Sláandi munur á landsfundi Sjálfstæðisflokksins og aðalfundi Pírata

Aðalfundur PírataAðalfundur Pírata var um síðustu helgi. Um sjötíu manns mættu á hann og réði þetta fólk ráðum sínum. Þessi mynd var tekin við það tækifæri. Í síðustu Alþingiskosningum fengu Píratar 27.449 atkvæði. Fundarsókn á aðalfundinum virðist vera í litlu samræmi við fjölda kjósenda.

Landsfundur Sjfl 2015Landsfundur Sjálfstæðiflokksins verður haldinn 3. til 5. nóvember næstkomandi. Hann er að jafnaði haldinn annað hvert ár. Þessi mynd var tekin á síðasta landsfundi. Nærri tvö þúsund manns sóttu fundinn.

Þess má geta að fundir margra málefnanefnda voru þá fjölmennari en aðalfundur Pírata. Flokkurinn fékk 54.990 atkvæði í síðustu Alþingiskosningum. Styrkur flokksins felst meðal annars í því að svo margir taka þátt í málefnastarfi hans.

 


Þingmaður sækist eftir fyrsta veðrétti í dægurmáli

Sumir kalla það að „stela málum“ þegar þingmenn grípa dægurflugur eða fréttir og krefjast fundar í nefnd Alþingis til að ræða reginhneyksli, óréttlæti eða mannvonsku. Aðrir nefna þetta að „hertaka mál“.

Í sjálfu sér skiptir litlu hvað það er kallað en tilgangurinn er einfaldlega sá að verða sér út um fjölmiðlaumfjöllun.

Þegar svo er komið að þingmenn halda að skipti öllu að komast í fjölmiðla þá er eitthvað að. Um leið virðist afar skammt í einhvers konar „pópulisma“ eða að haga seglum eftir vindi. 

Að sjálfsögðu kunna fjölmörg mál að vera þess eðlis að brýnt sé að ræða þau í þingnefndum og sum eru ærið alvarleg. Það fer þó ekki á milli mála þegar þingmaður sækist eftir fyrsta veðrétti í dægurmáli.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir pantar að eiga umfjöllun um áhuga kínverskra fjárfesta um kaup á jörðinni Neðri-Dal í Biskupstungum. Enn hefur hún ekki pantað þingfund um myglu í húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur. Skrýtið.


mbl.is Þurfum að vera vakandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krafa Kvennablaðsins um að afpersónugera fólk

Fólk sem vinnur embættisstörf þar sem hlutleysis er krafist á að gæta þess í hvívetna að persóna þeirra verði sem ósýnilegust. Ósjaldan eru góðir embættismenn út á við fölleit grámenni sem fáir vita hvaða menn hafa að geyma.

Þannig skrifar Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, ritstjóri vefritsins Kvennablaðið. Tilefnið eru umræður um klæðaburð konu sem er ríkissaksóknari. Svo illilega mislíkaði ritstjóranum við klæðaburðinn að hún skrifaði ofangreint og bætir svo við:

Saksóknari klæðist hempu til að verða hluti af þeirri stofnun sem hann tilheyrir og starfar fyrir. Hempan beinlínis táknar hlutleysi og á að afpersónugera þann einstakling sem henni klæðist. Gamaldags kannski en er það ekki einmitt nauðsynlegt í starfi saksóknara?

Embættismenn sem klæðast flegnum stuttum kjólum eða nærbol og stuttbuxum undir flaxandi hempunni draga óneitanlega athyglina frá störfum sem þau gegna og að þeim sjálfum. Það segir sig sjálft.

Þessi orð eru með ólíkindum og eru ekkert annað en fasismi af verstu gerð, tilraun til að afmá öll persónueinkenni fólks.

Eiga íslenskir embættismenn að vera hlutlausir? Nei, þeir eiga að taka afstöðu til ólíkra mála, skera úr um álitamál og halda því fram sem hagkvæmast er fyrir íslenska þjóð og þá auðvitað með hliðsjón af þeirri stofnun sem þeir vinna hjá. Ótal dæmi eru um slíkt og á móti kemur að fjöldi dæma eru til um hið gagnstæða. Á umboðsmaður Alþingis að vera hlutlaus, á ríkisendurskoðandi, sýslumaður eða forstjóri Barnaverndarstofu? Þessir aðilar taka afstöðu og þeim er borgað fyrir það. Síst af öllu er saksóknari hlutlaus.

En ... þeir þurfa að gæta að lögum, reglum og fjölmörgu öðru. Þar með er ekki sagt að þeir séu gráir eða ósýnilegir. Þeir fara í sundlaugarnar, ganga á fjöll, skokka, sleikja sólina, hlægja og skemmta sér með vinum og ættingjum. Og það sem meira er, embættismenn koma fjölmargir í vinnuna sólbrúnir og ferskir eða kátir og glaðir eftir að hafa notið tímans eftir vinnu eða í sumarfríi.

Hvað er hlutleysi? Saksóknari sem styðst við staf eða hækjur hefur ákveðin persónueinkenni sem ekki verða frá honum tekin. Hvernig er hægt að „afpersónugera“ hann? Hárlaus maður hefur önnur persónueinkenni en sá sem er með mikið hár. Hvorn á að „afpersónugera“? Dimmraddaður maður er eftirtektarverður miðað við þann sem ekki hefur slíkan róm? Hvorn á að „afpersónugera“? Sumir eru dökkir yfirlitum, margir ljósir, aðrir með freknur. Þannig verður æ erfiðara að „afpersónugera“ einstakling. Nema auðvitað með valdboði eins og gerist víða undir yfirskini trúar.

Í íslömskum rétttrúnaði er konum víða gert að klæðast hempu, poka sem settur er yfir þær svo enginn karl fái á þær litið og geti truflast kynferðislega í daglegum störfum sínum. Þær þakka auðvitað allraáaðarsamlegast fyrir að gat sé gert á pokann svo þær sjái frá sér. Þessar konur hafa á mjög einfaldan hátt verið „afpersónugerðar“. Má vera að ritstjóri Kvennablaðsins hafi haft þessa einföldu lausn í huga þegar hún býsnast yfir embættismönnum „sem klæðast flegnum stuttum kjólum eða nærbol og stuttbuxum undir flaxandi hempunni draga óneitanlega athyglina frá störfum sem þau gegna og að þeim sjálfum. Það segir sig sjálft.“

Krafa Steinunnar Ólínu um að „afpersónugera“ fólk er merkileg. Hún er að hvetja til ofbeldis. Hvað á að gera ef fólk neitar að gangast undir „grámennskuna“? Karlmaður neitar til dæmist að nota bindi og ganga í jakka og kona sem neitar að hneppa pokann upp í háls?

Ágæti lesandi, áttarðu þig á því hversu forpokuð og gamaldags þessi skoðun Steinunnar Ólínu Þorsteinsdóttur, ritstjóra Kvennablaðsins er? 

  • Embættismenn eiga að vera „grámenni“.
  • Saksóknari skal „afpersónugerast“.

Þetta eru einfaldlega andstyggileg viðhorf, fjandsamleg konum jafnt og körlum. Þau ganga þvert gegn þeirri hvatningu að móttaka fjölbreytileika einstaklinga, leyfa þeim að njóta sín.

Fyrir alla muni, berjumst gegn svona fasískum tilburðum til að steypa alla í sama mót. Fögnum fjölbreytileikanum.


Bloggfærslur 28. ágúst 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband