Hvað skyldi forseti Bandaríkjanna og Rússar vera að fela?

Sé rétt að Michael Flynn, fyrrum þjóðaröryggisráðgjafi Donald Trumps,Bbandaríkjaforseta, hafi ákveðið að segja FBI og leyniþjónustunefnd þingsins allt af létta um tengsl forsetans við Rússa, hlýtur það að vera stórfrétt. Þetta eitt bendir til að eitthvað sé til að fela og má fullyrða að forsetinn og stjórn hans sé þá orðinn ansi valtur í sessi.

Bandaríski fjölmiðillinn New York Times lætur að því liggja að Flynn sé ekki sá eini af fyrrum ráðgjöfum forsetans sem hafi fundið hjá sér knýjandi þörf til að segja frá.

Bandaríkjamenn taka samskiptin við Rússa afar alvarlega. Rökstuddur grunur hefur verið um að þeir hafi haft margvísleg afskipti af bandarískum innanríkismálum og jafnvel svo að úrslit forsetakosninganna hafi ráðist vegna stýringar frá Moskvu.

Flynn laug til um samtöl sín við sendiherra Rússa í Bandaríkjunum og án efa standa mál þannig að alríkislögreglan hefur upptökur af þessum símtölum, einu eða fleirum, sem gerir málið þyngra fyrir Flynn. Á móti kemur að rannsóknir FBI á málinu eru án efa svo umfangsmiklar að nú er komið að því að sækja ekki einungis í smáfiskinn heldur einnig hinn stóra. 

Afleiðingin af öllu þessu gæti orðið afsögn Trumps, skiptir engu hvort hann hafi vitað af samskiptunum við Rússa eða ekki.

Þegar litið er til stjórnar Trumps og framgöngu hans í embætti fer ekki hjá því að leikmenn álykti sem svo að hann ráði ekki við embættið, sé í raun ekki stjórnandi heldur fari hann að vilja ráðgjafa sinna. Þekking hans á stjórnkerfinu, innanríkismálum og alþjóðamálum virðist lítil enda tjáir hann sig einna helst upphrópunum og fyrirsögnum. Lítið fer fyrir pólitískri hugsjón og stefnu.

Hvað sem öllu líður verða næstu vikur afar forvitnilegar í bandarískum stjórnmálum. Forsetinn er í alvarlegum vanda, ekki ólíkum þeim sem Richard Nixon kom sér forðum í. Þá var stutt í leikslok.


mbl.is Flynn talar gegn friðhelgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vangaveltur um forna ljósmynd

BærVeit einhver hvar þessi bær stóð?

Myndin er fengin af Facbook síðunni „Gamlar myndir“ og birtist þar í síðustu viku. Myndin var tekin um 1897 af Johannes Klein, dönskum málara sem var hér á ferð og sögð tekin í Austur-Húnavatnssýslu.

Fornar myndir eru oft afar áhugaverðar. Þær sýna mannlíf, búskaparhætti, vinnubrögð, klæðnað fólks og svo margt annað sem fæstir þekkja í dag. Þó landslagið hafi lítið breyst er ekki alltaf ljóst hvar myndir hafa verið teknar.

Þá verða til vangaveltur, ekki aðeins hjá mér heldur fjölda annarra. Hjá mér fór helgin í pælingar um myndina.

Bær2Upphaflega var ég staðfastlega á þeirri skoðun að í fjarska mætti sjá þrjú fjöll. Var um leið viss á því að þau eru ekki að finna í Austur-Húnavatnssýslu.

Sá jafnvel líkindi með því að fjallið lengst til hægri væri austurhliðin á Mælifelli í Skagafirði. Þetta er hins vegar ákaflega ósennileg tilgáta vegna þess að ekkert strýtumyndað fjalli er til sunnan við Mælifell. Dálítið óheppilegt þegar blákaldar staðreyndir eyðileggja sennilega tilgátu.

Í ljósi þess að erfitt er að átta sig á fjarlægð í myndinni hafa sumir bent á að þetta gætu einfaldlega verið hólar, ekki fjöll. Á milli eru einhverjar hæðir og svo virðist sem að fyrir neðan þær sé á eða lækur. Sumir hafa bent á skýjaslæðuna, það sé þoka sem læðist stundum inn Húnaflóa og því sé þarna stutt til sjávar.

Nú kann vel að vera að bærinn sé löngu sokkinn í jörð, gróið yfir hann. Þá er fátt orðið eftir til skilnings á staðháttum. Eitt kann þó að vera áhugavert og það er litla klettabeltið hægra megin við miðja mynd. Má vera að það kveiki í hugsuninni hjá einhverjum.

Af einhverjum ástæðum kunna sumar gamlar myndir hafa verið skannaðar rangt inn, þær séu einfaldlega speglaðar. Hér eru því birtar tvær útgáfur af myndinni. Væntanlega er bara önnur rétt.

Og til hvers er maður að leggja á sig pælingar af þessu tagi? Manni vefst tunga um höfuð því skýringin er erfið. Þetta er bara eins og hver annar leikur; krossgáta, föndur eða eitthvað álíka. Má vera að þetta sé tóm vitleysa og tímanum betur varið í að yrkja ljóð, semja skáldsögur eða syngja í kór. 


Þröstur Ólafsson gerir Styrmi Gunnarssyni upp skoðanir

stalinVið lestur síðasta pistils Styrmis Gunnarssonar (Umræðan, Mbl.18.mars) er ljóst að hann telur bæði NATO og ESB vera á útleið. Því þurfi Íslendingar að huga að framtíðarskipan bæði varnar- og viðskiptamála.[...] 

Staða okkar Íslendinga á að vera sú að styrkja NATO. Í þessu sambandi var olnbogaskot Styrmis á Valhöll athyglisvert. Ef sameiginlegar tilraunir til þess skila ekki tilætluðum árangri, og trumpistar ná undirtökunum,eigum við aðeins þann kost að tengjast Evrópuríkjunum nánar varnarlega. Ævintýralegar vangaveltur um varnarbandalag með fjórum/fimm smáríkjum við Vestur Atlantshaf,  eru ekki þess virði að hugleiða þær af alvöru.

Þetta skrifaði Þröstur Ólafsson, hagfræðingur í grein í Morgunblaðinu og birti líka á vefritinu eyjan.is.

Gamlir kommar og sósíalistar lærðu í útlöndum hvernig best er að gera lítið úr pólitískum andstæðingum, eyðileggja málflutning þeirra og hrósa sigri. Og þeir notfærðu sér aðferðina alveg sleitulaust allt fram á þennan dag. Ofangreind tilvitnun í grein Þrastar sýnir í hnotskurn vinnubrögð þeirra sem raunar er enn óspart notuð.

Í stuttu máli byggist aðferðin upp á því að vitna til orða pólitísks andstæðings, fara rangt með tilvitnunina, og leggja síðar út af hinum meintu orðum og gera þannig lítið úr andstæðingnum.

Svona aðferðafræði dugar best á lokuðum fundum, sellufundum. Vandinn verður hins vegar meiri þegar óþrifin eru birt á opinberum vettvangi. Hins vegar setur uppruninn gamla komma oft í vanda, þeir freistast til að framleiða óhróður eins og þeim var kennt að gera í gamla daga.

CastroÞví miður fyrir Þröst Ólafsson les Styrmir Gunnarsson, fyrrum ritstjóri Moggann og skrifar á vefsíðu sína, hafði ekki einu sinni fyrir því að birta pistilinn í gamla málgagninu sínu.

Þetta er einhver misskilningur hjá Þresti. Mér hefur aldrei dottið slíkt "varnarbandalag" í hug! Enda þrjú þeirra ríkja, sem ég nefndi í grein minni, herlaus, þ.e. Ísland, Færeyjar og Grænland.

Þröstur hefði getað sparað sér ritsmíðina og alla vandlætinguna en það var ekki tilgangurinn. Hann vitnað í Styrmi á þann hátt sem honum hentaði, dró þær ályktanir sem áttu að vera réttar, og færði rök fyrir því að meintar skoðanir Styrmis séu rangar: 

Veikasti hlekkurinn í óskhyggju Styrmis sú von hans að ESB líði undir lok. Þar deilir hann ósk sinni með bæði  Trump og Pútín.   

En „óskhyggja Styrmis“ er aðeins til í höfðinu á Þresti og sá fyrrnefndi segir:

Það er líka misskilningur hjá Þresti að ég vilji Evrópusambandið feigt. Svo er ekki, þótt ég telji aðild Íslands að því ekki koma til greina.

Hættu þessu bulli um mig og skoðanir mínar, gæti Styrmir verið að segja, en hann er of kurteis og lífsreyndur til að segja öðru fólki til syndanna. Samt hljóta orð hans að vera sem svipuhögg á beran afturenda Þrastar ... eða þannig.

Þröstur Ólafsson hefur marga fjöruna sopið í stjórnmálum og gert víðreist. Hann var í Alþýðbandalanginu forðum daga, barðist meðal annars gegn inngöngu í EFTA. Hann sagði til dæmis á fundi um EFTA sem Alþýðubandalagið hélt 22. nóvember 1969:

Innganga Íslands í EFTA er tilraun afturhaldsafla í þjóðfélaginu til að frysta tíu ára gamla viðreisn í landinu til frambúðar á kostnað almennings. Gera á seinustu tilraun til að bjarga ráð- og dáðlausri valdastétt og fá um leið framtíðarábúð fyrir efnahagsstefnu, sem er launafólki og öllum almenningi afar óhappadrjúg og fjandsamlega.

Kannast einhver við orðfærið? Ansi nærri því sem Vinstri grænir og Samfylkingin notar í dag.

Nærri fimmtíu árum eftir þessi orð Þrastar segir hann í áðurnefndri Morgunblaðsgrein:

Okkur hefur sannarlega farnast vel bæði í NATO og í EES, sem er megin farvegur samninga okkar við Evrópu. Við ættum því að leggja þeim lið sem vilja halda í og styrkja báðar stofnanirnar. Hann gleymir því hins vegar að án ESB er ekkert EES. Samningurinn um EES er við ESB, þ.e. Brussel, ekki við Berlín.

Já, EFTA og NATO var áður tilraun valdastéttarinnar til að berja á almenningi landsins. Allt hefur breyst hjá Þresti. Hann hætti fyrir löngu í Alþýðubandalaginu og fór í Alþýðuflokkinn og þaðan í Samfylkinguna og situr þar í rústum hennar og mærir Nató og ESB. 

Styrmir Gunnarsson lýkur pistli sínum á sinn hógværa máta:

Kynslóð okkar Þrastar verður að horfast í augu við það að tímarnir eru að breytast. Smáþjóð norður í höfum verður að laga sig að þeim breytingum og tryggja sjálfstæði sitt og öryggi við breyttar aðstæður.

Hversu rétt er ekki þetta mat?


Raus í ræðustól Alþingis og gagnslausar upplýsingar

OpiðFrú forseti. Það voru áhöld um hvort ég ætti yfir höfuð að vera í þessum ræðustól.

Í morgun, skömmu eftir átta, barst mér tilkynning um það að ég hefði verið númer 27 í röð háttvirtra þingmanna að komast hér á mælendaskrá. Síðan fóru nú einhverjir vísir menn að skoða málið nánar og þá kom í ljós að allmargir af þeim sem á undan mér voru á skránni höfðu tilkynnt sig inn laust fyrir klukkan átta.

Var gerð við þetta athugasemd sem endaði með því að öllu var raðað upp á nýtt og ég þurfti að fara að undirbúa að nýju hvað ég ætlaði að tala um.

Þetta sagði Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður, í ræðustól Alþingis í vikunni.

Í Staksteinum Morgunblaðs dagsins er vakin athygli á þessum orðum og eftirfarandi sagt:

Jón Steindór hafði sem sagt pantað púltið án þess að hafa nokkuð að segja. Niðurstaða hans eftir vangaveltur um hvað hann ætti að tala um var „að tala um þetta, um störf þingsins“.

Jón Steindór hagaði sér kjánalega í ræðustólnum. Hann hefði betur sleppt því að taka til máls og blaðra um ekki neitt. Hann er hins vegar ábyggilega ekki síðri þingmaður en margir aðrir en því miður virðist meðaltalið frekar í lægri kantinum.

Kjarni málsins á þinginu er þessi: Æ fleiri þingmenn sitja á þingi án nokkurrar stefnu, hugsjónar eða eldmóðs. Tilgangurinn er einhvers konar leikur, vekja athygli fjölmiðla á sjálfum sér og flokknum sínum, láta um leið liggja að því að spilling ráði eða hreinlega óvild gagnvart ákveðnum málaflokkum eða hópum í landinu. Minna fer fyrir skilningi þessara þingmanna á hlutverki löggjafans.

Kapphlaupið um að fá númer í ræðustóli er aðalatriðið en á eftir er pælt í því hvað á að segja.

Useless infoDæmi um leikræna tilburði er fyrirspurnartími á þinginu. Fyrir stuttu vildi þingmaður vita hversu mörg vínveitingaleyfi eru í gildi og hvað mörg leyfi hafi verið gefin út á árunum 2010 til 2916. 

Þingmanninum var svarað og hann þakkaði án efa fyrir fyrir sig, sté úr ræðustól og málið hvarf út í tómið eins og svo ótal önnur mál. En hvers vegna varð þessi fyrirspurn til, hversu mikið kostaði að svara henni og hver var tilgangurinn?

Upplýsingar um leyfisveitingar liggja ekki á lausu og því hefur stjórnsýslan þurft að fela starfsmanni að leita í skjölum og telja saman. Það kann að hafa tekið einn dag og allt upp í þrjá til fjóra daga. Þessi starfsmaður gerði ekkert annað á meðan, sinnti ekki hefðbundnum störfum sínum og tafir urðu á afgreiðslu.

Samtals getur kosnaður við að svala forvitni þingmannsins verið hátt í eina milljón króna.

Við þessu er ekkert að gera. Þingið á rétt á að fá þær upplýsingar frá framkvæmdavaldinu sem það vill. Það sem hins vegar vekur athygli er að ekkert var gert með upplýsingarnar. Fyrirspurnin var bara hluti af kynningarmálum málum viðkomandi þingmanns, tilraun hans til að vekja athygli á sér.

Þegar ég var í skóla í útlandinu var afar mikil áhersla lögð á að safna upplýsingum en um leið var lögð áhersla á að upplýsingar væru í eðli sínu gagnslausar nema þær væru settar í rétt samhengi.

Tilgangurinn með upplýsingasöfnun er byggja einhvers konar mynd sem getur verið lýsandi fyrir viðfangsefnið, hjálpað til við úrlausn máls. Í sannleika sagt skiptir litlu máli hversu margir naglar eru í timburhúsi, hversu margir lítrar af málningu fóru á inn- og útviði eða hvort plast eða timbur eru í gluggafögum, nema verið sé að gera úttekt á kostnaði við byggingu húss.

Mikilvægast er að vita nokkurn veginn svarið við fyrirspurn. Geri fyrirspyrjandi sér ekki grein fyrir því hvernig svarið kemur að gagni er gagnslaust að spyrja.

Hvaða ályktun má draga að því að 1154 vínveitingaleyfi eru gild á landinu og 1273 leyfi voru samþykkt frá 2010 til 2016? Eru þessar tölu litlar eða miklar? Sannast sagna hef ég ekki hugmynd um það og dreg þá ályktun að ekkert gagn hafi verið að fyrirspurninni, hvorki fyrir þingmanninn né okkur hin.

Niðurstaðan af ofangreindu er því sú að sáralítill munur er á því að þingmaður standi og gapi um allt og ekkert í ræðustól Alþingis eða hann af vanþekkingu óskar eftir gagnslausum upplýsingum.

Af tvennu illu er þó ódýrara að þingmenn rausi í ræðustól.

 


Samfélagsleg aðkoma er skrautyrði fyrir einokun

Ef samfélagsleg aðkoma tryggir eftirfarandi umfram einkaaðila:

a) betra utanumhald og minni ágang markaðsafla,
b) er betri fyrir ríkissjóð og þar af leiðandi okkur sem skattgreiðendur,
c) færir okkur hagstæðara verðlag (hátt útsöluverð stjórnast af álagningu),
d) tryggir meira úrval,
e) dregur úr aðstöðumun þéttbýlis og dreifbýlis;

ef þetta er svo, er þá ekki sjálfsagt að halda í það fyrirkomulag sem við búum við?
Í þessum röksemdum sameinast þeir sem vilja takmarka aðgengi af lýðheilsuástæðum og hinir sem neyta áfengis og vilja hafa ríka valmöguleika, tryggja hagstætt verðlag og hagsmuni sína sem skattgreiðendur.

Allt eru þetta efnislegar röksemdir gegn staðhæfingum þeirra sem segja það vera rangt að ríkið hafi áfengisdreifinguna á sinni hendi af þeirri einföldu ástæðu að það sé rangt! Með öðrum orðum: Af því bara. Ég held að varla sé hægt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að hugmyndafræði sé þarna orðin stjórnmálamönnum fjötur um fót.

Þetta segir Ögmundur Jónasson, fyrrum alþingismaður og ráðherra, á heimsíðu sinni. Gamli sósíalistinn hefur engu gleymt, reynir enn að villa um fyrir fólki.

Ríkisrekstur heitir á máli hans „samfélagsleg aðkoma“. Sé svo má fullyrða að „samfélagsleg aðkoma“ sé ástæðan fyrir einokun Mjólkursamsölunnar. Á hreinni og tærri íslensku er „samfélagsleg aðkoma“ skrautyrði fyrir einokun.

Setjum sem svo að einkaaðilar eigi allar þær áfengisbúðir sem ÁTVR rekur í dag, ekki færri, ekki fleiri, og auglýsingar á áfengi væru bannaðar, rétt eins og þær eru í raunveruleikanum.

  1. Engin rök eru fyrir því að áfengisneysla væri meiri eða minni ef verslanirnar væru í einkaeigu.
  2. Myndi verðlag áfengis hækka? Nei, varla í samkeppni við aðrar áfengisverslanir. Nú, ef það hækkaði myndi þá ekki draga úr neyslu?
  3. Er hægt að halda því fram að starfsfólk Vínbúða ÁTVR séu með sérþekkingu í áfengisforvörnum umfram það fólk sem myndi starfa í áfengisverslunum í einkaeigu?
  4. Er rekstur ÁTVR á einhvern hátt „samfélagslegur“ eða ber hann einkenni kapítalísks rekstrar? 
  5. Hverjir eru birgjar ÁTVR? Jú, þeir sömu og myndu skaffa áfengisverslunum í einkarekstri vörur til endursölu! Sama fyrirkomulag er í flest allri smásöluverslun hér á landi. Ekkert samfélagslegt við það að innflytjendur selji til smásala eða kannski er það greinilegasta dæmið um samfélagslegt eðli viðskipta.

Sé þetta rétt er ekki nokkur ástæða til að halda því fram að einhverjar „samfélagslegar“ ástæður séu að baki ÁTVR. Einungis gamaldags bannárátta sem rekja má aftur til bannáranna, banns við neyslu bjórs ... Gjörsamlega úrelt fyrirkomulag. Seljum þessar verslanir, látum ríkið hætta í smásölu.

Lýðheilsuástæður koma málinu ekkert við. Heilsa almennings verður hvorki betri né verri við það að ÁTVR sé lögð niður og verslanir þeirra seldar. Ekkert yfirnáttúrulegt fylgir starfsemi ÁTVR, bara ágætt starfsfólk sem myndi sinna sínum störfum á sama hátt í áfengisverslunum í eigu einkaaðila, jafnvel þeirra sjálfra.

Rök Ögmundar Jónassonar eru út í hött, standast ekki skoðun og byggjast á gamaldags kenningum um að ríkið eigi að vasast í sem flestu.


Nær algjört jarðskjálftahlé ...

Frá því á miðnætti og fram til klukkan þrettán í dag, föstudag, hafa orðið fimm jarðskjálftar á landinu. Fimm, 5, allir litlir, sá stærsti 1,1 stig.

Samkvæmt vef Veðurstofu Íslands hefur enginn skjálfti mælst til klukkan hálf fimm í dag, þegar þessar línur eru slegnar inn. Í gær mældust fimmtíu og fimm skjálftar, tífalt fleiri

Sem sagt tíðindalaust í jarðskjálftum. Ef til mætti orða þetta á annan hátt: Þau tíðindi hafa orðið að nær augnvir jarðskjálftar skekja landið.

Um leið og ég skrifa þetta velti ég því fyrir mér hvort skjálftar geti stafað af utanaðkomandi aðstæðum. Nefni lægðagang yfir landinu, tunglstöðu, frost eða jafnvel af siðferðilegum breyskleika þjóðarinnar ... Ég veit ekki til að verið sé að rannsaka ástæðu fárra jarðskjálfta en get mér til um að margar kenningar kunni að vera á lofti.

Hitt er pottþétt að kyrrstaða á þessu sviði er algjörlega gegn eðli landsins. Fyrr eða síðar verður innibyrgð spenna til þess að einhver skjálfti leysist úr læðingi og hann veldur öðrum og svo koll af kolli þangað til stórskjálfti verður eða eldgos hefst.

Datt nú inn sá sjötti ... Sér einhver gosmökk?

 


Fölsk frétt um Bjarna Benediktsson

Sé það meining Bjarna að geðlyf séu gerviþörf og tilgangslaus, rétt eins og að reyna að vökva líflaust blóm, biðlum við til forsætisráðherra að kynna sér málið til hlýtar og draga þessi ummæli til baka.

Þessi ummæli er að finna á vefritinu pressan.is og eru þar sögð frá „Samtökunum Geðsjúk“. Sá Bjarni sem um er rætt er Benediktsson og er forsætisráðherra Íslands.

Bjarni mun hafa verið boðið í heimsókn í stjórnmálafræðitíma í Verzlunarskóla Íslands. Þar ræddi hann við nemendur og var fullyrt að hann hefði sagt að „geðlyf virki ekki eða haf líkt lyfjagjöf við að vökva dáið blóm“ eins og segir á pressan.is.

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, neitaði að hafa sagt þetta.

Að gefnu tilefni. Ég hef hvergi sagt að geðlyf virki ekki eða að lyfjagjöf sé líkt og að vökva dáið blóm. Afar dapurleg umræða.

Katrín Guðjónsdóttir, nemandi í VÍ, brá skjótt við og sagði í athugasemdum með fréttinni:

Ég var í þessum tíma, get staðfest það að hann sagði þetta ekki. Hann teiknaði mynd af 2 blómum, annað þeirra var upprétt en hitt var hnignandi og þurfti að vökva. Hann teiknaði rætur undir bæði blómin og benti svo á rætur þess hnignandi og meinti með því að það þyrfti að finna rót vandans. Þriðjungur landsins fæðist ekki með geðræn vandamál heldur mótast það líka af samfélaginu og þarf því að ráðast á rót vandans frekar en að láta alla á geðlyf. Hann sagði aldrei að geðlyf virkuðu ekki. Þau ummæli komu frá einum nemanda sem misskildi myndlíkinguna en ekki öllum bekknum.

Isabel Guðrún Gomez undir það sem Katrín sagði:

Var líka í tímanum og get staðfest þetta líka, myndbandið er líka tekið algjörlega úr samhengi þar sem að við ræddum þetta mikið lengur en nokkrar sekúndur.

Þetta er skýrt dæmi um falska frétt sem dreift er á netinu til þess eins að koma höggi á Bjarna. Eða eins og orðtakið hermir: Bera er að sveifla röngu tré en öngvu.

Og fyrr en varir er falska fréttin komin út um allt og ekki síst með stuðningi þeirra sem stunda þá iðju sem Gróa á Leiti sérhæfði sig í samkvæmt sögunni.

Óðinn Þórisson, sagði með fréttinni:

Þetta er hluti af þeirri ósanngjörnu umræðu sem Bjarni Ben. fær á sig.

Um leið grípur óvandað fólk og reynir að halda áfram sögunni án þess þó að vita hætishót um sannleiksgildi hennar, sagan ætti bara að vera sönn. Líklega er það ástæðan fyrir því að Ásthildur Cecil Thordardottir segir með fréttinni:

Þú vilt sem sagt meina að hann hafi ekki sagt þetta? Hvaðan hefur þú það?

Og skítadreifingin heldur áfram.

Hvorki Áshildur né „Samtökin Geðsjúk“ hafa beðist afsökunar á frumhlaupi sínu.

 


Skítugt bílastæðahús og ógreinileg afmörkun bílastæða

Tillitsleysi ökumanna sem leggja bílum sínum í bílastæðahúsið Traðarkot við Hverfisgötu er slæmt. Fyrir nokkrum misserum var ég með skrifstofuaðstöðu á Laugaveginum og lagði bílnum reglulega í Traðarkot. Þá komst ég að því mér til mikillar furðu að það voru ekki aðeins eigendur stórra jeppa og sendibíla sem kunnu ekki að leggja í stæði heldur líka eigendur litlu bílanna.

Framkvæmdastjóra Bílastæðasjóðs virðist aldrei koma í húsið. Að minnsta kosti hefur hún ekki séð að málningin á bílastæðunum er máð og ógreinileg. Þessi staðreynd er að minnsta kosti lítilsháttar afsökun fyrir ökumenn.

Traðarkot er sóðalegt hús að innan. Þar hafa óvandaðir unglingar vaðið inn og krotað á veggi óásjáleg tákn, ryk er mikið í húsinu og einnig rusl.

Fyrir nokkrum misserum var mér eiginlega nóg boðið og skrifaði nokkuð um bílastæðahúsið á þessu vettvangi. Hér er tilvísun í einn pistilinn og fylgja honum myndir sem sýna hversu illa margir ökumenn leggja bílum sínum. Þeim og öðrum til skilnings eiga ökumenn að sýna öðrum þá háttvísi að leggja nákvæmlega í mitt stæðið.

Svo virðist sem að margir telji það einhverja minnkun að þurfa að gera tvær eða þrjár tilraunir til að leggja hárrétt í stæði áður en það tekst. Þetta er algjör misskilningur. Betra er að gera aðra tilraun heldur en að bjóða öðrum til dæmis upp á það að hann geti ekki opnað bíldyr eða loka af aðgangi að næsta stæði.


mbl.is Bílum illa lagt og tillitsleysi algengt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gullið í bílnum og snjóboltinn

Maður nokkur keypti ársgamlan Toyota Landcrusier bíl, upphækkaðan og á 38 tommu dekkjum. Verð bílsins var 8.400.000 krónur, áhvílandi veðskuld var jafnhá. Hann greiddi fjárhæðina út í hönd og skuldin var afskráð.

Efsti hluti gírstangarinnar í bílnum var máluð og farin að flagna af. Í ljós kom að hún var úr gulli. Kaupandi bílsins seldi hnúðinn og fékk fyrir hann 8.100.000 krónur í reiðufé.

Líkur benda til þess að maðurinn hafi vitað um gullið í bílnum og þess vegna keypt hann. Ástæðan er einfaldega sú að nokkrum vikum seinna seldi hann bílinn á 9.300.000 krónur. Enn ekur hann á Mercedes Benz bíl sem hann keypti fyrir lítið á uppboði fyrir nokkrum árum enda kaupir hann ekki neitt nema á opinberum uppboðum.

Margir velta fyrir sér hvort seljandinn hafi vitað af gullinu. Aðspurður neitaði hann því og sagðist fyrst og fremst ánægður yfir því að einhver hafi viljað kaupa bílinn sinn.

Þessi litla saga minnir á leik í útvarpsþætti á æskuárum þess sem þetta ritar. Þá var ekkert sjónvarp og afþreyingin á laugardagskvöldum voru spurningaþættir, leikþættir og annað álíka að viðstöddum áheyrendum í útvarpssal.

Eitt laugardagskvöldið fengu fjórir keppinautar það verkefni að fara út fyrir húsið, búa til snjóbolta og selja hann fyrir tíu krónur í votta viðurvist. Öllum nema einum mistókst þetta.

Fjórði maðurinn ákvað að fara óvenjulega leið í sölustarfi sínu. Hann stakk eitthundrað króna seðli í snjóboltann og bauðst til að selja hann á tíkall. Eftirspurnin var meiri en framboðið og hrósaði hann sigri.

Þessi saga minnir á að nú er banki fullur af peningum að selja sjálfan sig.


mbl.is Salan losar milljarðatugi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skjálftahrinan við Herðubreið og tengslin við Holuhraun

Herðubreið2

Skjálftahrina hefur verið undanfarnar tvær vikur í suðvestan við Herðubreið. Mjög algengt er að litlir skjálftar séu í kringum fjallið, sérstaklega suðvestan og norðaustan við það. Þó vakti það athygli mína fyrir nokkrum dögum að þeir voru aðeins stærri en venja er til.

Svo bættist í á fimmtudaginn, þá hófst skjálftahrinan fyrir alvöru:

  • Á fimmtudaginn voru 49 skjálftar
  • Á föstudaginn mældust aðeins 22 skjálftar
  • Í dag, laugardag, hafa mælst 113 skjálftar.

HerðubreiðAlls hafa því um 184 skjálftar mælst í þrjá daga. Stærðarskiptingin er þessi:

  • Minni en 1 alls:  120
  • 1 til 2 alls:  60
  • 2 til 3 alls:  4
  • 3 alls:  0

Sem sagt við nánari athugun er enginn skjálfti stærri en 3 stig.

Herðubreið er móbergsstapi. Hann varð til í miklu eldgosi, einu eða fleirum, undir jökli fyrir um 10.000 árum. Við gosið rann ekkert hraun í fyrstu vegna þess að hitinn bræddi jökulinn í kring og kvikan splundraðist í bræðsluvatninu og myndaði gjósku. Eftir því sem á gosið leið náði fjallið upp úr vatnsborðinu. Þá tók að renna hraun.

Þetta er skýringin á því að hraun er efst í fjallinu. Eftir að gosi lauk þéttist gjóskan og myndaði móberg en jökullinn hélt enn að rétt eins og gerist þegar kaka er bökuð í formi. Þetta er ástæðan fyrir fallegri lögun Herðubreiðar og álíkra fjalla eins og Hlöðufells og Skriðunnar. Góðar upplýsingar um Herðubreið er að finna á Vísindavefnum.

Það sem mér þykir einna forvitnilegast með skjálftana suðvestan við Herðubreið er tvennt. Annars vegar að þeir hafa teygt sig frá fjallinu og lengra í suðvestur. Hitt er að stefna þeirra er hin sama og á Herðubreiðartöglum, þau liggja í suðvestur-norðaustur.

LínanSvo má til gamans nefna að sé stefna skjálftasvæðisins notuð til draga línu í suðvestur þá liggur hún ... já haldið ykkur ... hún liggur yfir nýju gígana í Holuhrauni.

Og það sem meira er, kvikan sem kom upp í gosinu í Holuhrauni kom úr Bárðarbungu. Þar varð til stóreflis berggangur sem hægt og rólega teygði sig í norðaustur og út á Flæður Jökulsár á Fjöllum, þar sem gosið kom upp. Línan liggur eftir þessum berggangi.

Og hvað segir þetta okkur? Tja ... eftir því sem ég best veit: Ekki neitt. Líklega bara skemmtileg tilviljun.

Eða hvað ...? (sagt með dimmri og drungalegri röddu sem lætur að einhverju liggja sem enginn veit). 

Líklegast er þó að skjálftarnir við Herðubreið séu einungis hreyfingar í jarðskorpunni, ekki vegna kvikuhreyfinga eða væntanlegs eldgoss. Eða hvað ...? 

Draumspakt fólk fyrir norðan og austan hefur átt afar erfiðar nætur undanfarnar vikur.

Myndir:

  1. Efsta myndin er af suðurhlið Herðubreiðar.
  2. Græna kortið sýnir dreifinu skjálftanna fyrir suðvestan Herðubreið. Kortið er fengið af vef Veðurstofu Íslands.
  3. Neðsta korti sýnir línuna sem um er rætt í pistlinum. Kortið er frá Landmælingum Íslands.

mbl.is Fjöldi skjálfta við Herðubreið í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vangaveltur

Segja má að þetta sé að minnsta kosti ástæða til örstuttra vangaveltna:

Húsnæði: Í Reykjavík er mikill húsnæðisskortur og þar af leiðandi hækkar fasteignaverð sem og leiguverð íbúða. 

  • Enginn gagnrýnir borgarstjórnarmeirihlutann fyrir að bjóða ekki upp á lóðir í samræmi við eftirspurnina.
  • Borgarstjóri kennir ríkinu um lóðaskortinn og lætur sem hann komi borginni ekkert við.

Verðbólga: Verðbólga það sem af er þessu ári hefur mælst um 1,9%, ástæðan er að mestu leyti hækkun fasteignaverðs.

  • Svo lengi sem elstu menn muna hefur forysta launþegahreyfingarinnar barist gegn verðbólgunni og krafist meiri kaupmáttar.
  • Nú er aðalvandinn að mati ASÍ að verðbóla gæti aukist, kannski, ef til vill, hugsanlega ...

Kaupmáttur launa: Á síðustu tveimur árum hefur kaupmáttur launa aukist um 50%.

  • Fjölmargir telja að það geti ekki gengið lengur að fólk hafi góð laun og kaupmáttur þeirra sé mikill.

Ríkisútgjöld: Mikið er varað við auknum ríkisútgjöldum.

  • Hins vegar þarf að auka fjárveitingar í heilbrigðiskerfið, samgöngumál, lögregluna, dómstóla, skólamál og álíka. 
  • Aukning ríkisútgjalda í allt hitt er efnahagslega hættulegt.

Krónan: Hvar eru nú þeir sem sögðu að krónan væri handónýtur gjaldmiðill:

  • Gengislækkun er sterk vísbending um ónýta krónu.
  • Styrking krónunnar er vísbending um að krónan er ónýt.
  • En það er allt annað með hina mikilfenglegu Evru ... Úbbs!

Gengi krónunnar: Hann er vandrataður meðalvegurinn:

  • Hækki verð erlendra gjaldmiðla (gengisfelling) græðir sjávarútvegurinn, ferðaþjónustan, iðnaðurinn og aðrar útflutningsgreinar.
  • Lækki verð erlendra gjaldmiðla (gengisstyrking) lækka innfluttar vörur, t.d. matur, bílar, eldsneyti og fleira.

Vextir: Furður íslenskra banka:

  • Verðtryggð íbúðalán eru um 5%
  • Óverðtryggð íbúðalán eru um 7%
  • Í Noregi íbúðalán um 3,5% ... og norskir bankar lifa'ða af

Stjórnarandsstaðan: Um afnám gjaldeyrishafta og bráðnun snjóhengjunnar:

  • Man nokkur hvað hún sagði?

 

 

 


Seljum allar áfengisverslanir ríkisins í skilyrtu útboði

Hvers vegna stundar ríkið verslun með áfengi? Ekkert viðhlítandi svar hefur komið við þessari spurningu. Sumir halda því þó fram að frjáls sala á áfengi muni auka áfengisneyslu, sem ábyggilega slæmt ef út í það er farið. En það er dálítið annað mál.

Enginn getur samt með neinum rökum fullyrt að sala ríkisins á áfengi dragi úr áfengisneyslu. Ríkið er ekki sérfræðingur í smásölu. Starfsmenn í áfengisverslunum eru ekki sérfræðingar í misnotkun á áfengi og þeir eru jafn góðir starfsmenn hvort sem þeir fengju þeir laun sín frá mér eða ríkinu.

Hvað myndi nú gerast ef áfengisverslanirnar yrðu allar seldar á einu bretti? Myndi áfengisneyslan aukast við það eitt að sjötíu einkaaðilar myndu kaupa þessar 70 verslanir sem ÁTVR á og rekur í dag?

Nei, alls ekki. Ég trúi því nefnilega ekki að aukin áfengisneyslan sé á einhvern yfirnáttúrulegan hátt tengd því að ríkið selji brennivínið en ekki einhver annar, til dæmis ég eða þú.

Gleymum því ekki að einkaaðilar selja nú þegar óskaplega mikið áfengi, í flöskum eða glösum. Hins vegar man ég ekki til þess að ríkið reki einn einasta bar eða veitingastað. 

Af hverju má ekki smásala á áfengi vera með sama fyrirkomulagi og yfir barborð?

Auðvitað á ríkið hvorki að reka bari og né áfengisverslanir. Það er ekki verkefni ríkisins. Þar af leiðandi ætti ríkið að selja allar áfengisverslanir sínar.

Söluna mætti skilyrða á margvíslegan hátt. Til dæmis að enginn einn aðili eða tengdur mætti eiga fleiri en eina áfengisverslun á höfuðborgarsvæðinu og aðeins eina utan þess.

Á höfuðborgarsvæðinu eru þrettán vínbúðir en úti á landi eru þær þrjátíu og sjö.

Í opnu útboði yrði þá rekstur hverrar verslunar seldur og að auki fasteign sé hún í eigu ríkisins eða þá að leigusamningur um húsnæðið fylgi með.

Með þessu móti mæti samræma tvö sjónarmið, að auka ekki áfengisneyslu og koma ríkisvaldinu út úr smásöluverslun.

Þetta er einföld tillaga. Hún tryggir samkeppni milli áfengisverslana, dreifir hagnaðinum, kemur í veg fyrir einokun og þeir sem vilja geta sérhæft sig á þeim sviðum sem þeir hafa áhuga á. 

Eflaust sjá fjölmargir galla á tillögunni. Halda því ábygglega fram að smám saman muni koma kröfur um að banni við auglýsingum á áfengi verði aflétt, sama aðila leyft að kaupa fleiri en eina verslun og jafnvel samvinna milli verslana verði til um verðlag, verðlag hækki eða annað. Þetta skiptir hins vegar engu máli. Menn þurfa bara að standa í lappirnar og hafa skýra stefnu og láta ekki undan óeðlilegum þrýstingi.


Guðmundur Andri Thorson, strútskýrandi Íslands

Ég andmæli svo sérstaklega tilraun Guðmundar Andra til þess að gera mér upp skoðanir varðandi hlýnun andrúmsloftsins. Lætur hann jafnvel að því liggja að ég haldi því fram að hitastig fari ekki hækkandi. Ekkert í mínum skrifum eða ræðum gefur tilefni til þess.

Þannig skrifar Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, í grein í Fréttablað dagsins. Ástæðan er sú að í síðustu viku skrifaði Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur og leigupenni, rætna grein um Sigríði og gerði henni miskunarlaust upp skoðanir. Ráðherrann kom vægast sagt illa út í lýsingu skáldsins og margir ráku upp stór augu, þar á meðal ég, sem skildi ekkert í því hvers konar fasistakelling hefði náð þvílíkum metorðum innan Sjálfstæðisflokksins.

Í grein sinni segir Guðmundur Andri:

... en það er afar óheppilegt að einn eindregnasti strútur landsins sé ráðherra í ríkisstjórninni, Sigríður Andersen, og meira að segja sérstakur talsmaður Sjálfstæðisflokksins í umhverfismálum, þar sem hún gerir gys að því að flokka rusl og berst fyrir frjálsum og óheftum útblæstri bíla.

Til skýringar segir Guðmundur Andri að Strútskýringar snúast um ólíkar aðferðir afneitunarsinna við að stinga höfðinu í sandinn.“ Eitthvað skjöplast skáldinu í líkingartilraun sinni. Varla er hægt að stinga höfðinu í sandinn nema á eina vegu, það er að stinga því í sandinn ... Að minnst kosti verður niðurstaðan alltaf hin sama.

Látum það nú vera en einbeitum okkur að „strútskýrandanum“ Sigríði Á. Andersen.

Guðmundur Andrei segir;

„... hún gerir gys að því að flokka rusl og berst fyrir frjálsum og óheftum útblæstri bíla.“

Sigríður svarar þessu:

Á síðasta kjörtímabili leyfði ég mér hins vegar að benda á að fólksbílar eru með um 4% af losun gróðurhúsalofttegunda af manna völdum hér á landi.

Yfir 70% árlegrar losunar stafa frá framræstu votlendi sem ríkisvaldið hvatti og styrkti landeigendur til að ræsa fram með þessum og fleiri neikvæðum afleiðingum. [...] 

Ég hef sömuleiðis vakið athygli á því að vinstri stjórnin hans Guðmundar Andra breytti sköttum á bíla og eldsneyti til að beina fólki úr bensínbílum yfir í dísilbíla, en fram að því höfðu flestir Íslendinga kosið bensínbíl.

Nú er hins vegar almennt viðurkennt að útblástur dísilbíla er verri en bensínbíla og því er fráleitt að skattleggja bensínbíla meira en dísilbíla.

Guðmundur gefur sig ekki í skáldskapnum og segir:

Strútskýrandinn [Sigríður Andersen] segist í fyrsta lagi hafa allan rétt á að draga í efa niðurstöður vísindamanna og að fólk sem mótmæli slíku tali sé haldið pólitískri rétthugsun, vilji þöggun og ritskoðun og telji sig yfir aðra hafið – „góða fólkið“. Í öðru lagi segir strútskýrandinn, er ekkert að hlýna í veröldinni. Í þriðja lagi, segir hann: þó að það sé að hlýna í veröldinni er það ekki vegna gróðurhúsaáhrifa af mannavöldum heldur eru þetta bara eðlilegar sveiflur.

Í fjórða lagi bendir hann á að þó að það sé að hlýna á Jörðinni vegna gróðurhúsaáhrifa af mannavöldum þá séu það góðar fréttir, við getum unað okkur í sólbaði, gróður vex og okkur líður vel. Í fimmta lagi segja þau að þó að hlýnunin muni hafa skelfilegar afleiðingar fyrir líf mannanna hér á Jörðu sé of seint að bregðast við 
[...] 

Takið eftir stílbrögðunum hjá Guðmundi Andra. Hann uppnefnir Sigríði og segir í óbeinni ræðu frá því sem hún á að hafa sagt. Passar sig á að vitna hvergi orðrétt í mál hennar. Alveg klassísk aðferð vinstrimanna.

Í lok upptalningarinnar er strútskýrandinn ekki lengur „hann“ heldur er komin fleirtala í ávirðingarnar og „þau“ halda einhverju fram. Svona er nú orðaverksmiðjan flaustursleg og fljófærnisleg þegar ætlunin er að gera lítið úr öðrum.

Lítur nú út fyrir að Guðmundur Andri Thorson sé orðinn að hinum eina og sanna strútskýranda Íslands í tilraunum sínum til að koma höggi á Sigríði Andersen og skoðanir hennar.

Ekkert sem karlinn segir stenst skoðun. Það þýðir að hann segir ósatt ... skrökvar. Jæja, látum það vaða, hann beinlínis lýgur, býr til sögu sem ekkert er að baki. Slíkt háttalag er einfaldlega rógur, en tilgangurinn helgar víst meðalið.

Næsti þáttur í þessu undarlega háttalagi skáldsins verður eflaust sýning á því hvernig hann reynir að réttlæta ávirðingar sínar og helst margstimpla Sigríð A. Andersen sem fasista á einhvern hátt eða annan. Hann mun án efa klóra í bakkann og þá er það bara spurningin hvenær hann gefur eftir (það er bakkinn, ekki skáldið).


Frá Geysi sést ekki yfir Langjökul

Frá Geysi sést ekki yfir Langjökul. Skiptir engu þá formaður þess fasteignafélags með hinu útlenska nafni „Arwen“ segi það, um þetta verður ekki deilt. Hins vegar má vera að hægt sé að sjá til Langjökuls frá Geysi.

Á þessu tvennu er mikill munur og þarf varla að fara nánar í skilgreiningar. Eða hvað? Frá Reykjavík er til dæmis ekkert útsýni yfir Esju, en þaðan sésta ágætlega til hennar.

Það er málfarslega rangt, gengur gegn málvenju og er síðast en ekki síst kolrangt í frétt mbl.is að frá Geysi sé útsýni yfir Langjökul. Fyrrnefndi staðurinn er miklu lægri í landi en jökullinn.

 

 


mbl.is Ferðaþjónustuþorp við Geysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reynum að láta drauma okkar rætast

Stundum er eru fréttir skrifaðar á góðu máli. Þá hrekkur maður við, lítur á hið sjaldgæfa tilvik og ber saman við hroðann sem svo oft er skellt í andlit lesenda. 

Á ensku er til orðasambandið „to follow your dream“. Slakir blaðamenn og skrifarar þýða þetta jafnan beint og halda að það þýði „að elta draum sinn“. Slíkur eltingaleikur er þó fjarri því að ná merkingunni á ensku

Í frétt Morgunblaðsins um Gylfa Sigurðsson, knattspyrnumann, er hvatning hans þýdd svona á íslensku: „láttu drauminn rætast“. Draumar verða til í huga fólks, aungvir eru áþreifanlegir og þó þeir fari út um víðan völl er afar erfitt að elta þá, það gerist ekki á íslensku. Blaðamaðurinn féll ekki í pyttinn, þýddi vel.

Talsverður munur er á ensku og íslensku þó málin séu skyld. Hið versta sem þýðandi gerir er að þýða orðrétt. Það getur Google-translate gert, oft mun betur. Þýðingarforrit hefur hvorki hugsun eða tilfinningu en mennskur þýðandi ætti að hafa hvort tveggja nema hann kjósi hroðvirkni í störfum sínum.

Niðurstaðan er því sú að Íslendingur segist vilja láta draum sinn eða drauma sína rætast. Honum er ómögulegt að elta drauma því þannig orðalag gengur ekki upp á íslensku. Okkur dreymir og við eigum drauma, langanir og þrá um eitthvað. Og hvers virði er sá draumur sem við þurfum að eltast við.

 


mbl.is Krúttleg færsla um Gylfa Þór
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Píratar halda að samningur sé ekki samningur

Allt eignasafnið var góður hluti jarðeigna í landinu og eignirnar voru og eru verðmiklar. Hvernig á að meta eign Garðakirkju nú, þ.e. landið undir öllum Garðabæ? Hvernig á að meta land undir öllum húsum í Borgarnesi, land Borgarkirkju? Hvernig metum við verðmæti Þingvalla – þó ekki sé nema kristalstært vatnið í Þingvallahrauni? 

Þetta segir Sigurður Árni Þórðarson, prestur í Hallgrímskirkju í afar rökfastri grein í Fréttablaði dagsins. Í henni ræðir hann um þingsályktunartillögu sem Píratar hafa lagt fram á Alþingi um að ríkið segi einhliða upp samningi við þjóðkirkjuna.

Sigurður bendir á að ríki og kirkja gerðu samning sín á milli og árið 1997 var risastórt eignasafn hennar afhent ríkinu sem endurgjald fyrir launagreiðslur og árlegs fjárframlags til kirkjunnar.

Menn geta haft mismunandi skoðanir á þessum samningi og jafnvel haldið því fram að ríkið hafi samið af sér þar sem ekki er fyrir hendi nein ákveðin fjárhæð sem samið er um. Það er hins vegar aukaatriði. Samningur er samningur og getur ríkið alls ekki sagt einhliða upp samningi. Það getum við, almennir borgarar eða fyrirtæki landsins, ekki heldur gert. Samningur stendur.

Píratar eru í eðli sínu popúlistaflokkur, uppfyllir flest þau skilyrði sem um slíka eru til. Stefna þeirra byggist ekki á öðru en það sem þeir telja til vinsælda fallið. Ljóst má þó vera að ekki eru allir á því að atkvæði falli til þingmanna sem eru fljótfærir, orðljótir, óskynsamir og þekkingarsnauðir. Hið síðasta væri nú svo sem allt í lagi því smám saman lærir fólk, leitar sér upplýsinga og tekur afstöðu byggða á fyrirliggjandi staðreyndum.

Má vera að seinheppni Pírata rjátlist af þeim fari ekki svo að þjóðin víki þeim af þingi í næstu kosningum.

Má vera að það sé skynsamlegt að þingmál sem lögð eru fram á einu þingi þurfi ekki að endurflytja á því næsta. Píratar vilja breyta lögum til að þetta sé hægt. Gallinn er hins vegar sá að stjórnarskráin leyfir þetta ekki.

Má vera að samningur ríkis og kirkju frá því 1997 sé ósanngjarn og vondur og því beri að segja honum upp. Það er hins vegar ekki hægt nema með samþykki beggja aðila, lög og jafnvel stjórnarskrá heimila ekki slíkt.

Næst má ábygglega búast við því að Píratar leggi fram þingsályktun þess efnis að ökumaður bíls þurfi að stöðva ekki við rautt umferðaljós sé ekkert ökutæki nærri. Sniðug hugmynd en ...

 


Tvær þingkonur vakna með andfælum og rugla

Ég held að það sé heldur enginn ágreiningur um að það skorti að fjármagn sé veitt í nýframkvæmdir. Fólk hefur áhyggjur af því að fjármagnið nægi ekki einu sinni til þess að halda í horfinu hvað viðhald varðar, heldur sé vegakerfið okkar hreinlega að versna. Það kemur fram í nefndaráliti minni hluta hv. umhverfis- og samgöngunefndar að á fundum nefndarinnar hafi fulltrúar Vegagerðarinnar bent á að það þyrfti að veita 8–9 milljarða kr. árlega í viðhald vega til þess eins að halda í horfinu, en það þyrfti hins vegar 11 milljarða kr. árlega til þess að bæta ástand vega og öryggi samhliða nauðsynlega viðhaldinu.

Þetta sagði Vinstri græni þingmaðurinn Steinunn Þóra Árnadóttir við umræður um samgönguáætlun þann 5. október. Þetta var nú allt of sumt sem hún sagði, raunar er erfitt að henda reiður á ræðum hennar, hún talar blaðalaust en gerir það ekki vel. Steinunn Þóra lét sér sæma að samþykkja samþykkja samgönguáætlunina en einhverra hluta vegna virðist hún ekki hafa vitað að fjármagna þyrfti framkvæmdirnar.

Steinunn Þóra var endurkjörin á þingið og hefði átt að vita þegar kom að umræðum um frumvarp til fjárlaga að ekkert fé var veitt til samgönguáætlunarinnar og þannig voru fjárlögin samþykkt á þinginu í desember. Svo kemur þessi þingmaður, nývaknaður af dvala, og kennir ríkisstjórninni um.

Hvaðan á að taka fé til samgönguáætlunarinnar? Auðvitað veit Steinunn Þóra Árnadóttur ekkert um það. 

Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, hefur verið vel skóluð hjá Vinstri grænum og kann að tvinna saman formælingar um aðra. Ásta er álíka mikil popúlisti og Steinunn Þóra Árnadóttur en því miður jafn slakur sem þingmaður. Við afgreiðslu fjárlaga gerði hvorug þeirra athugasemdir við þá bláköldu staðreynd að fé vantaði til að fjármagna samgönguáætlunina. 

Ásta Guðrún situr meðvitundarlaus á þingi rétt eins og Steinunn Þóra. Hún tók ekki einu sinni til máls þegar samgönguáætlun var til umræðu á síðasta þingi. Ekki heldur tók hún til máls á þessu þingi þegar fjárlög ársins 2017 voru samþykkt.

Það truflar þó hvoruga að standa upp og efna til óláta í þinginu og kenna ríkisstjórninni um allt. Það er svo sem í góðu lagi. Fólk hefur mismunandi þörf á að tjá sig.

Komi einhvern tíma til þess að þær vinkonur verði í ríkisstjórnarmeirihluta er tvímælalaust kominn tími til þess að biðja guð aftur um að blessa Ísland. Þær virðast nefnilega ekki vita hvað þær eru að gera á þingi.


mbl.is Voru menn að kaupa sér vinsældir?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarandstaðan gleymdi að fjármagna samgönguáætlunina

Mikið misræmi er á milli þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2015-2018, sem Alþingi samþykkti í október 2016, og fjármálaáætlunar. 15 milljarða vantar upp á í fjármálaáætlun 2017 til að framfylgja samgönguáætlun. Í fjármálafrumvarpinu segir að, að óbreyttu, þurfi að skera samgönguáætlun niður sem því nemi. Heildarfjárheimild til samgangna fyrir árið 2017 er áætluð tæpir 29 milljarðar og lækkar um 663 milljónir króna frá gildandi fjárlögum.

Þetta segir í frétt Ríkisútvarpsins þann 6. desember 2016. Það var sumsé ekki núverandi ríkisstjórn sem fjármaganaði ekki samgönguáætlunina heldur þin. Löggjafinn samþykkti fjarlögin en lagði ekki fé til hennar, þingmenn núverandi stjórnarandstöðu vissu þetta en gerðu ekkert í því. Kolbeinn Óttarsson Proppé er einn af þeim sem gleymdi að fjármagna samgönguætlunina, það er mikil ávirðing á hann.

Eðlilega verður til mikil óánægja víða um land og ljóst að koma þarf til mót við þá sem gagnrýna aða samgönguáætlunin skuli ekki vera fjármögnuð. Það er hins vegar annað mál.

Man enginn sem nú mótmælir eftir því að samgönguáætlunin var ekki fjármögnuð í fjárlögum ársins. Halda þingmennirnir sem núna hæst gapa að þeir hafi samþykkt að fjármagna áætlunina. Þeir gerðu það ekki.

Stjórnarandstaðan og grunnhyggið fólk ætlar að nota vanfjármagnaða samgönguáætlun til pólitískra árása á ríkisstjórnina. Nú er lag, segir þetta lið. Berjum á ríkisstjórninni, reynum að komast í fjölmiðla og rugla þá í ríminu sem ekki hafa sjálfstæða hugsun og nærast á fyrirsögnum, lesa aldrei meginmálið. Þetta er hins vegar ekki ríkisstjórninni að kenna.

Enginn lokaði vegum þegar ljóst var að samgönguáætlun var ekki fullfjármögnuð á fjárlögum. ASÍ taldi fjárlögin þensluhvetjandi og það án samgönguáætlunarinnar og þau styddu ekki við fjárhagslegan stöðugleika. Fæstir fengu það sem þeir töldu sig þurfa á fjárlögunum.

Þingmenn hrósuðu svo sjálfum sér í hástöfum fyrir að hafa samþykkt fjárlögin þrátt fyrr að minnihlutaríkisstjórn væri við völd. Með fjárlögunum greiddu 27 þingmenn atkvæði en 33 greiddu ekki atkvæði. Þrír þingmenn hafa líklega sofið heima hjá sér þegar atkvæðagreiðslan fór fram. Hinir áttu að vita að samgönguáætlunin var ekki fjármögnuð.

Meira að segja forseti þingsins hrósaði þingmönnum fyrir afgreiðsluna og sá var Steingrímur J. Sigfússon. Hann sagði af þessu tilefni samkvæmt frétt á mbl.is:

Stein­grím­ur J. Sig­fús­son, for­seti Alþing­is, sagði í jóla­kveðju sinni við lok þings­ins að af­greiðsla fjár­lag­anna hefði sýnt styrk þings og að það hefði risið und­ir ábyrgð þrátt fyr­ir sér­stak­ar aðstæður.

„Mætti segja að það hafi verið þrosk­andi og lær­dóms­ríkt að tak­ast á við stórt og viðamikið mál án meiri­hluta á þing­inu,“ sagði Stein­grím­ur og bætti við að tekið hafði verið skref í þá átt að bæta ásýnd Alþing­is með þess­um vinnu­brögðum.

Sagði hann þingið hafa sýnt þjóðinni að það hefði staðist prófið.

Steingrímur minntist ekkert á samgönguáætlunina og raunar hafði enginn þingmaður áhyggjur af henni.

Svo gerist það að núverandi fjármálaráðherra lætur frá sér fara að það hafi verið nánast siðlaust að samþykkja samgönguáætlun án fjármögnunar. Þá vakna allt í einu nokkrir stjórnarandstæðingar með andfælum, liðið sem líklega svaf á meðan samgönguáætlunin var samþykkt í október og fjárlögin í desember, liðið sem þá hafði engar áhyggjur af vanfjármögnun samgönguáætlunarinnar.

Auðvitað er það ávirðing á Alþingi að hafa samþykkt samgönguáætlun og ekki gætt að fjármögnuninni. Sökin er því ekki ríkisstjórnarinnar sem nú situr heldur einnig núverandi stjórnarandstöðu.

Þingið gerði ekkert, samþykkti bara fjárlög, og þingmenn klöppuðu svo hverjum öðrum á bakið fyrir að geta unnið saman án þess að framkvæmdavaldið stjórnaði, ... að hafa staðist prófið, ... bætt ásýnd Alþingis ... eins og Steingrímur fyrrverandi orðaði það.

Sömu þingmenn sem fyrir áramót voru svo glaðir yfir vel unnum fjárlögum eru nú komnir á afturlappirnar og glefsa í fjármálaráðherrann sem skilur ekkert í þinginu að samþykkja peningalausa samgönguáætlun fyrir síðustu kosningar. 

Mikið skil ég vel orð fjármálaráðherrans.

Hins vegar skil ég ekkert í því að samgönguáætlun hafi verið samþykkt án fjármögnunar.

 


mbl.is „Lítilsvirðing og brengluð hugsun“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljóðbákur um gæsaveiði - dýrt er ort ...

Í huga mér eru ljóð nær yfirnáttúruleg og ljóðskáld eru nær himnaríki en allir aðrir dauðlegir menn. Næst koma þeir sem eru hagmæltir og svo aðrir velskrifandi og mjúklega mælt fólk. Fyrir öllum þessum tek ég ofan og dáist að í fjarlægð blámans.

Svo ég haldi nú áfram niður þrepin frá himnaríki þá koma næstir í röðinni þeir sem ljóðskáld og hagmæltir hafa ort um. Þvílíkur heiður er það er skáld yrkir til vegsemdar einhverjum, út af ást, dauða eða lífi. Útilokað er að jafna þessu við eitthvað annað nema hugsanlega að vera tekinn í dýrlingatölu eða blessaður á þann forna hátt sem sagt er veita þá mestu hamingju sem um getur að jafnvel þeir sem snerta slíkt fólk eða eignast klæðisbút frá því fá yfirfærðan hluta af hamingjunni.

Hér er ég svo upphafinn í lýsingunni að ég verð fyrir tilviljun einni saman að geta um ljóðabók sem nýlega er komin út. Hún nefnist Rökkur eftir þann hagmælta mann Skarphéðinn Ásbjörnsson, Skagfirðingi, sem varð svo frægur að vera  nágranni minn er ég bjó í nokkur ár á Blönduósi (eða öllu heldur, ég var svo frægur að vera nágranni hans).

Meðan grannskapnum stóð uppgötvaði ég mér til mikillar undrunar að Skarpi var ágætlega hagmæltur. Þá uppgötvun keypti ég dýrum dómum. Í fljótfærni hafði ég sent honum nokkrar vísur sem ég hnoðað saman en voru raunar fátt annað en afbragðs vel saminn leirburður. Á móti fékk ég vísur frá Skarpa sem voru fjarri því að vera leir og næst því að vera ljóð. Það var sem högg í andlitið og hef ég fátt ort síðan.

Í áðurnefndri ljóðabók, Rökkri, er bálkur sem við mig er kenndur og nefnist Veiðiferðin. Í bókinni segir höfundur í óbundnu máli:

Sigurður Sigurðarson nágranni minn á Blönduósi fékk vini sína úr Reykjavík til sín í gæsaveiði og réði mig sem leiðsögumann.

P0005517Og Skarphéðinn orti sumsé um gæsaveiðiferð okkar. Hér gríp ég á nokkrum stöðum niður í tuttugu og fjögurra erinda bálkinn:

Félagarnir frjálslega,
fjall'um heima og geyma.
Nú skal alveg óðslega,
andablóðið streyma.

Á söguslóðum Sigurður,
situr þeirra og bíður.
Mjúkur hann og málreifur,
mundar hólkinn fríður.

Verður mér nú við eins og Noregskonungum forðum daga að kátlega urðu þeir við yrkingum og vildu gefa skáldalaun (eftir miklar vangaveltur og innri baráttu féll ég þó frá því að gera slíkt hið sama).

Víkur nú sögunni að leiðsögumanninum og skáldinu:

Sóttur var hinn sjálfglaði,
sagði frægðarorðin.
Blés í flautur, blístraði,
bjó þá undir morðin.

Sko, skáldið á við að hann notaði gæsaflautur og brakaði eins og steggur í andahóp.

Segir nú fátt af veiðum okkar félaganna og kemur æ berlegar í ljós að leiðsögumaðurinn var ekki allur sem hann sagðist vera ... og hafði þó margt sagt.

Morgunn blíður, birtan vex
bíður skytta svæsin.
Komið er að klukkan sex.
Kemur engin gæsin

Beitir öllum brögðunum,
bani margra fugla.
Rekst með flautu-tilraunum,
tilverun'að rugla.

En ekkert gengur, engin gæs er skotin úr skurðum Torfalækjartúns. Líklegast hefur Jóhannes vinur minn Torfason, hlegið sig máttlausan hefði hann vaknað árla og litið út um gluggann og séð aðförina að gæsunum ... eða afararleysið. Leiðsögumaðurinn vill nú flytja sig og hét því að við gætum myrt gæsir í kvöldfluginu. Til þess var farið niður að Vatnsdalsá, en þar, skammt frá Húnaósi, er eyja nokkur, fín fyrirsátt fyrir grandalausar gæsir, sagði leiðsögumaðurinn. Hann yrkir:

P0005523Vandast málið varla meir,
Því vaða þarf á skerið.
Blotna fætur, busla þeir,
brattir samt í verið

Kvöldið líður, kólnar fljótt,
kulda gætir nánar.
Áður en varir orðin nótt,
engar gæsir dánar.

Ekkert stóðst hjá leiðsögumanninum, allt innantóm loforð. Þegar liðið var langt fram að miðnætti er ákveðið að vaða aftur til meginlandsins, en nú gætir aðfalls og vatnið er dýpra. Skáldið yrkir:

Vaskir elginn vaða þeir,
vökna tær og síða.
Dámar ei þá dýpkar meir,
dugar ei að bíða.

Vaskir ösla vötnin þung,
vatns er erfið röstin.
Blautir eru um böll og pung,
byrja eftirköstin.

Þetta var meiriháttar vaðstand á okkur skyttunum og ekki var ástandið skárra hjá skáldinu, en það átti eftir að lagast hjá honum.

Búkur loppinn, brókin rök,
bleik er snoppa í framan.
Lama kroppinn lagartök,
limur skroppin saman.

P0005534Ekki hampar happið þeim,
háðs nú glampa varir.
Álpast, slampast, aulast heim,
eftir krampa-farir

Gædinum ei reynist rótt
reisnar mun ei njóta.
Inn í hýði skríður skjótt,
með skottið milli fóta.

Heima í rúmi fann sitt fljóð, 
frúin reddar sinni.
Bjargar lund hans blíð og góð 
með blástursaðferðinni.

Hvorki eru allar ferðir til fjár ... né gæsa. Svona fór nú um þessa veiðiferð og verður ábyggilega grínað með hana svo lengi sem land er byggt og ljóðabækur lesnar. Þökk sé helv... honum Skarpa.

Myndir

1. Vaðið yfir Vatnsdalsá.

2. Skotmaður á leið út í eyju, hvattur til dáða af gervigæs.

3. Leiðsögumaðurinn og skáldið. Sá fyrrnefndi er vinstra megin og þar er líka skáldið. Snati hefur líklega fundið gæsina sem faldi sig fyrir leiðsögumanninum. 


Pólitíska aðförin fyrir landsdómi og hálfsannleikurinn

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar misnotaði landsdóm til að koma höggi á pólitíska andstæðinga. Það mistókst algjörlega og hafði þær afleiðingar að Samfylkingin og Vinstri grænir fengu herfilega ráðningu í þingkosningunum 2013. Samfylkingin hefur ekki borið sitt barr síðan og mun eflaust leggjast af. Vinstri græn eru markaðslega sinnaður flokkur og skipti um formann. Steingrímur þótti ekki kosningavænn en það er núverandi formaður sem þó hafði engan fyrirvara á pólitískri misnotkun á landsdómi.

Forvitnilegt er að skoða fréttaflutning af málarekstrinum fyrir landsdómi. Þar var Steingrímur J. Sigfússon kallaður til vitnis. Fáir hafa lent í öðru eins hrakviðri eins og hann varð fyrir  í vitnaleiðslum fyrir dóminum.

Hér er hluti af pistli sem ég skrifaði um málið 14. mars 2012:

Sjaldnast hefur einn maður runni jafn illilega á rassinn í vitnaleiðslum og þessi Steingrímur J. Sigfússon, ráðherra ótal ráðuneyta. Vitnisburður hans fyrir Landsdómi í gær var pólitískur og var ætlað að koma höggi fá Geir en honum mistókst það gjörsamlega. Í Mogganum í morgun [14. mars 2012] er frétt um framgöngu hans. Hún er grátbrosleg eins og alltaf þegar pólitísk atlaga snýst í höndum gerandans og hann stórskaðar sjálfan sig. Í fréttinni er eftirfarandi:

Og það var skrautlegt er Andri Árnason, verjandi Geirs, spurði út í orð Steingríms um „samning“ sem gerður hefði verið samhliða gjaldmiðlaskiptasamningnum og „stungið ofan í skúffu“, eins og Steingrímur lýsti því. Þegar Andri spurði Steingrím hvar orðið samningur hefði komið fyrir á skjalinu svaraði Steingrímur: „Formið á þessu er samningur ... samkomulag ... yfirlýsing.“ 

Ráðherrann er gerður afturreka með orð sín, kemst að því að ekki er gleypt við öllu sem hann segir. Þess er krafist að hann sé nákvæmur í máli sínu, nokkuð sem hann hefur hins vegar aldrei vanið sig á. Og áfram var maðurinn krafinn sagna:

Samtalið hélt áfram og Andri spurði hvar Steingrímur hefði heyrt að yfirlýsingunni hefði verið „stungið ofan í skúffu“. [...] „Það eru mín orð,“ svaraði Steingrímur. „Það endurspeglar þá tilfinningu sem ég fékk. Líklega á fundi mínum með Stefan Ingves [sænska seðlabankastjóranum].“ 

Sem sagt engu var stungið ofan í skúffu, allra síst samningi, og því ekkert að marka þessi orð Steingríms. Svona pólitískt orðahnoð og skrök verður ekki Geir til sakfellingar.

Andri spurði þá hvort ítarleg svör Seðlabanka Íslands 8. júlí og 16. september árið 2008 hefðu ekki þótt fullnægjandi.

„Annaðhvort það eða þeir voru ósáttir við að ekki væru meiri efndir,“ svaraði Steingrímur.

Var talað um efndir?“ spurði Andri og lét færa Steingrími yfirlýsingu stjórnvalda og spurði hvað af atriðunum hefði ekki verið efnt. Steingrímur las stuttlega og svaraði:

„Eins og ég segi, það var ekki farið út í þetta þannig. Ekki farið út í svör. Þetta bar almennt á góma og það var lýst óánægju.“

Bara svona, ekki svör, bar bara almennt á góma, líklega í samræðum við leigubílstjórann á leiðinni til baka á hótelið.

Þvílíkt bull ... Aftur skrökvar Steingrímur og svo reynir hann að kjafta sig út úr horninu sem hann hafði málað sig út í. Ekki verður þetta til sakfellingar Geirs. En þetta var ekki nóg því hinn skilmerki blaðamaður sem skrifar fréttina, Pétur Blöndal, lætur eftirfarandi fylgja með ofangreindum orðum ráðherrans:

Skömmu áður hafði Árni Mathiesen sagt fyrir Landsdómi að eitt atriði yfirlýsingarinnar hefði snúið að starfsemi Íbúðalánasjóðs og þess vegna heyrt undir Jóhönnu Sigurðardóttur sem þá var félagsmálaráðherra. „Það var kannski það atriði af þeim sem þarna voru sem ekki gekk eftir,“ sagði Árni.

Steingrímur lét vera að minnast á það.

Auðvitað er það þannig með Steingrím, þann vana stjórnmálamann, að hann reynir að komast hjá því að skrökva. Hálfsannleikurinn nægir honum til að koma boðskap sínum á framfæri.

Með hálfsannleikann að vopni var stokkið til og efnt til pólitískra réttarhalda yfir Geir H. Haarde.

Nú hefur hins vegar komið í ljós að aðalhvatamaðurinn að þessum málaferlum hefur ekkert markvert að segja, getur ekki veitt neinar upplýsingar sem geta sakfellt Geir af þeirri ástæðu einni að sökin er ekki fyrir hendi. Fengi hann hins vegar sama „málfrelsi“ og á þingi yrðu honum ekki skotaskuld úr því að bera vitni um að Jón Bjarnason bæri ábyrgð á hruninu.

Þetta breytir þó því ekki að Steingrímur heldur því statt og stöðugt fram að hann hafi varað við hruninu. Hvað hann á við veit enginn. Að minnsta kosti mætti hann ekki á fund hjá ríkisstjórninni og „fór hamförum“ eins sagt er um Davíð Oddsson.

Ekki heldur stóð hann upp á Alþingi og messaði yfir þingheimi. Í hvert skipti hefði hann þó átt að brjóta ræðupúltið. Það hefði verið hið eina rétta miðað við boðskap um fyrirsjáanlegt efnahagshrun haustið 2008. En nei, nei. Steingrímur bjó ekkert yfir neinni spádómsgáfu, hann var jafngrandalaus eins og við hin ... og þagði um þessi mál.


mbl.is Vill leggja landsdóm af
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband