Samfélagsleg aðkoma er skrautyrði fyrir einokun

Ef samfélagsleg aðkoma tryggir eftirfarandi umfram einkaaðila:

a) betra utanumhald og minni ágang markaðsafla,
b) er betri fyrir ríkissjóð og þar af leiðandi okkur sem skattgreiðendur,
c) færir okkur hagstæðara verðlag (hátt útsöluverð stjórnast af álagningu),
d) tryggir meira úrval,
e) dregur úr aðstöðumun þéttbýlis og dreifbýlis;

ef þetta er svo, er þá ekki sjálfsagt að halda í það fyrirkomulag sem við búum við?
Í þessum röksemdum sameinast þeir sem vilja takmarka aðgengi af lýðheilsuástæðum og hinir sem neyta áfengis og vilja hafa ríka valmöguleika, tryggja hagstætt verðlag og hagsmuni sína sem skattgreiðendur.

Allt eru þetta efnislegar röksemdir gegn staðhæfingum þeirra sem segja það vera rangt að ríkið hafi áfengisdreifinguna á sinni hendi af þeirri einföldu ástæðu að það sé rangt! Með öðrum orðum: Af því bara. Ég held að varla sé hægt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að hugmyndafræði sé þarna orðin stjórnmálamönnum fjötur um fót.

Þetta segir Ögmundur Jónasson, fyrrum alþingismaður og ráðherra, á heimsíðu sinni. Gamli sósíalistinn hefur engu gleymt, reynir enn að villa um fyrir fólki.

Ríkisrekstur heitir á máli hans „samfélagsleg aðkoma“. Sé svo má fullyrða að „samfélagsleg aðkoma“ sé ástæðan fyrir einokun Mjólkursamsölunnar. Á hreinni og tærri íslensku er „samfélagsleg aðkoma“ skrautyrði fyrir einokun.

Setjum sem svo að einkaaðilar eigi allar þær áfengisbúðir sem ÁTVR rekur í dag, ekki færri, ekki fleiri, og auglýsingar á áfengi væru bannaðar, rétt eins og þær eru í raunveruleikanum.

  1. Engin rök eru fyrir því að áfengisneysla væri meiri eða minni ef verslanirnar væru í einkaeigu.
  2. Myndi verðlag áfengis hækka? Nei, varla í samkeppni við aðrar áfengisverslanir. Nú, ef það hækkaði myndi þá ekki draga úr neyslu?
  3. Er hægt að halda því fram að starfsfólk Vínbúða ÁTVR séu með sérþekkingu í áfengisforvörnum umfram það fólk sem myndi starfa í áfengisverslunum í einkaeigu?
  4. Er rekstur ÁTVR á einhvern hátt „samfélagslegur“ eða ber hann einkenni kapítalísks rekstrar? 
  5. Hverjir eru birgjar ÁTVR? Jú, þeir sömu og myndu skaffa áfengisverslunum í einkarekstri vörur til endursölu! Sama fyrirkomulag er í flest allri smásöluverslun hér á landi. Ekkert samfélagslegt við það að innflytjendur selji til smásala eða kannski er það greinilegasta dæmið um samfélagslegt eðli viðskipta.

Sé þetta rétt er ekki nokkur ástæða til að halda því fram að einhverjar „samfélagslegar“ ástæður séu að baki ÁTVR. Einungis gamaldags bannárátta sem rekja má aftur til bannáranna, banns við neyslu bjórs ... Gjörsamlega úrelt fyrirkomulag. Seljum þessar verslanir, látum ríkið hætta í smásölu.

Lýðheilsuástæður koma málinu ekkert við. Heilsa almennings verður hvorki betri né verri við það að ÁTVR sé lögð niður og verslanir þeirra seldar. Ekkert yfirnáttúrulegt fylgir starfsemi ÁTVR, bara ágætt starfsfólk sem myndi sinna sínum störfum á sama hátt í áfengisverslunum í eigu einkaaðila, jafnvel þeirra sjálfra.

Rök Ögmundar Jónassonar eru út í hött, standast ekki skoðun og byggjast á gamaldags kenningum um að ríkið eigi að vasast í sem flestu.


Nær algjört jarðskjálftahlé ...

Frá því á miðnætti og fram til klukkan þrettán í dag, föstudag, hafa orðið fimm jarðskjálftar á landinu. Fimm, 5, allir litlir, sá stærsti 1,1 stig.

Samkvæmt vef Veðurstofu Íslands hefur enginn skjálfti mælst til klukkan hálf fimm í dag, þegar þessar línur eru slegnar inn. Í gær mældust fimmtíu og fimm skjálftar, tífalt fleiri

Sem sagt tíðindalaust í jarðskjálftum. Ef til mætti orða þetta á annan hátt: Þau tíðindi hafa orðið að nær augnvir jarðskjálftar skekja landið.

Um leið og ég skrifa þetta velti ég því fyrir mér hvort skjálftar geti stafað af utanaðkomandi aðstæðum. Nefni lægðagang yfir landinu, tunglstöðu, frost eða jafnvel af siðferðilegum breyskleika þjóðarinnar ... Ég veit ekki til að verið sé að rannsaka ástæðu fárra jarðskjálfta en get mér til um að margar kenningar kunni að vera á lofti.

Hitt er pottþétt að kyrrstaða á þessu sviði er algjörlega gegn eðli landsins. Fyrr eða síðar verður innibyrgð spenna til þess að einhver skjálfti leysist úr læðingi og hann veldur öðrum og svo koll af kolli þangað til stórskjálfti verður eða eldgos hefst.

Datt nú inn sá sjötti ... Sér einhver gosmökk?

 


Fölsk frétt um Bjarna Benediktsson

Sé það meining Bjarna að geðlyf séu gerviþörf og tilgangslaus, rétt eins og að reyna að vökva líflaust blóm, biðlum við til forsætisráðherra að kynna sér málið til hlýtar og draga þessi ummæli til baka.

Þessi ummæli er að finna á vefritinu pressan.is og eru þar sögð frá „Samtökunum Geðsjúk“. Sá Bjarni sem um er rætt er Benediktsson og er forsætisráðherra Íslands.

Bjarni mun hafa verið boðið í heimsókn í stjórnmálafræðitíma í Verzlunarskóla Íslands. Þar ræddi hann við nemendur og var fullyrt að hann hefði sagt að „geðlyf virki ekki eða haf líkt lyfjagjöf við að vökva dáið blóm“ eins og segir á pressan.is.

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, neitaði að hafa sagt þetta.

Að gefnu tilefni. Ég hef hvergi sagt að geðlyf virki ekki eða að lyfjagjöf sé líkt og að vökva dáið blóm. Afar dapurleg umræða.

Katrín Guðjónsdóttir, nemandi í VÍ, brá skjótt við og sagði í athugasemdum með fréttinni:

Ég var í þessum tíma, get staðfest það að hann sagði þetta ekki. Hann teiknaði mynd af 2 blómum, annað þeirra var upprétt en hitt var hnignandi og þurfti að vökva. Hann teiknaði rætur undir bæði blómin og benti svo á rætur þess hnignandi og meinti með því að það þyrfti að finna rót vandans. Þriðjungur landsins fæðist ekki með geðræn vandamál heldur mótast það líka af samfélaginu og þarf því að ráðast á rót vandans frekar en að láta alla á geðlyf. Hann sagði aldrei að geðlyf virkuðu ekki. Þau ummæli komu frá einum nemanda sem misskildi myndlíkinguna en ekki öllum bekknum.

Isabel Guðrún Gomez undir það sem Katrín sagði:

Var líka í tímanum og get staðfest þetta líka, myndbandið er líka tekið algjörlega úr samhengi þar sem að við ræddum þetta mikið lengur en nokkrar sekúndur.

Þetta er skýrt dæmi um falska frétt sem dreift er á netinu til þess eins að koma höggi á Bjarna. Eða eins og orðtakið hermir: Bera er að sveifla röngu tré en öngvu.

Og fyrr en varir er falska fréttin komin út um allt og ekki síst með stuðningi þeirra sem stunda þá iðju sem Gróa á Leiti sérhæfði sig í samkvæmt sögunni.

Óðinn Þórisson, sagði með fréttinni:

Þetta er hluti af þeirri ósanngjörnu umræðu sem Bjarni Ben. fær á sig.

Um leið grípur óvandað fólk og reynir að halda áfram sögunni án þess þó að vita hætishót um sannleiksgildi hennar, sagan ætti bara að vera sönn. Líklega er það ástæðan fyrir því að Ásthildur Cecil Thordardottir segir með fréttinni:

Þú vilt sem sagt meina að hann hafi ekki sagt þetta? Hvaðan hefur þú það?

Og skítadreifingin heldur áfram.

Hvorki Áshildur né „Samtökin Geðsjúk“ hafa beðist afsökunar á frumhlaupi sínu.

 


Skítugt bílastæðahús og ógreinileg afmörkun bílastæða

Tillitsleysi ökumanna sem leggja bílum sínum í bílastæðahúsið Traðarkot við Hverfisgötu er slæmt. Fyrir nokkrum misserum var ég með skrifstofuaðstöðu á Laugaveginum og lagði bílnum reglulega í Traðarkot. Þá komst ég að því mér til mikillar furðu að það voru ekki aðeins eigendur stórra jeppa og sendibíla sem kunnu ekki að leggja í stæði heldur líka eigendur litlu bílanna.

Framkvæmdastjóra Bílastæðasjóðs virðist aldrei koma í húsið. Að minnsta kosti hefur hún ekki séð að málningin á bílastæðunum er máð og ógreinileg. Þessi staðreynd er að minnsta kosti lítilsháttar afsökun fyrir ökumenn.

Traðarkot er sóðalegt hús að innan. Þar hafa óvandaðir unglingar vaðið inn og krotað á veggi óásjáleg tákn, ryk er mikið í húsinu og einnig rusl.

Fyrir nokkrum misserum var mér eiginlega nóg boðið og skrifaði nokkuð um bílastæðahúsið á þessu vettvangi. Hér er tilvísun í einn pistilinn og fylgja honum myndir sem sýna hversu illa margir ökumenn leggja bílum sínum. Þeim og öðrum til skilnings eiga ökumenn að sýna öðrum þá háttvísi að leggja nákvæmlega í mitt stæðið.

Svo virðist sem að margir telji það einhverja minnkun að þurfa að gera tvær eða þrjár tilraunir til að leggja hárrétt í stæði áður en það tekst. Þetta er algjör misskilningur. Betra er að gera aðra tilraun heldur en að bjóða öðrum til dæmis upp á það að hann geti ekki opnað bíldyr eða loka af aðgangi að næsta stæði.


mbl.is Bílum illa lagt og tillitsleysi algengt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. mars 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband