Bloggfærslur mánaðarins, júní 2017

Orðræða Vinstri grænna er leiðinlegur áróður

Upplýst hefur verið að króatískar fótboltabullur hafi ætlað sér að eyðileggja leik Íslands og Króatíu síðasta sunnudag. Eftir ábendingar yfirvalda í Króatíu ákvað lögreglan að handtaka nokkra þeirra sem hingað komu, bullur án miða á leikinn.

Samkvæmt kenningum Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, og Andrésar Magnússonar, þingmanns sama flokks, hefði lögreglan átt að láta vita hvað stæði til og líklega tilkynna það á fleiri en einu tungumáli. Þess í stað vinnur lögreglan þegjandi og hljóðalaust sín störf og við hin vitum ekkert um málið fyrr en öllu er lokið. Þetta er ástæðan fyrir því að við treystum lögreglunni betur en Vinstri grænum.

Ekkert tilefni var til að banna þessum bullum inngöngu í landið né heldur að halda þeim öllum fögnum fram að brottfarardegi.

Eitthvað var þess valdandi að lögreglan greip til varúðarráðstafanna í hátíðarhöldum vegna sjómannadagsins og litahlaupsins. Hún lét loka götum, lagði bílum og hindrunum á götur svo enginn kæmist akandi að fólki sem var að skemmta sér. Hvers vegna gerði lögreglan þetta?

Stutta svarið er að svona telst til fyrirbyggjandi aðgerða. Sem betur fer gerðist ekkert en þar með er ekki hægt að segja að aðgerðirnar hafi verið marklausar eða tilgangslausar.

Fróðlegt er að fylgjast með talsmáta forystumanna Vinstri grænna. Þau láta að því liggja að hér þurfi engan viðbúnað gegn ógnum sem aðrar þjóðir í Evrópu hafa þurft að þola. Þau reyna með rugla fólk, orðalagið er til þess að gera lítið úr starfi lögreglunnar. 

  • „Almenningur sé upplýstur ...“
  • „Vopnaburður lögreglu á fjölskylduhátíð ...“
  • „Umbreyting á ásýnd lögreglunnar ...“

Takið eftir orðræðunni og ekki síður samhenginu.

Hvaða vit hefur Katrín Jakobsdóttir og Andrés Magnússon á starfi lögreglunnar? Hið eina sem þetta fólk kann er áróður eða öllu heldur undirróður. Þau reyna að gera lítið úr lögreglunni sem stjórnvaldi og varpa rýrð á það ágæta starf sem þó er unnið.

Svona gengur ekki lengur. Látum lögregluna vinna sitt starf í friði. Ef þingmenn hafa einhverjar athugasemdir þá eiga þeir að bera þær fram á á þingi, ekki básúna þær út um allar jarðir til þess eins að upphefja sig sjálfa.

Þegar öllu er á botninn hvolft virðist tilgangur Vinstri grænna sá einn að varpa rýrð á lögreglu og stjórnvöld. Þeir halda að það sé hluti af stjórnmálum og þannig græðist atkvæði. Hversu leiðinlegir eru ekki Vinstri grænir og viðhorf þeirra?

Flestir eru þó þeirrar skoðunar að lögreglan hafi bara staðið sig nokkuð vel.

 


mbl.is Vill að almenningur sé upplýstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Illskiljanleg frétt

Embættismenn í Maryland-ríki í Bandaríkjunum og höfuðborginni Washington hafa hafið málsókn gegn Donald Trump Bandaríkjaforseta vegna þess að hann hafi tekið við greiðslum frá erlendum ríkisstjórnum í gegnum viðskiptaveldi sitt.

Þannig hefst frétt um Trump á mbl.is í morgun. Stundum skil ég ekkert í fjölmiðlum, jafnvel Mogganum. Skil til dæmis ekkert í því hverjir þessir „embættismenn“ eru sem hafa ákveðið að fara í mál við Trump kallinn.

Velti því fyrir mér hvort til sé „félag opinberra starfsmanna í Maryland“ sem hafi ákveðið að fara í mál við forsetann. Dreg það við nánari umhugsun í efa að slíkt félag (sé það æa annað borð til) standi á bak við lögsóknina.

Þá bögglast það fyrir mér hvort „félag stjórnenda ríkisstofnanna í Maryland“ (ef það er nú til) hafi farið í mál við forsetann.

Svona er ég illa að mér í innviðum bandarísks samfélags og enn síður einstakra ríkja. Ég treysti einfaldlega íslenskum fjölmiðlum. Dreg hins vegar ekkert í efa að Mogginn hafa áreiðanlegar heimildir fyrir því að embættismenn í Washington ætli að stefna Trump.

Á vef CNN fréttastofunnar stendur hins vegar um sama mál:

The attorneys general of Maryland and the District of Columbia plan to file a lawsuit on Monday alleging that foreign payments to President Donald Trump's businesses violate the U.S. constitution, according to a source familiar with the situation.

Hér eru það saksóknarar í Maryland og District of Columbia, sem er opinbert heiti á höfuðborginni Washington (Washington D.C.) tilheyrir, sem ætla að stefna forsetanum. Og um leið verður fréttin miklu skiljanlegri.

Vissulega er saksóknari embættismaður, það er opinber starfsmaður. Það er Trump líka. Því er vont að einn embættismaður fari í krafti embættis síns í mál við annan fyrir embættisfærslu hans. Séu svo allir nefndir embættismenn flækist málið enn frekar og var það þó ekki einfalt í upphafi. Vissara er nú að fara ekki lengra út í þessa sálma.

Ansi þykir mér samt hart ef maður þarf að fara á milli erlendra fréttamiðla til að öðlast skilning á orðalagi í þeim íslensku.

 


mbl.is Embættismenn í mál við Trump
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leyndardómurinn um forna ljósmynd upplýstur

Bær orginalÞessa mynd tók Johannes Klein (1854-1928), danskur málari og ljósmyndari, á ferð sinni um Ísland árið 1898. Hann var í fylgd með Daniel Bruun, dönskum fornleifafræðingi, sem kom oft hingað til lands að kanna fornar minjar.

Myndin er varðveitt á dönskum söfnum og má meðal annars leita að henni hér.

Þetta er ákaflega falleg mynd af bæ, fyrir framan hann er afgirtur kálgarður, öll hús opin og í fjarska nokkur fjöll.

Myndin var kynnt í mars á þessu ári á Facebook síðu sem nefnist „Gamlar ljósmyndir“. Síðan hefur margt gerst, tæplega fimmhundruð færslur hafa verið skrifaðar um myndina og margir vísir menn og konur tjáð sig, þar á meðal höfundur þessara lína.

Kort leið KleinSitt sýndist hverjum um myndina og hvar hún gæti verið. Margir vildu vita hvar Johannes Klein hefði farið um landið og upplýst var að hann hefði aðeins einu sinni komið hingað.

Hann tók land á Eyrarbakka, reið líklega yfir Selvogsheiði og til Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Þaðan sigldi hann yfir Faxaflóa, fram hjá Búðum, Ólafsvík og Stykkishólmi, síðan yfir Breiðafjörð og fór í land á Reykhólum. Þaðan reið hann með fygdarliði sínu um Dali, yfir í Húnavatnssýslur og Skagafjörð, yfir Kjöl og til Reykjavíkur.

Hér er lítið kort yfir þá staði sem Klein kom á og tók ljósmyndir, teiknaði myndir eða málaði.

Á þeim þremur mánuðum sem liðu frá því að myndin birtist á Facebook áttu margir andvökunætur yfir kortum og ljósmyndum sínum. Lásu í kort á tölvum og mynduðu hugmyndir og kenningar. Undirritaður var fyrst sannfærður um að myndin væri tekin í Skagafirði og væri jafnvel af Mælifelli. Sú hugmynd gekk ekki, nokkrir voru til að leiða höfundinn frá villum síns vegar.

BærinnÞá lá leiðin í Reykhóla og Dali en ekkert fannst þó svo að mikil líkindi fundur í landslagi víða sé myndin borin við það. Samt voru alltaf einhver smáatriði sem trufluðu, fjallstopp vantaði, bæinn vantaði og svo framvegis. Og smáatriði í ljósmynd verður víst að taka með.

Aðrir stungu upp á Hvalfirði, Haukadal, Víðidal, Vatnsdal og fleiri og fleiri stöðum. Allt án árangurs.

Þá gerist það einn góðan sumardag að sá sem kynnti myndina í upphafi leysti gátuna. Sverrir Þórólfsson birti mynd sem sýndi og sannaði að sú gamla var tekin af bænum Miðdalskoti sem er skammt norðan við Laugarvatn og fjöllin í fjarska tilheyra Klukkutindum. Þeir eru norðaustan við Þingvallavatn, skammt frá Skjaldbreið. Á kortinu hér við sést afstaðan milli bæjarins og tindanna.

Gríðarlegar breytingar hafa orðið á landslagi á þeirri rúmu öld sem liðin er frá því að myndin var tekin. Bærinn er löngu horfinn og samnefnt kot komið neðar í landið og er eiginlega stórbýli, að því er manni sýnist.

Gróðurinn er mikill, birkið hefur vaxið upp um allar hlíðar og þar sem á gömlu myndinni virðist lítill gróður er nú þéttur skógur.

Bær 2Og hér er nú mynd tekin í dag, klippt úr stærri mynd, og sú gamla til samanburðar. 

Ekki fer á milli mála að hér er um sama landslagið að ræða.

Bær aGaman að þessu og ekki síður hversu það kom áhugasömum fylgjendum með síðunni á óvart að þarna ætti myndin heima, þar á meðal mér. Hér eru nokkrar athugasemdir:

  • Guðný Þórarinsdóttir: NEI! hjálp! ég á sumarbústað í Miðdal og horfi á þetta útsýni nánast um hverja helgi!
  • Baldur Garðarsson: 4 km fyrir austan Laugarvatn (þar sem bjáninn ég vinn og er búinn að keyra þarna um margoft í vetur á sama tíma og ég hef skoðað myndir af Vestur- og Norðurlandi í leit að staðnum), en þarna eru frístundahús, gætum líka leigt eitt slíkt og haldið fund. Þetta andleysi mitt heitir að sækja vatnið yfir lækinn.

Bær5Leitin að staðnum sem myndin var tekin var afar fróðleg og þótt margar tillögur hafi komið fram stóð upp úr hversu margt fólk býr yfir miklum fróðleik og þekkingu á landinu og sögu þjóðarinnar. Fyrir það má þakka.

Hér eru loks þrjár myndir sem Sverrir Þórólfsson birti með færslu sinni og sanna svo ekki verði um villst hvar gamla myndin var tekin.

Gott er að smella á myndirnar til að stækka þær.


Elsku afiiii, viiiiltu halda á mér?

IMG_9201 - Version 2Kl. 19.02: - Afi, viltu halda á mér?

- Nei, elsku vina.

Kl. 19:03: - Aaaafi, viiiiltu halda á mér?

- Nei, elskan.

Kl. 19:04 Elsku afiiii. Viiiiltu halda á mér?

- Nei, þú ert orðin svo stór að ég get ekki haldið á þér.

Eitthvað á þessa leið hljóðaði samtalið við hana Unni, sonardóttur mína, á göngustígnum upp á Esju. Hún er sex ára. Pabbi hennar hljóp upp göngustíginn á eftir dætrum sínum, þeim Írisi og Rakel, og átti eflaust fullt í fangi með að hafa við þeim spretthörðu lömbum.

Við vorum á á leið á tónleika Aron Can, Þuru Stínu, Úlfs Úlfs og Emmsje Gauta ofarleega í hlíðum Esjunnar. Þúsund sinnum eða oftar hef ég gengið á Esjuna en aldrei sé annan eins fjölda á göngustígnum. Ábyggilega á annað þúsund manns fóru upp, krakkar, unglinga, ungt fólk, kallar og kellingar. Fólk á öllum aldri og allir í banastuði. Ekki endilega vegna tónlistarinnar heldur líklega miklu frekar vegna vímunnar, adrennalínvímunnar, sem leggst á alla sem reyna á sig líkamklega og er svo indæl þegar lagst er niður.

IMG_9190Við Unnur gengum hægt. Ekki vegna þess að ég væri svo hægfara, frekar vegna þess að hún kvartaði og kveinaði í upphafi. Hreinlega nennti ekki þessu labbi. Hún læddi hönd sinni í lúkuna hjá afa sínum og lét hann toga sig áfram.

- Aaafi, viltu halda á mér? spurðu hún hvað eftir annað. Stundum svaraði ég en fannst best að nota öndunina til annars en að masa.

- Aaafi ... kallaði hún ísmeygilega.

IMG_9202- Eigum við að setjast á stein? spurði afi.

- Sjáðu, afi, sagði hún, og var enn ósest. Sjáðu hvað allir bílarnir eru orðnir litlir. Hún benti niður á bílastæðið þar sem við blöstu hundruð bíla í kvöldsólinn.

- Ég get tekið bíl í hendina á mér, sagði Unnur, og þóttist taka örsmáan bíl í lófann sinn.

- En hvað bílarnir eru orðnir litlir, sagði afi. Þú getur sett þá í vasann.

- Nei ... sagði sú litla, hálfhneyksluð. Það eru engir vasar á buxunum mínum.

Afi hló inni í sér en lét á engu bera. Við sátum á steini og horfðum á útsýnið. Svo héldum við áfram, fundum okkur stað í nær óslitinni röðinni og smám saman komumst við hærra.

- Hvenær komum við? spurði Unnur litla.

-Hlustaði, sagði afi. Heyrirðu ekki í tónlistinni. Við hljótum að vera næstum því komin.

Sú litla stoppaði og hlustaði. Já, sagði hún. En eru tónleikarnir byrjaðir?

IMG_9214 - Version 2- Já, mér heyrist það, sagði afi.

- Flýtum okkur þá, sagði Unnur, og hún greikkaði sporið, fór helst til hratt fyrir afa.

- Sjáðu, sagði Unnur, allt í einu. Þetta eru ekki tónleikarnir, þetta er hátalari.

Og viti menn þarna var hátalari á mel fyrir ofan göngustíginn, bein útsending frá sviðinu fyrir ofan.

- Og þarna er annar, sagði Unnur, stuttu síðar og benti á hátalarabox, skammt fyrir ofan litla lækinn sem rennur úr mýrinni og yfir göngustíginn. Glymjandi tónlist barst úr honum, eins og þeim fyrri. Ekki beinlínis sú tónlist sem ég kann best við en ég var ekki á leið upp á Esju til að hlusta á tónlist.

Við vorum nú komin upp fyrir mesta brattann og göngustígurinn sveigði austur fyrir mýrina og svo upp hlíðina að svokölluðum Steini og síðan áfram upp hamranna.

Unnur gerðist nú djarfari, sleppti hönd afa síns og skokkaði áfram. Svo stoppði hún og snéri sér við og horfið glettnislega á afa sinn sem puðaði á eftir henni. Hún vildi ekki týna honum í mannmergðinni. Afi blikkaði hana, hún brosti en það var ekki fyrr afi hafði náð henni að hún skokkaði hún af stað. Þetta endurtók sig nokkrum sinnum. Þannig bjó hún til sitt eigi öryggi.

Svo sáum við glitta í sviðið en göngustígurinn lá ekki beint að því heldur aðeins ofar. Unnur gekk að litla læknum í lægðinni við göngustíginn og velti því fyrir sér hvort hún ætti að stökkva yfir.

IMG_9233 - Version 2- Stökktu, kallaði afi, hvetjandi, en öryggið var henni mikilvægara, hún vildi ekki missa af afa. Hún greip í hönd hans og þau leiddust upp þar sem flestir héldu út af göngustígnum og yfir þúfurnar að melnum þar sem sviðið blasti við. Sko, þar stóð hann pabbi og systurnar hennar og veifuðu. Unnur þaut af stað eins og ör og í áttina að pabba sínum. Hann virtist kalla eitthvað en orðin týndust í hávaðanum frá tónlistarmönnunum.

- Ég sagði, passaðu þig á bleytunni, sagði pabbi brosandi, þegar hann hélt yngstu dóttur sinni í fanginu.

- Ég er ekkert blaut, bara sveitt, sagði sú stutta, losaði sig og stökk til systra sinna.

- Afi, afi, afi ..., kölluðu Íris og Rakel. Við erum votar, bara á einum fæti ekki hinum ... Svo kom sagan af því hvernig þetta vildi til og þær sögðu sömu söguna í kappi við hvora aðra. Nú kom það sér einstaklega vil að afi er með tvö eyru og gat einbeitt sér að því að hlusta á tvær sögur í einu. Auðvitað eru hæfileikar afans bundir við smásögur, eða öllu heldur örsögur. Sko, þær stigu í bleytu, vatn seitlaði í annan skó beggja og þær kipptu fætinum upp og pabbi reddaði öllu. Tók þær úr og vatt sokkanna. Þetta er í stuttu máli endursögn afa.

Fjöldi fólks var þarna uppi og tónlistin bergmálaði á milli Þverfellshorns og Gunnlaugsskarðs og kastaðist svo til baka frá hömrunum í Kistufelli og fór þaðan út í algleymið þar sem hún ferðast enn og er komin á tífaldan hraða ljóssins á leiðinni framhjá Satúrnusi.

Börnin, krakkarnir, unglingarnir, unga fólkið, kellingarnar og kallarnir voru þarna í banastuði, ölvuð af adrennalíninu eftir gönguna upp. Fólk talaði og hrópa, hló og kættist.

Jú, og sumir komu upp með þyrlum en þótt það sé gaman er það aldrei eins gaman og að ganga upp. Í því felst hinn sanna gleði sem endurspeglaðist í andlitum fólks sem var rjótt og kátt eftir gönguna. Alveg stórkostlegt að sjá.

Við hlustuðum á listamennina spila og syngja. Frábærir tónlistarmenn og stórkostlegt umhverfi.

- Afi, þú lofaðir að halda á mér niður, sagði Unnur, og horfði ómótstæðilegum augum sínum á afa sinn.

IMG_9283 - Version 2Afinn hikaði, reyndi að slíta augnsambandið, og velti því fyrir sér hvernig hann gæti komist hjá því að efna áður gefið loforð.

- Ég ætla að hlaupa, sagði Íris.

- Ég líka, hrópaði Rakel.

Skyndilega var Unnur tekin á sprett. Hún ætlaði sko ekki að bíða eftir að afi sinn ákveddi sig og þar að auki var miklu skemmtilegra með systrum sínum.

- Fariði varlega, hrópaði pabbinn, og tók stórstígur á rás á eftir dætrum sínum. Þær svöruðu engu, að minnsta kosti heyrðum við það ekki. Afinn rúllaði áfram á eftir syninum, en þeir höfðu ekkert í stelpurnar.

- Sjáðu þær, sagði pabbinn, og í augunum hans ljómaði föðurlegt stolt.

Afinn var hræddastur um að þær rynnu í brattanum á göngustígnum enda bara á strigaskóm. Þær kunnu þó fótum sínum forráð og ferðin niður gekk aldeilis klakklaust. Margir fullorðnir áttu þó í vandræðum því strigaskór eru fjarri því góður búnaður til gönguferða í Esju. Þó gangan upp hafi verið tiltölulega þægileg runnu margir á rassinn á niðurleiðinni, þó enginn skaðaðist mikið, eftir því sem best er vitað. 

Nokkru fyrir ofan næst neðsta lækinn beið Unnur. Hún brosti til pabba síns, leyfði honum að ganga framhjá en beið eftir þeim gamla. 

- Veistu hvað? afi, spurði hún. Afi vissi ekki.

- Sko, ég pissaði upp og nú þarf ég aftur að pissa. Finnst þér það ekki skrýtið?

- Nei, sagði afi. Þegar við þurfum að pissa, þá pissum við. Það er ekkert skrýtið við það.

- En hvar? spurði Unnur.

Afi fann stað innan við lúpínurnar, við stóru tréin, í hvarfi frá göngustígnum. Eftir þetta stutta stopp hlupum þau niður, það er sú stutta hljóp en afi stikaði stórum. Þarna var pabbi og Unnur stökk í fangið á honum..

- Heyrðu Unnur? Var afi ekki búinn að lofa að halda á þér niður? spurði afi.

- Jú, sagði hún, og brosti með tilhlökkun, fattaði ekki gabbið.

- Komdu, sagði afi, og setti hana á háhest. Unnur hrópaði af fögnuði og saman stikluðu þau yfir brúna og grjótið. 

IMG_9295 - Version 2- Og nú erum við komin niður, sagði afi, prakkari, einni mínútu síðar.

- Þetta var stutt, sagði Unnur, hin djúpúðga, og pældi ekkert meira í gabbinu heldur hljóp til systra sinna og þær fóru í kapphlaup að bílnum.

Afi þykist fyrir löngu hafa fært sönnur á að tregða barna að ganga upp brattar brekkur eða á fjöll stafar ekki af leti eða getuleysi. Þeim finnst bara svo leiðinlegt að ganga bratt, finnst það jafnvel tilgangslaust. Aðferð hans, sem er hvort tveggja pabbi og afi, er að gera gönguna skemmtilega. Hér áður fyrr greip hann til þess ráðs að segja sonum sínum sögur af álfum, tröllum og hamförum sem hann spann upp á leiðinni. Það reyndist ágætlega en krafðist ansi mikils súrefnis svo að pabbinn var nærri því blár er upp var komið.

- Teldu upp á eitthundrað, sagði afi við Unni. Hún taldi, hægt og rólega, gleymdi að stoppa og gekk upp. 

- Hvað kemur næst, sagði hún, og hafði komist í tuttugu og níu. Afi hjálpaði til eftir því sem þörf var á.

- Fimmtíu, sagði Unnur. Við eru komin að brúnni og ég ekki einu sinni komin upp í hundrað.

Systurnar sofnuðu vært þetta kvöld. Daginn eftir var lífið harla gott eins og æskuárin eiga að vera því litlar stelpur fá ekki harðsperrur eftir fjallgöngu. Afinn var aftur á móti doldið stirður þegar hann vaknaði. Það lagaðist samt enda er lífið honum harla gott.


Mælifell, fjarskafallegt fjall en erfitt uppgöngu

DSC_2184Ég stóð í miðri fjallshlíðinni, hrikalega móður, hallaði mér fram, studdist við göngustafina. Í grjótinu brakaði og brast. Hljóðið var eins og í óðum hundi sem hefur ekki gert það upp við sig hvort hann ætlar í mann eða ekki. Og vissulega virtist fjallshlíðin vera með lífi, hún hreyfðist greinilega, ekki bara hluti hennar heldur öll andsk... hlíðin. Sko, þetta var ekkert venjulegt grjót heldur stóreflis flögur, þykkar og þungar hellur, eflaust góðar í arinn eða á baðherbergisgólf en í langri fjallshlíð virtust þær hreinlega stórhættulegt.

Um leið og ég lyfti vinstri fæti (þeim sem var ofar) rann grjótið á þann hægri og þá virtist undirstaðan fyrir vinstri fótinn strax verða ótraustari. Ég fór fetið. Aftur brast en þetta hélt nokkur augnablik, nægilega lengi til að ég gat lyft þeim vinstri og sett hann feti framar og ofar. Með því að beita göngustöfunum af meiri list en ég taldi mig vera færan um hélt ég jafnvægi. Stundum steig ég á hellugrjót sem reis við það nær upp á rönd, staðnæmdist þannig eitt augnablik og féll því næst nokkuð þétt að hægri fætinum. Þetta gerðist oft eins og marblettirnir bera vitni um.

Þetta var alveg óþolandi staða og hún gat ekki annað en versnað. Ég leit til baka en leist ekkert á að snúa við. Ég myndi ábyggilega koma af stað skriðu ef ég reyndi það. Ég valhoppaði því áfram og reyndi að hækka mig með furðulegri lipurð en þokkinn var ekki mikill. Sem betur fer fylgdist enginn með mér nema Bárður Snæfellsás úr fjarska.

Andsk..., tautaði ég, og það ekki í fyrsta sinn á þessum síðasta hálftíma. Þetta var ábyggilega leiðinlegasta uppáferð í lífi mínu og var ég þó á leið á eitt fegursta fjall landsins. Þessi málsgrein kallar á heimspekilegar vangaveltur sem ég sleppi hér.

DSC_2096bOft er grínast með að eitthvað sé „fjarskafagurt“, og þá er átt við að fjarlægðin hafi villt um fyrir manni því þegar nær er komið og nánar er að gáð er ekki allt sem sýnist. Þannig er um margt sem verður fyrir manni á lífsleiðinni.

Nóg um það. Ég vaknaði síðasta sunnudag er sólin skein inn um gluggann hjá mér og hvíslaði svo blíðlega að nú þyrfti ég að ganga á Mælifell. 

Hvaða Mælifell? spurði ég, og varð hugsað til fjalls í Skagafirði, annars á Snæfellsnesi og það þriðja á sandauðnum norðan Mýrdalsjökuls.

Austur_editbNæst vissi ég af mér á leið á Snæfellsnes.

Mælifell vestan við Fróðárheiði er einstaklega fagurt fjall ... tilsýndar. Engu líkar er en að einhver yfirnáttúrulegur kraftur hafi sett það niður á heiðarbrúnina. Það er gráleitt eða gulleitt, veltur á dagsbirtunni og sólarljósinu. Gjörsamlega gróðurlaust og ástæðan er afar einföld, það átti ég eftir að finna út í miðri vesturhlíð fjallsins. Á fjallinu er enginn jarðvegur, bara grjót.

GígurinnbSvona er nú Mælifell. Ég get ómögulega ... mælt með því. Upp komst ég fyrir einskæra heppni og meðan á bröltinu stóð gat ég ekki varist þeirri hugsun að verra yrði að komast niður.

Jæja, uppi var hávaðarok, stormur. Varla stætt. Mér til mikillar undrunar sá ég að þarna var gígur og í miðju hans dökkur gúll. Það passar. Fjallið er myndað úr líparíti sem var svo seigfljótandi að kvikan hlóðst upp yfir gosopinu, þetta er dekkri gerðin. Um þá ljósari hafði ég gengið upp hlíðar fjallsins.

Til vestursbEinn góðan veðurdag að áliðinni síðustu ísöld fór að gjósa þarna rétt fyrir ofan hamrabeltið. Þetta hefur ábyggilega verið hið snyrtilegasta gos, ekkert sull fyrir utan vettvanginn nema hugsanlega einhver aska sem nú er auðvitað hvergi sjáanleg því allt leitar fyrr eða síðar í jafnvægi. Gosinu lauk og þarna er Mælifell eins og aðskotahlutur fyrir ofan hamranna, einstaklega fagur aðskotahlutur.

Og útsýnið ... maður lifandi. Þvílíkt útsýni er af Mælifelli. Aldeilis stórfallegt eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Auðvitað borgar sig að príla upp á fjallið, ég á við ef maður kemst lífs af. Annars er betra heima setið, held ég. Vandinn er bara sá að maður veit ekki fyrirfram hvenær komið er að síðustu fjallgöngunni.

Ekki staldraði ég lengi við uppi. Þar var bæði kalt og hvasst. Ferðin til baka gekk áfallalaust. Ég ákvað að fara beint niður þar sem hlíðin var sem styst, hætti við að skera hana eins og ég hafði gert á uppleið. Það var skynsamleg hugsun, aldrei þessu vant.

Eftir ferðina er mér oft hugsað til lyktarinnar. Sérkennilegs þefs sem myndast þegar líparíthellur falla á hverja aðra. Hann er ekki ólíkur púðurreyk sem oftar en ekki finnst á gamlaárskvöld. Hins vegar hef ég ekki fundið þennan þef á öðrum líparítfjöllum sem ég hef gengið á.

Myndirnar:

  1. Efsta myndin er tekin í hlíðinni. Hélt að mín síðasta stund væri runnin upp þegar ég smellti af. Er nærri því viss um að hljóðið í myndavélinni hefði komið af stað skriðu.
  2. Myndin er tekin við Búðir. Mælifell nýtur sín þarna.
  3. Útsýni til austurs. Ógnandi hvítur skýjabakkinn er til merkis um hvassa norðanáttina.
  4. Gígurinn upp og dökki gúllinn.
  5. Útsýni til vesturs, Snæfellsjökull í fjarska og nær er Fróðárheiði.

Í gamla daga var ónýtum bílum henti í sjóinn

IMG_8659 BÁ ferð minni um daginn að fallegum stað, sögulega merkum, nokkuð langt frá höfuðborginni, lá leið mín með fjöru um lítil nes. Þar blöstu við mér leifar af farartækjum sem greinilega hafði verið komið fyrir þarna í þeirri von að þau hyrfu nú einhvern tímann alveg ofan í sjóinn, bærust helst út á sextugt dýpi eða djúpt í fjörusandinn.

Ekki hefur þetta enn gengið eftir. Sjá má öxla, stuðara, grind og ýmislegt fleira sem ryð fær örugglega grandað ... á nokkrum árhundruðum.

IMG_8660 - Version 2Mér brá nokkuð enda sjaldgæft að sjá svona. Held að enginn í dag myndi nota fjörur eða sjóinn sem ruslakistu.

Nokkrar myndir tók ég en var í öðrum erindagjörðum og staldraði því stutt við. Hafði í raun ekki áhuga á að stoppa lengi á þessum hörmulega stað.

Hér er yfirlitsmynd af lítilli vík, nær því á háfjöru. Svo klippti ég úr myndinni og stækkaði og þar er þetta allt í miklu návígi.

Held að þetta hljóti að vera mjög gamalt, líklega meira en fjörtíu ára. Má vera að þarna sé gamall Moscowiz bíll ef dæma má eftir stuðaranum sem enn ber sitt króm nokkuð vel, sjá þriðju myndina. Er þó ekki viss.

IMG_8658 - Version 2

Svona var nú lenska hér áður fyrr. Sjórinn átti að taka endalaust við en auðvitað gerir hann það ekki. Að sjálfsögðu er ekki heldur neitt ráð að urða málma. Þeir eyðast afar hægt og urðun er ekkert annað en feluleikur.

Nútímamaðurinn veit að best er að endurvinna alla mála og það er ástæðan fyrir því að greitt er skilagjald fyrir bílhræ.

Auðvitað væri réttast að hreinsa þessa fjöru.


Skammast sín fyrir íslenskuna og kalla gistihúsið Lighthouse Inn

Nýtt hótel hefur verið tekið í notkun í Garði á Suðurnesjum. Eitthvað undarlegt er samt við þetta hótel. Ekki að það er bjálkahús úr finnsku eðaltimbri eins og segir í frétt í Morgunblaði dagsins. Nei, það er eitthvað annað því aldrei kom til greina að byggja steinsteypt hús.

Eigendurnir eru hörkuduglegir. Þeir fengu kunnáttumenn til verksins, verkfræðistofuna Riss, sérstakt íslenskt orð. Í næsta nágrenni er veitingahúsið Röstin og kaffihúsið Flösin og svo er þarna Garðskagaviti og ábyggilega fleiri fyrirtæki kennd við íslenska náttúru

Það eru hörkunaglar sem reisa gistihús fyrir ferðamenn í Garði og hugsa til allra smáatriða í byggingunni og rekstrinum. Fengu sex Finna, ramma að afli, til að reisa húsið.

Í fagurri íslenskri náttúru og einstöku umhverfi dettur eigendunum það eitt í hug að kalla gistihúsið LIGHTHOUSE INN.

Ligthouse inn. Hvað er eiginlega að þessum bræðrum sem eiga þetta gistihús og reka? Á íslensku þýðir Lighthouse einfaldlega Viti. Er engin ærleg taug í þeim?

Nei, Viti er ekki nógu gott orð. Íslenskan nær auðvitað ekki þessum fögru blæbrigðum enskrar tungu sem dregur að sér útlenda ferðamenn.

Og auðvitað sækja útlendir ferðamenn frekar í þjónustu sem ber ensk heiti. Þetta á við norðurlandabúa, Þjóðverja, Frakka, Spánverja, Ítali og jafnvel Kínverja. Í þokkabót vita allir að Bretar, Bandaríkjamenn og Kanadamenn hafa ekki áhuga á menningu þeirra landa sem þeir heimsækja, vilja bara ástkæra og ylhýra enskuna.

Nei, auðvitað er þetta einber aumingjaskapur í eigendum Lighthouse Inn. Þeir reka naglann í líkistu þjóðtungunnar rétt eins og eigendur Air Iceland Connect. Þetta lið fyrirverður sig fyrir íslenskuna og því er skömm þeirra mikil.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband