Úbbs ... er ekki skráður á landsfund Sjálfstæðisflokksins

LandsfundurinnLandsfundur Sjálfstæðisflokksins verður haldinn um helgina. Ég gekk í flokkinn um leið og ég hafði aldur til og hef síðan sótt alla landsfundi hans nema einn (minnir mig), var þá í útlöndum við einhverja ómerkilega iðju, nám eða álíka vitleysu.

Nú er ég upptekinn við eitthvað sem er ábyggilegra enn ómerkilegra og því verður þetta í annað skiptið sem ég sæki ekki þennan stórskemmtilega og fróðlega allsherjarfund Sjálfstæðisflokksins.

Einhver kann að spyrja hvers vegna ég mæti ekki. Svarið er einfalt. Hvorki hefur Sjálfstæðisflokkurinn yfirgefið mig né ég hann. Ég er bara svo önnum kafinn í pólitískum vangaveltum að ég gleymdi að skrá mig.

Því miður hefur enginn tekið eftir því að nafnið mitt er ekki meðal 2.000 skráðra fulltrúa og það sem verra er, enginn hefur á mig skorað að mæta. 

Eftir því sem tímar hafa liðið hafa landsfundir Sjálfstæðisflokksins orðið æ fróðlegri og skemmtilegri. Hér áður fyrr fannst manni svo margir „gamlir kallar“ þar og svo fátt af konum og yngra fólk. Nú er meirihlutinn ungt fólk, konur og karlar, glæsilegir fulltrúar sinna kynslóða. Allir taka þátt í nefndafundum og leggja ýmislegt til málanna. 

Svo stórir eru nefndafundirnir orðnir að fyrir fjórum árum voru á fjórða hundrað manns að ræða um verðtryggingu og fjármál heimilanna. Fyrir tveimur árum voru rúmlega eitthundrað manns á nefndafundi um umhverfis- og skipulagsmál. Sem sagt, fleiri á nefndarfundi á landsfundi Sjálfstæðisflokksins en voru á síðasta landsþingi Viðreisnar eða landsfund Samfylkingarinnar.

Væri ég landsfundarfulltrúi myndi ég leggja áherslu á að miðhálendi Íslands verði gert að þjóðgarði. Á þetta lagði ég áherslu á síðasta fundi, rökræddi við fjölda fólks um málið en þurfti því miður að lúta í lægra haldi.

Á fyrsta landsfundinum sem ég tók þátt í, vildi ég takmarka sauðfjárbeit á hálendinu. Tillaga var kolfelld í nefnd, þótti tóm vitleysa og flutningsmaðurinn óskynsamur strákur. Enn í dag er sauðfé beitt á takmarkaðan gróður á gosbelti landsins Kominn tími til að hætta þessu rugli.


Bloggfærslur 14. mars 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband