Engir jarðskjálftar á Hellisheiði

181230 kort jarðskjálfti bÍ frétt í Morgunblaðinu segir að jarðskjálftar hafi orðið í nótt á Hellisheiði. Þetta er rangt. Þeir urðu fyrir sunnan heiðina, raunar sunnan við Skálafell sem oft er kennt við hana.

Á meðfylgjandi loftmynd sem fengin er af map.is eru mörk Hellisheiðar gróflega teiknuð. Sé myndin stækkuð sést þetta enn skýrar.

Á töflu Veðurstofu Íslands um skjálftanna segir til dæmis um stærsta skjálftann sem var 4,4 stig að hann hafi verið „2,5 km SSV af Skálafelli á Hellisheiði“.

Þó svo að þannig sé tekið til orða er algjörlega ljóst að skjálftinn varð ekki á Hellisheiði.

Annar skjálfti varð 2,8 km NNA af Raufarhólshelli sem oft er sagður vera í Þrengslum en er talsvert fyrir sunnan þau. Þar af leiðir að skjálftinn var ekki í Þrengslum og allra síst á Hellisheiði.

Blaðamaður Moggans lætur tilvísunina villa sér sýn. Suður af Skálafelli á Hellisheiði þýðir ekki að skjálftarnir hafi verið á Hellisheiði. Þó Hádegismóar séu gata norðvestan við Rauðavatn þýðir það ekki að hún sé í vatninu ...

Rétt fyrir jól varð mikil jarðskjálftahrina norðaustan við Grindavík, suðvestan í Fagradalsfjalli. Margir skjálftarnir voru stórir, að minnsta kosti einn var 3,2 stig. Fátt var sagt af þessari hrinu í fjölmiðlum. Líklega eins gott því einhverjir blaðamenn kynnu að hafa sagt að jarðskjálftarnir væru í Grindavík.

Landafræðin skiptir öllu máli, ekki aðeins fyrir lesendur dagsins í dag. Síðar meir munu fréttir teljast heimildir um það sem gerðist og þá er illt til þess að hugsa að þær séu ekki áreiðanlegar.


mbl.is 25 eftirskjálftar hafa mælst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. desember 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband