Mogginn segir Stór-Kóngsfell heita Vífilsfell

Kongsfell, mblFjölmiðlar fara stundum villur vegar í landafræðinni og það gerir Mogginn í morgun. Birt er dulúðug mynd af Stóra-Kóngsfelli og það látið heita Vífilsfell sem raunar er um sjö kílómetra austan við hið fyrrnefnda í beinni loftlínu. Stóra-Kóngsfell er er örskammt frá skíðasvæðunum í Bláfjöllum.

Vífilsfell hefur mörg svipbrigði sem draga dám af árstíðum og ekki síður veðri dagsins. DSC_0613 Vífilsfell, hraun, snjórSvo eru hliðar fjallsins fjölbreytilegar og ólíkar. Helst er að það bjóði göngumanninum góðan daginn þegar himinn er heiður og sólin skín. Þá er fjallið eins og sést á myndinni til hægri, snjór hefur fallið og þarna er ekkert annað en fegurðin ein.

Esjan er yndisfögur
utanúr Reykjavík.
Hún ljómar sem litfríð stúlka
í ljósgrænni sumarflík. 

DSCN0141bÞannig orti Þórbergur Þórðarson um Esjuna og mætti þetta erindi eitt líka vera um Vífilsfell. Víst er að á myndinni hér til hliðar ljómar það í litafegurð sinni undir fögrum ágústhimni.

Þannig er nú með Vífilsfell að það er langt frá því að líkjast Stóra-Kóngsfelli og ber líka miklu betur kóngsheitið. Krónan í Vífilsfelli er móbergið sem er svo stórkostlega myndríkt og fallegt, sérstaklega sunnan við toppinn.

KongsfellHér er loks mynd af Stóra-Kóngfelli sem ég kroppaði af vefnum ja.is. og er tekin af álíka sjónarhorni og efsta myndin. Þarna sést grilla í gígana á hálsinum vestan við fjallið, það er hægra megin.

Í Mogganum segir fyrir neðan myndina:

Vetur nálgast. Vífilsfell er eitt þeirra fjalla sem umlykja höfuðborgina og er það stundum talið til Bláfjalla. Nú breiðir snjóþekja úr sér víða um land og er þetta svipmikla fjall alhvítt.

Þetta er frekar skrifað af rembingi en andagift enda hef ég strikað frekjulega í textann. Frekar magurt er að segja að fjallið sé eitt þeirra sem „umlykja höfuðborgina“, ekki síst fyrir þá sök að Vífilsfell er nærri því að jöfnu innan Sveitarfélagsins Ölfuss og Kópavogs. Því hefði höfuðborgarsvæðið verið réttara orð. En hvað kemur eiginlega höfuðborgarsvæðið þessu við? Ekkert, þetta er bara innantómt tal.

Vífilsfell er tengt Bláfjöllum órjúfanlegum böndum og vart hægt að skilja þarna á milli.

Snjóþekja breiðir ekki úr sér eins og segir í textanum. Þessi talsmáti er í ætt við uppfinningu Vegagerðarinnar sem í sífellu segir að á vegum sé „snjóþekja“. Af hverju nægir ekki að segja snjór eins og um aldir tíðkaðist? Hvorki snjór né snjóþekja breiðir úr sér nema auðvitað í snjóflóði. Þegar „snjór breiðir úr sér“ þá er óhætt að segja að það snjói og sleppa tilgangslausum viðbótum. Illt er að sjá „nú“ tvítekið í einni málgrein. Einu sinni er nóg, annað nefnist nástaða.

Mogginn getur gert miklu betur.

Að þessu slepptu er ég bara hress.


Bloggfærslur 10. október 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband