Lélegar fyrirsagnir og ofnotuð, furðuleg og vannýtt orð

Ég leit út um gluggann og horfði á Esjuna, færði mig í annan glugga og, jú, þarna var Hengill, Vífilsfell, Bláfjöll, Þríhnúkar, Grindaskörð, Húsfell og Helgafell. Já, útsýnið heiman frá er stórbrotið (nota ekki orðið sjónarspil). 

Undanfarin tvö ár hef ég verið að hnýta í málfar í fjölmiðlum. Fer þá vel á því nú í lok ársins að segja frá því sem ég hef heyrt eða lesið og settist eitthvað skakkt í hausinn á mér og svo hinu sem mætti nýta betur.

Íslenska er stórkostlegt tungumál, fjölbreytt og auðnotað. Þó gildir það sama hér og annars staðar í veröldinni. Fáir ná góðum tökum á þjóðtungu sinni nema hafa alist um við lestur frá barnæsku. Þetta má glögglega sjá í fjölmiðlum. Víðlesið fólk skrifar þróttmikinn texta og hefur úr drjúgum orðaforða að velja. Aðrir njóta ekki þessara hlunninda en rembast þó við.

Hér eru ýmislegt úr íslenskum fjölmiðlum sem hefur ýmist gert mig dapran eða fengið mig til að skella upp úr. Loks eru svo nokkur orð sem mætti nota oftar. Þykir leitt að hafa stundum gleymt að vitna til heimildar.

Ofnotuð orð og orðasambönd

  1. Gera það að verkum …
  2. Glatt á hjalla
  3. Hafna á …
  4. Heyrðu
  5. Í sínu fínasta pússi …
  6. Innviðir
  7. Ítrekað
  8. Klárlega
  9. Labba
  10. Mikið um dýrðir
  11. Óhætt að segja …
  12. Orðræða
  13. Pomp og prakt
  14. Samanstendur af …
  15. Sannkallað
  16. Sjónarspil
  17. Skartar sínu fegursta
  18. Stíga til hliðar, stíga niður, stíga fram
  19. Tímapunktur
  20. Það má með sanni segja …

Furðuleg orð og orðasambönd

  • Misvarir,
    • „Íbúar í Grímsey urðu misvarir við jarðskjálftann.“ Stöð2.
  • Persónugallerí.
    • „Í Flatey er þessi líka fína leikmynd sem lítið hefur þurft að breyta og þar hitti Jóhanna fyrir áhugavert persónugallerí …“. Morgunblaðið.
  • Ókjörinn.
    • „Ókjörnir fulltrúar sem styddu 90% af brjáluðum stefnum forsetans …“ visir.is. 
  • Standa með sjálfum sér.
    • „MaCain var maður sem stóð með sjálfum sér.“ Ríkisútvarpið.
  • Með sigur á bakinu.
    • „Markmiðið að allar komi heim með Evrópuleik á bakinu.“ Morgunblaðið.
  • Öfgavæða.
    • „Talið er að honum hafi tekist að öfgavæða einhver þeirra.“ visir.is. 
  • Spila handbolta í fyrirsögnum.
    • „Óðinn spilar handbolta í fyrirsögnum.“ Morgunblaðið.
  • Snjóstormur.
    • Ríkisútvarpið.

Lélegar fyrirsagnir í fjölmiðlum

  • „Valtar White aftur á skjáinn?“
    • Morgunblaðið, lesbók bls. 36, 21.07.2018.
  • „Sigraði anor­ex­í­una,“
    • mbl.is. 
  • „Valur féll ekki í sömu gryfju.“
    • Bls. 2, íþróttablað Morgunblaðsins 03.08.2018. 
  • „Markmiðið að allar komi heim með Evrópuleik á bakinu.“
    • Íþróttablað Morgunblaðsins 07.08.2018.
  • „Sara vongóð um að geta leikið „úrslitaleikina“.
    • Íþróttablað Morgunblaðsins 07.08.2018.
  • „Ég kom að konu sem lá við hlið stígsins og emjaði úr sársauka“.
    • dv.is. 
  • „Spillingarmál ógnar argentínskri elítu – Bílstjórar voru látnir flytja peningapoka á milli staða.“
    • dv.is. 
  • „Lyfjabanni Rússa lyft: „Mestu svik íþróttasögunnar“.
    • visir.is. 
  • „Óðinn spilar handbolta í fyrirsögnum.“
    • Fyrirsögn bls. 2 íþróttablaði Morgunblaðsins 20. febrúar 2018.
  • „10 salerni gerð til þess að fríka þig út.“
    • dv.is. 
  • „Barði konuna sína á Kvennafrídaginn.“
    • dv.is.

Vannýtt orð

  1. Minnast; orðasambandið minnast við e-n: „kyssa, heilsa eða kveðja með kossi“, 
  2. Öngvegi; þröngur vegur
  3. Hugrenning; hugsun, þanki
  4. Dagrétting (e. update)
  5. Mænir; hæsti hluti á hallandi þaki
  6. Öndverður; mótstæður, sem snýr á móti, snemma, fremstur
  7. Setja ofan, setja niður
  8. Útsynningur; suðvestanvindur
  9. Blómi; eggarauða
  10. Bágrækur; erfiður í rekstri
  11. Vogrek; reki á fjöru
  12. Hvinnskur; þjófóttur
  13. Hætta; (stíga niður, stíga til hliðar)
  14. Fegurð; (sjónarspil)
  15. Ganga; (labba)
  16. ; (tímapunktur)
  17. Er; (samanstendur af)
  18. Sannarlega; (klárlega)
  19. Rekast á; (hafna á, klessa á)
  20. Aftur; (ítrekað)

 

brosÓska lesendum mínum gleðilegra ára (ég á við mörg ár en ekki kátra púka).


Engir jarðskjálftar á Hellisheiði

181230 kort jarðskjálfti bÍ frétt í Morgunblaðinu segir að jarðskjálftar hafi orðið í nótt á Hellisheiði. Þetta er rangt. Þeir urðu fyrir sunnan heiðina, raunar sunnan við Skálafell sem oft er kennt við hana.

Á meðfylgjandi loftmynd sem fengin er af map.is eru mörk Hellisheiðar gróflega teiknuð. Sé myndin stækkuð sést þetta enn skýrar.

Á töflu Veðurstofu Íslands um skjálftanna segir til dæmis um stærsta skjálftann sem var 4,4 stig að hann hafi verið „2,5 km SSV af Skálafelli á Hellisheiði“.

Þó svo að þannig sé tekið til orða er algjörlega ljóst að skjálftinn varð ekki á Hellisheiði.

Annar skjálfti varð 2,8 km NNA af Raufarhólshelli sem oft er sagður vera í Þrengslum en er talsvert fyrir sunnan þau. Þar af leiðir að skjálftinn var ekki í Þrengslum og allra síst á Hellisheiði.

Blaðamaður Moggans lætur tilvísunina villa sér sýn. Suður af Skálafelli á Hellisheiði þýðir ekki að skjálftarnir hafi verið á Hellisheiði. Þó Hádegismóar séu gata norðvestan við Rauðavatn þýðir það ekki að hún sé í vatninu ...

Rétt fyrir jól varð mikil jarðskjálftahrina norðaustan við Grindavík, suðvestan í Fagradalsfjalli. Margir skjálftarnir voru stórir, að minnsta kosti einn var 3,2 stig. Fátt var sagt af þessari hrinu í fjölmiðlum. Líklega eins gott því einhverjir blaðamenn kynnu að hafa sagt að jarðskjálftarnir væru í Grindavík.

Landafræðin skiptir öllu máli, ekki aðeins fyrir lesendur dagsins í dag. Síðar meir munu fréttir teljast heimildir um það sem gerðist og þá er illt til þess að hugsa að þær séu ekki áreiðanlegar.


mbl.is 25 eftirskjálftar hafa mælst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hún sigraði keppnina, aðrir unnu vinnu og tré sem féll í skyndi.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.


1.

„Rakel nálgaðist björg­un­ar­sveit­irn­ar með hug­mynd­ina og síðan þá hafa hlut­irn­ir gerst hratt en Rót­ar­skot­in verða til sölu á flug­elda­sölu­stöðum björg­un­ar­sveit­anna fyr­ir ára­mót og kosta 3990 krón­ur. 

Frétt á mbl.is.    

Athugasemd: Hvað er átt við? Í orðabók segir að sögnin að nálgast merki að koma nærri, sækja og einnig að ná í eitthvað. Með þetta í huga skilst ekki að Rakel hafi nálgast einhvern með hugmynd. Samkvæmt orðanna hljóðan gæti hún hafa smátt og smátt komist í „hæfilega“ fjarlægð og þá annað hvort kallað til björgunarsveitar eða hent henni yfir til hennar.

Nei, þetta gengur ekki upp. Blaðamaðurinn er að öllum líkindum að blanda saman ensku og íslensku. Á ensku gæti þetta verið orðað svona:

Rachel approached the rescue team with the idea …

Ágæti, lesandi. Svona tölum við ekki á íslensku.

En flugeldasölustaðir …? Er þetta orð ekki of langt? Auðveldlega má segja sölustaðir björgunarsveitanna. Það skilst alveg því þær selja yfirleitt ekkert annað en flugelda og álíka varning.

Tillaga: Rakel bar hugmyndina undir björg­un­ar­sveit­irn­ar og síðan hafa hlut­irn­ir gerst hratt. Rót­ar­skot­in verða til sölu á flug­elda­sölu­stöðum björg­un­ar­sveit­anna fyr­ir ára­mót og kosta 3990 krón­ur.

2.

„Svo oft sigraði hún keppnina … 

Fréttatími Stöðvar2 kl. 18:30, 26.12.2018.  

Athugasemd: Ég skrifaði ekki hjá mér hvert var tilefni þessa beygluðu setningar. Tæknilega útilokað er að einhver sigri keppi. Keppni er kappleikur eða mót þar sem fólk etur kappi hvort við annað. 

Geta hús, verslanir eða mannvirki opnað? Nei, þær geta það ekki, ekki frekar en lokað. Mannshöndin þarf að loka húsum, verslunum eða mannvirkjum. Veginum yfir Skeiðarársand er stundum lokað, látum liggja á milli hluti hvers vegna það er gert. 

Tillaga: Svo oft sigraði hún í keppninni.

3.

„Enginn er ánægðari en þessi panda sem rúllaði sér fram og til baka í snjónum. 

Fréttatími Ríkissjónvarpsins kl. 19:00, 26.12.2018.  

Athugasemd: Á skjánum birtist mynd af skjóttu, loðnu dýri sem lokað var inni í dýragarði í höfuðborg Bandaríkjanna. Þulur las ofangreindan texta og þetta allt var svo sætt og fallegt. Þó benti ekkert til að pandan væri ánægðari en einhverjir aðrir, dýr eða menn í rimlabúri.

Þá er það spurningin. Rúllaði pandan sér eða velti hún sér? Fréttamenn af yngri kynslóðinni, þeir sem dingla útidyrabjöllu, fullyrða að bílar klessi á ljósastaur og lúlla tala enn barnamál þó þeir eigi að hafa tekið út eðlilegan málþroska mörgum árum en þeir hófu störf við blaðamennsku. 

Hefur einhver séð hest rúlla sér? Nei, varla. Þeir velta sér.

Tillaga: Pandan velti sér fram og til baka í snjónum ...

4.

„Fyrstu viðbragðsaðilar sem komu á vett­vang bana­slyss við Núpsvötn í gær unnu stór­kost­lega vinnu þrátt fyr­ir erfiðar aðstæður. 

Frétt á mbl.is.   

Athugasemd: Tali viðmælandi blaðamanns slæmt mál má hann ekki sýna lesendum þá óvirðingu að hafa það óbreytt eftir. Honum ber að færa orð annarra til betri vegar.

Ofangreind tilvitnun er hrikalega slæm, enginn vinnur vinnu.

Í sömu frétt er haft eftir sama manni:

Það var lög­regla, einn maður, sem komst fyrst á vett­vang og gerði stór­kost­lega vinnu.

Enn heldur blaðamaðurinn áfram að skemma fréttina, þetta er nánast sama villan og fyrir ofan. Menn vinna frábærlega, starfa af kostgæfni 

Með örlítilli hugsun hefði verið hægt að orða þetta svona:

Starf lögreglumannsins sem kom fyrst á staðinn var ómetanlegt.

Enn og aftur segir í sömu frétt: 

„Þess­ir aðilar fram­kvæma al­veg magnaða vinnu ásamt björg­un­ar­sveit­inni,“ bæt­ir hann við.

Úff ... Varla er ofsögum sagt að bæði blaðamaðurinn og viðmælandi hans eru frekar málvilltir. Mátti ekki segja að þeir sem hjálpuðu þarna til hafi staðið sig afar vel?

Blaðamaðurinn skrifar eins og hann væri að þýða úr ensku:

„He did a great job“.

Sá sem þýðir þetta beint býr til málfræðilegt stórslys. 

Annars velti ég því fyrir mér hvað sé viðbragðsaðili. Er það lögreglan, slökkvilið, sjúkraflutningamenn, vegfarendur eða álfur út úr hól?

Af hverju þarf að kalla einhverja viðbragðsaðila? Má bara ekki segja hverjir það eru í hvert skipti?

Blaðamanni ber að hafa í huga að ekki eru allir góðir sögumenn og ekki tala allir rétt mál. Þess vegna verður hann að leiðrétta málfar þegar þess er þörf. Til þess að geta það verður blaðamaðurinn þó að hafa einhvern skilning á íslensku máli.

Tillaga: Þeir sem komu fyrstir að slysinu við Núpsvötn stóðu sig frábærlega vel þrátt fyrir erfiðar aðstæður.

5.

„Drumburinn 3000 ára gamall og féll í skyndi. 

Fyrirsögn á ruv.is.  

Athugasemd: Einhvern veginn er ég ekki alveg sáttur við nafnorðið skyndi eins og það er notað í fyrirsögn á afar fróðlegri frétt á vef Ríkisútvarpsins. Mér finnst til dæmis ekki sannfærandi að segja að skriða hafi fallið í skyndi? Betra er að segja að hún hafi fallið hratt og jafnvel fyrirvaralaust.

Í fréttinni er sagt frá trjádrumbi sem fannst undir Breiðamerkurjökli. Viðmælandi í fréttinni segir að jökull hafi „rutt skóginum í burtu“.

Flestir sem til þekkja vita að framrás jökuls er sjaldnast mjög hröð. Hraðinn byggist á farginu sem þrýstir honum áfram og svo á halla lands. Breiðamerkurjökull skreið til dæmis ekki eins hratt fram og Virkisjökull. Sá síðarnefndi fellur bratt niður úr Öræfajökli, gróf sig niður og myndaði mikla jökulruðninga.

Samkvæmt orðabók merkir orðið skyndi „flýtir, skynding, hraði: í s. [sagnorð] án tafar, í snatri“. Hér áður fyrr var skundað á Þingvöll.

Sölvi Sveinsson segir svipað í bók sinni Orðaforði:

Atviksorðið skyndilega er nú einkum notað í merkingunni allt í einu: Skyndilega spratt hún á fætur o.s.frv. En orðið getur líka þýtt snögglega eða hratt þó það sé sjaldgæft í nútímamáli.

Og þarna kviknaði ljós hjá mér. Auðvitað fer best á því að nota lýsingarorðið hratt. Það hefur þann kost að geta tengst við umræðuefnið. Maðurinn hleypur hratt, bílnum er ekið of hratt, flugvélin fer hratt af stað, hesturinn skeiðar hratt, eldflaugin fer hratt framhjá tunglinu og svo framvegis. Varla er hægt að segja að maður, bíl, flugvél, hestur og eldflaug fari jafnhratt vegna þess að hraði er afstæður og miðast við þann eða það sem um er rætt.

Jökull sem skríður fram og fer yfir skóglendi er á allt öðrum hraða en bíll eða eldflaug. Fer þó allt hratt með sínum hætti.

Hins vegar gengur varla upp að segja að tré hafi fallið hratt eða í skyndi, það gerðist varla þannig. Fyrirsögnin þarf að vera meira lýsandi. Vitað er að Breiðamerkurjökull felldi skóginn fyrir 3000 árum og þá er það spurningin hvort jökullinn hafi fellt tréð eða drumbinn. Ég veðja á tréð.

Með tillögunni hér fyrir neðan er ekki tekin afstaða til hraðans en lesandinn skilur það sem liggur í orðanna hljóðan, að skriðjökullinn hafi verið á hreyfingu.

Tillaga: Tréð sem jökullinn felldi fyrir 3000 árum


Borgarstjóri settur í nefnd sem á að hreinsa hann pólitískt

Borgarstjóri bMér finnst það eðli­legt því hann er æðsti yf­ir­maður stjórn­sýsl­unn­ar og æðsti yf­ir­maður borg­ar­inn­ar og á meðan hann er það þá hlýt­ur hann að njóta ein­hvers trausts til að fara í saum­ana á því sem bet­ur má fara inn­an stjórn­sýsl­unn­ar. Þannig að að svo stöddu finnst mér ekk­ert að því að hann taki sæti í þess­um hópi.

Þetta segir Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi VG, í viðtali við Morgunblaðið. Hún er í meirihlutanum í borgarstjórn sem ber ábyrgð á fjárhagsvanda borgarinnar og meðal annars svokölluðu braggamáli.

Upp undir þrjátíu alvarlegar ávirðingar voru gerðar í skýrslu innri endurskoðunar um braggamálið. Hér eru tuttugu og fimm nefndar og vantar þó nokkrar.

Nánast allt það sem innri endurskoðun nefnir í sótsvartri skýrslu sinni má beint eða óbein rekja til Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra, verklag hans og starf. Skýrslan er mikill áfellisdómur um stjórnarhætti hans, athafnir og athafnaleysi.

Nú hefur verið ákveðið að setja á stofn nefnd sem fara á yfir skýrslu innri endurskoðunar um braggann. Dagur B. Eggertsson á að sitja í henni. Þetta er ekki einu sinni fyndið Þetta er eins og ef Gunnar Bragi Sveinsson, alþingismaður, eigi að sitja í siðanefnd Alþingis sem fara á yfir Klaustursmálið. Hann veit líklega miklu betur en borgarstjórinn hvar mörkin liggja.

Liv Magneudóttir, borgarfulltrúi meirihlutans, ver auðvitað borgarstjórann sinn eins og ekkert sé sjálfsagðara. Enn  og aftur ullar hún og nú á Reykvíkinga.

Trúir nokkur maður því að borgarstjóri hafi ekkert vitað? 

Gunnar Bragi baðst afsökunar sem fjölmargir taka ekki gilda af pólitískum ástæðum. 

Dagur B. Eggertsson baðst ekki afsökunar og Liv Magneudóttir, borgarfulltrúi meirihlutans í borgarstjórn kokgleypir það af pólitískum ástæðum.

Dagur hlýt­ur að njóta ein­hvers trausts segir hún þó svo að varla sjáist í manninn fyrir pólitískum óhreinindum. Líklega er það eitt markmið nefndarinnar að hreinsa borgarstjóra.

Og hvar eru nú Píratarnir sem segjast sjá spillingu í hverju horni? Jú, þeir verja borgarstjórann. Kanntu annan betri?

 

 

 

 


Réttleiki, hlítni og vængur sem var ófær um að sinna hlutverki sínu

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

Nauthólsvegur 1001.

„Eftirlitinu útvistaði hann til verkefnisstjóra á byggingarstað en það fólst meðal annars í því að staðfesta réttleika reikninga frá verktökum. 

Skýrsla Nauthólsvegur 100, um braggamálið, útg. Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar, bls. 35.   

Athugasemd: Ég kannast ekki við orðið nafnorðið „réttleika“, það er þó auðskiljanlegt í samhenginu. Orðalagið líkist enskri beitingu orða. Í stað þess að segja frá á eðlilegan hátt er gripið til þess að búa til nafnorð en nafnorðastíll er mjög slæmur fyrir þróun íslenskunnar. 

Miklu betur fer á því að orða seinni hlutann eins og segir í tillögunni hér að neðan.

Þetta kynduga orð, „réttleiki“, er að finna víða í skýrslunni, á blaðsíðum 35 (tvisvar), 36, 59 (tvisvar) 65 og 66. Þetta bendir til þess að höfundur hennar sé nú ekki vanur skrifum. Það kemur berlega í ljós á blaðsíðu 7 er þessi furðulega setning:

Niðurstöður innri endurskoðunar benda eindregið til þess að kostnaðareftirliti hafi verið ábótavant og hlítni við lög, innkaupareglur, starfslýsingar, verkferla, ábyrgð og forsvar hafi ekki verið nægjanleg.

Nafnorðaást höfundarins er ótrúleg. „Hlítni“ er ekki til jafnvel þó það kunni að vera rétt myndað og skiljist þarna. Hins vegar verður við að hafa hugfast að íslenskan styðst framar öllu við sagnorð en til dæmis enskan er elsk að nafnorðum.

Sögnin að hlýða er stundum rituð með ‚ý’. Réttara mun að notaí´. Brekkan sem liggur frá rótum fjalls og upp á brún er yfirleitt kölluð fjallshlíð eða bara hlíð. Svo er einnig með bæjarnafnið Hlíð. Væri hægt að segja að kindin sem sækir í hlíðina sé haldin „hlíðni“? Eða að skíðamenn séu hlíðnir ...?

Hvað á þá að segja? Ég hefði skrifað svona:

Niðurstöður innri endurskoðunar benda eindregið til þess að lögum hafi ekki verið hlítt,  kostnaðareftirliti hafi verið ábótavant, innkaupareglur, starfslýsingar, verkferla, ábyrgð og forsvar hafi ekki verið nægjanleg.

Á sömu blaðsíðu kemur fyrir orðið „misferlisáhætta“. Hér brast mér þolinmæðin. Hver í fjandanum las próförkina?

Tillaga: Eftirlitinu fól hann verkefnisstjóra byggingarinnar, en það felst meðal annars í því fara yfir reikninga og staðfesta að þeir séu réttir.

2.

Þrátt fyrir að vera ekki orðinn þrítugur hefur Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði karlalandsliðsins í fótbolta undanfarin sex ár, verið á hvers manns vörum í um sex ár …“ 

Bókardómur á bls. 44 í Morgunblaðinu 22.12.2018.   

Athugasemd: Nástaða er stílleysa, hún er eins og lús í hári, situr þar og fjölgar sér hýslinum til óþæginda nema hann sætti sig við nit. Svo óskaplega margir sjá hana ekki og þeim er alveg sama. 

Alltaf er auðvelt að komast hjá nástöðu, hið eina sem þarf að gera er annað hvort að skrifa sig framhjá tvítekningunni eða nota önnur orð eins og gert er í tillögunni hér fyrir neðan.

Tillaga: Þrátt fyrir að vera ekki orðinn þrítugur hefur Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði karlalandsliðsins í fótbolta undanfarin sex ár, verið á hvers manns vörum ...  

181224 mbl áskrift3.

Gefðu mánaðar áskr.ift af Morgunblaðinu án endurgjalds og kynntu vinum þínum og vandamönnum það besta í íslenskr.i blaðamennsku.“ 

Auglýsing á bls. 4 í íþróttablaði Morgunblaðsins 24.12.2018.   

Athugasemd: Ég dreg ekkert í efa um að á Morgunblaðinu starfi góðir blaðamenn og víst er að blaðið er afar gott. Auglýsingin sem ofangreind tilvitnun er úr er þó meingölluð, hún er öll útbíuð af svona villum eins og sjá má hér að ofan.

Fyrst er það málfræðin. Ég er áskrifandi Morgunblaðinu, ekki af því. Margir eru ekki vissir á því hvort eigi að nota af eða að í ákveðnum tilvikum.

Í Málvísi, handbók um málfræði handa grunnskólum segir:

að eða af?

Dæmi um hvenær forsetningin að er notuð og hvenær af.

að ástæðulausu, að fyrra bragði, brosa að þessu, dást að barninu, að eigin frumkvæði, gagn er að bókinni, gera að gamni sínu, heiður er að þessu, hlæja að honum, að þessu leyti, að yfirlögðu ráði, uppskrift að laxi, gera það að verkum, vitni að árekstrinum.

af öllu afli, ekki af neinni sérstakri ástæðu, hafa gaman af handbolta, að ganga af honum dauðum, hafa gagn af námskeiðinu, gera eitthvað af sér, af minni hálfu, eiga heiðurinn af þessu, leggja sitt af mörkum, mynd af honum, af ásettu ráði, í tilefni af þessu, af fúsum og frjálsum vilja.

Flestum ber saman um að erfitt er að finna ákveðna reglum um hvenær skuli nota að og hvenær af. Máltilfinningin hjálpar þó en hún myndast einkum við mikinn lestur bóka frá barnæsku. Sé tilfinningin ekki örugg er eiginlega best að lesa ofangreint og leggja á minnið og finna fleiri heimildir.

Víkum þá aftur að tilvitnuninni. Ég er einna helst á því að þessir punktar séu einhvers konar mistök, jafnvel kunna þeir að hafa komið á sjálfvirkan hátt, til dæmis þegar villuleiðréttingaforritið tekur völdin af skrifaranum og hann gleymir að lesa yfir.

Auðvitað er það algjört hneyksli að svona meingölluð auglýsing skuli hafa komist í birtingu. Með illum vilja væri hægt að segja að hún beri ekki gott vitni um fagleg vinnubrögð við útgáfuna. Á móti kemur að svona vitleysur eru afar sjaldgæfar og fagmennskan á Mogganum er miklu, miklu meiri.

Tillaga: Gefðu mánaðar áskrift að Morgunblaðinu án endurgjalds og kynntu vinum þínum og vandamönnum það besta í íslenskri blaðamennsku.

4.

Áreksturinn gerði það að verkum að vængurinn var ófær um að sinna hlutverki sínu, vélin hefði því að líkindum hrapað.“ 

Frétt á dv.is.    

Athugasemd: Þetta er tómt bull. Svona er ekki tekið til orðs, hvorki töluðu máli né rituðu. Hluti af tæki, byggingu eða öðru gegnir að sjálfsögðu ákveðnu hlutverki. Hér væri sagt að vængurinn hafi skemmst og flugvélin hrapað.

Svo eru það orðaklisjurnar; 'gera það að verkum' og 'sinna hlutverki sínu' sem eru algjörlega ónauðsynlegar og hafa engan tilgang annan en að lengja skrifin. Mjög líklegt er að höfundur þessa texta sé útlenskur, hugsanlega finnskur og hafi þýtt greinina með aðstoð Google Translate.

Margt annað má gagnrýna í fréttinni:

Breskir fjölmiðlar greina frá því í kvöld að óvissa ríki um það hvenær flugvöllurinn opnar aftur. 

Þetta er óskiljanlega málalengingar. Miklu betur hefði farið á því að segja að fjölmiðlar hafi fullyrt að óvíst sé hvenær flugvöllurinn verði opnaður á ný. Þess ber að geta að flugvöllurinn opnar ekkert, hann er opnaður. Á þessu tvennu er stór munur.

Eftirfarandi málsgrein er tómt klúður: 

Flugi til og frá flugvellinum var ýmist aflýst eða beint í gærkvöldi þegar tilkynnt var um tvo dróna við flugvöllinn.

Betra hefði verið að orða þetta svona:

Flugumferð var ýmist aflýst eða beint annað í gærkvöldi eftir að sést hafði til tveggja dróna við hann.

Svo er sagt:

Breski herinn hefur verið kallaður út og lögregla hefur leitað á náðir almennings um upplýsingar um þá sem bera ábyrgð á drónunum. 

Hvað þýðir að leita á náðir einhvers? Í malid.is segir að orðið merki náð, , hvíld, vernd, miskunn. Af orðinu er leidd sögnin að náða og lýsingarorðið náðugur. Og hvað skyldi náðhús merkja?

Af þessu leiðir að lögreglan hefur ekki leitað á náðir almenning, hún mun hins vegar hafa sóst eftir upplýsingum frá almenningi.

Vonlaust er að eltast við málfarsvillur í illa skrifaðri grein. Hún er DV einfaldlega til skammar.

Tillaga: Áreksturinn skemmdi vænginn og vélin hefði að öllum líkindum hrapað.

5.

„… hefur sú hugsun sótt á margar Þjóðverja að hópurinn, sem samanstóð af Beate Zschäpe og tveimur körlum Uwe Mundlos og Uwe Böhnhardt, hafi fengið utanaðkomandi aðstoð.“ 

Frétt á dv.is.    

Athugasemd: Undarlegt er að lesa þessa frétt. Orðalagið er barnalegt og að auki er hún fljótfærnislega rituð. Ýmislegt bendir til að blaðamaðurinn hafi ekki lesið yfir skrifin áður en hann birti þau eða, og það sem verra er, hafi ekki skilning á stíl, stafsetningu eða málfari.

Í tilvitnuninni er talað um 'hugsun' og stuttu síðar heitir hugsunin 'spurning'. Þetta bendir ekki til að höfundurinn hafi lesið skrif sín yfir eða gert það gagnrýnislaust.

Strax í næstu málsgrein heldur blaðamaðurinn áfram að klúðra fréttinni:

Í þeim kom aldrei fram hvort NSU hefði notið aðstoðar fleiri.

Hvað á blaðamaðurinn við með þessu? „… notið aðstoðar fleiri.“ Líklega á hann við að NSU hafi notið aðstoðar annarra. Þetta bendir ekki til að blaðamaðurinn sé ekki vel að sér skrifum og hafi ekki góða máltilfinningu. 

Tillaga: … hefur sú sótt á marga Þjóðverja að Beate Zschäpe, Uwe Mundlos og Uwe Böhnhardt, hafi fengið aðstoð annarra.

6.

„Þegar Akihito lætur af störfum í apríl verður hann fyrsti japanski keisarinn til þess að stíga til hliðar sjálfviljugur í nærri tvær heilar aldir. 

Frétt á bls. 8 í Fréttablaðinu 24. desember 2018.    

Athugasemd: Klisjur eru ódauðlegar af því að svo margir skilja ekki uppruna þeirra. Sá sem lætur af störfum hættir. Enska ensku orðasamböndin „step aside“ og „step down“ eru bæði þýdd svo í Macmillan Ditionary á netinu:

to leave an official position or job, especially so that someone else can take your place

Þetta þýðir að einhver hættir í stöðu eða starfi til þess að annar getið tekið við. Orðasambandið að stíga til hliðar er ofnotað og má beinlínis nota sögnina að hætta í staðinn.

Sem sagt, Akihito hættir og er fyrstur keisara sem hættir … Allir sjá að þetta er bölvuð stílleysa sem er afleiðing af hugsanaskorti og gagnrýni á eigin skrif.

Blaðamaðurinn segir að „í nærri tvær heilar aldir“. Fróðlegt væri ef keisarinn væri sá fyrsti sem segir af sér í tvær hálfar aldir. Nei, kæri lesandi, svona er ekki hægt að skrifa. Blaðamenn verða að vanda framsetninguna. Talmál hentar ekki alltaf í rituðu.

Tillaga: Þegar Akihito lætur af störfum í apríl verður hann fyrsti japanski keisarinn sem það gerir sjálfviljugur í nærri tvær aldir.“

7.

„Hundruð fórust í harmleik í Indónesíu. 

Fyrirsögn á bls. 8 í Fréttablaðinu 24. desember 2018.    

Athugasemd: Harmleikur merkir samkvæmt orðabók leikverk sem endar illa, sorgarleikur, hryggilegur atburður eða válegur atburður, oft í náttúrunni. Hugsanleg er hið fyrst nefnda upprunaleg merking orðsins. Síðar kann merkingin að hafa færst yfir í það sem almennt telst afar sorglegt eða hræðilegt.

Ég hefði reynt að komast hjá því að nota orðið harmleikur, og notað þess í stað hamfarir en það merkir mikil umbrot og átök, einkum í náttúrunni.

Vera má að þetta sé spurning um smekk, engu að síður þarf þarf að huga að stíl og tilfinningu fyrir því sem gerðist. Munum að orðalag getur bent til dýpri hugsunar eða meiri þekkingar á málavöxtum heldur en sem nemur yfirborðinu. Blaðamenn þurfa að vera sannfærandi í fréttaskrifum sínum, annars tapast trúverðugleikinn.

Tillaga: Þegar Akihito lætur af störfum í apríl verður hann fyrsti japanski keisarinn í nærri tvær aldir sem gerir slíkt sjálfviljugur.


Inngangur að klisjunni

022b

980700-10bTvær myndir sem minna ekkert á jólin, ekki á áramótin, ekki á Jesúbarnið, ekki á jólaverslunina og síst af öllu á heimsfrið eða umhverfisvernd … og þó.

Hins vegar má segja að jólin geti eiginlega verið á hverjum sunnudegi allt árið um kring, líka á laugardögum og í hvert skipti sem ástæða er til að gera sér dagamun. Góður matur, gott vín, góður félagsskapur er ekki endilega bundinn við jólin enda má halda hátíð án tilefnis, éta, drekka og vera glaðr …

Svo er eitt að gera sér dagamun eða gera það sem Ketill raumur lýsir í Vatnsdæla sögu:

En nú vilja ungir menn gerast heimaelskir og sitja við bakelda og kýla vömb sína á miði og mungáti og þverr því karlmennska og harðfengi …

Framhaldið er ekki ótengt hugsun minn hér. Til einskis að halda hátíð án þess að hafa farið á fjöllin og haft þau undir. Þá fyrst er tilefni til hátíðar. Af þessu hef ég stundum haft nokkurt gaman og því minnist ég á þetta hér að tilefni þarf til hátíðar án þess að það sé nafn dags eða annað ómerkilegt. Því hef ég á stundum haft ærið tilefni til hátíðar ...

Hér er leitt að tilefni jólanna sem er fjarri því að vera að strjúka verslunarstarfi og fylla pyngju eigenda þeirra sem hafa eignað sér jólin til ábata fyrir sjálfa sig. Þá erum við komin svo víðs fjarri fjallstindinum að ekki tekur nokkru tali. Í dalbotninum er ekki sama útsýni og uppi hversu mikið sem einhverjir vilja telja okkur trú um það.

Því miður er það þannig að það sem einu sinni var svo einkar gott tilefni til hátíðar er nú svo mörgum týnt og tapað og í staðinn er gullkálfurinn strokinn á þeim stað þar sem áður var annað tákn.

Eitt hið fegursta ljóð sem ort hefur verið á íslenska tungu var ort á tólftu öld. Þetta er upphafið:

Heyr, himna smiður,
hvers skáldið biður,
komi mjúk til mín
miskunnin þín.

Og endar þannig:

Set, meyjar mögur,
máls efni fögur,
öll er hjálp af þér,
í hjarta mér.

Um þrjú hundruð árum eftir að Kolbeinn Tumason orti þetta ódauðlega og fagra kvæði settist skáldmæltur prestur við borð, tók fram fjaðurpenna sinn og skrifaði kvæði af stallinum Christi og er þetta úr upphafinu:

Nóttin var sú ágæt ein,
í allri veröldu ljósið skein,
það er nú heimsins þrautar mein
að þekkja hann ei sem bæri.
Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.

Þegar orðin öðlast vængi með söng og undirspili segjast Íslendingar jafnan að rykkorn hafi komist í auga og bregða upp hönd með eða án vasaklúts því hvarmar hafa vöknað. Enn þann dag í dag hefur ljóð Einars Sigurðssonar, prests í Heydölum þessi áhrif, eru þó liðin tæp fjögur hundruð ár frá andláti hans.

Enn fetum við okkur nær þrjú hundruð ár til vorra tíma. Þá yrkir eitt mikilfenglegasta skáld okkar þetta ljóð, er það þó komið í Vesturheim, en mælir þó á móðurtungu sína:

Því mótmælt hefði hans eigin öld,
að afmælið hans sé í kvöld,
og tengt þann atburð ársins við,
að aftur lengist sólskinið.
Að aftur fer að lengja sólskinið.

Þetta er úr jólakvæði trúleysingjans eftir Stephan G. Stephanson en tæp öld er frá því að hann lést. Snilldarvel ort og héðan í frá lengist dagurinn hratt og aðeins þrír mánuðir eru í jafndægur að vori. Við getum alltaf fagnað lengri sólargangi.

Þannig líður tíminn. Þjóðin á skáld sem hverju sinni lýsa tíðarandanum og ekki er hann sístur hann Ómar Ragnarsson sem yrkir um kórónu landsins:

Seytlar í sál
seiðandi mál:
Fjallanna firð,
friður og kyrrð,
íshvelið hátt,
heiðloftið blátt,
fegurðin ein
eilíf og hrein.

Og erum við þá loksins komin aftur að myndunum mínum tveimur hér fyrir ofan. Þær gætu lýst íshvelinu og heiðloftinu bláa þar sem ríkir „fegurðin eins, eilíf og hrein“. Þar er auðvitað best að vera fyrir kalla eins og mig sem stundum eru kenndir við fjöllin eða kenndir á fjöllum, man aldrei hvort það er.

Jæja, þetta átti nú bara að vera örstuttur inngangur að klisjunni sem allir þekkja og endurtaka, sumir hugsunarlaust, aðrir með tilfinningu.

Um leið og ég skrifa þetta man ég eftir því sem haft er eftir söguhetjunni í gömlu bókinni sem lesið var upp úr á fundum KFUM í gamla daga en er nú aðeins til brúks á sunnudögum. Þar segir svo fallega:

Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra

Þó tæplega 2000 ár séu frá því að þessi orð voru sögð eiga þó enn við, þau hafa jafnvel aldrei verið mikilvægari. Og hvað sagði ekki Konfúsíus sem var uppi hálfu þúsund árum áður en fyrstu jólin voru haldin:

Leggðu ekki á aðra menn það sem þú vilt ekki að lagt sé á þig”

Samhljómurinn er í orðum tveggja manna er ótrúlegur og voru þeir þó algjörlega óskyldir og hvor af sínu ætterni og þúsundir kílómetra á milli. Þetta sannar bara það sem skilja má af því sem sagt er á milli línanna að raddirnar kynslóðanna hafa sömu hugsun þó orðalagið sé doldið misjafnt.

Að þessu mæltu er ekki úr vegi að taka upp klisjuna og óska þér og þínum gleðilegra jóla og farsældar, ekki aðeins á næsta ári heldur öllum þeim sem ókomin eru.

Þetta var nú jólakveðjan mín til vina og ættingja og er hér með send áfram til allra þeirra sem nenna að lesa. 


Sauður í jólagjafakaupum seint á Þorláksmessukveldi

DrukkinnGunnar vinur minn sagðist vera sauður og um leið gall í Stínu: „Get ég fengið það skriflegt og vottað ...“ Hún hafði heyrt samtal okkar, lá greinlega á hleri, árans tófan. Fer ekki nánar út í þá sálma. Hins vegar á maður aldrei að gefa höggstað á sér, síst af öllu skriflega enda hafnið Gunni beiðninni. Ef lesendur lofa að hafa það ekki eftir mér þá verð ég að viðurkenna að tek undir með honum Gunna. Ég er líka sauður, stundum, alla veganna.

Jólin hafa alltaf verið mér erfiður tími og það sem verra er, enginn vorkennir mér. Enginn fjölmiðill tekur við mig viðtal, hvergi hef ég öxl til að gráta á.

Sko, þetta með jólin og eru sjálfsköpuð vandræði sem ég kem mér árlega í. Samfélagið, verslunin og jólasveinarnir setja á mig, og kannski aðra, óbærilega pressu. Ég á að þrífa allt, laga til, henda ónýtu, fara út með ruslið, henda fornum dagblöðum og tímaritum, fata mig upp og ... kaupa jólagjafir. Þetta síðast nefnda veldur mér meiriháttar vanda, hitt skiptir mig engu, ég sleppi því bara. En jólagjafirnar. Drottinn minn dýri. Með þeim verður til alvarlegur vandi sem venjulega verður að heilmiklu klúðri, hamförum af mínum völdum.

Þegar ég heyri jólalögin spiluð pirrast ég, lái mér hver sem vill því undarlega er ég gerður að ég kemst ekki í jólaskap í september eða október, mér er það algjörlega fyrirmunað. Þá myndast einhvers konar viðnám í hausnum á mér, líklega verð ég bar þverhaus og reynir hvað ég get að spyrna gegn jólaundirbúningspressunni sem altekur veikgeðja fólk fjórum mánuðum fyrir jól.

Þetta viðnám gerir það að verkum að ég þríf ekki í kringum mig, laga ekki til, hendi ekki ónýtu, fer ekki út með ruslið, hendi ekki fornum dagblöðum og tímaritum, fata mig ekki upp ... bara af því að ég er kominn á mótþróaskeið, sem raunar er frá byrjun janúar til loka desember ár hvert. Þess vegna druslast ég ekki til að kaupa jólagjafir nógu tímanlega. Ástæðan er sú að ég á líklega svo erfitt með að skilja á milli þessara áðurnefndu húsverkefna og ráfa um verslanir og hamstra jólagjafir.

Núna er Þorláksmessa að niðurlotum komin og við svo búið má ekki standa. Þrátt fyrir viðvarandi skort á jólastemningu verð ég að fara út í ösina, troðast og stympast, ýta og tuða ... kaupa jólagjafir. Auðvitað er það hrikaleg staðreynd að ég á eftir að kaupa fyrir dóttur mína í Noregi og fjölskyldu hennar. Skilst að DHL sé ekki opið á sunnudögum þó hann sé heitinn eftir heilögum Þorláki. Ef til vill get ég faxað gjafirnar til hennar eða sent í tölvupósti. Vona að hún Heiðrún mín lesi þetta ekki.

Jæja, ég ég verð líklega að setja undir mig höfðið, ryðjast út og kaupa eitthvað dinglumdall. Ég leit í kringum mig í morgun er ég hrópaði jólakveðjur af svölunum. Var svona að vonast eftir því að jólasveinninn væri til og myndi taka af mér ómakið, en nei. Hvað eru þessir jólasveinar þegar maður þarf á þeim að halda?

Eitt er að fara út í ösina og kaupa jólagjafir annar og miklu alvarlegri hlutur er að pakka þessu drasli inn. Þá fyrst byrja hamfarirnar og hversu hræðilegar eru þær ekki. Jólapappír sem fingur slæmast í gegn, límbönd sem rifna ekki, kuðlast, slitna á versta stað og límast svo með hrukkum á pappír. Og svo þegar límbandið slitnar og lokast á rúllunni er útilokað er fyrir venjulegan karlmann að kroppa endann upp aftur. Þá verður maður að fara út aftur og kaupa fleiri límbandsrúllur. Hvað á maður að gera? Hjááááálp!

Merkimiðar með englum eða jólasveinu. Varla hægt að skrifa á þá nema skipta tvisvar eða þrisvar á milli lína og stafsetningarvillur verða eiginlega sjálfkrafa til þegar skrifað er á þá með kúlupenna. Ekki nota blekpennan, þá slettast klessur út um allt, á hvítu skyrtuna og andlitið. Best er að nota blýant en það þykir nú ekki nógu fínt. Og að ydda blýant, hver kann það eiginlega nú til dags nema börn?

Ofangreint er bara alveg eins og í fyrra, já og í hitteðfyrra og árið þar áður og ...

Hversu oft hef ég ekki ákveðið að byrja næstu jólagjafainnkaup í september. Þá, nákvæmlega í fyrstu vikunna í september, þegar ég er alveg að byrja að kaupa, hvað haldið þið að gerist? Jú, á þeirri stundu er ég er að reima á mig skóna, á leiðinni út, byrja útvarpsstöðvarnar að leika jólalög og svo hljóma auglýsingar sem skrumskæla jólalög og sálma. Ég umhverfist, snýst, tapa mér og verð að kjaftforum litlum strák sem hatar jólin ... og fer ekki í búðir fyrr en seint á messu Láka.

Jæja, ég er farinn út. Ákveðinn í því að koma við á nokkrum ölstofum í kaupleiðangrinum. Útilokað er að komast ódrukkinn í gegnum þetta.

Sjáumstustum síðar ...

 


Þúsund jólakveðjur út í rafræna tómið ...

kallariÍ morgun gekk ég út á svalir, eins og ég geri jafnan árla á Þorláksmessu, dró nokkrum sinnum djúpt andann og hrópaði síðan af öllum kröftum:

Sendi ættingjum og vinum bestu óskir um gleðileg jól og heillaríkt nýtt ár. Þakka allt á árinu sem er að líða.

Svo beið ég í dálitla stund þangað til svörin bárust:

Já, sömuleiðis, gleðileg jól, kallaði einhver.

Haltu kjafti, helv... þitt. Fók er að reyna að sofa hérna, öskraði rámur kall.

Ha ..., kaseiru? hrópaði skræk kona.

Hundur gelti, annar tók umsvifalaust undir og köttur mjálmaði. Nagladekk skröltu á íslausu malbiki.

Ég gekk inn í stofu, nennti ekki að hlusta á hundgá, jafnvel þótt fyrr eða síðar myndi hundur sonar míns, hann Fróði (sko hundurinn heitir Fróði ekki sonurinn) hugsanlega gelta, mér eða einhverjum öðrum til ánægju.

Engu að síður velti ég því samt fyrir mér hvort ekki væri skynsamlegra að senda jólakort eða tölvupóst. Þetta hef ég hins vegar gert á Þorláksmessu frá því ég var barn og með því sparað mér ótrúlegar fjárhæðir í kaupum á jólakortum og frímerkjum.

Nú kann ábyggilega einhver að misskilja mig og halda að ég sé að gagnrýna þann hálfra aldar gamla sið að senda jólakveðjur á gufunni Ríkisútvarpsins.

Nei, nei, nei ... Því er nú víðsfjarri, en úr því að verið er að brydda upp á þessu, man ég aldrei eftir að hafa heyrt jólakveðju til mín eða þeirra sem ég þekki. Sendendur eru alltaf einhverjir sem enginn þekkir, til dæmis „Stína, Barði, börnin“ og fleiri sem ég man ekki hvað heita enda 3.200 kveðjur þetta árið.

Nú má vel vera að enginn sendi mér jólakveðju í útvarpinu, sem í sjálfu sér er dálítið sorglegt. Hitt kann þó að vera jafn líklegt að útilokað sé að hlusta með einbeittri athygli á yfir þrjú þúsund jólakveðjur lesnar í belg og biðu í tvo daga samfleytt og ná að grípa þá réttu. Ýmsum kann að finnast það álíka sorglega illa farið með tímann miðað við þær sekúndur sem tekur að lesa jólakort og kannski eina mínútu í andakt á eftir hverju. 

Svo mega lesendur líka hugsa til þess hvort að þessa jólakveðjur séu ekki bara feik, svona eins og rauðklæddi maðurinn með hvíta skeggið.

Hitt er nú dagsatt að Ríkisútvarpið græðir milljónir króna á tiltækinu. Í anda samkeppni og þjóðþrifa hyggst ég nú um áramótin bjóða landsmönnum að hrópa nýárskveðjur af svölunum heima. Takist vel til mun ég líka hrópa jólakveðjur af svölunum á næsta ári. Verðið er miklu betra en hjá Ríkisútvarpinu, heilum 17,5% lægra. Komist ekki til skila fær kaupandinn 33,9% endurgreiðslu. Samkeppnisaðilinn getur sko ekki toppað þetta.

Fyrst verið er að misskilja viljandi tilganginn með þessum skrifum mínum vil ég nefna þá staðreynd í fullkominni vináttu, kurteisi og virðingu fyrir hefðum fólks að það er ábyggilega ódýrara og markvissara að hrópa kveðjur af svölunum en að borga Ríkisútvarpinu fyrir að lesa þær út í rafræna tómið sem er umhverfislega stórhættulegt og um síðir kann það að yfirfyllast. Hvað þá?

Þá hrekkur þetta eflaust upp úr lesandanum:

En það er svo gasalega jólalegt að hlusta á jólakveðjulesturinn á gufunni.

Já, því skal ég nú trúa. Það er líka obbbbboðsleeeeega jólalegt að tala til þjóðarinnar úti á svölum á Þorláksmessumorgni. 

(Vilji svo til að einhver glöggur lesandi telji sig hafa lesið ofangreindan pistil á Þorláksmessu á síðasta ári skal tekið fram að höfundur fer jafnan út á svalir þennan dag.)

(Teikningin er bara ansi lík höfundi.)


25 ávirðingar á borgarstjóra og meirihlutann

Skýrsla innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um braggamálið er þungu áfellisdómur yfir meirihluta borgarstjórnar og ekki síst borgarstjóranum.

Útilokað er að Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, geti gert hvort tveggja, sagst ekkert vita um gerðir nánustu undirmanna sinn og um leið hælt sér af því að hafa „uppgötvað“ að á vegum þeirra var misfarið með fé við byggingu braggans.

Draga má eftirfarandi staðreyndir í braggamálinu af skýrslunni:

  1. Borgarstjóri veit ekki hvað nánustu undirmenn hans eru að gera þrátt fyrir mikil „samskipti“, og hann leitar ekki eftir upplýsingum
  2. Skipulag skrifstofu eigna og atvinnuþróunar er slæmt og henni illa stýrt.
  3. Innra eftirlit er bágborið vegna slæms skipulags og lélegrar stjórnunar.
  4. Stjórnandi eigna og atvinnuþróunar vissi ekkert hvað nánustu undirmenn hans voru að gera. 
  5. Borgarstjóra og skrifstofustjóra eigna og atvinnuþróunar ber ekki saman um ákvarðanir sem teknar voru í tengslum við verkefnið.
  6. Skrifstofustjóri eigna og atvinnuþróunar brást stjórnendaábyrgð sinni.
  7. Af öllum verkefnum á vegum skrifstofu eigna og atvinnuþróunar „gleymist“ að láta borgarstjóra vita um uppbyggingu braggans.
  8. Bygging braggans virðist hafa lifað sjálfstæðu lífi án aðkomu annarra er að honum unnu.
  9. Við byggingu braggans var markvisst brotið gegn reglum borgarinnar um mannverkjagerð um ábyrgð og verklegar framkvæmdir.
  10. Aðeins var gerð frumkostnaðaráætlun sem byggð var á lauslegri ástandsskoðun á rústum braggans.
  11. Frumkostnaðaráætlun var 158 milljónir króna. Raunkostnaðurinn varð 425 milljónir.
  12. Verkið var ekki boðið út né heldur einstakir verkþættir.
  13. Húsið var byggt án kostnaðaráætlanir eins og reglur um mannvirkjagerð krefjast.
  14. Fyrstu hugmyndir voru um lítið og einfalt kaffihús eða stúdentakjallara en varð að fullbúnum veitingastað með vínveitingaleyfi.
  15. Borgarráð samþykkti að húsaleiga braggans yrði 670.125 kr. á mánuði. Hún þarf að vera 1.697.000 kr til að hún standi undir kostnaði.
  16. Engir skriflegir samningar voru gerðir um byggingu braggans.
  17. Vinavæðing, verktakar voru handvaldir af þeim sem stóðu að framkvæmdunum.
  18. Arkitekt byggingarinnar var ráðinn sem verkefnisstjóri
  19. Verkefnisstjórinn var lítið á byggingastað og hafði því ekkert eftirlit.
  20. Farið var fram úr samþykktum fjárheimildum við byggingu braggans, enginn fylgdist með því, ekki verkefnisstjórinn sem líka var arkitektinn.
  21. Þeir sem samþykktu reikninga vegna braggans könnuðu ekki hvort útgjöldin voru innan fjárheimilda.
  22. Logið var að borgarráð um byggingu braggans.
  23. Ágreiningur er milli skrifstofustjóri eigna og atvinnuþróunar og verkefnisstjóri um ákvarðanir sem teknar voru um byggingu braggans.
  24. Skjalagerð vegna braggans var ófullnægjandi sem er brot á lögum og reglum borgarinnar.
  25. Ekki hefur verið staðfest að um misferli hafa við að ræða við byggingu braggans en innri endurskoðun telur vert að skoða nokkra „áhættuatburði“.

Af þessu má sjá að allt við endurbyggingu braggans hefur verið í handaskolum. Innri endurskoðun borgarinnar segir að lög hafi verið brotin, kostnaðareftirlit sama og ekkert, farið á svig við innkaupareglur, starfslýsingar og verkferla. Ruglið og handarbaksvinnubrögðin eru víðar um borgarkerfið sem bendir enn og aftur til þess að borgarstjóri er ekki starfi sínu vaxinn.

Öll ábyrgð beinist að skrifstofustjóra eigna og atvinnuþróunar og borgarstjóra. Sá fyrrnefndi var látinn fara í mars á þessu ári en borgarstjóri ætlar að sitja sem fastast. 

Sjaldan er ein báran stök. Borgarstjóri veit ekkert um braggann, ekki frekar en að hann viti neitt um annað sem illa fer í borgarkerfinu. Hann er alltaf tilbúinn með sérhönnuð svör, hvort heldur í braggamálinu eða þegar klóakið lak út í Skerjafjörð.

Sú spurning situr nú eftir hvort borgarstjóri hafi annað hvort ekkert vitað neitt um braggann eða hann þagað um braggann. Hið fyrra bendir til að hann sé langt í frá góður stjórnandi. Hið síðar er auðvitað glæpsamlegt.

Hvað sem um borgarstjóra má segja er greinilegt að meirihluti borgarstjórnar ætti að vera sprunginn ef ekki kæmi til reynsluleysi Viðreisnar, hentistefnupólitík Pírata og áhugaleysi Vinstri grænna.


Algleðilegt, maður staðfestur og aðhlynning

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

Leita læknis …

Þótt þau á höfuðbólinu tali um að „seek medical help“ þurfum við hér á hjáleigunni ekki að verða svo hástemmd að „leita læknisfræðilegrar aðstoðar“. Það nægir að leita læknis eða læknishjálpar. Þýðandi má ekki láta frummálið svífa um of á sig. 

Málið á bls. 38 í Morgunblaðinu 15.12.2018.

 

1.

„Fimm hlýjustu ár frá því mælingar hófust hafa öll átt sér stað á þessum áratug … 

Frétt á visir.is.    

Athugasemd: Í nokkuð góðri grein um loftslagsbreytingar á jörðinni er ofangreind tilvitnun. Fimm sinnum er þetta ofnotað orðalag „að eiga sér stað“ en því er alltof oft er þvælt inn í ritað mál í stað þess að nota sögnina að vera.

Höfundurinn hefði mátt lesa greinina yfir og breyta á nokkrum stöðum til hins betra. Sumt orkar tvímælis eins og þetta:

Vísindamenn vara við því að slíkri hlýnun fylgdi hækkun yfirborðs sjávar, …

Mér hefði fundist fara betur á því að segja: Vísindamenn benda á að hlýnuninni fylgi hækkun yfirborðs sjávar … og svo framvegis. Viðvörunin er innifalin í orðunum.

Blaðamaðurinn notar orðið vefengja í stað véfengja. Það er gott enda segir í malid.is:

Bæði hefur tíðkast að rita véfengja og vefengja en mælt er með síðari rithættinum skv. uppruna orðsins.

Ég hef hins vegar vanist því að véfengja svo ótalmargt og þarf líklega að breyta rithættinum.

Tillaga: Fimm hlýjustu ár frá því mælingar hófust voru öll á þessum áratug …

2.

„Tilefnið var þó ekki algleðilegt 

Frétt í kvöldfréttatíma Ríkissjónvarpsins 16.12.2018.   

Athugasemd: Því miður gleymdi ég að skrifa hjá mér um hvað fréttin fjallaði. Það er þó ekki höfuðatriðið. Hef aldrei heyrt orðið áður. 

Veit ekki heldur til þess að til sé orðið „hálfgleðilegt“ né heldur „vangleðilegt“. Hins vegar kann sumum að þykja málfræði hálfleiðinleg og athugasemdir á borð við þessa jafnvel „alleiðinlegar“. Þó mun enginn telja málfræði „hálfskemmtilega og varla „alskemmtilega“ … Hér er nú án efa komið fullmikið af hinu góða. Eða ætti ég að segja „fullgott“ eða „vangott“?

Svona má nú skemmta skrattanum með því að snúa út úr eða kroppa í orð. Rýr orðaforði er vandamál sem einna helst hrjáir hrjáir yngri kynslóðir. Við sem eldri erum gleymdum að kenna þeim að lesa bækur.

Tillaga: Tilefni var þó ekki eintóm gleði …

3.

„Börn sendi nektarmyndir á lokaða hópa á Snapchat. 

Fyrirsögn á visir.is.   

Athugasemd: Þessi fyrirsögn er út í hött. Hún er höfð í viðtengingarhætti sem gengur ekki upp jafnvel þó hún geti verið réttlætanleg. Í fréttinni segir:

Dæmi eru um að börn allt niður í tólf ára taki þátt í leik þar sem þau eru mönuð til að senda af sér nektarmyndir á lokaða hópa á samskiptaforritinu Snapchat. 

Eftir að hafa lesið fréttina má skilja fyrirsögnina á þann veg að hún segi frá því að börn sendi nektarmyndir. Fyllri frásögn er að þau senda myndirnar.

Tillaga: Börn senda nektarmyndir í lokuðum hópum á Snapchat.

4.

„Ole Gunn­ar Solskjær var í dag staðfest­ur sem næsti knatt­spyrn­u­stjóri enska úr­vals­deild­arliðsins Manchester United. 

Frétt á mbl.is.   

Athugasemd: Skyldi vera jafnsárt að vera staðfestur og krossfestur? Veit að sá sem er staðfastur er fastur fyrir, stöðugur, óhvikull. Þetta eru því ólík orð.

Sögnin staðfesta er til og í málid.is segir eftirfarandi:

segja að e-ð sé rétt, segja að e-u sé svona háttað

hún staðfesti að þetta væri sannleikanum samkvæmt

þetta staðfestir grun yfirvalda um fjársvik

Í tilvitnuninni hér í upphafi er staðfestur lýsingarorð og merkir svipað og sögnin staðfesta. Ekkert að þessu orðavali sem slíku.

Hins vegar er tilvitnunin algjör steypa vegna þess að því fer fjarri að svona sé talað.

Miklu betra hefði verið að blaðamaðurinn hefði hugað að stíl. Jónas Kristjánsson (1940-2018), fyrrum ritstjóri, segir á vef sínum:

Texti er hafður einfaldur til að verða spennandi. Fréttatexti á að vera stuttur, skýr og spennandi. Stuttur texti er skýr. Skýr texti er spennandi. Fréttastíll er bestur stuttaralegur. Þú þarft að vera góður í íslensku og skilja málfræði og setningafræði.

Mikið óskaplega væri nú gaman ef blaðamenn hefðu ráð Jónasar í huga. Þau eru svo einföld og auðskiljanleg.

Tillaga: Í dag var staðfest að Ole Gunn­ar Solskjær verður næsti knatt­spyrn­u­stjóri enska úr­vals­deild­arliðsins Manchester United.

5.

„Tveir voru fluttir til aðhlynningar á sjúkrahúsi eftir alvarlegt umferðaslys …“ 

Frétt Ríkisútvarpinu 19.12.2018.   

Athugasemd: Sá sem fær aðhlynningu getur varla verið alvarlega slasaður, það liggur í orðanna hljóðan. Eflaust má færa rök fyrir því að aðhlynning sé þegar meðhöndlunin er skurðaðgerð, rannsóknir, blóðgjöf, viðgerð á brotnum beinum, meðhöndlun brunasára, hjartaþræðing, líffæraskipti og álíka læknismeðferðir. 

Verður ekki að vera eitthvað samhengi í fréttunum? Í æsku minni skar ég mig í fingur og fékk aðhlynningu heima, plástur á bágtið. Mér finnst aðhlynning vera minni háttar umönnun.

Slysið reyndist mjög alvarlegt eftir því sem að ítarlegri fréttir bárust. 

Tillaga: Tveir voru fluttir á sjúkrahús eftir alvarlegt umferðarslys …

 


Er skjálftahrinan við Herðubreið fyrirboði um eldgos?

Skjálftar í herðubreiðEkkert hefur dregið út skjálftahrinunni við Herðubreið. Þegar þetta er skrifað hafa um 190 skjálftar mælst suðvestan við fjallið. Hvað er eiginlega að gerast þarna? Best er að vísa til pistils sem ég skrifaði birtist hér 7. janúar 2018, linkur á hann er hér.

Skjálftarnir núna eru flestir á um fjögurra til sjö km dýpi, sumir miklu grynnri, 0,1 km og 0,5 km, einn hefur mælst á 8,2 km dýpi.

Langflestir hafa mælst innan við 1 stig eða 119. Alls hafa mælst 66 skjálftar sem hafa verið frá einu til tveggja stiga. 

Sagt er að mikill fjöldi lítilla skjálfta geti bent til að eldgos sé í aðsigi. Rökin eru þau að þessir litlu skjálftar verða til þegar kvikan þrengir sér upp í gegnum jarðskorpuna og við það springur hún, sprungur opnast og aðrar víka.

Síðustu misserin hefur verið talsvert um skjálftahrinur í kringum Herðubreið. Fyrr eða síðar mun kvikan ná upp og þá verður eldgos á þessu svæði þar sem hraun hafa runnið í árþúsundir.

Hvergi hefur gosið á þessu svæði fyrir utan Holuhraunsgosið 2014 og í Öskju. Á Vísindavefnum segir um eldgos í Öskju:

Askja í Ódáðahrauni hefur ekkert gosið á þessari öld, en á 20. öld gaus hún alls átta sinnum. Síðasta gos varð árið 1961, en öll hin gosin urðu á þriðja áratugnum: 1921, 1922 (tvö gos), 1923, 1924, 1927 og 1929. Þessi gos voru öll frekar smávægileg, en 28. mars 1875 hófst aftur á móti mikið öskugos í Öskju sem hrakti fólk úr nærliggjandi sveitum.

Norðan Vatnajökuls eru svokallað Norðurgosbelti, í því eru fimm eldstöðvakerfi: Kverkfjöll, Askja, Fremri-Námar, Krafla og Þeistareykir. Eldgosahrina varð í Kröflukerfinu á árunum 1724 til 1729 og svo 1975 til 1974.  Hin þrjú kerfin hafa verið til friðs frá því að land byggðist.

Kortið er fengið af vefnum map.is


Grímulausa hagsmunagæslan og innanlandsflugið

Það fyr­ir­tæki sem und­ir­ritaður stjórn­ar greiddi á síðustu 16 mánuðum 600 millj­ón­ir í veiðileyf­a­gjald sem er hálf­virði af ný­smíði fiski­skips. Með þeim gjöld­um var slökkt á getu fyr­ir­tæk­is­ins til að halda áfram þeirri tækni­væðingu sem við höf­um verið svo stolt­ir af og telj­um vera eina svarið við sam­keppni frá rík­is­styrkt­um lág­launa­lönd­um.

Ofangreind tilvitnun eru eftir Pétur Hafstein Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis í Grindavík, sem  skrifar afburðagóðri grein í Morgunblaði dagsins. Hann tengir þessi orð ansi snyrtilega við niðurlagið í grein sinni og hefur þar eftir sjávarútvegsráðherra þegar hann er spurður að því hvað verði um fyrirtæki sem ekki fylgja tækniþróuninni:

Þau bara deyja, það er ekk­ert flókið. Þau verða að gjöra svo vel að standa sig í sam­keppn­inni, fylgj­ast með því sem er að ger­ast, öðru­vísi geta þau ekki keppt, hvorki um starfs­fólk né verð á er­lend­um mörkuðum.

Stutt og laggott. Hreinskilið svar, bitur sannleikurinn.

Þorsteinn kallar lægri veiðigjöld „grímulausa hagsmunagæslu“. Að hans mati má sækja nær óendalega fjármuni til sjávarútvegsins.

Ekkert hlægilegt er við orð Þorsteins og hér kemur brandarinn. Þegar hann reynir að vera alveg grjótharður í stjórnarandstöðu og velur ríkisstjórninni öll hinn verstu orð sendur félagi hans upp í grímulausri hagsmunagæslu.

Benedikt Jóhannesson heitir maður sem er fyrrum formaður Viðreisnar, fyrrum þingmaður, fyrrum fjármálaráðherra og fyrrum frambjóðandi: Hann er maðurinn sem kjósendur höfnuðu eftir aðeins eitt ár. Snautlegri gerist nú ekki stjórnmálaferill nokkurs manns.

Þessi „margfyrrum“ skrifar líka grein í Morgunblað dagsins og býsnast yfir verði á flugfarmiðum innanlands og hann vill að flugið verði niðurgreitt:

Hvernig ætl­um við að fjár­magna þetta? Jú, við vilj­um að ákveðinn hluti afla­heim­ilda verði seld­ur á markaði og sölu­verðið sett í sjóð til þess að byggja upp innviði á því landsvæði sem afla­heim­ild­irn­ar voru áður á.

Með auk­inni eft­ir­spurn verður inn­an­lands­flugið ódýr­ara, ekki bara fyr­ir lands­byggðarfólk held­ur alla lands­menn, ferðum mun fjölga og flugið verður eft­ir­sókn­ar­verðari ferðamáti. Þá græða all­ir.  

Já, allir græða. Mikið óskaplega væri samfélagið gott ef tunguliprir Viðreisnungar eins og Þorsteinn Víglundsson og Benedikt Jóhannesson fengju ráðið. Þá væri ekki stunduð grímulaus hagsmunagæsla. Niðurgreiðsla á flugfarmiðum er sko alls ekki nein hagsmunagæsla.

Sleppum nú allri kaldhæðni og spyrjum hvort það sé ekki þannig að allt óvarkárt tal stjórnmálamanna komi í bakið á þeim. Hugsanlega kemst Viðreisn einhvern tímann í ríkisstjórn og mun þá án efa reyna að tóna niður talsmátann. 

Alltaf er það þannig að stjórnarandstöðuþingmaður sem kemst í ríkisstjórnarmeirihluta leggur af kjaftbrúk sitt og verður þá nærri því málefnalegur og kurteis. Dæmin eru ótalmörg en nærtækast að bera saman Þorstein Víglundsson, félagsmálaráðherra, og Þorstein Víglundsson, stjórnarandstöðuþingmann. Halda mætti að þeir væru óskyldir.

Eiga annars ekki allir hagsmuna að gæta? Vel færi á því að þeir Þosteinn og Benedikt svöruðu þessari spurningu þannig að þversögnin í málflutningi þeirra væri ekki eins æpandi.

 

 


Neysla kæstrar skötu veldur verðbólgu, jarðskjálftum og getuleysi

Síðustu daga hef ég sem endranær ekið framhjá fiskbúð nokkurri og af fnyknum sem frá henni leggur er víst að verið er að selja Þorláksmessuskötu, dauðkæsta og baneitraða. Jafnvel bíllinn minn tók að hiksta þegar ég ók framhjá fiskbúðinni og má það beinlínis rekja til lyktarinnar enda ljóst að fátt er verra fyrir bílvél en andrúmsloft mengað skötufnyk.

Ótrúlegt er til þess að hugsa að nokkur maður skuli vilja slafra í sig skemmda skötu og telja sér um leið trú um að hún sé holl og bragðgóð. Dæmin eru mörg. Ég þekki fólk sem reynir svo mikið að falla inn í umhverfi sitt að það segir þvert gegn hug sér að skemmda skatan sé góð. Þetta fólk byrjaði á sömu forsendu að reykja. Svo þegar reykingar féllu úr tísku hætti það að reykja af samfélagsástæðum.
 
Ég á systur sem var alin upp í guðsótta og góðum siðum, rétt eins og ég, en tók upp á því að byrja að anda að sér tóbaksreyk. Það tók nokkra áratugi að venja hana af reykingum. Þá tók hún upp skötuát á Þorláksmessu. Við svo búið mátti ekki standa og var skömmu síðar send til Suður-Afríku. Þar hafa innfæddir séð svo um að hún borðar ekki skötu enda blómstrar stúlkan sem aldrei fyrr og yngist með hverju árinu sem líður og nálgast brátt það útlit sem hún hafði um fermingu.
 
Út af fyrir sig er ekkert við það að athuga þó frjálsir landsmenn skófli í sig skötu, svo framarlega sem það er gjört án þvingana af nokkru tagi. Hitt er verra og það er hversu náttúran skaðast af vinnslu og áti skötu. Alþjóðlegar rannsóknir hafa sannað að fátt eyðir ósónlaginu en skötuát enda fylgir því afar mikil þarmagasframleiðsla og losun þess sem er gríðarlega hættuleg.
 
Ég hef það fyrir satt að jarðvísindamenn hafi fundið sönnun fyrir því að skötuát á Þorláksmessu auki hættuna á auknu kvikustreymi frá iðrum jarðar með tilheyrandi jarðskjálftum og jafnvel eldgosum. Mér skilst að Jarðfræðistofnun Háskóla Íslands hafi þegar afhent forsætisráðherra illþefjandi skýrslu um málið.
 
Líffræðingar hafa fundið mjög mikil líkindi með getuleysi karlmanna og neyslu þeirra á skötu. Þetta verður gert opinbert á vegum Íslenskrar erfðagreiningar eftir áramótin.
 
Raunar mælast áhrif skötuneyslunnar á efnahag þjóðarinnar. Á vegum Seðlabankans hafa rannsóknir sýnt að verðbólga vex í réttu hlutfalli við sölu á skötu.  
 
Af þessu má sjá að skötuneysla er stórhættuleg fyrir þjóðina, ríkið, náttúru lands og ... manna og ekki síður sjálfan alheiminn. Mál er komið að hætta þessari vitleysu, hreinlega banna skötuneyslu og bjarga þannig heiminum. Tökum nú höndum saman og hættum þessari ómenningu.
 

 


Heimildarmyndin um Matthías Johannessen skáld og ritstjóra

Matthías JohannesenÍ bókinni um Stein Steinar er mikið vitnaði í þig Matthías, nærri því á annarri hverri síðu, sagði blaðamaðurinn nokkuð hrifinn við ritstjóra sinn.

Nú, hvað var þá á hinum síðunum, voru þær tómar, gall í ritstjóranum sem glotti.

Matthías Johannessen, skáld og fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins, var og er stórmerkur maður, það vissi ég jafnvel þó ég þekki ekki manninn persónulega. Jú, annars ... Ég þekki hann ágætlega en hann veit ekkert kvur ég er. Þannig einhliða kynni eru algengar á fjölmiðla og tækniöld. Hef frá barnæsku lesið Moggann og nokkuð margar bækur eftir hann voru til á æskuheimili mínu. Hann hefur skrifað ljóðabækur, skáldsögur, fræðibækur og margt fleira. 

Í dag fékk ég að mæta á frumsýningu heimildarmyndar um Matthías og þá í fyrsta sinn kynnist ég persónunni að baki skáldinu og ritstjóranum.

Ofangreind tilvitnun (rituð eftir minni) úr myndinni vakti ósvikinn hlátur meðal frumsýningargesta, enda sögðust sumir þarna þekkja manninn sem sagður er með afbrigðum orðheppinn og skjótur til svara, svona „spontant“ eins og við segjum á útlenskunni. 

Heimildarmyndin nefnist Þvert á tímann og höfundar hennar eru kvikmyndagerðarmennirnir Sigurður Sverri Pálsson og Erlendur Sveinsson. Hún fjallar um dag í lífi Matthíasar árið 2000 og til viðbótar er skotið inn klippum frá árinu 2012.

Í stuttu máli hafði myndin sterk áhrif á mig. Eftir að hafa horft á hana var maður að velta fyrir sér agnúum í kvikmyndatökunni, á kafla dálítið uppskrúfuðum þulartexta, ljóðum sem birtust á tjaldinu í örstutta stund svo varla var tími til að lesa þau til enda, lengd myndarinnar og svona álíka smáatriðum. Allir þessir gallar hafa horfið úr huga mínum og eftir stendur skýr og hrein mynd af djúpvitrum manni sem án nokkurs vafa er skáld, en um leið mildilegur ritstjóri, brosmildur, með ágætt skopskyn og stjórnaði blaði sínu með kurteisi og ágætri samvinnu við alla starfsmenn.

Myndin hefst á nærgöngulegum atriðum, draumi sem enginn ráðning fæst á, hugarflugi og vangaveltum um ljóð sem smám saman tekur á sig mynd. Sagt er frá Hönnu Ingólfsdóttur, eiginkonu hans og hversu miklu máli hún skipti. Svo er hún fallin frá. Matthías er orðinn tólf árum eldri, tekinn í andliti, og leggur rauðar rósir á leiði konu sinnar. Sársaukinn skín úr andlitsdráttum, hann saknar henar greinilega en lærir að lifa þrátt fyrir missinn. Hann er hættur á Mogganum, og öllum gleymdur ... eða hvað? Áhorfandinn er eiginlega sem steini lostinn og spyr sjálfan sig hvar þau eru, synir þeirra Hönnu og Mattíasar og barnabörnin. Framhjá þeim skauta framleiðendur heimildarmyndarinnar að öllu leyti nema rétt í stöku andrá sjást myndir á borði skáldsins og af þeim má ráða að hann er ekki einn. Guði sé lof fyrir það, hugsar áhorfandinn.

Myndin er óður til skáldskaparins og hins ritaða máls. Þar er Matthías Johannessen einn af þeim sem fremst standa, hann er andans maður.

Heimildarmyndin er óvenjulega gerð. Í henni eru skáldlegir tónar sem hæfa vel, fögur klassísk tónlist sem Matthías unnir og þulurinn segir af og til frá en að öðru leyti virðist myndin flæða stjórnlaust með áhugaverðum snúningum.

Leitt að hafa aldrei kynnst þessum merka manni sem fæddur var árið 1930.


Vanburðugur, að láta gott heita og berjast við súkkulaði

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

Þegar frummálið svífur á mann

Þótt þau á höfuðbólinu tali um að „seek medical help“ þurfum við hér á hjáleigunni ekki að verða svo hástemmd að „leita læknisfræðilegrar aðstoðar“. Það nægir að leita læknis eða læknishjálpar. Þýðandi má ekki láta frummálið svífa um of á sig. 

Málið á bls. 38 í Morgunblaðinu 15.12.2018.

Lesandinn má ekki láta kaldhæðnina í ofangreindum orðum fara framhjá sér.

1.

„„Van­b­urðugur“ markaður 

Fyrirsögn á mbl.is.    

Athugasemd: Er ekki sjálfsagt að þróa íslenskuna og mynda ný orð þegar þeirra er þörf? Orðið vanburðugur finnst ekki í orðabókum en það þekkist engu að síður og elsta heimildin sem ég fann í fljótheitum er úr Morgunblaðinu 16. febrúar 1930, blaðsíðu 8. Þar segir Jón Þorláksson í ræðu á Alþingi um Íslandsbanka:

Finst mjer ekki von á því, að banki, sem í augum ríkisstjórnarinnar er jafn vanburðugur og ríkisstjórnin heldur fram, hafi getað gert betur.

Lýsingarorðið burðugur getur merkt sá sem ber sig vel, til dæmis fyrirtæki sem er rekstrarhæft, það er burðugt, enda er orðið dregið af því að bera. Andstæðan er óburðugur og er það vel þekkt og getur merkt þann sem er kraftlítill, óburðugt fyrirtæki er hugsanlega komið í þrot. 

Er sá vanburðugur sem hvorki er burðuguróburðugur? Eða er ekkert þarna á milli? Fyrirtæki sem er burðugt stendur vel en það sem er óburðugt er hugsanlega mjög illa statt, jafnvel gjaldþrota. Þarf einhvern meðalveg?

Í fréttinni er sagt að markaðurinn sé vanburðugur, það er fjárfestar „virðast hálf­veg­is forðast markaðinn“, eins og segir í fréttinni og er líklega haft úr „Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið“ sem er fréttin fjallar alfarið um.  Í Hvítbókinni segir:

Til að tryggja samkeppni og virkni millibankamarkaðar þurfa burðugar innlánsstofnanir hér á landi að vera að lágmarki þrjár.

Á hraðleit í skýrslunni fann ég ekki orðið „vanburðugur“.

Þó vekur athygli að 88 árum eftir áðurnefnd orð Jóns Þorlákssonar er enn verið að velta fyrir sér hvort banki sé burðugur eða vanburðugur og í bæði skiptin er umræðuefnið banki sem heitir Íslandsbanki.

Tillaga: Engin tillaga gerð.

2.

„Kjósa um van­traust­stil­lögu gegn May. 

Fyrirsögn á mbl.is.    

Athugasemd: Talsverður munur er á því að kjósa og greiða atkvæði. Um það skrifaði Eiður heitinn Guðnason á bloggsíðu sína sem enn er opin, áhugamönnum um gott íslenskt mál til glöggvunar:

Ótrúlega margir fréttaskrifarar virðast ekki skilja hvenær er verið að kjósa og hvenær er verið að greiða atkvæði um eitthvað, til synjunar eða samþykktar. Þetta hefur oft verið nefnt í Molum.

Fyrirsögn af mbl.is: Seðlabankinn kaus gegn bónusum.

Fulltrúi Seðlabankans greiddi atkvæði gegn bónusgreiðslum. Það er út í hött og rangt að tala um að kosið hafi verið um bónusgreiðslur. Það stríðir gegn gróinni málvenju, en mörg fréttabörn virðast ekki vita betur og enginn les yfir.

Þingmenn og aðrir trúnaðarmenn Íhaldsflokksins ætla að greiða atkvæði um tillögum um vantraust á formann flokksins og forsætisráðherra, Theresu May.

Tillaga: Greiða atkvæði um vantraust á May.

3.

„Félagið var skráð á heimili foreldra Ármanns og voru þau bæði skráð í stjórn þess. 

Frétt á visir.is.    

Athugasemd: Ótrúlegt að blaðamaðurinn skuli ekki hafa séð tvítekninguna, nástöðuna, skráð ... skráð. Má vera að hann sjái ekkert athugunarvert við nástöðu og hafi engan áhuga á stíl. Þá er hann í röngu starfi.

Auðvelt er að laga svona eftir fyrsta yfirlestur, iðki blaðamaðurinn að lesa yfir það sem hann hefur skrifað.

Tillaga: Félagið var skráð á heimili foreldra Ármanns og voru bæði í stjórn þess.

4.

„Einn sá besti læt­ur gott heita. 

Fyrirsögn á mbl.is.    

Athugasemd: Þetta er ómöguleg fyrirsögn. Í fréttinni kemur fram að einn besti skíðagöngumaður Noregs er hættur keppni. Af hverju er það þá ekki sagt í fyrirsögninni? Hvað er betra við að nota þessa margtuggðu klisju, að láta gott heita?

Hvað á barni að heita, spurði presturinn. Tja …, látum það gott heita, sagði pabbinn.

Þessi gamli brandari er líklega ekkert fyndinn lengur og má vera að hann hafi aldrei verið það. Klisjur eru sjaldnast skemmtilegar og síst af öllu upplýsandi í fréttum. Blaðamaðurinn segir í fréttinni:

Auk þess stát­ar hann af átján sigr­um á heims­bikar­mót­um. 

Er eitthvað óskýrara að segja að maðurinn hafi sigrað átján sinnum á heimsbikarmótum? Oftast merkir sögnin að státa að monta sig, hreykja sér, en óvíst er hvort skíðamaðurinn hafi verið þannig innrættur að hann monti sig. Sé ekkert annað vitað er óþarfi að segja neitt annað en að hann hafi sigrað átján sinnum á heimsbikarmótum.

Þar á ofan er maðurinn kallaður „Íslandsvinur“ af því að hann keppti einu sinni hér á landi. Er ekki nóg komið af þessu auma viðurnefni?

Tillaga: Einn besti skíðagöngumaður Noregs er hættur.

5.

„25 slökkviliðsmenn börðust við tonn af súkkulaði. 

Fyrirsögn á visir.is.   

Athugasemd: Nei, nei, nei ... Þeir börðust ekki við súkkulaði, það kemur beinlínis fram í fréttinni. Þeir þurftu hins vegar að hreinsa það upp og það gekk ekki átakalaust.

Fréttin er skrifuð af blaðamanni sem ekki virðist hafa neina tilfinningu fyrir íslensku. Hann segir til dæmis:

Tonn af fljótandi súkkulaði hafði sloppið úr súkkulaðitank með þeim afleiðingum að það flæddi yfir nærliggjandi götu. 

Súkkulaðið hefur ábyggilega runnið úr þessum „súkkulaðitanki“, ... það slapp ekki.

Og „með þeim afleiðingum“, segir blaðamaðurinn í hugsunarleysi sínu. Svo segir hann að súkkulaðið hafi flætt yfir nærliggjandi götu. Þvílíkt stílleysi.

Hefði ekki má skrifa þetta svona: Eitt tonn af súkkulaði rann úr súkkulaðitanki (!) og yfir götu.

Frekar illa skrifuð frétt þó tilefnið hefði ábyggilega nægt til skemmtilegri umfjöllunar fyrir lesendur. Nei, hroðvirknin og fljótfærnin ræður för.

Tillaga: Súkkulaði veldur slökkviliðsmönnum vandræðum. 


Hrikalegt þetta með Mýrdalsjökul ...

181211 MýrdalsjökullHvað er eiginlega að gerast í Mýrdalsjökli? Hefur enginn áhyggjur? Nei, það er ekkert að gerast, Katla sefur vært og um þessar mundir mælast þar varla skjálftar. Kortið hér við hliðina sýnir skjálfta síðustu þrjá daga. Þarna mælis einn skjálfti fyrir framan sporð Tungnakvíslajökuls og er hann 1,6 sig og varð á 700 m dýpi.

Nei, það er eiginlega ekkert hrikalegt að gerast í Mýrdalsjökli. Hvað hefur þá orðið um alla þá spöku og fróðu menn sem spáðu dómsdagseldsumbrotum í Kötlu strax á eftir gosinu í Eyjafjallajökli árið 2010?

Því er fljótsvarað. Þeir eru að bora í nefið einhvers staðar þar sem þeim líður vel. Sama á við þann draumspaka sem oft hefur verið að benda mér á komandi hamfarir. Hamfaraspár hans hafa ekki ræst ennþá. Staðreyndin er nefnilega sú að snúnara að spá um framtíðina en fortíðina („ég sá gosið í Eyjafjallajökli fyrir,“ segja sumir eftir á).

Mýrdalsjökull vika 32 6-12 ágúsÁ þessu ári hafa tiltölulega fáir jarðskjálftar mælst í Mýrdalsjökli nema hugsanlega í byrjun ágúst. Þá varð hrina þar og tveir skjálftar mældust yfir þrjú stig. Kortið hægra megin sýnir skjálfta frá 6. til 12. ágúst. Síðan hefur eiginlega ekkert gerst og varla verið rætt um Mýrdalsjökul og Kötlu nema í einni heimildarmynd og tali um gasleka úr jöklinum.

Þó eitt hundrað ár séu nú frá síðasta gosi í Kötlu bærir hún ekkert á sér. Mörgum finnst það stórskrýtið en þess ber þó að gæta að tímatal okkar hefur sáralítið forspárgildi. Það sem einu sinni hefur gerst getur auðvitað gerst einhvern tímann aftur. Áherslan hér er á „einhvern tímann“.

Frá miðju ári 2016 og fram eftir ári 2017 fjölgaði jarðskjálftum stórlega á mælum Veðurstofunnar og töldu margir að gos væri í aðsig. Katla lætur ekki að sér hæða því síðan þá virðist skjálftum hafa farið fækkandi og líða nú vikur og mánuðir án umtalsverðrar skjálftavirkni.

Á meðan er Vatnajökull í miklum ham. Öræfajökull sýnir áköf merki um að þar verði hugsanlega gos í náinni framtíð. Grímsvötn eru á góðri sveiflu sem og Bárðarbunga. Hraungangurinn sem olli gosinu í Holuhrauni er enn virkur og í honum verður fjöldi skjálfta í hverri viku sem bendir til að þar streymi enn glóandi hraun. Þrýstingurinn er engu að síður svo lítill að enn verður ekki vart við gosóróa. 

Við Herðubreið er stöðugur órói á talsverðu dýpi og bendir hann til þess að þar sé kvika sem leitar til yfirborðs. Þó er berggrunnurinn þarna talsvert sprunginn og kvikan nær ekki að komast upp á yfirborð eða að þrýstingurinn er ekki nægur.

Jafnvel á Reykjanesi verða fjöldi skjálfta út um öll rekbelti, sérstaklega við suðurenda Kleifarvatns og jafnvel í botni þess.

Nei, Katla gamla hefur það náðugt. Vísindamenn fylgjast engu að síður stöðugt með, vakta jökulinn með fjölbreyttum tækjum dag og nótt. Eftirfarandi segir á vef Veðurstofu Íslands, sjá hér:

Ef skjálftavirkni eykst í Kötlu hljómar sjálfvirk viðvörun í eftirlitssal Veðurstofunnar í Reykjavík. Þar er vakt allan sólarhringinn, alla daga ársins. Þessi viðvörun er hluti af kerfi sem nær yfir allt landið.

Mælakerfi náttúrvárvöktunar Veðurstofunnar er mjög umfangsmikið. Það byggir á jarðskjálftamælingum, aflögunarmælingum (GPS, þenslumælingum og gervitunglamyndum), vatnamælingum, gasmælingum, drunumælingum, vefmyndavélum og sértækum mælingum t.a.m. eftirliti með yfirborði jökulsins og þróun jarðhitakatla meðal annars til að fylgjast með jarðhitabreytingum og hugsanlegri söfnun bræðsluvatns í jöklum. Ennfremur er sérstakt eftirlit haft með öskudreifingu á meðan á eldgosi stendur. Sjálfvirk úrvinnslukerfi taka við mælingum og eru niðurstöður yfirfarnar af sérfræðingum jafn óðum og þær berast.

Afar áhugavert er að lesa hversu víðtækt eftirlitið er með Mýrdalsjökli og ljóst er að jarðvísindamennirnir sem sinna því eru afar færir.


Hreinsar fólk hendur á sér? Er hægt að þröngva manni fram af kletti?

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

1.

„Snjó gæti leyst hratt fyrir norðan með hlýindakafla. 

Fyrirsögn á visir.is.    

Athugasemd: Þegar snjór hverfur vegna hita í lofti og rigninga er stundum sagt að hann taki upp. Leysingar eru jafnan á vorin en geta vissulega orðið að vetrarlagi. Snjóa leysir í hlýindum, það er gömul saga og ný. 

Í mörgum tilfellum getur hentað að nota orðið hlýindakafli. Annars dugar ágætlega að nota hlýindi

Af þessu má ráða að það er ekki rangt að nota orðið hlýindakafli. Gott er þó að forðast nástöðu og nota fjölbreyttara orðfæri. Í stuttri frétt kallast það nástaða þegar orð eins og hlýindakafli er notað oftar en einu sinni.

En er rétt að segja „… með hlýindakafla“? Sjálfur hefði ég sagt „í hlýindum“. Athugið að stundum er ekki til neitt eitt sem er rétt, þá veltur allt á stíl. Stílleysa í fréttum er sorlega algeng.

Í fréttinni segir:

Hlýna á í veðri strax annað kvöld og á hlýindakaflinn að vara fram á miðvikudag.

Þetta er klúðurslega orðuð málsgrein. Miklu betra að segja að hlýtt verði fram á miðvikudag.

Athugið að hlýindi er fleirtöluorð og tæknilega útlokað að misnotað það sem eintöluorð.

Tillaga: Snjóa gæti tekið upp í hlýindum fyrir norðan.

2.

„Hægt að auka öryggi sjúklinga með því að heilbrigðisstarfsfólk hreinsi hendurnar á sér rétt og vel. 

Fyrirsögn á forsíðu Morgunblaðsins 10.12.2018.    

Athugasemd: Ertu búinn að þvo þér um hendurnar? spurðu pabbi og mamma þegar ég settist við matarborðið í æsku minni. Þetta skipti máli, fyrir barnið og aðra. Aldrei var ég þó spurður hvort ég hefði þvegið mér um hendurnar á mér. Held að það sé raunar aldrei gert.

Vissulega er mikilvægt að heilbrigðisstarfsfólk hreinsi hendur sínar, ekki nægir í dag að þvo þær. Í þessu fylgir að fólkið hreinsi „rétt og vel“, varla þarf að taka það fram að kattarþvottur dugar ekki.

Fólk þvær sér, hreinsar líkama sinn. Í sundlauginni er þess krafist að gestir þvo sér og sérstaklega er bent á handarkrika og milli fóta.

Tillaga: Auka má öryggi sjúklinga hreinsi heilbrigðisstarfsfólk hendurnar sínar.

3.

„Amber áfram fast í Hornafjarðarhöfn. 

Fyrirsögn á bls. 8 í Morgunblaðinu 10.12.2018.    

Athugasemd: Nokkur munur er á atviksorðunum áfram og enn. Máltilfinningin  segir að merking fyrirsagnarinnar með ao. áfram sé miðuð til framtíðar. Sé orðið enn notuð virðist merkingin vera sú að skipið sé á strandstað en það kunni að breytast fljótlega. 

Um þetta má að sjálfsögðu deila. Máltilfinning fólks er eflaust mismunandi. Sumir hafa enga tilfinningu fyrir málinu en skrifa þó. Það er aðdáunarvert.

Ég hefði haft fyrirsögnina eins og segir hér fyrir neðan.

Tillaga: Amber enn fast í Hornafjarðarhöfn.

4.

„Há fjárhæð í boði fyrir upplýsingar um 30 ára hatursglæp þar sem manni var þröngvað fram af klettum. 

Fyrirsögn á visir.is.    

Athugasemd: Þetta er skrýtið orðalag. Ég hef reynt að ímynda mér hvernig einhverjum sé þröngvað fram af klettum. Fæ það ekki til að koma heim og saman. Þá leitaði ég að heimildinni, sjá hér. Þar stendur:

Almost 30 years to the day after a gay mathematician from the United States was forced off a Sydney cliff in a hate crime …

Vissulega getur enska orðið to force þýtt að þröngva einhverjum til einhvers. Þýðingin getur þó verið ítarlegri en þetta. Makkanum mínum fylgir orðabók (e. dictionary) sem ég fletti iðulega upp í til að glöggva mig á enskum merkingum orða. Þar sendur meðal annars í samheitum með orðinu to force:

he was forced to pay: compel, coerce, make, constrain, oblige, impel, drive, pressurize, pressure, press, push, press-gang, bully, dragoon, bludgeon; informal put the screws on, lean on, twist someone's arm.

Enginn lætur þröngva sér fram af klettum, illmennið þarf að kasta manninum fyrir björgin. Með því að þröngva virðis að fórnarlambið hafi átt eins eða fleiri kosta völ. Eftir því sem næst verður komist var ekki svo. Manninum var hent, kastað eða ýtt … Oft notum við orðasambandið að kasta fyrir björg.

Í tíu ára gamalli frétt á visir.is segir eftirfarandi:

Hæstiréttur Írans hefur staðfest að tveir dauðadæmdir menn skuli teknir af lífi með því að kasta þeim fyrir björg. Þeir voru dæmdir fyrir að nauðga öðrum karlmönnum.

Ég er nokkuð viss um að þeir aumingjans menn sem dæmdir voru hafi ekki verið „þröngvað“ fram af bjargbrúninni. Svo ber þess að geta að sá sem skrifaði þessa frétt var enginn viðvaningur. Hann hét Óli Tynes (1944-2011) og var einn af bestu blaðamönnum landsins. Í dag eru fáir jafningjar hans.

Tillaga: „Há fjárhæð í boði fyrir upplýsingar um 30 ára hatursglæp er manni var kastað fram af klettum.

5.

„Snjóstormur. 

Orð í kvöldfréttum Stöðvar2 10.12.2012.    

Athugasemd: Ekki er rétt að tala um snjóstorm, orðið er ekki íslensk málvenja þótt það sé rétt myndað. Þegar erlendir fréttamiðlar tala um enska orðið snowstorm freistast íslenskir blaðamenn í þýðingum sínum til að skrifa snjóstormur. Sumir vita hreinlega ekki að hægt er að nota orð eins og snjókoma, kafald, bylur eða hríð

Á útlenskunni sem allir þykjast kunna er talað um rainstorm, hailstorm, windstorm og snowstorm. Svo einhæf er amrískan.

Á íslensku úr fjölda orða að velja. Aðeins þeir sem þekkja íslenskt mál, hafa vanist lestri bóka frá barnæsku kunna skil á þessu enda þjást þeir manna síst af orðfátækt.

Lesendum til fróðleiks eru hér örfá orð um snjókomu, man ekki lengur hver heimildin er, gleymdi að skrifa hana hjá mér:

  1. áfreða 
  2. bleytukafald
  3. bleytuslag
  4. blotahríð 
  5. blotasnjó
  6. brota 
  7. drift
  8. él
  9. fastalæsing
  10. fjúk
  11. fjúkburður
  12. fukt 
  13. fýlingur
  14. hagl
  15. hjaldur
  16. hjarn 
  17. hláka
  18. hundslappadrífa
  19. ísskel 
  20. kafald 
  21. kafaldi
  22. kafaldsbylur
  23. kafaldshjastur
  24. kafaldshríð
  25. kafaldsmyglingur
  26. kafsnjór 
  27. kaskahríð
  28. klessing 
  29. kóf
  30. krap
  31. logndrífa
  32. lognkafald 
  33. mjöll
  34. moldbylur
  35. moldél
  36. neðanbylur
  37. nýsnævi
  38. ofanhríð
  39. ofankoma
  40. ryk
  41. skæðadrífa
  42. skafald
  43. skafbylur
  44. skafhríð
  45. skafkafald
  46. skafmold
  47. skafningur
  48. slydda
  49. slytting
  50. snær
  51. snjóbörlingur
  52. snjódrif
  53. snjódríf
  54. snjófok
  55. snjógangur
  56. snjóhraglandi
  57. snjór
  58. sviðringsbylur

Tillaga: Hægt að velja um eitt að hinum fimmtíu og átta orðum hér fyrir ofan í staðin fyrir „snjóstormur“.

 


Orðræða, tímapunktur og sitjandi ... eða standandi þingmaður

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

1.

„Mikil aukning á slysum vegna lyfjaaksturs. 

Fyrirsögn á forsíðu Fréttablaðsins 3. desember 2018.    

Athugasemd: Varð aukning á slysum eða fjölgaði þeim? Stundum mætti halda að blaðamenn gerðu það að leik sínum að lengja mál sitt frekar en að stytta og einfalda. 

Á íslensku leggjum við áherslu á sagnorð, ekki nafnorð.

Berum saman fyrirsögnina og tillöguna hér fyrir neðan. Rétt um hönd sem finnst fyrirsögnin betri?

Tillaga: Slysum fjölgar vegna lyfjaaksturs.

2.

„Slík orðræða er í senn óverjandi og óafsakanleg … 

Frétt á visir.is.     

Athugasemd: Orðafátækt mun ábyggilega gera útaf við íslenskt mál ef ekki kæmu til aðrar að hraðvirkari aðferðir. Ofangreint tilvitnun er höfð eftir forsætisráðherra.

Orðræða er nokkurs konar samheiti yfir margvíslegt tal og jafnvel skrif. Á malid.is segir:

Orðræða er samfellt talað mál sem inniheldur margar setningar. Orðræða getur verið í samtal, viðtal, brandari, frásögn, ræða, predikun o.fl.  

Orðræða er samfellt talað mál sem inniheldur fleiri en eina setningu, í texta eða tali. 

Niðurstaðan er þá þessi: Í stað orðins orðræða getum við sagt tal, talsmáti, orðaval, umræða, frásögn og raunar allt sem á við talað mál og ritað.

Í þessari sömu frétt talar forseti Alþingis um orðbragð sem merkir orðaval eða orðafar en þetta eru falleg orð sem þarflegt er að nota. Orðbragð er gegnsætt og þarf ekki að merkja eitthvað slæmt nema það komi sérstaklega fram. Hins vegar þekkum við það einkum í samhenginu ljótt orðbragð. Til dæmis finnst mér orðbragð Þórarins Eldjárns oftast fallegt og vel saman sett. Ekki var orðbragðið á Klausturbar fallegt né til eftirbreytni.

Tillaga: Slíkt tal er í senn óverjandi og óafsakanlegt …

3.

„„Snertimark“ er það kallað sem er afskaplega máttlaus þýðing. Væri ekki nær að nota orðið „niðursetningur“ um gjörninginn? 

Ljósvaki á bls. 50 í Morgunblaðinu 7.12.2018

Athugasemd: Hér er verið að agnúast út í málfar í fjölmiðlum en þó er vert að geta snilldarinnar, þá sjaldan hún sést. Orri Páll Ormarsson, blaðamaður á Mogganum skrifar í Ljósvakann og leggur fram orð til þýðingar í bandarískum fótbolta. 

Orðið niðursetningur var haft um sveitaómaga, fátækt fólk, stundum fatlað, en einnig börn og gamalmenni, sem komið var fyrir á heimilum óskyldra. Þetta er samsett orð og merkir bókstaflega að setja niður. Ekki má rugla því saman við það þegar einhver hefur sett niður vegna einhvers, það er orðið sér til minnkunar.

Mér finnst fótboltinn þarna vestra nokkuð flókinn og hef ekki mikinn áhuga á honum. Hins vegar þekkja margir orðið „touchdown“ sem hingað til hefur verið kallað snertimark á íslensku. Niðursetningur er snilldarorð en í það vantar þó markið þannig að ég geri varla ráð fyrir að það nái útbreiðslu, bandarískur fótbolti hefur hvort eð er ekki náð neinum vinsældum hér á landi.

Þrátt fyrir snilldina hefði málsgreinin sem hér er vitnað til mátt vera hnitmiðaðri. Snilldin er oft óþægilega takmörkuð.

Orri Páll segir í Ljósvakapistli sínum:

Annað sem mér finnst undarlegt í íþróttalýsingum í sjónvarpi er þegar leikmenn á EM kvenna í handbolta, sem nú stendur yfir, eru kallaðir Danir, Serbar og Þjóðverjar. Allt eru það karlkyns orð. Hvers vegna ekki Dönur, Serbur og Þjóðverjur? Er það ekki í takt við breytta tíma? Veit að vísu ekki alveg með Þjóðverjur; það hljómar meira eins og nafn á smokkum sem íslenska ríkið hefði einkaleyfi á.

Eftir að hafa lesið þetta hló ég upphátt.

Tillaga: „Snertimark“ er afskaplega máttlaus þýðing. Væri ekki nær að nota orðið „niðursetningur“ um fyrirbrigðið?

4.

„Á einum tímapunkti lét Helga hann Kjartan vita af því að stuðningsmenn Bröndby vory byrjaðir að banka og væflast um í garðinum. 

Frétt á visir.is. 

Athugasemd: Hvað í ósköpunum kemur orðið „tímapunktur“ málinu við? Ekkert. Þetta er eitt af þessum vita gagnslausu orðum sem einhverjir krakkar sem villst hafa í blaðamennsku finnst flott af því að það virðist svo útlenskt.

Jafnvel í ensku er orðið ofnotað, sjá vefsíðuna Grammarist en þar stendur:

The common phrase point in time could usually be shortened to just point or time. If neither of those words sounds right, there are other alternatives such as moment, second, and instant, which get across that we are talking about time.

Sama er með íslensku. Önnur orð eða umritun getur verið vænlegri kostur en að nota hið klisjukennda, ofnotaða orð.

Berum nú saman tilvitnaða textann og tillöguna hér fyrir neðan. Merkingin hefur ekkert breyst þó „tímapunkturinn“ hafi verið fjarlægður.

Tillaga: Helga lét Kjartan vita af því þegar stuðningsmenn Bröndby voru byrjaðir að banka og væflast um í garðinum.

5.

„Latifa lagði af stað á sjóskíðum frá Óman ásamt finnskri vinkonu sinni … 

Frétt/fréttaskýring á bls. 6 í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 8.12.2018 

Athugasemd: Líklega hefði verið trúlegra orðalag að Latifa hefði lagt af stað frá Oman á gönguskíðum. Að vísu fellur aldrei snjór í ríkinu sem er við mynni Persaflóa og á landamæri að Saudi-Arabíu og Jemen en það er nú bara smáatriði (!). 

Sjóskíði eiga það sameiginlegt með svigskíðum að þau eru ekki notuð til ferðalaga. Ekki er hægt að komast áfram á þeim nema vera dreginn eða fara niður brekku. Sem sagt, enginn ferðast á sjóskíðum nema bátur dragi ferðalanginn. Annars er fer hann „hvorki lönd né strönd“ eins og sagt er.

Í þeim erlendu fréttamiðlum sem ég hef lesið til að skilja frétt Moggans eru sjóskíði ekki nefnd heldur að Latifa hafi farið á snekkju (e.yacht) frá Óman. Má vera að í einhverjum útlendum fréttamiðlum sé sagt frá ferðalagi á sjóskíðum.

Tillaga: Latifa fór frá Óman á snekkju ásamt finnskri vinkonu sinni.

6.

„Aðeins einn sitjandi þingmaður telur að þingmennirnir ... 

Frétt á visir.is.  

Athugasemd: Hvað er sitjandi þingmaður? Er það þingmaður sem situr á þingfundi? Er það þingmaður sem situr yfirleitt? Þingmaður í bíl?

Á útlenskunni sem blaðamenn dá svo mikið segir af „sitting president“ í Bandaríkjunum. Þá er átt við núverandi forseta. Og svo mikið kunna þeir í íslensku að þeir halda að þingmaður sem kjörinn er á Alþingi Íslendinga sé „sitjandi þingmaður“. Þetta er alrangt. Sá einn er þingmaður sem kosinn hefur verið þingmaður og svarið eið að stjórnarskrá. Aðrir geta ýmist verið fyrrverandi þingmenn eða ekki þingmenn. 

Hér er gáta. Ef sitjandi þingmaður er núverandi þingmaður, hvað er þá standandi þingmaður? En liggjandi þingmaður?

Tillaga: Aðeins einn þingmaður telur að þingmennirnir ...


Þegar ofbeldið var barið úr Jónsa

Þegar ég var í Ísaksskóla sparkaði strákur í stelpu og hún fór að grenja eins og allir á þessum aldri gera þegar þannig hendir. Þetta var sosum ekkert óalgengt, en þarna gerðist eitthvað nýtt. Sko, maður mátti henda snjóbolta í stelpur, stríða þeim dálítið en aldrei mátti meiða þær. Það þótti ljótt. Hins vegar var aldrei neitt sagt í þau fáu skipti sem stelpur meiddu stráka. Man til dæmis eftir því að hún Kiddí tuskaði Steina fyrir eitthvað ljótt og hann lét það sér að kenningu verða. 

En það var þetta með strákinn sem sparkaði í stelpuna í Ísaksskóla. Mig minnir að hann hafi heitið Arinbjörn Egill en alltaf kallaður Jónsi því flestum þótti svo erfitt að bera bera fram fyrra nafnið, hvað þá að fallbeygja það. Allir gátu sagt Anna og fallbeygt rétt og þar að auki var hún voðalega sæt, eiginlega uppáhald allra.

Fáir sáu þegar Anna fékk sparkið en hún hrein svo hátt af sársauka að það fór ekki framhjá kennurunum sem sátu inni við huggulega kaffidrykkju. Tveir þeirra þustu út til að hugga Önnu. Jónsi gerð´etta, Jónsi gerð´etta, hrópuðu allir, bæði þeir fáu sem urðu vitni að verknaðinum og sem og allir hinir sem vildu hafa séð hann.

„Ég gerð´etta ekki, ég gerð´etta ekki,“ vældi Jónsi.

Sá kennaranna sem ekki var að huga að báttinu á Önnu dró Jónsa gegn vilja sínum til skólastjórans, kannski að það hafi verið hann Ísak sjálfur, man það ekki. Þar var hann ábyggilega skrifaður upp í ljótu tossabókina og vafalaust rassskelltur, en eldri krakkarnir sögðu að það væri alvanalegt þegar þyrfti að siða þyrfti vonda krakka. Engu skipti þó Jónsi klagaði Önnu fyrir að hafa áður hrekkt sig og ekkert var hlustað þó hann segðist hafa séð svo ótalmarga aðra sparka í stelpur.

Jónsi kom grátbólginn í bekkinn sinn og var nú allt kyrrt um sinn. Ég gerð´etta ekki, sagði Jónsi áður en hann settist. „Hún byrjaði,“ bætti hann svo við og benti á Önnu. „Hún tók eplið mitt og henti því í moldina.“

„Nei, þú ert að ljúga,“ sagði Anna, og fór svo að gráta.

Þegar skóla lauk yfirgáfu allir krakkarnir skólalóðina en eftir sat Jónsi greyið í mölinni, var með blóðnasir og skólaus á hægri fæti. Hann grenjaði heil ósköp. Kennari kom honum til hjálpar. Þegar hann hafði grenjað nóg leitaði hann snöktandi að skónum sínum, fann hann og gekk svo heim.

Ég man ekki hvenær það var en nokkru síðar vorum við Pési, besti vinur minn, úti í frímínútum. „Ertu búinn að sparka í hann Jónsa?“ spurði hann þá. Ég hváði, ha, nei, það hafði ég ekki gert. „Hvað er´etta, þú veist aldrei neitt. Hefurðu ekkert fylgst með því sem hefur verið að gerast í skólanum.“ Ég var ekki alveg viss.

„Sko, þú verður að sparka í Jónsa, allir gera það af því að hann sparkaði í Önnu.“ Hefði ég verið nokkrum árum eldri hefði ég sagt ókei en ég sagði bara staðinn „allt í lagi“.

„Mundu, að ef þú sparkar ekki í Jónsa þá verður sparkað í þig. Viltu kannski að Atli hrekkjusvín eða Gunni litli sparki í þig?“ Neheeeiiii ... það vildi ég sko alls ekki og sætti því færis að sparka í Jónsa. Það reyndist hreint ekki svo auðvelt því það var rétt sem Pétur sagði, allur skólinn, strákar og stelpur, voru á eftir honum og allir reyndu að sparka í hann, ekki bara í legginn á honum heldur líka rassinn og magann. Finnbogi ferlegi náði víst að sparka í andlitið á honum og fékk mikið hól fyrir frækni sína en Jónsi fór auðvitað að grenja.

Stína læddist við það tækifæri aftan að Jónsa og togaði svo kröftuglega í hárið á honum að hann skall aftur fyrir sig og fékk gat á hausinn. Og þar sem hann lá flatur á jörðinni náðu fullt af krökkum að sparka í hann. Þá grenjaði Jón en sárar en áður. Nokkrir kennarar voru í glugganum á kennarastofunni en enginn kom út. 

Grímsi sagði að Jónsi ætti ekki að grenja heldur sýna auðmýkt og viðurkenna að hann væri ofbeldismaður. Svo sparkaði hann í punginn á Jónsa en það hafði skiljanlega minni áhrif á sjö ára strák en hefði hann verið helmingi eldri.

Atli Sigursteins sagðist hafa sparkað þrisvar í Jónsa þar sem hann lá eftir að Stína skellti honum. Það þótti stelpunum flott hann var samstundis uppáhaldsstrákurinn meðal stelpnanna í bekknum. Það var mikil upphefð því áður hafði Atli bara verið hrekkjusvín.

Gunnar litli í sama bekk þorði ekki að nálgast Jónsa því hann var frekar stór, og lét nægja að kasta í hann grjóti og var eftir það aldrei kallaður annað en Gunni grjótkastari og loddi viðurnefnið við hann alla æfi. Um þrjátíu árum síðar dó hann blessaður á Litla-Hrauni þar sem hann var vistaður eins og sagt er, fyrir að hafa gengið heldur frjálslega í skrokk á manni í Grafarvogi vegna fíkniefnaskuldar sonarsonar hans.

Nú, Friðborg sæta sem þekkti hvorki Jónsa né Önnu náði samtals þremur spörkum í Jónsa sem þó var uppistandandi og fögnuðu vinkonur hennar óspart og hvöttu hana áfram í þessu þjóðþrifamáli.

„Ég þoli ekki stráka sem beita ofbeldi,“ sagði svo Friðborg eftir þriðja sparkið, dálítið móð. „Þú ert ógeðslegur,“ argaði hún þegar hún var komin í örugga fjarlægð, en hún var frekar spretthörð.

Jáhá ...,“ sagði vinkona hennar á innsoginu. „Ég þoli ekki svona fíbbl.“

„Gvöð hvað hann Jónsi er mikill obbeldisstrákur,“ sagði önnur, sem hafði bara náð einu sparki og langaði sárlega í fleiri

„Sko, það þarf að taka á svona ofbeldismönnum,“ sagði Stína við Friðborgu, sem var fyllilega sammála. „Strákar sem beita obbbeldi eru svín og það þarf að berja þá oft og lengi í einu.“

„Nákvæmlega það sem ég var að hugsa,“ sagði Atli Sigursteins, sem þarna bættist í stækkandi hópinn. „Sko, ég hef sparkað þrisvar í Jónsa og ég ætla að sparka í hann sjö sinnum í viðbót. Þá verð ég búinn að sparka níu sinnum í hann og það er skólamet sem verður aldrei slegið.“ Atli hafði aldrei verið góður í reikningi þó hann yrði síðar endurskoðandi hjá Landsbankanum sem fór auðvitað á hausinn.

„Vaaaaááá ...,“ andvarpaði hópurinn í einróma aðdáun.

„Ég fatta eitt,“ hrópaði Gunni grjótkastari. „Það er ekki nóg að sparka níu sinnum í svona ofbeldismenn. Þeir verða að læra að ofbeldi borgar sig ekki. Sko, vitiði hvað ég ætla að gera ...?“ Gunni þagnaði og horfði á okkur krakkana sem höfðum safnast í kring um þau Atla og Stínu. Eftirvæntingin var hrikaleg. Greinilegt að nú ætlaði hann að toppa Atla eftirminnilega. Eftir nokkur augnablik í þrúgandi spennu æpti hann: „Sko, ég ætla alltaf að snúa bakinu í Jónsa, hann getur horft á rassgatið á mér en ég ætla aldrei að horfa framan í svona pöddu og þegar ég mæti honum ætla ég að segja prump.“ Og hann bjó til rosalega flott prumphljóð með því að blása í lófan á sér.

Við fögnuðum eins og Gunni hefði skorað mark í fótboltalandsleik.

„Bíddu, bíddu ...,“ hrópaði Atli. „Þú veist nú ekkert hvað ég ætla að gera fyrir utan þessi átta spörk. Ég er sko með eina æðislega hugmynd.“ Og aftur horfðum við krakkarnir með eftirvæntingu á þessa stórkostlegu krossferðariddara sem voru í óða önn að skipuleggja byltingu götunnar gegn ofbeldi.

„Ég ... ég, þaddna ..., ég ...,“ stamaði Atli, og það var rétt eins og hann hefði gleymt því sem hann ætlaði að segja. Svo kviknaði á perunni og hann ljómaði í framan: „Sko, ég ætla aldrei að vera í sama herbergi og Jónsi og ef Jónsi ætlar að segja eitthvað ætla ég að segja langt búúúú og ganga út.“

Við fögnuðum ákaft. Þetta var stórkostleg hugmynd.

Pési vinur minn fagnaði ekki því hann var alltaf snöggur að hugsa. „Heyrðu Atli, þú ert í sama bekk og Jónsi, ætlarðu aldrei að fara í tíma með honum og ætlarðu alltaf að segja búúúúú og ganga út þegar Jónsi á að lesa upphátt? Ha ...? Hvað heldurðu að kennarinn segi?

Atli þagði og horfði ráðleysislega til skiptis á Pétur og Gunna. „Sko, ég ...“

„Hvers konar asni ert þú, þarna Pétur sem ekkert getur?“ öskraði Gunni grjótkastari. „Ertu kannski kominn í lið með ofbeldismönnum eins og Jónsa? Ertu hættur að vera friðarsinni og orðinn ófriðarsinni? Eða er kominn tími til að sparka einhverju viti í þig? Ha?“

„Þú þarna ... þarna ... hræsnari dauðans ætlar þú að halda áfram að kjafta þig lengra út í forað sem þú kemst ekki upp úr?“ æpti Sveinn Hans, og gekk ógnandi að Pétri, sem ósjálfrátt hörfaði undan.

„Þú er haldinn meðvirkni og siðblindu,“ hrópaði Óli Thor, í öruggri fjarlægð úr krakkahópnum.

„Þú ert mest mesta fífl í heimi og haldinn bullandi meðvirkni,“ sagði Jón Kristjánsson.

Pétur þagði, stundum hafði hann vit á því. Ég sagði auðvitað ekkert en færði mig samt svona til vonar og vara frá Pétri ef ske kynni að einhver ætlaði að lemja hann. Það var sko ekki þess virði að láta sparka í sig eða lemja fyrir það eitt að vera vinur Péturs sem ekki kann að ganga í takti við meirihlutann.

Af Jónsa það að segja að stuttu síðar hætti hann í skólanum. Sagt varð hann væri í Hvassaleitisskóla, þar var hann kallaður Addi. Þótti góður strákur, en hlédrægur og feiminn.

Í nokkra daga eftir að Jónsi hætti var ekkert fjör í frímínútum í Ísaksskóla. Stelpurnar byrjuðu að fara aftur í snú-snú og hoppa í parís. Strákar spörkuðu bolta. Svo kom í ljós að gluggi í kjallarageymslu í skólanum hafði brotnað. Einhver kenndi Gunna grjótkastara um en ekkert var hægt að sanna. Hann neitaði öllu, en glotti þó.

Mánuði síðar gerðist það að einhver stal peningum úr úlpunni hennar Gullu Antons. Böndin bárust furðu fljótt að Binni litla Guðmunds. Í næstu frímínútum leituðu Gunni grjótkastari og Atli Sigursteins Binna litla uppi. Þeir byrjuðu á að sparka í hann. Svo hrintu þeir honum í drullupoll og þá fagnaði allur skólinn nema ef til vill Pési vinur minn. Hann var og er friðarsinni nema á rjúpu- eða gæsaveiðum. 

Svo kom í ljós að engum peningum hafði verið stolið, Anna hafði bara gleymt þeim heima. Þá var Binni kominn með blóðnasir og gekk haltur.

„Skiptir engu máli,“ sagði Gunni grjótkastari. „Hann hefði alveg getað hafa stolið þessum peningum, hann er svoleiðis týpa. Og þeir Atli héldu áfram að berja á Binna það sem eftir var vetrar. Þess vegna var hann alltaf eftir það kallaður Binni þjófur. Enn þann dag í dag veit enginn hver Binni er fyrr en viðurnefninu er bætt við. 

Nöfnum allra í sögunni hefur verið breytt nema Péturs. Að öðru leyti er sagan sennileg.


Úr Víkurkirkjugarði eru mannabein sett í poka

En all­ir eiga sína sögu. Það seg­ir svo­lítið um mann­gildi og mennsku hvernig sag­an síðan er ræktuð.

Þannig er niðurlag greinar Sveins Einarssonar, leikhússtjóra, í Morgunblaði dagsins. Hann ræðir um Víkurkirkjugarð sem sumir kalla Fógetagarð. Þar á að reisa hótel og skiptir engu þó það sé byggt á vígðum reit.

Sveinn á við með þessum orðum að það sé okkar að rækta söguna, hafa til þess bæði manngildi og mennsku. Hins vegar ráða nú önnur viðhorf. Borgarstjórn Reykjavíkur horfir miklu frekar til mannvirkja sem gefa af sér skatttekjur en líta síður til arfleifðar okkar. Opið svæði þar sem var kirkjugarður er auðvitað tilvalinn fyrir hótel.

Í grein sinni segir Sveinn:

Fyr­ir nokkr­um dög­um gerðist sá at­b­urður að all­marg­ir Reyk­vík­ing­ar komu sam­an í vænt­an­lega elsta kirkju­g­arði lands­ins og voru þar les­in upp nöfn þeirra sem vitað er að þar voru grafn­ir, þegar þessi vígði reit­ur var stækkaður til aust­urs á fyrri hluta nítj­ándu ald­ar, á þeim slóðum sem borg­ar­yf­ir­völd­um þykir við hæfi að hafa hót­el og öld­ur­hús, meðal ann­ars í óþökk Alþing­is.

181206 VíkurkirkjugarðurSveinn hafði lesið upp nokkur nöfn fólks sem grafið var í Víkurkirkjugarði árið 1827 og því segir hann:

Þessi nöfn hafa sótt á mig á síðan, ekki síst eft­ir að vitnaðist að bein­um þess­ara ein­stak­linga muni ekki alls fyr­ir löngu hafa verið safnað sam­an í vel­signaðan poka til geymslu á stað þar sem hann yrði ekki svona mikið að flækj­ast fyr­ir arðvæn­legri pylsu­sölu og bjórdrykkju.

Þetta er alveg ótrúlegt. Það er sárara en tárum taki hvernig Víkurkirkjugarður hefur verið vanvirtur. Og enn er til fólk sem telur það engu skipta að eitt sinn náði hann nærri því út á Austurvöll.

Lágkúran á sér engin takmörk. Um þessar mundir nær þjóðin ekki upp í nef sér af vandlætingu vegna ummæla nokkurra þingmanna. Hún lætur sér þó í réttu rúmi liggja þegar ofbeldið er arfleifðin. Þá taka aðeins örfáir til varna en á móti kemur að nú hafa hinir bestu menn staðið upp og mælt gegn þessari ósvinnu. Fólk eins og Sveinn Einarsson, Vigdís Finnbogadóttir, Friðrik Ólafsson og margir fleiri.

Vigdís sagði þetta í viðtali við Morgunblaðið fyrir skömmu:

Það er nátt­úru­lega al­gjör­lega ófyr­ir­gef­an­legt að byggja ofan á kirkju­g­arði. [...]

Við skul­um halda gömlu Reykja­vík, bæði með timb­ur­hús­um og stein­hús­um, eins ósnort­inni og mögu­legt er því við erum líka að hugsa um framtíðina. Framtíðin þakk­ar okk­ur ekki fyr­ir að hafa byggt svona en hún þakk­ar okk­ur ef okk­ur tekst að stoppa þetta.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband