Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Vafamál: „Væntir samdráttar hjá bílaleigum.“ Fyrirsögn í viðskiptablaði Morgunblaðsins 6. júlí 2017. 

Athugasemd: Sé sögnin að vænta komin af nafnorðinu von hefði mátt sleppa þessari fyrirsögn vegna þess að viðmælandinn er ekki að vonast eftir samdrætti, hann frekar óttast hann. Hins vegar eru til margar útgáfu af þessu orði: Ólétt kona væntir sín, við væntum mikils af kvennalandsliðinu, ég vænti þess að vinna í happdrætti, ég vonast ekki til að bíllinn bili, er frekar hræddur um það.

Tillaga: Býst við samdrætti hjá bílaleigum.

 

2.

Vafamál: „Hættur við endurreisn alþjóðahagkerfisins.“ Fyrirsögn í viðskiptablaði Morgunblaðsins 6. júlí 2017. 

Athugasemd: Fyrirsögnina má hæglega misskilja enda ekki ljóst hvort fyrsta orðið sé sögn eða nafnorð. Svo bætist næsta orð við. Sé einhver hættur við, heldur hann ekki áfram. Sé fyrsta orðið nafnorð þá er merking fyrirsagnarinnar sú sem höfundurinn hennar á við. Bent er á þetta til að sýna fjölbreytni íslenskunnar og hversu miklu skiptir að velja rétt orð til að fyrirbyggja misskilning.

Tillaga: Þetta er fín fyrirsögn þrátt fyrir annmarka hennar.

 

3.

Vafamál: „Björg­un­ar­sveit­ir á Ítal­íu hafa fundið lík átta ein­stak­linga sem var saknað eft­ir að fjöl­býl­is­hús hrundi til jarðar skammt frá borg­inni Napólí í gær.“ mbl.is 

Athugasemd: Hús hrynja lóðrétt niður, til jarðar, að hluta eða öllu leyti. Óþarfi að bæta þessu við ‚til jarðar‘. Þar að auki fundust lík átta manna. Menn eru einstaklingar, hvort heldur að það séu konur eða karlar.

Tillaga: Björgunarsveitir hafa fundið lík átta manna sem saknað var eftir að fjölbýlishús hrundi skammt frá borginni Napólí í gær.

4.

Vafamál: „Í júní voru framboðnar gistinætur Icelandair Hotels rúmlega 40 þúsund samanborið við rúmlega 36 þúsund í júní á síðasta ári.“ Morgunblaðið 8. júlí 2017, bls 20.

Athugasemd: Illskiljanleg málsgrein, of löng og tilgerðarleg. Hvað eru framboðnar gistinætur? Ef átt er við gistinætur í boði af hverju er það ekki sagt? 

Tillaga: Í júní voru í boði 40 þúsund gistinætur hjá Icelandair Hotels en 36 þúsund í fyrra.

 

5.

Vafamál: „Ekki fleiri arnarnarpör lengi.“ Fyrirsögn í Morgunblaðinu 12. júlí 2017, bls 4.

Athugasemd: ‚Lengi‘ er atviksorð og getur illa staðið aftast í málsgrein, hún verður hálfkjánaleg fyrir vikið. Átt er við að arnarpör hafi sjaldan verið fleiri en nú.

Tillaga: Sjaldan fleiri arnarpör eða arnarpör hafa sjaldan verið fleiri.

 

6.

 

Vafamál: „Bankarnir stíga á bremsuna í lánveitingum til hótelverkefna.“ Fyrirsögn á visir.is.

Athugasemd: Fyrirsögnin er óþarflega löng. Átt er við að dregið hafi úr áhuga banka að lána til bygginga á hótelum. Óskiljanlegt hvers vegna byggingar á hótelum eru kölluð hótelverkefni.

Tillaga: Bankarnir lána minna til bygginga hótela, eða bankarnir draga úr lánum til hótelbygginga.

 

7.

Vafamál: „For­sæt­is­ráðherr­ann er stadd­ur í Par­ís til að taka þátt í minn­ing­ar­at­höfn um fórn­ar­lömb fjölda­hand­töku sem nas­ist­ar fram­kvæmdu í Frakklandi árið 1942.“ Frétt á mbl.is.

Athugasemd: Þetta er afleitt orðalag, að ‚framkvæma fjöldahandtöku‘. Minningarathöfnin var um þá sem nasistar handtóku. Af hverju er það þá ekki sagt beinum orðum í stað þess að flækja setninguna í ljótu nafnorðastagli?

Tillaga: … um þá sem nasistar handtóku í Frakklandi árið 1942.

 

8.

Vafamál: Það er mjög blómleg afgönsk pressa, sem var ekki til undir talíbönum. Það er fullt af sjálfstæðum fjölmiðlum þarna og mikill metnaður í því. Það er mjög jákvæð og góð þróun í lýðræðisátt enda fjölmiðlar ein af grunnstoðunum.“ Viðtal við Unu Sighvatsdóttur í Fréttablaðinu.

Athugasemd: Viðtalið er langt og blaðamaðurinn virðist ekki alveg ráða við það, kastar stundum til höndunum. Þegar viðmælandi talar rangt mál, á blaðamaðurinn að laga það, ekki gera honum þann óleik að skrifa hugsunarlaust upp eftir honum. Sama er um annað í viðtali, blaðamanni ber að gera það læsilegra. Persónufornafnið ‚það‘ er ofnotað og verður við það merkingasnauður leppur, barnalegur og leiðinlegur. Í slíkum tilfellum kallast persónufornafnið aukafrumlag sem flestir reyna að forðast.

Tillaga: Hér hefði blaðamaðurinn átt að nota hugmyndaflugið og skrifa framhjá aukafrumlaginu.

9.

Vafamál: „Bátur til sölu ásamt kerru sem er í smíðum, verð …“ Smáauglýsing í Fréttablaðinu 16. júní 2017.

Athugasemd: Allt bendir til að kerran sé í smíðum en samkvæmt myndinni er  virðist báturinn vera í smíðum. Mikilvægt er að ‚sem‘, tilvísunarfornafnið, vísi alltaf til þess sem verið er að útskýra.

Tillaga: Bátur í smíðum til sölu … Eða: Bátur til sölu, kerra í smíðum fylgir …

10.

Vafamál: „… Rafdrifnir upphitaðir útispeglar, 2x afturhurðir að aftan.“ Auglýsing um Ford Transit bíla í Fréttablaðinu 16. júní 2017.

Athugasemd: Flestir skilja samstundis að afturhurð er aftan á Ford Transit, séu þar dyr. Hurð notuð til að loka dyrum. Flókið er að hafa hurðir að aftan án dyra. Um leið er sárt að ganga um hurðir. Aldrei er talað um ‚gleðinnar hurðir‘ heldur um ‚gleðinnar dyr‘..

Tillaga: … tvær hurðir á afturdyrum.

 


Bloggfærslur 16. júlí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband