Þrjár tegundir stjórnenda

Stjórnun er snúið fyrirbæri. Stjórnunarfræði hafa verið kennd í háskólum á langan tíma og hundruð bóka koma út á hverju ári um listina að stjórna, hvað einkenni góða stjórnendur og hvað beri að varast.

Þetta segir Þórður Sverrisson, ráðgjafi í stjórnun og stefnumótun, í pistli í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag. Í honum ræðir hann meðal annars um þrjár tegundir stjórnenda samkvæmt hugmyndafræði Adam Grant í bókinni „Give and Take“:

  1. Fjölmennasti hópurinn er sá sem vill hafa jafnvægi á því að gefa og þiggja hrós. Þórður segir þessa líklega til að vegna vel og segir það hlutverk góðs stjórnanda að hjálpa sínu fólki til að skína en flestir vilja þó fá sinn hluta af vegsemdinni.
  2. Annar hópur hugsar mest um að þiggja en gefa hrós. Þeir eru uppteknir af sjálfum sér, þiggja jafnvel það hrós sem öðrum er gefið og kastljósið má helst ekki sína á aðra en þá sjálfa. Þórður segir réttilega að slíkir stjórnendur verði sjaldnast farsælir til lengdar. Starfsfólkið sér einfaldlega í gegnum þá og verður óánægt.
  3. Í þriðja og síðasta hópnum eru stjórnendur sem vilja nánast eingöngu gefa af sér, fremur en að þiggja. Hann orðar þetta svona:

Hugsa sífellt um að styðja við fólkið sitt. Beina athyglinni að því sem aðrir hafa lagt til málanna, fremur en að vera uppteknir af eigin framlagi. Árangur teymisins er ofar í þeirra huga en eigin framgangur og frægð. Og andstætt því að vera uppteknir af því að gæta þess að eigin hugmyndir séu kirfilega við þá tengdar, vilja þessir stjórnendur fremur sá fræjum hugmynda fyrir aðra að uppskera. Fagna þegar þeirra eigin hugmyndir fá brautargengi með forystu annarra, sem fá síðan hrós fyrir. Lifa og starfa með það að leiðarljósi að sælla sé að gefa en þiggja...

Held að nokkuð sé til í þessu hjá Þórði og Grant. Ég hef starfað með mörgum stjórnendum og flestir falla í miðjuhópinn, alltof margir í þann efsta en frekar fáir í síðasta. Merkilegt er þó til þess að hugsa að þeir sem ég starfa mest með um þessar mundir falla í þann hóp, sem er afar ánægjulegt, einstök upplifun að vinna með slíku fólki.

Þórður vitnar í þann merka fræðimann Peter F. Drucker sem sagði einhvers staðar:

Þeir leiðtogar sem sinna hlutverki sínu vel segja aldrei „ég“. Og það er ekki vegna þess að þeir hafa þjálfað sig í að segja ekki „ég“.

Þeir hugsa ekki „ég“.

Þeir hugsa „við“; þeir hugsa „liðið“.

Þeir skilja að hlutverk þeirra er að láta liðið vinna saman sem heild. Þeir taka á sig ábyrgð og reyna ekki að komast undan henni, en „við“ fær þakkirnar og hrósið. Þetta er það sem skapar traust, það sem gerir stjórnandanum kleift að vinna verkefnið, hvert sem það er

Þetta er vel mælt og pistillinn hjá Þórði Sverrissyni er góður eins og oft áður.

 


Bloggfærslur 7. desember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband