Málvillan á strætisvagninum

IMG_6124Kostnaður Strætó bs. við að heilmerkja einn strætisvagn er 500.000 krónur auk virðisaukaskatts. Þá kostar 33.500 krónur auk virðisaukaskatts að slagorðamerkja hvern vagn fyrirtækisins.

Svo segir í frétt í Morgunblaði dagsins. Þetta er dýrt og því mikilvæg er að vel sé vandað til merkinga og ekki síður að málfarið sé rétt. Er annars vandað til verka?

Nokkuð langt er síðan ég tók eftir því að á einum strætisvagni stendur svart á hvítu gulu:

Besta leiðin til að smakka ísinn í öllum 31 ísbúðum bæjarins.

Enginn segir: ... í öllum þrjátíu og einni ísbúðum bæjarins.

Ekki heldur ... í þrjátíu og einum ísbúðum bæjarins. Hvort tveggja er rangt.

Reglan er þessi: Síðasti hluti töluorðsins ræður beygingu.

Sagt er að ísbúðir bæjarins séu þrjátíu og ein, 31. Þar af leiðir að eftirfarandi er rétt:

Besta leiðin til að smakka ísinn í öllum 31 ísbúð bæjarins. Það er ... í öllum þrjátíu og einni ísbúð bæjarins.

Fjölgum ísbúðunum um eina. Þá er ekkert að og skiptir engu hversu margar ísbúðirnar eru. Aðeins talan einn, 1, breytir fallinu á ísbúð ekki hinar.

Besta leiðin til að smakka ísinn í öllum 32 [33/34/35/36/37/38/39/40/42] ísbúðum bæjarins.

Vandinn hér fyrir ofan  liggur í því að þeir sem halda á penna vilja sumir hverir nota tölustafi í stað þess að skrifa tölurnar. Víða í rituðu máli fer miklu betur á hinu síðarnefnda.

Sögnin að smakka er fyrir löngu búin að fá þegnrétt í íslensku máli og ekkert lengur við því að segja. Hins vegar er víst að textagerðarmenn með góðan smekk hefðu notað í staðin sögnina að bragða.

Nú er ég enginn sérfræðingur í íslensku máli og þess vegna velti ég því fyrir mér hvers vegna hefur enginn gert athugsemdir við málvilluna á strætisvagninum? Annað hvort nennir enginn að leggja orð í belg eða þá að enginn tekur eftir þessum slagorðum. Hvort er nú verra?

Verst er að auglýsingastofan sem sá um að safna saman slagorðum á strætisvagna hefur ekki algjörlega staðið sig. Eftir stendur þessi spurning: Er kostnaður vegna auglýsingastofunnar tekinn með í reikninginn eða kostaði slagorðamerkingin á hvern vagn ekki 35.000 krónur heldur 55.000?


Bloggfærslur 26. október 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband