Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Vafamál: „Stela dýrag­arðsdýr­um til mat­ar.“ Fyrirsögn á mbl.is

Athugasemd: Ofangreinda fyrirsögn má skilja á þann veg að einhver hafi stolið mat til að gefa dýrum í dýragarðinum. Nei, blaðamaðurinn á við að svangt fólk hafi stolið dýrunum og étið þau. Sé þetta réttur skilningur af hverju er það þá ekki sagt í stað þess að flækja málin? Svo má velta því fyrir sér hvort hægt sé að nota einhver önnur orð en dýragarðsdýr, tvítekning, rétt eins og bílaleigubíll.

Tillaga: Dýragarðsdýrum stolið og þau étin.

2.

Vafamál: „Símkerfi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins liggur nú niðri“ Frétt á visir.is

Athugasemd: Líklega er símakerfið bilað. Þegar þannig stendur á hneygjast margir til að segja eitthvað annað. Líklega er þetta smit frá ensku máli,  „The phones are down“. Janvel ensk tunga hefur fjölda orða sem líka er hægt að nota: „not functioning, not functional, not in working order, not in operation, inoperative, malfunctioning, out of order, broken, broken-down, acting up, unserviceable, faulty, defective, in disrepair; not in service, unavailable for use, not in use, out of action, out of commission; informal conked out, bust, (gone) kaput, gone phut, on the blink, gone haywire …“ Þannig er íslensk líka, þeir vita sem leggja stund á lestur.

Tillaga: Símakerfi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins liggur nú niðri/er óvirkt.

3.

Vafamál: „Halldór hefur stigið til hliðar.“ Dæmigert orðalag í fjölmiðlum. 

Athugasemd: Núorðið hætta menn sjaldnast að mati fjölmiðlunga. Svo enskuskotnir eru þeir að ekki má lengur segja að einhver sé hættur. „He has stepped aside …,“ er stundum sagt á ensku. Enskir segja líka: „he stepped down as …“ Þá er líka átt við að maðurinn hafi hætt. Á sama hátt er sagt: „ She stepped in to take his place,“ og þá er átt við að hún hafi tekið við starfi hans. Sá sem heldur að hægt sé að nota ensku sem fyrirmynd í íslensku á við vanda að etja. Miklu betra er að segja að einhver hafi hætt því aldrei er að vita hvað sá er að gera sem stígur til hliðar. Og fyrir alla muni ekki segja að Halldór hafi stigið niður og síst af öllu að arftakinn hafi stigið inn.

Tillaga: Halldór er hættur.

4.

Vafamál: „Ef maður hefði meiðst í leik þá hefði samningurinn verið af borðinu fyrir mig og klúbbana.“ Frétt á vefsíðunni 433.is

Athugasemd: Hér er átt við að vegna meiðsla hefði ekkert orðið úr samningi, hann dreginn til baka. Á ensku er sagt: „The offer remains on the table“ eða „it is off the table“. Annað hvort er samningurinn í boði eða ekki. Borð skiptir hér engu. Íslenskan ræður við aðstæðurnar án þess. Raunar er þessi málsgrein illa skrifuð og hugsunarlaust.

Tillaga: Ef ég hefði meiðst í leik hefði samningurinn verið dreginn til baka.

5.

Vafamál: „Samkvæmt mýtunni barðist hershöfðinginn gegn íslamistum með því að nota svínsblóð í fjöldamorði.“ Frétt á visir.is

Athugasemd: Þetta er eiginlega óskiljanleg málsgrein. Blaðamaðurinn hefði þurft að umorða hana svo hún skiljist. Síðar í fréttinni kemur að vísu í ljós hvers kyns var. Málsgreinin hefði ekki verið út í hött hefði skýringin komið strax á eftir, það er þetta að nota svínsblóð.

Tillaga: Engin tillaga.

6.

Vafamál: „Samkvæmt trúarsetningu múslima eru svín óhrein dýr og er múslimum alfarið meinað að borða kjöt þeirra.“ Frétt á visir.is

Athugasemd: Nokkur munur er á því að meina einhverjum eitthvað eða banna. Sá sem þetta ritar skilur sögnina að meina þannig að einhver sé hindraður: lögreglan meinaði ljósmyndara að komast að slysstað eða að einhverjum er meinað að kaupa skotvopn. Á móti kemur að margt er í lögum sem bannar borgurunum að gera hitt eða þetta. Bannað er að aka á rauðu ljósi þó enginn meini mér að gera það. Dálítið asnalegt og algjörlega stíllaust að segja eða skrifa: Svín eru óhrein dýr og bannað að borða kjöt þeirra. Lóan er þjóðarfugl Íslendinga og bannað er að borða kjöt hennar. Að vísu er þetta síðasta ekki rétt, hins vegar er bannað að skjóta fuglinn. Eftir stendur að sá sem svona ritar telst illa ritfær.

Tillaga: Samkvæmt trúarsetningu múslima eru svín óhrein dýr og er þeim alfarið bannað að borða svínakjöt.

7.

Vafamál: „„Við erum bara svolítið að missa unga fólkið frá okkur í ferðaþjónustu,“ segir Þórgunnur Torfadóttir, skólastjóri Hornafjarðar, í samtali við Vísi.“ Frétt á visir.is

Athugasemd: Þetta er svolítið skrýtið sem haft er eftir skólastjóranum og honum ekki til sóma. Af samhengi fréttarinnar má ráða að það sé ekki margt fólk sem fari frá kennslu í ferðaþjónustu. Það er hins vegar þetta atviksorð ‚svolítið‘ sem bögglast fyrir þeim sem þetta ritar en hann hefur ekki næga þekkingu til að skýra hvers vegna. Held þó að það sé atviksorð og strax á eftir nafnháttur sagnar sem truflar. Meira er þó að. Skólastjórinn er undir erlendum áhrifum þegar hún segir: ‚Við erum bara …‘ Atburðurinn er yfirstaðinn, hún hefur þegar misst fólkið. Um þetta var rætt í þessum pistli, sjá þar lið nr. 3.

Tillaga: Við höfum misst fólk úr kennslu í ferðaþjónustu, þó ekki marga.

8.

Vafamál: „Meirihluta stuðningsmanna Donalds Trump Bandaríkjaforseta segjast munu aldrei, nokkurn tímann hætta að styðja hann. Sama hvað.“ Frétt á visir.is

Athugasemd: Niðurlagið í tilvitnuninni er dæmi um áhrif úr ensku. Blaðamaðurinn er reynslulítill og enginn les yfir það sem hann skrifar. Á vefsíðu CNN segir: „Most people who are on the Trump train say they are definitely, absolutely never getting off -- no matter what.“ „No matter what,“ er innihaldsrík fullyrðing á ensku. „Sama hvað,“ hefur enga merkingu á íslensku. Botninn vantar. Setning verður að hafa sögn til að standa undir nafni. Blaðamaður sem er glöggur, vel lesinn og skynsamur (eins og allir blaðamenn eiga að vera) hefði ekki þurft að gera neitt annað en að bæta við einu sagnorði og þá hefði allt gengið upp.

Tillaga: Meirihluta stuðningsmanna Donalds Trump Bandaríkjaforseta segjast munu aldrei, nokkurn tímann hætta að styðja hann. Sama hvað gerist.

9.

Vafamál: „Slökkvilið þurfti að brjóta sér leið inn í íbúðina en reykur lá yfir allri íbúðinni þegar inn var komið.“ Frétt á visir.is

Athugasemd: Hvernig getur reykur „legið yfir íbúðinni“? Jú, hafi hann verið á næstu hæð. Af fréttinni má hins vegar ráða að reykur hafi verið í íbúðinni. Óskiljanlegt er hvers vegna blaðamaðurinn tekur svona til orða. Svo er það stóra spurningin: Var ekki reykur í íbúðinni áður en slökkviliðsmenn komust inn í hana? Illa skrifuð frétt, orðið íbúð tvítekið.

Tillaga: Slökkvilið þurfti að brjóta sér leið inn í íbúðina sem var full af reyk.

10.

Vafamál: „Krón­prins komst ekki inn án skil­rík­is“ Fyrirsögn á mbl.is.

Athugasemd: Skilríki er fleirtöluorð og ekki til í eintölu. Án efa hefur blaðamaðurinn gert mistök í fljótfærni sinni því í greininni er rétt farið með orðið. Hins vegar er ekkert að því að stoppa kóngafólk af og krefjast skilríkja þegar það á við.

Tillaga: Krónsprins komst ekki inn án skilríkja.


Bloggfærslur 24. ágúst 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband