björn Leví Gunnarsson, einnig þingmaður Pírata segir í grein í Morgunblaðinu í gær að „kerfið sjái um sína" og vísar hann þar í tilnefningu Braga í framboð í barnanefnd SÞ sem óeðlilegt spillingarmál. Þetta er nokkuð sem þingmaðurinn þarf að skýra með málefnalegum hætti. 

Allt er þetta mjög athyglisvert hjá Ögmundi, sérstaklega hvernig mál eru framsett hjá Ríkisútvarpinu án rökstuðnings, orð Píratanna talin vera staðreyndir og því fréttir. Líkur benda hins vegar til þess að þeir eru í herferð og misnota aðstöðu sína og Ríkisútvarpið makkar með. Þetta gengur ekki enda um falsfréttir að ræða.

Ögmundur heldur áfram:

Sérstaklega verður þessi spurning ágeng eftir að fylgjast með framgöngu Halldóru Mogensen, formanns velferðarnefndar Alþingis, sem nú hefur kallað eftir afsögn Ásmundar Einars Daðasonar, félagsmálaráðherra.

Halldóra Mogensen tilkynnir þjóðinni á föstudag að hún vilji ræða þessi viðkvæmu mál í beinni sjónvarpsútsendingu frá nefndarsviði Alþingis. Síðan kemur á daginn að þetta gerir hún án þess að hafa kynnt sér þau gögn sem eigi að ræða og nefnd hennar hafa verið aðgengileg.

Stundin upplýsir að hún hafi kallað eftir nefndarfundi strax um nóttina eftir að hafa lesið umfjöllun Stundarinnar! Semsagt um nótt er kallað á ráðherra í beina útsendingu í þingnefnd en í Fréttablaðinu er svo upplýst að fram til þessa hafi hún verið svo mikið í símanum að hún hafi ekki haft tíma til að „kíkja á gögnin," og reyndar enginn í nefndinni!

Formaður félagsmálanefndar Alþingis vill að ráðherra segi af sér. En ég spyr væri ekki nær að formaður félagsmálanefndar segi af sér?

Þarna kemur Ögmundur eiginlega að kjarna málsins. Halldóra, þingmaður Pírata, hefur ekki skoðað nein gögn, aðeins lesið fréttir í Stundinni. Hún bregst við fréttaflutningi eins og hann sé stórisannleikur sem ekki þurfi að kanna. Í raun og veru er hún aðeins að sækjast eftir fjölmiðlaupfjöllun og hana hefur hún fengið á svona vafasömum forsendum.

Mörgum þingmönnum, sérstaklega Pírötum, hefur verið tíðrætt um spillingu og krafist afsagnar ráðherra. Hverjar eru kröfurnar þegar málflutningur þingmanna reynist rangur, þeir fara með rangt mál? Er þá í lagi að þeir yppi öxlum og snúi sér til veggjar? Má misnota Alþingi og búa til róg og falsfréttir undir nafni þess?

Nei, alls ekki. Verði þingmaður uppvís að lygum á hann að segja af sér. Hann hefur þá brugðist þeim kröfum sem kjósendur gera til hans.

Er þeim þingmanni sætt sem  hefur ekki kynnt sér mál nægilega vel en krefst samt afsagnar ráðherra. Auðvitað ekki.


Bloggfærslur 29. apríl 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband