Ofbeldi á golfvellinum á Akranesi

Hann hitti aldrei neitt, kúlan lent yfirleitt utan brautar, upphafshöggin voru slæm, brautarhöggin enn verri og púttin ömurleg. Á átján brautum náði hann að setja tvö persónuleg met, að „exa“ fimm brautir og slá kúlu í mig. Hið fyrra þýðir að hann var kominn með meira en tíu högg á braut og því tilgangslaust að halda áfram. Hið síðara er efni þessa pistils.

Ég ætla ekki að nefna opinberlega nafn mannsins sem klúðraði rækilega golfleiknum á Leynisvellinum á Akranesi í gær og beitti mig ofbeldi, veit þó að hann mun lesa þennan pistil ... og lesa mér pistilinn á eftir (vonandi skilja aðrir lesendur hvað orðtakið „að lesa einhverjum pistilinn“ þýðir). Í þokkabót er maðurinn náskyldur mér.

Sagan gerist á sautjándu braut að frændi er sem áður í bölvuðu klúðri, týnir bolta, finnur bolta og veit ekki hvað snýr upp eða niður á þeim. Ég, aftur á móti, er í þokkalegum málum, næ á fjórða höggi inn á flöt og enda á sex höggum (hefði átt að fara á pari). Og þar sem ég stend um eitthundrað metrum frá frænda, örskammt frá gríninu, og er að velta fyrir mér uppruna heimsins, tilgangi lífsins og framhaldi þess heyri ég frænda æpa af lífs og sálar kröftum. 

Varð mér sem snöggvast hugsað til Þorgeirs Hávarssonar sem heyrði til fóstbróður síns æpa uppi á Hornbjargi við leit að sér. Bað hann Þormóð vinsamlegast að hætta að styggja fogla en sjálf hetjan hékk þá í hvönn og átti líf sitt undir því að hún drægist ekki upp. Væntanlega þekkja allir framhaldið í Gerplu.

Nú, nú. Þarna æpir frændi minn eitthvað sem hverfur út í rokið (rok þýðir talsverður vindur). Ósjálfrátt stíg ég eitt skref aftur á bak og bregð vinstri hönd fyrir augu til ég sjái til hans sem styggir fugla, golfara og saklausa borgara á Akranesi með ópum sínum. Þá veit ég ekki fyrr til en að ég fæ eitt ofsalegt bylmingshögg ofarlega í kvið mér vinstra megin og golfkúla endurkastast af belg mínum, rúllar mjúklega nokkra metra eftir gríninu og hverfur ofan í holuna.

IMG_9796Auðvitað fannst mér mikið til höggsins koma og réði því tvennt. Annars vegar að kúlan skyldi hafa endað í holunni og hins vegar sársaukinn enda hringsnérist veröldin og varð að dimmum göngum og við enda þeirra var hvítt ljós og þar stóðu áar mínir og annað skyldfólk sem horfið hefur yfir móðuna miklu og fagnaði nú komu minni. Sannarleg bjóst líka við því að ég væri að fara yfir um. Þetta var næstum náðarhögg eftir sársaukanum að dæma.

Svo náði ég að rétta út kútnum (bókstaflega) og með ofurmannlegu átaki lét ég á engu bera. Atvikið olli samt miklu uppnámi. Nærstaddir vildu blása lofti í mig, gefa mér rafmagn með einhverju stuðtæki eða fá mig til að leggjast og hnoðast á brjóstkassanum. Íðilfögur kona baust jafnvel til að kyssa á báttið sem mér fannst alls ekki fjarri því að vera skynsamlegt til lækningar.

Þar sem kúlan var ekki sjáanleg héldu menn að hún væri komin inn í magann og spunnust þá miklar umræðum um hvað skyldi gera. Sumir héldu því fram að frændi ætti að taka víti en aðrir sögðu að kúlan væri á braut og vildu að hann slægi hana þar sem hún væri (það er inni í mér).

Þegar fólk áttaði sig á því að ég var lifandi missti það fljótlega áhugann á mér og hvarf hver til sinnar brautar og gleymdi atvikinu. Frændi kom hins vegar náfölur og baðst afsökunar. Vissi ég þó ekki yfir hvoru hann var leiðari, að hafa slegið kúlu í mig eða ég væri enn uppistandandi. Hann gladdist þó yfir því að kúlan hefði endað í holunni og reyndist þetta skásta skorið hans á vellinum, níu högg á par fjórum, ekkert pútt.

Hér færi vel á því að enda pistilinn. Hins vegar gæti verið að lesendur vilji vita eitthvað um líðan mína, af einskærri forvitni eða af meðaumkun. Því er til að svara að aðbúnaður hér á sjúkrahúsinu á Akranesi er einstaklega góður, maturinn fínn, rúmið gott og skurðlæknarnir góðir og lífslíkurnar eru bara talsverðar ...

Nei þetta var nú bara spaug. Ég er nokkurn veginn heill heilsu en ber samt áverka eftir ofbeldi frænda míns. Það má glögglega sjá á meðfylgjandi mynd af vöðvastæltum maga mínum.

Þetta ósjálfráða skref aftur á bak bjargaði miklu annars hefði golfkúlan líklega skollið á höfði mér, frænda til mikillar ógleði, og kúlan aldrei endað í holunni. 


Bloggfærslur 26. júlí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband