Ljóðbákur um gæsaveiði - dýrt er ort ...

Í huga mér eru ljóð nær yfirnáttúruleg og ljóðskáld eru nær himnaríki en allir aðrir dauðlegir menn. Næst koma þeir sem eru hagmæltir og svo aðrir velskrifandi og mjúklega mælt fólk. Fyrir öllum þessum tek ég ofan og dáist að í fjarlægð blámans.

Svo ég haldi nú áfram niður þrepin frá himnaríki þá koma næstir í röðinni þeir sem ljóðskáld og hagmæltir hafa ort um. Þvílíkur heiður er það er skáld yrkir til vegsemdar einhverjum, út af ást, dauða eða lífi. Útilokað er að jafna þessu við eitthvað annað nema hugsanlega að vera tekinn í dýrlingatölu eða blessaður á þann forna hátt sem sagt er veita þá mestu hamingju sem um getur að jafnvel þeir sem snerta slíkt fólk eða eignast klæðisbút frá því fá yfirfærðan hluta af hamingjunni.

Hér er ég svo upphafinn í lýsingunni að ég verð fyrir tilviljun einni saman að geta um ljóðabók sem nýlega er komin út. Hún nefnist Rökkur eftir þann hagmælta mann Skarphéðinn Ásbjörnsson, Skagfirðingi, sem varð svo frægur að vera  nágranni minn er ég bjó í nokkur ár á Blönduósi (eða öllu heldur, ég var svo frægur að vera nágranni hans).

Meðan grannskapnum stóð uppgötvaði ég mér til mikillar undrunar að Skarpi var ágætlega hagmæltur. Þá uppgötvun keypti ég dýrum dómum. Í fljótfærni hafði ég sent honum nokkrar vísur sem ég hnoðað saman en voru raunar fátt annað en afbragðs vel saminn leirburður. Á móti fékk ég vísur frá Skarpa sem voru fjarri því að vera leir og næst því að vera ljóð. Það var sem högg í andlitið og hef ég fátt ort síðan.

Í áðurnefndri ljóðabók, Rökkri, er bálkur sem við mig er kenndur og nefnist Veiðiferðin. Í bókinni segir höfundur í óbundnu máli:

Sigurður Sigurðarson nágranni minn á Blönduósi fékk vini sína úr Reykjavík til sín í gæsaveiði og réði mig sem leiðsögumann.

P0005517Og Skarphéðinn orti sumsé um gæsaveiðiferð okkar. Hér gríp ég á nokkrum stöðum niður í tuttugu og fjögurra erinda bálkinn:

Félagarnir frjálslega,
fjall'um heima og geyma.
Nú skal alveg óðslega,
andablóðið streyma.

Á söguslóðum Sigurður,
situr þeirra og bíður.
Mjúkur hann og málreifur,
mundar hólkinn fríður.

Verður mér nú við eins og Noregskonungum forðum daga að kátlega urðu þeir við yrkingum og vildu gefa skáldalaun (eftir miklar vangaveltur og innri baráttu féll ég þó frá því að gera slíkt hið sama).

Víkur nú sögunni að leiðsögumanninum og skáldinu:

Sóttur var hinn sjálfglaði,
sagði frægðarorðin.
Blés í flautur, blístraði,
bjó þá undir morðin.

Sko, skáldið á við að hann notaði gæsaflautur og brakaði eins og steggur í andahóp.

Segir nú fátt af veiðum okkar félaganna og kemur æ berlegar í ljós að leiðsögumaðurinn var ekki allur sem hann sagðist vera ... og hafði þó margt sagt.

Morgunn blíður, birtan vex
bíður skytta svæsin.
Komið er að klukkan sex.
Kemur engin gæsin

Beitir öllum brögðunum,
bani margra fugla.
Rekst með flautu-tilraunum,
tilverun'að rugla.

En ekkert gengur, engin gæs er skotin úr skurðum Torfalækjartúns. Líklegast hefur Jóhannes vinur minn Torfason, hlegið sig máttlausan hefði hann vaknað árla og litið út um gluggann og séð aðförina að gæsunum ... eða afararleysið. Leiðsögumaðurinn vill nú flytja sig og hét því að við gætum myrt gæsir í kvöldfluginu. Til þess var farið niður að Vatnsdalsá, en þar, skammt frá Húnaósi, er eyja nokkur, fín fyrirsátt fyrir grandalausar gæsir, sagði leiðsögumaðurinn. Hann yrkir:

P0005523Vandast málið varla meir,
Því vaða þarf á skerið.
Blotna fætur, busla þeir,
brattir samt í verið

Kvöldið líður, kólnar fljótt,
kulda gætir nánar.
Áður en varir orðin nótt,
engar gæsir dánar.

Ekkert stóðst hjá leiðsögumanninum, allt innantóm loforð. Þegar liðið var langt fram að miðnætti er ákveðið að vaða aftur til meginlandsins, en nú gætir aðfalls og vatnið er dýpra. Skáldið yrkir:

Vaskir elginn vaða þeir,
vökna tær og síða.
Dámar ei þá dýpkar meir,
dugar ei að bíða.

Vaskir ösla vötnin þung,
vatns er erfið röstin.
Blautir eru um böll og pung,
byrja eftirköstin.

Þetta var meiriháttar vaðstand á okkur skyttunum og ekki var ástandið skárra hjá skáldinu, en það átti eftir að lagast hjá honum.

Búkur loppinn, brókin rök,
bleik er snoppa í framan.
Lama kroppinn lagartök,
limur skroppin saman.

P0005534Ekki hampar happið þeim,
háðs nú glampa varir.
Álpast, slampast, aulast heim,
eftir krampa-farir

Gædinum ei reynist rótt
reisnar mun ei njóta.
Inn í hýði skríður skjótt,
með skottið milli fóta.

Heima í rúmi fann sitt fljóð, 
frúin reddar sinni.
Bjargar lund hans blíð og góð 
með blástursaðferðinni.

Hvorki eru allar ferðir til fjár ... né gæsa. Svona fór nú um þessa veiðiferð og verður ábyggilega grínað með hana svo lengi sem land er byggt og ljóðabækur lesnar. Þökk sé helv... honum Skarpa.

Myndir

1. Vaðið yfir Vatnsdalsá.

2. Skotmaður á leið út í eyju, hvattur til dáða af gervigæs.

3. Leiðsögumaðurinn og skáldið. Sá fyrrnefndi er vinstra megin og þar er líka skáldið. Snati hefur líklega fundið gæsina sem faldi sig fyrir leiðsögumanninum. 


Pólitíska aðförin fyrir landsdómi og hálfsannleikurinn

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar misnotaði landsdóm til að koma höggi á pólitíska andstæðinga. Það mistókst algjörlega og hafði þær afleiðingar að Samfylkingin og Vinstri grænir fengu herfilega ráðningu í þingkosningunum 2013. Samfylkingin hefur ekki borið sitt barr síðan og mun eflaust leggjast af. Vinstri græn eru markaðslega sinnaður flokkur og skipti um formann. Steingrímur þótti ekki kosningavænn en það er núverandi formaður sem þó hafði engan fyrirvara á pólitískri misnotkun á landsdómi.

Forvitnilegt er að skoða fréttaflutning af málarekstrinum fyrir landsdómi. Þar var Steingrímur J. Sigfússon kallaður til vitnis. Fáir hafa lent í öðru eins hrakviðri eins og hann varð fyrir  í vitnaleiðslum fyrir dóminum.

Hér er hluti af pistli sem ég skrifaði um málið 14. mars 2012:

Sjaldnast hefur einn maður runni jafn illilega á rassinn í vitnaleiðslum og þessi Steingrímur J. Sigfússon, ráðherra ótal ráðuneyta. Vitnisburður hans fyrir Landsdómi í gær var pólitískur og var ætlað að koma höggi fá Geir en honum mistókst það gjörsamlega. Í Mogganum í morgun [14. mars 2012] er frétt um framgöngu hans. Hún er grátbrosleg eins og alltaf þegar pólitísk atlaga snýst í höndum gerandans og hann stórskaðar sjálfan sig. Í fréttinni er eftirfarandi:

Og það var skrautlegt er Andri Árnason, verjandi Geirs, spurði út í orð Steingríms um „samning“ sem gerður hefði verið samhliða gjaldmiðlaskiptasamningnum og „stungið ofan í skúffu“, eins og Steingrímur lýsti því. Þegar Andri spurði Steingrím hvar orðið samningur hefði komið fyrir á skjalinu svaraði Steingrímur: „Formið á þessu er samningur ... samkomulag ... yfirlýsing.“ 

Ráðherrann er gerður afturreka með orð sín, kemst að því að ekki er gleypt við öllu sem hann segir. Þess er krafist að hann sé nákvæmur í máli sínu, nokkuð sem hann hefur hins vegar aldrei vanið sig á. Og áfram var maðurinn krafinn sagna:

Samtalið hélt áfram og Andri spurði hvar Steingrímur hefði heyrt að yfirlýsingunni hefði verið „stungið ofan í skúffu“. [...] „Það eru mín orð,“ svaraði Steingrímur. „Það endurspeglar þá tilfinningu sem ég fékk. Líklega á fundi mínum með Stefan Ingves [sænska seðlabankastjóranum].“ 

Sem sagt engu var stungið ofan í skúffu, allra síst samningi, og því ekkert að marka þessi orð Steingríms. Svona pólitískt orðahnoð og skrök verður ekki Geir til sakfellingar.

Andri spurði þá hvort ítarleg svör Seðlabanka Íslands 8. júlí og 16. september árið 2008 hefðu ekki þótt fullnægjandi.

„Annaðhvort það eða þeir voru ósáttir við að ekki væru meiri efndir,“ svaraði Steingrímur.

Var talað um efndir?“ spurði Andri og lét færa Steingrími yfirlýsingu stjórnvalda og spurði hvað af atriðunum hefði ekki verið efnt. Steingrímur las stuttlega og svaraði:

„Eins og ég segi, það var ekki farið út í þetta þannig. Ekki farið út í svör. Þetta bar almennt á góma og það var lýst óánægju.“

Bara svona, ekki svör, bar bara almennt á góma, líklega í samræðum við leigubílstjórann á leiðinni til baka á hótelið.

Þvílíkt bull ... Aftur skrökvar Steingrímur og svo reynir hann að kjafta sig út úr horninu sem hann hafði málað sig út í. Ekki verður þetta til sakfellingar Geirs. En þetta var ekki nóg því hinn skilmerki blaðamaður sem skrifar fréttina, Pétur Blöndal, lætur eftirfarandi fylgja með ofangreindum orðum ráðherrans:

Skömmu áður hafði Árni Mathiesen sagt fyrir Landsdómi að eitt atriði yfirlýsingarinnar hefði snúið að starfsemi Íbúðalánasjóðs og þess vegna heyrt undir Jóhönnu Sigurðardóttur sem þá var félagsmálaráðherra. „Það var kannski það atriði af þeim sem þarna voru sem ekki gekk eftir,“ sagði Árni.

Steingrímur lét vera að minnast á það.

Auðvitað er það þannig með Steingrím, þann vana stjórnmálamann, að hann reynir að komast hjá því að skrökva. Hálfsannleikurinn nægir honum til að koma boðskap sínum á framfæri.

Með hálfsannleikann að vopni var stokkið til og efnt til pólitískra réttarhalda yfir Geir H. Haarde.

Nú hefur hins vegar komið í ljós að aðalhvatamaðurinn að þessum málaferlum hefur ekkert markvert að segja, getur ekki veitt neinar upplýsingar sem geta sakfellt Geir af þeirri ástæðu einni að sökin er ekki fyrir hendi. Fengi hann hins vegar sama „málfrelsi“ og á þingi yrðu honum ekki skotaskuld úr því að bera vitni um að Jón Bjarnason bæri ábyrgð á hruninu.

Þetta breytir þó því ekki að Steingrímur heldur því statt og stöðugt fram að hann hafi varað við hruninu. Hvað hann á við veit enginn. Að minnsta kosti mætti hann ekki á fund hjá ríkisstjórninni og „fór hamförum“ eins sagt er um Davíð Oddsson.

Ekki heldur stóð hann upp á Alþingi og messaði yfir þingheimi. Í hvert skipti hefði hann þó átt að brjóta ræðupúltið. Það hefði verið hið eina rétta miðað við boðskap um fyrirsjáanlegt efnahagshrun haustið 2008. En nei, nei. Steingrímur bjó ekkert yfir neinni spádómsgáfu, hann var jafngrandalaus eins og við hin ... og þagði um þessi mál.


mbl.is Vill leggja landsdóm af
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. mars 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband