Gleðileg jól til þín, nytjastuldur og lagt á dóttur

1.

„Hop jökla ógn­ar líf­ríki jök­uláa um all­an heim.“ 

Fyrirsögn á mbl.is.     

Athugasemd: Má vera að lesandinn hafi aðrar tilfinningu fyrir þessari fyrirsögn en sá sem hér ritar. Vissulega hopa jöklar en það sem meira er, og það er fréttnæmara, þeir rýrna. Hins vegar er fyrirsögnin góð og gild. Fréttin fjallar um það sem gerist á landi eftir að jökullinn hefur horfið (hopað, styst, minnkað, bráðnað, þynnst, rýrnað …).

TillagaRýrnun jökla ógn­ar líf­ríki jök­uláa um all­an heim.

 

2.

„Það þýðir að repúblikanar og demókratar hlutu jafnmörg atkvæði. Ríkislög Virginíu kveða á um að kasta skuli upp um sigurvegara ef jafnt er. Formaður kjörstjórnar segir líklegast að nafn sigurvegarans verði dregið úr glerskál.“ 

Frétt á visir.is.    

Athugasemd: Hér er margt að. Undarlegt að orða það þannig að „kasta skuli upp um sigurvegara“. Sá sem kastar upp er að gubba. Óskiljanleg barnamál er að orða það þannig að „kasta skuli upp um sigurvegara“. Ótvíræðara orðalag er að varpa hlutkesti.

Dráttur á nafni úr skál er ekki það sama og að varpa hlutkesti. Þetta er illa skrifuð frétt og nær óskiljanleg. Er enginn blaðamaður með metnað á visir.is?

Tillaga: Ríkislög Virginíu kveða á um að varpa skuli hlutkesti reynist tveir frambjóðendur með flest atkvæði.

 

3.

„Nokkrum dögum síðar fékk hann hringingu frá Happdrætti Háskólans og var boðið að taka þátt. Hann var þá nýbúinn að leggja á dóttur sína í Danmörku.“ 

Frétt á dv.is.     

Athugasemd: Ekki kemur fram í fréttinni hvað maðurinn var búinn að leggja á dóttur sína. Má vera að hann hafi verið að tala við dóttur sína í síma og kann hún að búa í Danmörku. Með hefðbundnum borðsímum er hægt að „leggja á“, þá slitnar símtalið.

Með farsímum er hins vegar ekki hægt „að leggja á“. Þess vegna hefði blaðamaðurinn átt að orða þetta á annan og einfaldari hátt.

Tillaga: Hann var þá nýbúinn að tala við dóttur sína í síma en hún býr í Danmörku.

 

4.

„Með því vill fólkið sýna ungum sýrlenskum dreng sem missti augað í stórskotaliðsárás samstöðu.“ 

Frétt á visir.is.     

Athugasemd: Oft eru langar málsgreinar erfiðar sérstaklega þegar notuð eru orðtök. Stundum slitna þau og verða dálítið kjánaleg. Algengt er „að sýna samstöðu“ með einhverju eða eins og í tilvitnuninni hér að ofan. 

Þetta er ekki löng málsgrein en hefði mátt endurskrifa. Alltaf þarf að hugsa til lesenda. Sá sem skrifar skilur hugsanlega það sem hann fjallar um en þar með er ekki sagt að aðrir geri það. 

Sá sem þetta ritar velti því eitt augnablik fyrir sér hver þessi samstaða væri sem gerði stórskotaliðsárás. 

Eftirfarandi regla er frá Jónasi Kristjánssyni, fyrrum ritstjóra sem ráðleggur blaðamönnum að skrifa einfalt mál: „Strikaðu út óþörf orð, helmingaðu textann. […] Settu punkt sem oftast, styttu setningar og málsgreinar.“ Sjá jonas.is

Tillaga: Með því vill fólkið sýna samstöðu með ungum sýrlenskum dreng sem missti augað í stórskotaliðsárás.

 

5.

„Sending sem stíluð var á Steven Mnuchin, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, og óttast var að væri sprengja reyndist vera hrossatað sem ósáttur kjósandi sendi innpakkað.“ 

Frétt á visir.is.    

Athugasemd: Tað er þurrkaður skítur húsdýra. Fréttin er þýdd úr erlendum fréttamiðli og þar er enska orði „manure“ sem blaðamaður þýðir og kallar hrossatað.

Sá sem þetta ritar heldur að blessaður fjármálaráðherrann hafi beinlínis fengið blautan skít í pakkanum, sem hefur ábyggilega miklu betra til áhersluauka en sá þurri.

Tillaga: Sending sem stíluð var á Steven Mnuchin, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, og var óttast að væri sprengja, reyndist vera hrossaskítur sem ósáttur kjósandi sendi innpakkað.

 

6.

„Þeir sem gistu fangageymslur voru þar meðal annars vegna nytjastuldar á bifreið, ráns, líkamsárásar og þjófnaðar.“ 

Frétt á visir.is.    

Athugasemd: Nytjastuldur er líklega þjófnaður á einhverju til eigin nota, jafnvel til að selja. Þjófnaður er bara þjófnaður, þjófur er þjófur, steliþjófur er líka þjófur. Yfirleitt er það sem stolið er notað.

Hér er ekki eingöngu við blaðamann að sakast fyrir utan að hann tekur texta frá lögreglunni og birtir athugasemdalaust sem þykir nú ekki góð blaðamennska.

Skyldi sá sem ritaði textann vita hver er munurinn á „nytjastuld á bifreið“ og þjófnaði á bifreið? Eða muninn á ráni og þjófnaði? Held að á þessu sé stigsmunur. Þýfi nefnist það sem er stolið og sem líklega er dregið af nafnorðinu þjófur. Þjófnaður er hugsanlega eitthvað minna en rán. 

Sá sem þetta ritar veit ekki hvort nytjastuldur sé rán eða þjófnaður. Margvíslegu er stolið, til er bílstuldur, bókastuldur, bréfastuldur, eggjastuldur, fjárstuldur, gagnastuldur, heimildastuldur, hugverkastuldur, peningastuldur, smástuldur, vopnastuldur og ábygglilega fleiri samsetningar við orðið stuldur. Sá sem stelur getur svo verið stuldamaður.

Þar að auki er til munaþjófnaður. Er það nytjastjuldur?

Held að það sé hollt að velta þessu fyrir sér í stað þess að láta sem svo að þessi orð séu samheiti. Það er dálítið heimskt.

Tillaga: Þeir sem gistu fangageymslur voru þar meðal annars vegna ráns, líkamsárásar og þjófnaðar.

 

7.

„Gleðileg jól til þín, Gunna mín.“ 

Algeng kveðja á Facebook.    

Athugasemd: Víðar en á Facebook má sjá svona kveðjur. Þetta er ekki beinlínis rangt en heldur víðs fjarri íslenskum venjum. Yfirleitt er sagt: „Góðan daginn, Gunna mín“. Enginn segir góðan daginn til þín, Gunna mín. Það er frekar tilgerðarlegt og stirt.

Almenn er sagt gleðileg jól, gleðilegt ár, gleðilegt sumar og álíka án þess að bæta við forsetningunni „til“. Formlega dugar að segja: Ég óska þér gleðilegra jóla, Gunna mín.

Sá sem vill halda troða ensku máli inn í það íslenska gæti þess vegna sagt: Gleðilega Kristsmessu til þín, Gunna mín.

Tillaga: Gleðileg jól, Gunna mín.

 

8.

„Mannskæð snjóflóð voru í svissnesku Ölpunum yfir jólin þar sem þrír létust, einn skíðamaður og tveir fjallgöngumenn.“ 

Frétt á visir.is.     

Athugasemd: Í tilvitnuninn er tvítekið að fólk hafi farist í snjóflóðum. Blaðamaðurinn hefur varla tilfinningu fyrir því sem hann skrifar. Fréttin er flausturslega skrifuð og kemst ekki í hálfkvisti það sem segir á reuters.com.

Á Vísi segir þetta: „Að sögn lögreglu hreif snjóflóðið manninn með sér meira en kílómetra leið yfir grýtt svæði.“ 

Sögnin að hrífa merkir að taka, hrifsa eða álíka. Hún dugar ekki ein og sér, annað sagnorð vantar, það er sögnina að bera. Maðurinn barst með snjóflóðinu. Snjóflóðið féll á manninn og bar hann meira en einn kílómetra. 

Loks er greint frá því að „viðbragðsaðilar“ hafi fundið skíðamann. Þetta orð er frekar vinsælt. Við vitum að lögreglan bregst við mörgu, sama er með slökkvilið, sjúkraflutningamenn, björgunarsveitir, Landhelgisgæsluna, húsverði, gangbrautarverði, meindýraeyði og jafnvel þá sem ryðja snjó af þjóðvegum. 

Hverjir eru „viðbragðsaðilar“? Eru það þeir sem bregðast við einhverju, þeir sem bregður við, þeir sem bregðast … Getur verið að gangbrautarvörður hafi komið að skíðamanninum? Eða meindýraeyðir?

Staðreyndin er einfaldlega sú að „viðbragðsaðili“ er rassbaga frá blaðamönnum eða illa skrifandi höfundum fréttatilkynninga hjá lögreglu eða öðrum „viðbragðsaðilum“. Orðið er algjör óþarfi, ekki lýsandi á neinn hátt, miklu frekar letiorð þeirr sem nenna ekki að skrifa hver „viðbragðsaðilinn“ er

Tillaga: Skíðamaður og fjallgöngumenn fórust um jólin í snjóflóðum í svissnesku Ölpunum.

 

9.

„Tvö fjallaslys og tvær leitir á jóladag.“ 

Undirfyrirsögn á blaðsíðu 14 í Morgunblaðinu 27. desember 2017.     

Athugasemd: Fyrir kemur að bílar rekast á, þá er það bílslys. Allir vita hvað flugslys er. Umferðaslys ekki aðeins við bílslys heldur líka reiðhjólaslys, slys á á göngustígum og svo framvegis. 

Hvað skyldi „fjallaslys“ vera? Sumum þykir Akrafjall svo skrambi ljótt að það sé hreinlega slys hvernig til tókst hjá skaparanum. Einhver miður orðheppinn taldi annað fjall frekar í ætt við „mykjuhrúgu“ svo vægt sé til orða tekið. Í jarðsögunni getur eitt fjall rekist á annað en það gerist bara á löngum tíma.

Líklega á „fjallaslys“ við slys fólks í mörgum fjöllum. Þetta er svo sem ágætt nýyrði en ef göngumaður slasast í Vífilsfelli er það vænanlega „fjallslys“, það er í eintölu. Sé sagt frá því slysi og öðru í Akrafjalli  kallast þau „fjallaslys“, það er í fleirtölu.

„Fjallaslys“ er ekki nýtt orð og þrátt fyrir það sem hér segir er það þokkalega nothæft. Á mbl.is segir fyrir þremur árum: „Eitt versta fjalla­slys sög­unn­ar átti sér stað 17. júlí 1990 á Lenín­t­ind­in­um í Pamír­fjöll­um í Kirgíst­an, skammt frá kín­versku landa­mær­un­um.“ Á dv.is má finna álíka notkun á orðinu.

Þó fannst þeim sem þetta ritar meira lýsandi að nota þá tillöguna hér fyrir neðan.

Tillaga: Tveir slösuðust á fjöllum og tvisvar leitað að fólki.

 

10.

„Áramótamengunin skaðlegri en í eldgosi.“ 

Tilvísun í frétt á forsíðu á visir.is.       

Athugasemd: Þessi tilvísun er hreinlega röng en skrifast varla á blaðamannin því fréttin sjálf hefur þessa fyrirsögn: “Mengunin skaðlegri en í eldgosi“. Þetta veldur engum misskilningi.

Sé eldgos í gangi um áramót veldur það varla meiri mengun um áramót en á öðrum tímum árs. Hins vegar er mikið um skotelda um áramót og þeir menga.

Tillaga: Mengun um áramót er skaðlegri en í eldgosi.


Bloggfærslur 2. janúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband