Orðræða, tímapunktur og sitjandi ... eða standandi þingmaður

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

1.

„Mikil aukning á slysum vegna lyfjaaksturs. 

Fyrirsögn á forsíðu Fréttablaðsins 3. desember 2018.    

Athugasemd: Varð aukning á slysum eða fjölgaði þeim? Stundum mætti halda að blaðamenn gerðu það að leik sínum að lengja mál sitt frekar en að stytta og einfalda. 

Á íslensku leggjum við áherslu á sagnorð, ekki nafnorð.

Berum saman fyrirsögnina og tillöguna hér fyrir neðan. Rétt um hönd sem finnst fyrirsögnin betri?

Tillaga: Slysum fjölgar vegna lyfjaaksturs.

2.

„Slík orðræða er í senn óverjandi og óafsakanleg … 

Frétt á visir.is.     

Athugasemd: Orðafátækt mun ábyggilega gera útaf við íslenskt mál ef ekki kæmu til aðrar að hraðvirkari aðferðir. Ofangreint tilvitnun er höfð eftir forsætisráðherra.

Orðræða er nokkurs konar samheiti yfir margvíslegt tal og jafnvel skrif. Á malid.is segir:

Orðræða er samfellt talað mál sem inniheldur margar setningar. Orðræða getur verið í samtal, viðtal, brandari, frásögn, ræða, predikun o.fl.  

Orðræða er samfellt talað mál sem inniheldur fleiri en eina setningu, í texta eða tali. 

Niðurstaðan er þá þessi: Í stað orðins orðræða getum við sagt tal, talsmáti, orðaval, umræða, frásögn og raunar allt sem á við talað mál og ritað.

Í þessari sömu frétt talar forseti Alþingis um orðbragð sem merkir orðaval eða orðafar en þetta eru falleg orð sem þarflegt er að nota. Orðbragð er gegnsætt og þarf ekki að merkja eitthvað slæmt nema það komi sérstaklega fram. Hins vegar þekkum við það einkum í samhenginu ljótt orðbragð. Til dæmis finnst mér orðbragð Þórarins Eldjárns oftast fallegt og vel saman sett. Ekki var orðbragðið á Klausturbar fallegt né til eftirbreytni.

Tillaga: Slíkt tal er í senn óverjandi og óafsakanlegt …

3.

„„Snertimark“ er það kallað sem er afskaplega máttlaus þýðing. Væri ekki nær að nota orðið „niðursetningur“ um gjörninginn? 

Ljósvaki á bls. 50 í Morgunblaðinu 7.12.2018

Athugasemd: Hér er verið að agnúast út í málfar í fjölmiðlum en þó er vert að geta snilldarinnar, þá sjaldan hún sést. Orri Páll Ormarsson, blaðamaður á Mogganum skrifar í Ljósvakann og leggur fram orð til þýðingar í bandarískum fótbolta. 

Orðið niðursetningur var haft um sveitaómaga, fátækt fólk, stundum fatlað, en einnig börn og gamalmenni, sem komið var fyrir á heimilum óskyldra. Þetta er samsett orð og merkir bókstaflega að setja niður. Ekki má rugla því saman við það þegar einhver hefur sett niður vegna einhvers, það er orðið sér til minnkunar.

Mér finnst fótboltinn þarna vestra nokkuð flókinn og hef ekki mikinn áhuga á honum. Hins vegar þekkja margir orðið „touchdown“ sem hingað til hefur verið kallað snertimark á íslensku. Niðursetningur er snilldarorð en í það vantar þó markið þannig að ég geri varla ráð fyrir að það nái útbreiðslu, bandarískur fótbolti hefur hvort eð er ekki náð neinum vinsældum hér á landi.

Þrátt fyrir snilldina hefði málsgreinin sem hér er vitnað til mátt vera hnitmiðaðri. Snilldin er oft óþægilega takmörkuð.

Orri Páll segir í Ljósvakapistli sínum:

Annað sem mér finnst undarlegt í íþróttalýsingum í sjónvarpi er þegar leikmenn á EM kvenna í handbolta, sem nú stendur yfir, eru kallaðir Danir, Serbar og Þjóðverjar. Allt eru það karlkyns orð. Hvers vegna ekki Dönur, Serbur og Þjóðverjur? Er það ekki í takt við breytta tíma? Veit að vísu ekki alveg með Þjóðverjur; það hljómar meira eins og nafn á smokkum sem íslenska ríkið hefði einkaleyfi á.

Eftir að hafa lesið þetta hló ég upphátt.

Tillaga: „Snertimark“ er afskaplega máttlaus þýðing. Væri ekki nær að nota orðið „niðursetningur“ um fyrirbrigðið?

4.

„Á einum tímapunkti lét Helga hann Kjartan vita af því að stuðningsmenn Bröndby vory byrjaðir að banka og væflast um í garðinum. 

Frétt á visir.is. 

Athugasemd: Hvað í ósköpunum kemur orðið „tímapunktur“ málinu við? Ekkert. Þetta er eitt af þessum vita gagnslausu orðum sem einhverjir krakkar sem villst hafa í blaðamennsku finnst flott af því að það virðist svo útlenskt.

Jafnvel í ensku er orðið ofnotað, sjá vefsíðuna Grammarist en þar stendur:

The common phrase point in time could usually be shortened to just point or time. If neither of those words sounds right, there are other alternatives such as moment, second, and instant, which get across that we are talking about time.

Sama er með íslensku. Önnur orð eða umritun getur verið vænlegri kostur en að nota hið klisjukennda, ofnotaða orð.

Berum nú saman tilvitnaða textann og tillöguna hér fyrir neðan. Merkingin hefur ekkert breyst þó „tímapunkturinn“ hafi verið fjarlægður.

Tillaga: Helga lét Kjartan vita af því þegar stuðningsmenn Bröndby voru byrjaðir að banka og væflast um í garðinum.

5.

„Latifa lagði af stað á sjóskíðum frá Óman ásamt finnskri vinkonu sinni … 

Frétt/fréttaskýring á bls. 6 í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 8.12.2018 

Athugasemd: Líklega hefði verið trúlegra orðalag að Latifa hefði lagt af stað frá Oman á gönguskíðum. Að vísu fellur aldrei snjór í ríkinu sem er við mynni Persaflóa og á landamæri að Saudi-Arabíu og Jemen en það er nú bara smáatriði (!). 

Sjóskíði eiga það sameiginlegt með svigskíðum að þau eru ekki notuð til ferðalaga. Ekki er hægt að komast áfram á þeim nema vera dreginn eða fara niður brekku. Sem sagt, enginn ferðast á sjóskíðum nema bátur dragi ferðalanginn. Annars er fer hann „hvorki lönd né strönd“ eins og sagt er.

Í þeim erlendu fréttamiðlum sem ég hef lesið til að skilja frétt Moggans eru sjóskíði ekki nefnd heldur að Latifa hafi farið á snekkju (e.yacht) frá Óman. Má vera að í einhverjum útlendum fréttamiðlum sé sagt frá ferðalagi á sjóskíðum.

Tillaga: Latifa fór frá Óman á snekkju ásamt finnskri vinkonu sinni.

6.

„Aðeins einn sitjandi þingmaður telur að þingmennirnir ... 

Frétt á visir.is.  

Athugasemd: Hvað er sitjandi þingmaður? Er það þingmaður sem situr á þingfundi? Er það þingmaður sem situr yfirleitt? Þingmaður í bíl?

Á útlenskunni sem blaðamenn dá svo mikið segir af „sitting president“ í Bandaríkjunum. Þá er átt við núverandi forseta. Og svo mikið kunna þeir í íslensku að þeir halda að þingmaður sem kjörinn er á Alþingi Íslendinga sé „sitjandi þingmaður“. Þetta er alrangt. Sá einn er þingmaður sem kosinn hefur verið þingmaður og svarið eið að stjórnarskrá. Aðrir geta ýmist verið fyrrverandi þingmenn eða ekki þingmenn. 

Hér er gáta. Ef sitjandi þingmaður er núverandi þingmaður, hvað er þá standandi þingmaður? En liggjandi þingmaður?

Tillaga: Aðeins einn þingmaður telur að þingmennirnir ...


Bloggfærslur 8. desember 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband