Jarðskjálftahrina í Skjaldbreið

DSCN5734 bÍ austurhlíðum Skjaldbreiðar er í gangi nokkuð stöðug skjálftahrina. Þegar þetta er skrifað hafa orðið alls 57 skjálftar frá því rétt fyrir miðnætti fimmtudaginn 7. desember. Stærstu skjálftarnir þrír urðu allir í dag.

  • Fyrsti stóri skjálftinn var 3,5 stig og varð kl. 19:20
  • Annar skjálftinn rúmum hálftíma síðar, 3,1 stig, kl: 19:53
  • Síðasti stóri skjálftinn var 3,8 stig og var kl. 21:26

Allir skjálftarnir voru á svipuðum stað, frá 5 og niður í 5,6 km dýpi.

Ég man ekki eftir svona jarðskjálftahrinu undir Skjaldbreið síðan ég fór að fylgjast með skjálftum hér á landi og eru það nokkur ár síðan. Hins vegar hef ég ekkert annað en minni mitt til að styðjast við. Þykist þó geta fullyrt að hér er um merkilegan atburð að ræða, að minnsta kosti fyrir mig.

Um 9.000 ár eru síðan Skjaldbreið gaus. Hún er dyngja og frá henni rann mikið hraun sem síðan hafa horfið undir yngri hraun. Eldgosið var á þeim tíma þegar svæðið var íslaust. Skammt frá er Hlöðufell sem er líka dyngja en myndaðist við gos undir jökli og telst því stapi, raunar móbergsstapi þar sem móberg varð til er hraun rann í vatn.

Jarðskjálftar þurfa alls ekki að vera fyrirboðar um eldgos, nema ... Jarðfræðingar meta hættu á eldsumbrotum á fjölmarga vegu. Mælar sýna breytingu á landi, lyftingu, færslu, óróa og fleira. Skjálftar undir Skjaldbreið þurfa ekki að vera neitt annað en jarðskorpuhreyfingar, skjálftar í rekbelti sem þarna gengur allt frá Reykjaneshrygg og upp í Langjökul. Þarna eru slitrótt sprungusvæði austur um landið. Á þeim geta vissulega orðið hreyfingar og jafnvel hrinur eins og í Skjaldbreið.

Svo er það þetta orð „nema“. Gosið getur norðan Þingvallavatns eins og annars staðar. Hins vegar eru meiri líkur á því að það gjósi í Heklu, Öræfajökli, Bárðarbungu, norðaustan Öskju, við suðurenda Kleifarvatns, í sjó fyrir norðaustan eða suðvestan landið.

Hins vegar hafa nú orðið 44 skjálftar í austurhlíðum Skjaldbreiðar en innan um tíu síðustu þrjá daga í Öræfajökli og þar er jafnvel búist við eldgosi.

Ég veðja á að hrinan í Skjaldbreið deyi út enda hef ég bara haft góðar draumfarir upp á síðkastið ... Hvað heldur þú, lesandi góður?

Á myndinni sést Skjaldbreiður og fjær er Hlöðufell. Hægra mgin við hinn knáa göngumann er Skriðan.

 


mbl.is Skjálfti af stærð 3,5 í Skjaldbreið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. desember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband