Er dregur úr skjálftum við Grímsey og byrja þeir annars staðar

180302 skjálftarSvo fór með jarðskjálftanna norðaustan við Grímsey og slagviðrið sunnanlands að þeir hjöðnuðu. Enda var ekki við öðru að búast. Öll él stytta upp um síðir, einnig rigningin í Reykjavík og jafnvel rokið undir Hafnarfjalli.

Hins vegar er það svolítið skrýtið að um leið og skjálftarnir byrjuðu við Grímsey dró úr skjálftum annars staðar. Reykjanes bærði varla á sér, tíðindalaust af Suðurlandi, Katla svaf vært, Öræfajökull róaði sig, Bárðarbunga gleymdi sér, Holuhraunsberggangurinn kyrrðist, Askja var í rólegheitum og kvikuhreyfingarnar undir Herðubreið hættu.

Svo gerist það er jarðskjálftunum við Grímsey linnir að lætin byrja annars staðar á landinu. Óróinn vex suður eftir rétt eins og kveikt er á raðtengdum ljósum, rétt eins og sjá má af kortinu sem fengið er af vef Veðurstofunnar.

Athygli vegur að norðvesturöxullinn í Vatnajökli er með fullri meðvitund, það er línan sem dregin er frá Öræfajökli um Grímsvötn, Bárðarbungu og allt í Tungnafellsjökul. Maður spyr sig hvort einhverra tíðinda sé að vænta þar fyrr en eitthvað gerist í Bláfjöllum.

Nú rekur lesandinn upp stór augu. Til að svala forvitni þá heldur hinn draumspaki og forspái félagi skrifara því fram að austan við Bláfjöll muni verða lítilsháttar eldgos áður en vetri lýkur og þar með skíðavertíð. Ég hef þó enga trú á þessu þar sem ekkert bendir til að umbrot séu þar í aðsigi.

Hins vegar er ég hvorki draumspakur né forspár og því er þetta ábyggilega tóm vitleysa. Á móti kemur að ég hef ekki hundsvit á jarðfræði. Allt er því opið eins og píratinn sagði þegar vaknaði á nefndarfundi Alþingis.


Bloggfærslur 2. mars 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband