Eru ljón á eða í veginum?

Hér er fjallað um málfar og stuðst við „Gott mál“, ritgerð Ólafs Oddssonar, íslenskukennara í MR, útgefin 2004.

Ólafur (f. 1943, d. 2011) er mjög eftirminnilegur fyrir þekkingu sína, ljúfa lund og góða hæfilega til að vekja athygli manns á blæbrigðum íslenskrar tungu og fornbókmenntum. Ritið sem hér er nefnt er afar fróðlegt og tekur á mörgu ambögum sem enn má sjá í fjölmiðlum, því miður.

1.

Vafamál: „Fótboltamaðurinn sparkaði boltanum upp völlinn.“ Algengt í íþróttafréttum fjölmiðla.

Athugasemd: Þetta er einfaldlega rangt vegna þess að fótboltavöllur er ekki lóðréttur.  Margir íþróttafréttamenn halda að þeir geti búið til einhvers konar „íþróttamál“. Við getum ekki heldur farið „niður“ til Spánar. Betra er að fara suður til Spánar og norður til Íslands, alls ekki „upp“ til Íslands.

Tillaga: Fótboltamaðurinn sparkaði boltanum fram völlinn. 

2.

Vafamál: „Þetta tilboð er með öllu óásættanlegt.“ Algengt orðalag í fréttum fjölmiðla.

Athugasemd: „Óásættanlegt“ er hrá þýðing úr ensku: „unacceptable“. Íslenskan á hér mörg ágæt orð: ótækur, óviðunandi, fráleitur, kemur ekki til greina/álita. Sama má segja um orðið „ásættanlegt“.

Tillaga: Þetta tilboð er fráleitt.

3.

Vafamál: „Bankarnir eru að skila góðum hagnaði um þessar mundir.“ Algengt orðalag í fréttum fjölmiðla.

Athugasemd: Sumir nota alloft orðasambandið vera + nafnhátt af aðalsögn. Dæmi: Víkingar eru að standa sig vel í þessum leik. Betra væri: Víkingar hafa staðið sig vel í þessum leik. Annað dæmi: Athafnamenn eru að græða mikið um þessar mundir. - Þetta eru erlend máláhrif og hekki mælt með þessu orðalagi hér.

Tillaga: Bankarnir skila góðum hagnaði um þessar mundir.

 

4.

Vafamál: „Þegar þú ert að klífa hæstu fjöll heims þá þarft þú að nota súrefnisgrímu.“ Algengt orðalag í tal- og ritmáli.

Athugasemd: Fornafnið ‚þú‘ hefur lengst af haft merkinguna: persóna sem er ávörpuð. Dæmi: Þú ert vinur minn - Æ meir hefur borið á því að menn noti fornafnið ‚þú‘ sem óákveðið fornafn, það er „maður“. Það er talið ættað úr ensku enda getur fornafnið ‚you‘ haft þessa merkingu. Það leiðir og oft til stílhnökra vegna nástöðu eins og fram kemur í tilvitnuninni.

Tillaga: Þeir sem klífa hæstu fjöll heims þurfa að nota súrefnisgrímu.

5.

Vafamál: „Sumir vilja hafa hér bjór á boðstólnum.“ Algengt orðalag í fjölmiðlum.

Athugasemd: Sumir virðast ekki skilja orðalagið ‚hafa eitthvað á boðstólum’. Það merkir að hafa e-ð‚ til sölu eða hafa e-ð fram að bjóða. Boðstólar tákna bekki eða borð sem vörur voru fram boðnar á. Að hafa e-ð á boðstólum -  ekki: ?boð- eða borðstólnum - merkir því upphaflega að hafa vöru á slíkum bekkjum eða borðum eða með öðrum orðum: að hafa eitthvað til sölu. 

Tillaga: Sumir vilja hafa hér bjór á boðstólum.

6.

Vafamál: „Hún fór villur vegar.“ Algengt orðalag í fjölmiðlum.

Athugasemd: Hvort er betra: Hún fór vill vegar (vega) eða: Hún fór villur vegar (vega)? - Hið fyrra er betra. Orðið ‚villur‘ er lýsingarorð, en ef. er svonefnt tillitseignarfall. Þetta er með sama hætti og þegar sagt er: Hann er illur/hún er ill viðureignar. Orðalagið ‚fara villur vega‘, þýðir að villast, vera villtur. Menn segja: Hann fór villur, - þeir fóru villir, - hún fór vill og þær fóru villur vega(r).

Tillaga: Hún fór vill vega.

7.

Vafamál: „Mörg ljón eru í veginum.“ Algengt orðalag í fjölmiðlum.

Athugasemd: Þekkt er orðtakið ‚Það eru mörg ljón á veginum‘, það er margt verður hér til hindrunar eða veldur erfiðleikum. Líkingin er auðskilin er  stundum virðast menn ekki skilaorðtakið og tala þá um ‚ljón í veginum‘. þetta afbrigði styðst ekki við íslenska málvenju.

Tillaga: Mörg ljón eru á veginum.

8.

Vafamál: „Snuðra hljóp á þráðinn í samningaviðræðum.“ Þekkt orðalag í fjölmiðlum.

Athugasemd: orðið ‚snurða‘ þýðir í bókstaflegri merkingu harður samsnúningur á snúnum þræði eða hnökri. Í yfirfærðri merkingu er það haft um óvænt ósamkomulag eða vandræði sem upp koma. Ekki er ráðlegt að rugla þessu saman viðsögnina ‚snuðra‘, en hún merkir njósna eða forvitnast um eitthvað.

Tillaga: Snurða hljóp á þráðinn í samningaviðræðum.

9.

Vafamál: Söluaðilar eru ósáttir.“ Algengt orðalag í fjölmiðlum.

Athugasemd: Orðið ‚aðili’ er oft ofnotað. Hér má nefna framkvæmdaaðila, samkeppnisaðila, söluaðila, margumrædda aðila vinnumarkaðarins og jafnvel aðila hjónabands. Oft er hægt að orða þetta betur með öðrum hætti.

Tillaga: Seljendur eru ósáttir.

10.

Vafamál: „Hinn 16. nóvember 2017 verður 210 ára ártíð Jónasar Hallgrímssonar.“ Algengt orðalag í fjölmiðlum.

Athugasemd: Allir þekkja orðið ‚afmæli‘. En bent skal á að orðið ‚ártíð‘ tengist ekki fæðingu manna heldur dauða og það þýðir dánardægur. Æskilegt er að rugla þessu ekki saman. Jóna Hallgrímsson var fæddur 16. nóvember 1807 og hann lést 26. maí 1845. 

Tillaga: Hinn 16. nóvember 2017 verða 210 ár frá fæðingu Jónasar Hallgrímssonar.

 

 


Bloggfærslur 17. ágúst 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband