Hvað gerði Jón Þór Ólafsson, þingmaður, við launahækkunina?

Hvað gerðirðu við peningana sem frúin í Hamborg gaf þér? Þú mátt ekki segja já eða nei og ekki hvítt eða svart ...

Þannig byrjar skemmtilegur orðaleikur sem lifað hefur lengi með þjóðinni en hann byggist á því að sá sem svarar sé klókur, fljótur að hugsa og forðist þá pytti sem geta orðið honum að falli.

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, birti grein þann 8. nóvember 2016 í Fréttablaðinu og opinberaði þar gagnrýni sína vegna ákvörðunar kjararáðs um verulega hækkun launa forseta Íslands, þingmanna og fjölmargra embættismanna. 

Hótunin

Mikil þykkja var í Jóni Þór út af hækkuninni og hann virtist hóta að kæra ákvörðun kjararáðs. Svo virðist sem hann hóti eftirtöldum:

1. Forsetanum nema hann setji bráðabirgðalög gegn ákvörðun Kjararáðs
2. Kjararáði, nema það hætti við allt saman
3. Formönnum þingflokka, nema þeir lofi því að þeir láti Kjararáð hætta við allt saman

Nú er liðinn tveir og hálfur mánuður frá því að laun forsetans, þingmanna og embættismanna hækkuðu. Enn bólar ekkert á kæru Jóns Þórs, þingmanns. Þar að auki hefur enginn virt hótun þingmannsins viðlits, ekki forsetinn, ekki kjararáð og ekki formenn þingflokka, þar með talinn formaður þingflokks Pírata. 

Ólíkt hafast menn að

Forseti Íslands lýsti í nóvember yfir óánægju sinni með launahækkun kjararáðs, sagðist ekki hafa beðið um hana og myndi ekki þiggja. Þess í stað hefur hann gefið tæplega þrjú hundruð þúsund krónur á mánuði til góðgerðastofnanna. 

Fordæmi forsetans bendir til mikilla mannkosta og að hann sé traustur og trúverðugur, standi við orð sín. Betra væri ef fleiri óánægðir þiggjendur launahækkunar kjararáðs fetuðu í fótspor hans. Allir virðast gleypa við laununum þrátt fyrir stór orð.

Hvað varð um launahækkunina?

Ekki er nema eðlilegt að kjósendur velti fyrir sé hvað Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, og hafi gert við þá ríflegu hækkun launa sem hann fékk sem þingmaður:

1. Afþakkaði hann hana?

2. Lagði hann hækkunina inn á bankabók til að geta skilað síðar?

3. Fór hann að fordæmi forseta Íslands og gaf hækkunina til góðgerðarmála?

4. Hirti hann launahækkunina þegjandi og óhljóðalaust?

Miðað við það sem Jón Þór þingmaður sagði í áðurnefndri grein sinni getur varla verið að hann hafi einfaldlega hirt launahækkunina og notað hana í eigin þágu. Því trúir auðvitað enginn enda væri sá ærið mikill ómerkingur sem er harður gagnrýnandi en endar með því að éta allt ofan í sig ... bókstaflega.

338.254 króna launahækkun á mánuði

Ef þessir þrír aðilar bregðast allir þá mun ég kæra ákvörðun Kjararáðs til dómstóla og hef nú þegar fengið til þess lögfræðing.

Þetta segir Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, í ofangreindri grein. Núna er eiginlega kominn tími til að hann leysi frá skjóðunni enda meira en þrír mánuður frá því að hann skrifaði þessi orð. Á þeim tíma og til loka þessa mánaðar hefur hann fengið samtals rúma eina milljón króna aukreitis í laun, þökk sé kjararáði.

Starf þingmanns er enginn orðaleikur eða innantómt tal. Ábyrgð þingmanna er mikil og þeir eru dæmdir af orðum og gerðum.

Jón Þór Ólafsson var stóryrtur í greininni og því má spyrja: Hvað gerði hann við launahækkunina? Hvaða lögfræðing hefur hann ráðið til að hnekkja ákvörðun kjararáðs? Hverja hefur hann kært og fyrir hvaða stjórnvaldi?

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 28. febrúar 2017.


Bloggfærslur 28. febrúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband