Öll mengun er slæm nema sú á gamlaárskvöldi

Þversagnirnar í lífi meðalmannsins eru miklar en aldrei missir hann svefn yfir þeim. Ástæðan er einfaldlega sú að samfélagslegar skoðanir snerta hann sjaldnast en geri þær það tekur hann afstöðu oft þvert á almenna skynsemi.

Almennt erum við á móti mengun:

Þannig er með plastpoka. Þrýstingur samfélagsins veldur því að æ fleiri hætta að nota plastpoka í verslunarferðum og velja frekar eitthvað úr taui eða öðru til burðarins. Fréttir af plastmengun í náttúru heimsins eru hrikalegar.

Þannig er það með skolpið. Fæstir leggja leið sína niður í fjöru en þeir sem það gera finnst alveg ómögulegt ef strendurnar eru ekki hreinar. Þess vegna er það krafa samfélagsins að skolpið sé hreinsað áður en því er sleppt í hafið.

Þannig er það með nagladekkin. Hversu margir daga á ári þarf að aka á nagladekkjum? Þeir eru fáir ef aungvir. Þar af leiðandi aka fjölmargir á nagladekkjum á snjóauðum götum meginhluta vetrarins. Nagladekk valda svifryksmengun og eru því hættuleg heilsu manna. Margir vilja banna þau.

Þannig er það með opna elda. Samfélagið vill ekki sinubrennur nema á ákveðnum tíma ársins. Ekki má brenna rusli. Eldar geta verið hættulegir og askan er hættuleg heilsu manna.

Þannig er það með göturyk. Samfélagið vill að götur borga og bæja séu sópaðar til að minnka svifryk. Borgin þráast samt við vegna blankheita og treystir á rokið.

Þannig er það með skotelda um áramót. Þeir valda gríðarlegri mengun, miklum sóðaskap og hættu fyrir notendur og nærstadda. En nú bregður svo við að mikill meirihluti fólks snýr snúðugt upp á sig og heldur því fram að skoteldar séu hluti af persónulegum rétti einstaklingsins. Líklega svona svipað og margir Bandaríkjamenn telja það rétt sinn að eiga og ganga með byssur sér til varnar eða skemmtunar.

Sérfræðingar halda því fram að mengun vegna skotelda sé gríðarlega mikil, stórhættuleg heilsu fólks og þar að auki skapa þeir hættu á beinu líkams- og eignatjóni.

En nei ... Við snúum upp á okkur og segjum að þetta skoteldanotkunin sé álíka mikill réttur okkar og þau frelsisákvæði sem er að finna í stjórnaraskránni.

Sko, við erum á móti allri plastmengun, strandmengun, svifryksmengun og opnum eldum og álíka. En skoteldarnir eru friðhelgir með allri sinni mengun og hættu. Er þetta ekki þversögn.

Jú, en við erum að reyna að styrkja björgunarsveitirnar ...

Já, auðvitað. Það réttlætir allt. Ekki satt?


Bloggfærslur 31. desember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband