Allt orkar tvímælis ...

Fáir vitna núorðið í Hannes Hólmstein Gissurarson, prófessor. Oft er ástæða til þess, því andstætt við það sem margir halda, hefur hann oft rétt fyrir sér. Hins vegar hefur áróðurinn gegn Hannesi tekist nokkuð vel. Fæstir þeirra sem atyrða hann hafa lesið nokkurn skapaðan hlut eftir manninn, þekkja ekki skoðanir hans nema að sumt af því sem hann skrifar flokkast undir frjálshyggju. Í raun og veru er það heigulsháttur að taka ekki undir það sem vel er sagt af heilum hug.

„Ekkert kemur í veg fyrir, að aðgerð hafi tvennar afleiðingar, þar sem aðeins önnur var ætlunarverk og hin ekki.“ Þetta er í kaþólskri heimspeki kallað lögmálið um tvennar afleiðingar. Til dæmis kann tilraun til að bjarga lífi þungaðrar konu fyrirsjáanlega að valda fósturláti, en sú afleiðing var ekki ætlunarverk og aðgerðin þess vegna ekki nauðsynlega fordæmanleg af þeirri ástæðu.

Þetta skrifar Hannes í vikulegan dálk sinn í Morgunblaði dagsins og birtir líka í bloggi á vefritinu pressan.is. Íslenski málshátturinn „Allt orkar tvímælis þá gjört er,“ styður þessa kenningu og bendir á að hún er síður en svo óþekkt.

Mér finnst tilvitnunin nokkuð athyglisverð og beinir hugsuninni meðal annars að einstrengingslegum áróðri. Flest allt hefur tvennar ef ekki fleiri afleiðingar. Það sem sagt er á einn hátt er oft túlkað á annan sem svo sem getur gengið en var þó ekki skilningur þess sem segir eða skrifar.

Á Vísi í dag segir forsvarsmaður þungarokkshátíðarinnar Neistaflugs að hún verði ekki haldin aftur ef brotið verði kynferðislega á einhverjum meðan á henni stendur.

Hann hafði vart sleppt orðinu er hann fær á sig þá gagnrýni að þessi orð muni hugsanlega fæla þolendur frá því að kæra kynferðisbrot, þeir vilji ekki eiga það á samviskunni að hátíðin leggist af.

Án þess að taka afstöðu má fullyrða að þetta er ágætt dæmi um tvennar afleiðingar. Ég trúi því að forsvarsmaðurinn hafi sagt þetta af góðum hug og hafi varla leitt hugann að öðru eða talið ósennilegt að sá sem verður fyrir ofbeldi vilji ekki kæra það af ótta við aðrar afleiðingar en þær sem beinlínis snúa að honum sjálfum. 

Þegar einhver tekur afstöðu í því sem er pólitískt vandamál þá er sagt að tilgangur hans sé allt annar. Fjöldi dæma eru til um þetta. Stjórnmálamenn taka afstöðu, leggja til dæmis fé á fjárlögum til að endurbæta einhvern veg, til dæmis veginn fyrir Skaga. Árlega í tíu eða tuttugu ár er fé lagt til vegarins. Gagnrýnendur geta þá fullyrt að með því að leggja einu sinn til tífalt árlegt framlag væri hægt að leggja varanlegt slitlag á veginn og eftir það kosti viðhald hans aðeins örlítið fé á hverju ári.

 


Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

Hér eru gerðar nokkrar athugasemdir við málfar í fjölmiðlum. 

1.

Vafamál: „Arsenal og Liverpool með sigra“ Fyrirsögn á mbl.is.

Athugasemd: Íþróttablaðamenn skrifa og tala oft á allt annan hátt en venjulegt fólk. Margir þeirra eru ekki góðir í skrifum þó hafi yfirburðaþekkingu á einstökum íþróttagreinum. Fótboltaliðin í fyrirsögninni unnu leiki sína og betra að segja það skýrt í stað þess að safna nafnorðum. Betur fer á því að segja að þau hafi sigrað eða unnið en þau séu með sigra. 

Tillaga: Arsenal og Liverpool unnu (eða unnu leiki sína).

2.

Vafamál: „Rannsókn lokið - varðhalds krafist áfram“ Fyrirsögn á mbl.is.

Athugasemd: ‚Áfram‘ er atviksorð og það getur stundum verið aftast í setningu. Máltilfinningin segir þó að hér sé þetta ekki eins og það eigi að vera.

Tillaga: Rannsókn lokið og og krafist er framhald á varðhaldi eða að maðurinn verði áfram í varðhaldi.

3.

Vafamál: „Sveinn seg­ir að lög­regl­an hafi í kvöld tekið skýrsl­ur af vitn­um og öðrum sem geti þekkt til bíls­ins og að unnið sé í „botngír“. Úr frétt á mbl.is.

Athugasemd: Eitthvað er ekki rétt hérna. Hægt er að aka í botni og er það venjulegast átt við að bensíngjöfin sé staðin í gólf bílsins, botninum. Óljóst er hins vegar hvaða gír sé „botngír“, það fer án ef eftir hraðanum. Illt er ef ökumaður ruglar saman bensíngjöf og gírstöng, verra er ef blaðamaður kann á hvorugu skil.

Tillaga: … og að unnið sé að málinu af krafti.

4.

Vafamál: „„Blómstrandi óskapnaður­inn“ er Íslands­vin­ur.“ Fyrirsögn á mbl.is.

Athugasemd: Blaðamaður vefsins skrifar hér um regnkápu Margrétar Danadrottningar. Hún er talinn vera „Íslandsvinur“. Án þess að fullyrða það er varla hægt að telja dauða hluti til vina nema auðvitað að þeir hafi hugsun, vit og skilning eins og til dæmis hundur.

Tillaga: „Blómstrandi óskapnaður­inn“ þekkist úr Íslandsferð. Eða Drottningin hafði verið í „óskapnaðinum“ í Íslandsferð.

5.

Vafamál: „Versl­un­in Zara í Smáralind lok­ar tíma­bundið um mánaðamót­in vegna end­ur­nýj­un­ar á versl­un­ar­rým­inu.“ Frétt á mbl.is.

Athugasemd: Algeng villa hjá blaða- og fréttamönnum og hefur dreifst víða sem bendir til að fjölmiðlar hafi meiri áhrif en margir trúa. Verslun getur ekki aðhafst eitt eða neitt. Einhver opnar eða lokar henni jafnvel þó dyrnar sé sjálfvirkar. Verslunin Zara lokar engu og opnar heldur ekki neitt. Hún Sara frænka mín gæti hæglega opnað eða lokað verslunum, jafnvel fyrir fullt og allt.

Tillaga: Versluninni Zöru/Zara í Smálind verður lokað tímabundið …

6.

Vafamál: „Transfólki verður ekki leyft að sinna nokkrum störfum innan Bandaríkjahers.“ Frétt á Bylgjunni 26. júlí 2017, kl.16.

Athugasemd: Æ algengar er að óákveðna fornafnið 'nokkrir' sé notað í stað ‚enginn’ sem líka er óákveðið fornafn. Ekki er vit í því að einhver breyti tungumálinu einhliða, því þá verður til margvíslegur vandi fyrir okkur hin. Setningunni hér að ofan má skilja svo að transfólk fái ekki að gegna flestum störfum innan hersins, aðeins fáeinum, nokkrum. Þeir sem til þekkja vita þó að verið er að banna transfólki alfarið að starfa innan hersins, engar undantekningar. Ofangreind tilvitnun er síður en svo skýr en þyrfti að vera það.

Tillaga: Transfólki verður ekki leyft að sinna neinum störfum innan Bandaríkjahers. Betra væri þó: Transfólk fær ekki að starfa innan Bandaríkjahers.

7.

Vafamál: „Þetta kostar einhverjar milljónir.“ Heyrist oft í talmáli og sést æ oftar í ritmáli.

Athugasemd: ‚Einhverer óákveðið fornafn. Betur fer á því að nota nokkur eða fáeinir. Þegar sagt er að ,einhverjir borgi’ er það rétt mál enda ekki vitað hverjir borga. Sama á við það sem er magn eða fjöldi. ‚Einhverjir steinar eru í skriðunni‘ getur varla talist markviss lýsing, betra er að segja að margir steinar séu í henni eða hún sé stórgrýtt. Eitthvað af fólki kom í búðina, segja sumir, og eiga ábyggileg við að frekar fáir hafi komið í búðina. Þetta er einfaldlega ekki skýrt orðalag. Hvað er á móti því að segja að fáir eða tiltölulega fáir hafi komið í búðina eða eitthvað álíka? 

Tillaga: Þetta kostar nokkrar milljónir, fáeinar milljónir eða margar milljónir.

8.

Vafamál: „Bæjarstjórn Sandgerðis hefur samþykkt tillögur um að kaupa inn fjögur bráðabirgðahúsnæði fyrir fólk sem þarf á aðstoð félagsþjónustunnar að halda og er á biðlistum eftir íbúð.“ Frétt á visir.is.

Athugasemd: Keypti bæjarstjórnin húsnæði til að nota til bráðabirgða eða keypti hún bráðabirgðahúsnæði? Hið fyrra skýrir sig sjálft. Hið síðara má skilja þannig að eftir einhvern tiltekinn tíma hætti íbúðin allt í einu að vera bráðabirgðahúsnæði og verði til dæmis að verslunarhúsnæði eða geymslum. Eða á fólk að vera í íbúðunum í skamman tíma þangað til það getur fengið íbúð til framtíðar? Svo er ekki rétt að íbúðir séu „keyptar inn“, eins og verið sé að kaupa inn mat eða eitthvað á lager eða í búrið. Íbúðir eru bara keyptar. Og af hverju er húsnæði ekki einfaldlega kallað íbúð? Er fínna að segja húsnæði rétt eins og sumir segja manneskjur og eiga við fólk, menn, karla eða konur.

Tillaga: Bæjarstjórn Sandgerðis hefur samþykkt tillögur um að kaupa fjórar íbúðir sem notaðar verði til fyrir fólk sem er á götunni (eða eitthvað álíka) …

9.

Vafamál: „Anthony Scaramucci, nýr samskiptastjóri Hvíta hússins, hélt klúran reiðilestur yfir blaðamanni New Yorker um aðalráðgjafa Donalds Trump forseta og sagði starfsmannastjóra Hvíta hússins brátt verða rekinn í mögnuðu símtali sem greint var frá í gær.“ Frétt á visir.is.

Athugasemd: Frekar illskiljanleg málsgrein og alltof löng. Ef lesandinn þarf að marglesa málsgreinina til að skilja er hún illa samin. Verður maðurinn rekinn í „mögnuðu símtali“? Hvað er annars „magnað símtal“? Af hverju er 'Hvíta húsið' nefnt tvisvar? Dálítið ofrausn en kallast tuð, jórtur eða nástaða. Jónas Kristjánsson, fyrrum ritstjóri DV, býður upp á stórmerkileg námskeið um textaskrif á vef sínum jonas.is. Þar segir hann meðal annars. „Strikaðu út óþörf orð, helmingaðu textann.“ „Settu punkt sem oftast, styttu setningar og málsgreinar.“ Sá sem skrifaði ofangreinda maraþonmálsgrein ætti að fara í nám hjá Jónasi.

Tillaga: Myndi ráðleggja „blaðamanni“ að lesa „fréttina“ vandlega yfir og endurskrifa hana að öllu leyti eftir að hafa farið á namskeið hjá Jónasi. 

10.

Vafamál: „Aukin hætta er á jökulhlaupi í Múlakvísl og á Mýrdalssandi eftir snarpan jarðskjálfta í Kötlu í fyrrakvöld. Almannavarnir hafa þegar lokað áningarstað við Múlakvísl og takmarkað umferð á leiðinni um gamla Mýrdalssand.“ Frétt á visir.is.

Athugasemd: Hvar skyldi gamli Mýrdalssandur vera eða sá nýi. Líklega hefur blaðamaðurinn verið að flýta séá við gamla þjóðveginn yfir Mýrdalssand. Fljótfærnisvillur verða iðulega til og þess vegna verður einhver að sinna yfirlestri. Þess í stað fá byrjendur og lengra komnir að valsa um og setja hvað eina á fréttavefi. Auðvitað er svona bull ókurteisi við lesendur. Landafræðiþekkingu fjölmargra þeirra sem kalla sig blaðamenn er líka verulega áfátt.

Tillaga: … takmarka umferð um gamla þjóðveginn yfir Mýrdalssand.


Bloggfærslur 29. júlí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband