Lönd sem ferðast og framleiðsla á framleiðslu ...

Dæmi um málfar í fjölmiðlum vikuna 3. til 9. september 2017. 

1.

„Bandaríkin hætti öllum viðskiptum við lönd sem stunda viðskipti við Norður-Kóreu.“ 

Fyrirsögn á visir.is

Athugasemd: Í fréttinni er fjallað um hugmyndir Bandaríkjaforseta um að hætta þessum viðskiptum. Ekkert er þó ákveðið og þar með ætti sögnin ekki að vera í viðtengingarhætti. Betur fer á því að orða fyrirsögnina á annan hátt. Svo er það nástaðan, hætta viðskiptum við þá sem stunda viðskipti. Blaðamenn virðast margir hverjir ekki sjá hana.

Tillaga: Bandaríkin eiga að hætta öllum viðskiptum við lönd sem stunda versla við Norður-Kóreu.

2.

„Guðjón áfram meidd­ur og Löwen tapað.“ 

Fyrirsögn á mbl.is.

Athugasemd: Hér fer betur á því að nota atviksorðið ‚enn‘ í staðin fyrir ‚áfram‘. Hins vegar er þetta hugsanlega smekksatriði. Bendir þó til þess að sá sem skrifar hafi ekki þau tök á málinu sem þarf.

Tillaga: Guðjón enn meiddur og Löwen tapaði.

3.

„Veggjakrot­ari vistaður í fanga­klefa.“ 

Fyrirsögn á mbl.is.

Athugasemd: Afbrotamaðurinn var settur í fangelsi. Hvers vegna er verið að klúðra sjálfsögðu orðalagi og farið að „vista“ menn í fangelsi? Er eitthvað fínna að vista glæpamann í fangelsi? Lýsir sögnin ‚að vista‘ betur því sem gert var? Nei og nei. Næst má búast við því að glæpamaður verði hýstur í fangelsi.

Sagt var forðum að fólk færi í vist, sumir höfðu vistaskipti, enn aðrir áttu erfiða vist og svo eru þeir til sem spiluðu vist. Þetta er allt þekkt og fjöldi fólks hefur búið á heimavist. Vonandi verður fangelsi aldrei kallað heimavist.

Í fréttinni kemur fram að krotarinn hafi verið settur inn vegna „eignaspjalla“ sem er vissulega rétt. Þó má fullyrða að allir viti ástæðuna fyrir því að veggjakrotari sem er gripinn og settur í fangelsi. Að minnsta kosti var það ekki vegna þess að hann gekk yfir gangbraut á móti rauðu ljósi! Eru málalengingar sem þessar ekki leiðinlegar í fréttum?

Tillaga: Veggjakrotari handtekinn og settur í fangelsi.

4.

Halldór ætlar samt að sitja út kjörtímabilið og hann ætlar að vera áfram virkur í grasrótarstarfi í flokknum.“ 

Fyrirsögn á dv.is.

Athugasemd: Tvítekningar og stundum margtekningar í texta eru oft kallaðar nástaða. Slíkur stíll er ljótur og getur eyðilagt frásögn en er engu að síður afar algengur í fréttum hér á landi.

Oft á tíðum er afar auðvelt að sleppa við nástöðuna með því að skrifa sig fram hjá henni. Til þess þurfa skrifarar í það minnsta að lesa yfir texta sinn og í öðru lagi koma auga á hana og í þriðja lagi að kunna að lagfæra. Sá sem skrifaði tilvitnunina hefði að ósekju mátt lesa yfir eða fá einhver til þess.

Tillaga: Halldór ætlar samt að sitja út kjörtímabilið og vera áfram virkur í grasrótarstarfi í flokknum.

5.

„Lars Lagerback og lærisveinar hans voru niðurlægðir þegar Noregur heimsótti Þýskaland í undankeppni HM í kvöld.“ 

Frétt á pressan.is

Athugasemd: Alveg ótrúlegt af Norðmönnum að setja einhverja skólastráka í landsliðið. Ætla má þó að betur gangi þegar lærisveinarnir útskrifast.

Nei ... leikmenn norska landsliðsins eru ekki lærisveinar þjálfarans. Ekki frekar en blaðamaðurinn sem skrifað þessa frétt er lærisveinn ritstjóra Pressunnar. Á annan hátt er þetta er skrýtið orðalag. Af hverju er ekki sagt að þetta hafi gerst í fótboltaleik? Blaðamaðurinn telur niðurlæginguna hafa gerst þegar Noregur heimsótti Þýskaland. Það er ekki hægt. Norska landsliðið heimsótti það þýska, lönd fara hvergi.

Tillaga: Þýska landsliðið í fótbolta niðurlægði það norska sem leikur undir stjórn Lars Lagerback.

6.

„Hver þekkir sjálfan sig?“ 

Myndatexti á bloggsíðunni fornleifur.is

Athugasemd: Fornleifur birtir gamla mynd af drengjum fyrir utan hús í Kaldárseli og spyr þessarar spurningar. Ein og sér er hún nokkuð fyndin. Gæti verið af heimspekilegum toga. Sé svo er svarið eitthvað á þá leið að fæstir þekki sjálfa sig fyrr en á reynir.

Hinn ágæti höfundur bloggsins er þó ekki á þeim buxunum heldur er hann einfaldlega að spyrja hvort einhver lesenda þekki sig á myndinni. Ég áttaði mig á spurningunni en hló við, gat ekki annað. Hún mætti vera skýrari í þessu sambandi þó hún sé það í öðru.

Tillaga: Eru einhverjir lesenda á myndinni?

7.

„Hátt gengi veiki samkeppnisstöðu.“ 

Fyrirsögn á bls. 10 í Morgunblaðinu 6. september 2017.

Athugasemd: Misnotkun á viðtengingarhætti veldur því að frétt á borð við þessa misskilst. Fyrirsögnin bendir til þess að það sé óskandi að hátt gengi krónunnar veiki samkeppnisaðstöðu. Hugsunin virðist þó vera þveröfug ef öll fréttin er lesin.

Tillaga: Hátt gengi veikir samkeppnisstöðu.

8.

„Ég til dæm­is ætla að fara á skíði í vet­ur …“ 

Viðtal á „Smartlandi“ mbl.is.

Athugasemd: Hér er rætt við mann sem segir frá sjálfum sér en orðaröðunin er röng. Má vera að stundum sé orðlagið á þennan hátt í viðtölum en þá ber blaðamanni að lagfæra vegna þess að nokkur munur er á talmáli og ritmáli.

Ólíklegt er að maðurinn taki sjálfan sig sem dæmi um þann sem ætlar að fara í frí í vetur. Hér er frekar hallast að því að hann ætli að gera margt skemmtilegt í vetur, til dæmis að fara á skíði. Hugsanlegt ætlar hann ekki að gera neitt annað í vetrarfríi sínu en að fara á skíði og þá er óþarfi að segja „til dæmis“ þar sem ekki eru fleiri kostir í boði.

Tillaga: Ég ætla til dæmis að fara á skíði í vetur …

9.

„99 ára fékk „nei“ við plássi á hjúkrunarheimili.“ 

Fyrirsögn á bls. 4 í Morgunblaðinu 8. september 2017.

Athugasemd: Þetta er dálítið barnaleg fyrirsögn. Sjaldan fer vel á því að byrja setningu á tölustöfum en líklega er það smekksatriði enda ekki gegn málfræðireglum.

Hvort fer nú betur á því að segja að konan hafi „fengið nei við plássi á hjúkrunarheimili“ eða að henni hafi verið neitað eða synjað um plássið?

Tillaga: Hjúkrunarheimili neitar 99 ára gamalli konu um pláss.

10.

„Við erum ekki að framleiða söluvöru í dag en erum að framleiða tilraunaframleiðslu …“

Davíð Tómas Davíðsson, matvælafræðingur í viðtali á blaðsíðu 15 í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 9. september 2017

Athugasemd: Sem sagt, fyrirtækið sem viðmælandinn er að vinna hjá framleiðir framleiðslu. Gott að vita. Raunar hefði blaðamaðurinn átt að sjá þessa vitleysu og leiðrétta.

Tillaga: Við erum í tilraunaframleiðslu, sú vara er ekki til til sölu …

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 10. september 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband