Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2016

10.000 ára fótspor í Vífilsfelli?

Fótspor2Á hinu gáfulega vefriti iflscience er grein um steingert fótspor manns sem talið er að sé 1,9 milljón ára gamalt. Ekki er vitað hver á sporið en talið að hann sé látinn.

Þetta minnir mig á fótsporið sem ég fann í móberginu á Vífilsfelli fyrir stuttu og hafði vit á að taka mynd af. Fjallið myndaðist við eldgos á fyrra jökulskeiði og síðan gaus aftur á síðara jökulskeiði sem lauk svo fyrir um 10.000 árum.

Móberg myndast þegar gosefni splundrast í vatni og setjast oftast þar til. Með tíð og tíma þéttast þau og harðna og þá verður til þessi mjúka, brúnleita bergtegund. Raunar er það svo að móberg getur myndast mjög hratt eins og sannaðist best í Surtseyjargosinu.

Fótspor VífÁ síðasta jökulskeiði er talið að um 600 til 1000 m hár jökull hafi verið yfir því landi sem nú nefnist höfuðborgarsvæðið. Líklega hefur jökullinn verið við hærri mörkin yfir Bláfjöllum.

Með allt ofangreint í huga er svona frekar ólíklegt að ég hafi rekist á fótspor. Varla hefur nokkur maður lagt lykkju á krók sinn (eins og sumir segja), að eldstöðin og stigið í mjúka gosöskuna sem síðan hefur geymt fótsporið um þúsaldir.

Varla ... en ef til vill ekki útilokað (hér er við hæfi að setja broskall).laughing

Nú verða lesendur bara að geta upp á því hvor myndin sýni eldra fótsporið. Gef hér eina vísbendingu. Af umhverfisástæðum geng ég yfirleitt ekki berfættur á fjöll

(og annar broskall).smile


Slysið varð skammt frá Grænahrygg

GilMjög ólíklegt er að myndskeið Gísla Gíslasonar, þyrluflugmanns, sé af frönsku ferðamönnunum. Í fyrsta lagi sést greinilega að mennirnir eru í Jökulgili, ekki langt frá Hattveri.

Mennirnir á myndinni hafa haft viðkomu á Grænahrygg, sem er austar og nær Sveinsgili, og farið síðan yfir hálsinn og ofan í Jökulgil, rennt sér niður skaflinn að hluta og eru komnir út á aura Jökulgilskvíslar. Ótrúlegt er að þeir hafi farið aftur upp og ofan í Sveinsgil.

Samkvæmt upplýsingum fjölmiðla varð slysið í austurhlíðum Sveinsgils. Hins vegar finnst mér dálítið erfitt að finna slysstaðinn. Finnst eins og hann sé frekar í svokölluðum Þrengslum í Jökulgili, raunar ekki langt frá þeim stað þar sem þyrluflugmaðurinn myndaði tvo göngumenn. Þessa ályktun dreg ég af meðfylgjandi ljósmynd sem birtist á mbl.is í dag. Sveinsgil held ég að sé grynnra og ekki eins mikill bratti í hlíðum.

Gil2Mér finnst mér fjölmiðlar hafi ekki flutt nægilega nákvæmar frétti af staðnum. Mjög brýnt er að fá góða loftmynd af svæðinu og nákvæma staðsetningu. Benda má á að fjöldi göngumanna fer um þetta væði, skoðar Grænahrygg og Hattver.

Viðbót.

Samkvæmt mynd sem birtist á vef ruv.is og er hér birt, er ljóst að efri myndin er ekki tekin á slysstað heldur í Þrengslum í Jökulgili. Ég get mér þess til að björgunarsveitarmenn hafi gengið þarna upp hálsinn og yfir að slysstaðnum. Líklega er þetta stysta gönguleiðin þangað. Neðri myndin er líklega tekin á hálsinum þar fyrir ofan og sér inn að slysstaðnum sem er fyrir miðri mynd.

Slysið hefur því líklega orðið skammt frá Grænahrygg. Þangað er gjörsamlega ófært í bílum.


mbl.is Telur sig hafa séð göngumennina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Karl Friðjón Arnarson

Það er ekkert betra til með mönnum en að eta og drekka og láta sálu sína njóta fagnaðar af striti

Öllu er afmörkuð stund, og sérhver hlutur undir himninum hefir sinn tíma. Að fæðast hefir sinn tíma og að deyja hefir sinn tíma.

Kalli4Þessi speki er skráð í fornri bók. Af henni má ráða að í eðli mannsins er að njóta fagnaðar með öðrum og það hefur mannkynið líklega ávallt gert. Hver hópur á sinn hátt. Í gleðskapnum leiðir sem betur fer enginn hugann að dapurlegum enda lífsgöngunnar sem þó er öllum áskapaður. Allt hefir samt sinn tíma.

Svona spakir vorum við Karl Arnarsson ekki þegar við bundumst vináttuböndum fyrir langa löngu og stunduðum með vinum okkar mikinn fagnað og gleði. Við hittumst oft heima hjá Kalla, glöddumst, borðuðum góðan mat, drukkum öl og góð vín, sögðum sögur, hlógum og stríddum hverjum öðrum í góðvild og gæsku. Lífið var gott. Græskulaus fögnuður átti sinn tíma.

Kalli var mikill gestgjafi. Heima hjá honum var oft mikill gleðskapur og síðan farið í öldurhús miðbæjarins en það var löngu áður en útlendingar tóku hann yfir. 

Kalli2Þetta byrjaði allt með því að við hittumst nokkrir í Laugardalslauginni. Spjölluðum og fundum að við áttum skap saman. Þetta voru auk okkar Kalla, Sigurður Ólafsson, Kjartan Kjartansson, Indriði Helgason, Gylfi Gíslason, Helga Edwald, Guðmundur Pálsson og fleirum. Svo kynntumst við Snjólaugu Guðrúnu Kjartansdóttur og vinkonum hennar, einnig Sigríði Helgadóttur, Sigrid Halfdanardóttur, Þórunni Kvaran og svo ótal mörgum öðrum. Sífellt safnaðist í hópinn og potturinn var iðulega þétt setinn. Sumir syntu en aðrir komu gagngert til að sitja í pottinum og ræða málin. Hann var eiginlega orðinn félagsmálapottur, hvað sem það nú þýðir.

Við lögðum líka land undir fót. Fögnuðum eitt sinn áramótum í Básum á Goðalandi. Fjöldi fólks. Indriði var kokkur, við hin komum með mat og drykki. Þvílík skemmtun sem þessi ferð var. Ekki aðeins fyrr laugahópinn heldur alla hina, gott fólk og einstaklega skemmtilegt í frábæru vetrarlandi.

Við gengum á Fimmvörðuháls oftar en einu sinni. Við félagarnir, þar með talinn hann Kalli, neyddumst til að játa okkur seka um að hafa óviljandi fótbrotið Kjartan vin okkar. Það bjargaði málum fyrir okkur Kalla að sá fótbrotni áttaði sig ekki á skaðanum fyrr en nokkrum dögum síðar. Þá sögðum við brotið fyrnt og Kjartan ætti enga sök á okkur og hann viðurkenndi það. Svo hlógum við allir.

P0002440Svo gerðist eitthvað, einhver galdur varð og allt í einu var hann Kalli og hún Lauga orðin par. Það gerðist ekkert skyndilega heldur hægt og rólega og ábyggilega af vel yfirlögðu ráði. Öðru vísi gat það ekki orðið sé tekið mið af henni og honum. Og þau eignuðust tvo mannvænlega syni, Örn Þór og Atla Björn. Það varð hamingjan í lífi þeirra beggja.

Kalli var glæsilegur maður á velli. Hann var grannur, hávaxinn og vakti athygli hvar sem hann fór. Skopskyn hafði hann mikið, flissaði og hló, gantaðist, gerði grín af öðrum en þó mest af sjálfum sér.  

Samt var hann ekki beinlíns orðlagður fyrir ræðumennsku. Hann talaði hratt, stundum svo óskýrt að maður þurfti að leggja vel við hlustir eða hvá. En það var engin vitleysa sem kom frá honum. Maðurinn var ágætlega vel gáfum gæddur, kunni að segja frá og, það sem meira er, hann kunni að hlusta. Aldrei tranaði hann sér fram en alltaf átti hann áheyrendur.

Sögur Kalla og um hann eru óteljandi og margar aðeins sagðar í þröngum hóp. Þá er rosalega mikið hlegið og flissað rétt eins og þegar hann sjálfur átti orðið.

Að deyja hefur sinn tíma.

Hvernig getum við sætt okkur við það? Hvernig í ósköpunum getum við sætt okkur við þau forlög sem taka þann í burtu sem okkur þótti svo vænt um? Eftir stöndum við agndofa og ráðþrota. 

Í einstaklega fögru útfararljóði eftir enska skáldið og Íslandsvininn W. H. Auden segir:

The stars are not wanted now: put out every one;
Pack up the moon and dismantle the sun;
Pour away the ocean and sweep up the wood.
For nothing now can ever come to any good.

Þannig varð mörgum innanbrjóst þegar fréttir bárust af óhappinu sem varð Kalla að bana. 

Þrátt fyrir þungbæra sorg má taka undir með Reykjavíkurskáldinu, Tómasi Guðmundssyni sem orti þetta í ljóði sínu Austurstræti.

Já, þannig endar lífsins sólskinssaga!
Vort sumar stendur aðeins fáa daga.
En kannske á upprisunnar mikla morgni
við mætumst öll á nýju götuhorni.

Missir Laugu og sona hennar og Kalla, Arnar Þórs og Atla Björns, er mikill. Ég sendi þeim mínar hjartans samúðarkveðjur. Þrátt fyrir alla sorgina lifir sólskinssagan. Og hversu auðug er hún ekki? Tær, glitrandi gleði, góðar sögur, fagnaður, alvarlegar umræður um lífið en framar öllu vinátta við ógleymanlegan mann. 

Er það ekki svo að gleði og fagnaður gefur lífinu gildi. Við erum mörg sem minnumst Karls Friðjóns Arnarsonar fyrir lífsgleðina sem einkenndi hann. Hversu undursamleg er ekki slík arfleifð.

Jarðarför Karls fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, þriðjudaginn 12. júlí 2016 kl. 13.

 


Ólögmætir og ámælisverðir samningar borgarfulltrúa

Blessuð verið ekki að hafa áhyggjur af þessu. Fjölmiðlarnir hafa engan áhuga á þessu og svo gleymist þetta fljótlega.

Þetta gæti verið viðhorf meirihlutans í Reykjavíkurborg vegna þess að hann gerðist sekur um eftirfarandi:

  1. Ráðstafaði 55 milljónum króna Bílastæðasjóðs án heimildar
  2. Braut gegn reglum Reykjvíkurborgar um styrkveitingar
  3. Braut gegn siðareglum borgarfulltrúa

Þetta má lesa í áliti Umboðsmanns borgarbúa frá því 3. júní 2016. Raunar er um að ræða afar harðort álit hans. Hann telur að það hafi verið ámælisvert af Bílastæðissjóði og bílastæðanefnd að ráðstafað tekjum sjóðsins til „Miðborgarinnar okkar“ og brotið „í bága við reglur Reykjavíkurborgar um styrkveitingar“.

Umboðsmaður telur að meirihlutinn hafi vísvitandi gert ólögmælta samninga. Og það sem verra er að samningsgerðin, aðdragandi hennar og ákvörðunin hafi verið:

... í verulegri andstöðu við vandaða stjórnsýsluhætti enda felur hún í sér ógagnsætt ferli við meðferð opinberra fjármuna ...“

Og umboðsmaður sér ástæðu til að bæta í álit sitt því sjálfsagða sem segir í siðareglum:

... að kjörnir fulltrúar aðhafist ekkert það sem falið getur í sér misnotkun á almannafé.

Eftir að hafa í raun sagt að borgarfulltrúar hafi gert ólögmætan og ámælisverðan samning um ráðstöfun á 55 milljónum króna flokkist það eiginlega sem misnotkun á almannafé.

Þetta eru gríðarlega stór orð og ekki síst þegar þau koma frá embætti sem nefnist umboðsmaður borgarbúa. Það er eiginlega ekki hægt að snúa sig út úr því að brotið hafi verið gegn siðareglunum og um sé að ræða misnotkun á almannafé. Eða hvað?Meirhluti2

Meirihlutinn í svokallaðri forsætisnefnd segist ekki samála umboðsmanni. Þetta eru eftirtaldir borgarfulltrúar:

  • Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna
  • Elsa H. Yeoman, borgarfulltrúi Bjartrar framtíðar
  • Halldór A. Svansson, borgarfulltrúi Pírata

Í bílastæðanefnd sitja eftirtaldir borgarfulltrúar meirihlutans:Meirhluti3

  • Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna
  • Elsa H. Yeoman, borgarfulltrúi Bjartrar framtíðar
  • Halldór A. Svansson, borgarfulltrúi Pírata

Rökstuddur grunur hefur vaknað um að þetta sé sama fólkið. Sé svo er þá ekki skrýtið að borgarfulltrúar meirihlutans í forsætisnefnd séu sammála fulltrúum meirihlutans í stjórn bílastæðasjóðs um að álit umboðsmanns borgarbúa sé tóm vitleysa.

Finnst engum það undarlegt að sama fólkið misnotar almannafé og brýtur siðareglur skuli undir öðru nafni reyna að koma af sér sök, réttlæta gjörðir sínar? Ég bara spyr enda ljóst að sömu rassarnir eru undir bílastæðasjóði og forsætisnefnd.

Blessuð verið ekki að hafa áhyggjur af þessu. Fjölmiðlarnir hafa engan áhuga á þessu og svo gleymist þetta fljótlega.

Sagði Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri eitthvað á þessa leið?

En ágæti lesandi. Finnst þér ekki þögn fjölmiðla um þetta mál vera hávær?

Ég er þess fullviss að ef kjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins höguðu sér eins og meirihlutinn í borgarstjórn væri allt gjörsamlega kolvitlaust í pólitíkinni. Krafist væri afsagna í öllum fjölmiðlum og athugasemdadálkum. Illugi Jökulsson væri ásamt félögum sínum daglega á trommunum fyrir framan Alþingishúsið eða ráðshúsið og jafnvel Hörður Torfason væri genginn aftur.

Hvar eru nú baráttumenn fyrir lýðræðislegum stjórnarháttum þegar borgarfulltrúar misnota almannafé og brjóta siðareglur? Eru þeir í sumarfríi?

 


Hver er þessi Ófeigsfjarðarheiði?

ófeigsHvar í ósköpunum er þessi Ófeigsfjarðarheiði? spyr margur lesandinn sig. Spurningin er skiljanleg enda halda margir blaða- og fréttamenn að verkefni þeirra felist í að moka fréttatilkynningum út án þess að vinna þær neitt frekar, gera efni þeirra betri skil.

Oft má sjá að fréttatilkynningar Landsbjargar eru illa fram settar, ekki hægt að átta sig á því hvar og hvernig hjálp var veitt. Þetta á líka við Landhelgisgæsluna. Jafnvel blaðamaðurinn veit ef til vill ekki nema óljóst hvar þessi Ófeigsfjarðarheiði er.

Hlutverk fjölmiðla er ekki aðeins að upplýsa heldur öðrum þræði að kenna. Þess vegna er afar mikilvægt að blaðamenn birti þegar það á við kort með fréttum. Ófeigsfjarðarheiði getur í hugum margra verið svo ósköp víða og Ísland er stórt.

Fyrir mörgum árum var á Morgunblaðinu starfandi landfræðingur sem teiknaði kort er fylgdu oft fréttum blaðsins. Það var til fyrirmyndar.

Í dag getur allir blaðamenn birt kort með frétt - svo fremi sem einhver metnaður búi í brjósti þeirra. Og fyrst að ég, aumur bloggari, get búið til kort á fimm mínútum hljóta atvinnumenn að geta gert það sama.

Ekki þarf annað en að semja við Landmælingar Íslands eða Samsýn um notkun á kortagrunni og teikna svo ofan í hann. Þegar ég skipulegg til dæmis ferðir um landið bý ég til kort af ökuleiðum og gönguleiðum og sendi ferðafélögum mínum. Og allir eru hamingjusamir yfir því að fá að sjá og skilja hvert leiðin liggur.

Hamingjan hjá lesendum mbl.is er hins vegar ekki söm eða eigum við að orða það þannig að þjónusta mbl.is gæti verið betri. Vefur og blaðaútgáfa er auðvitað ekkert annað en þjónustustarfsemi.

Ofangreint kort er frá Landmælingum Íslands og hægt er að teikna að vild ofan í það og birta í mismunandi kortagrunnum. Alveg til fyrirmyndar hjá Landmælingum en ábyggilega lítið notað.


mbl.is Göngumanni bjargað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumir sóuðu æsku sinni í nám ...

Tómas Guðmundsson (1901-1983), Reykjavíkurskáld, er eins og margir gömlu skáldanna farinn að gleymast. Í það minnsta er honum ekki eins mikið hampað eins og áður. Ljóðin hans eru þó afskaplega falleg, sum skemmtileg og önnur beinlínis fyndin. 

Síðustu daga var ég að rifja upp verk nokkurra ljóðskálda vegna lítilsháttar verkefnis og staðnæmdist við Tómas.

Skólabræður nefnist eitt makalaust ljóð og er eflaust ort í tilefni stúdentsafmælis skáldsins:

Hér safnaði Guð okkur saman
einn sólskinsmorgun, og héðan
lokkaði lífið okkur
með langvinnu prófin sín.
Og sumir sóuðu æsku
sinni í nám, á meðan
aðrir vörðu' henni í vín.

[...]

Nei, minnumst þess heldur, bræður,
að bernskunnar lindir þrjóta
og bráðum leggjast þau niður,
vor hjartkæru æskubrek.
Við verðum gráir og gamlir 
og nennum einskis að njóta
og nefnum það viljaþrek.

En eins og Salómon sagði
í fornöld og löngu frægt er:
Forðast skaltu að geyma
þín afrek til næsta dags.
Og lát þá ei heldur dragast
að drekka þau vín, sem hægt er
að drekka strax.

Takið eftir hinu launsanna skopi skáldsins sem frekar varði æsku sinni í að drekka góð vín strax, meðan aðrir sóuðu henni í nám. Og þegar við hættum að njóta æskubreka og víns þá er afsökunin sú að við stöndumst freistinguna með viljaþreki. Nei, þegar svo þar er komið sögu í lífi manns er letin og jafnvel aldurinn orðinn of mikill þröskuldur.

„Bréf til látins manns“ nefnist annað ljóð. Geysilega flott upp sett en skopið er sótsvart inni á milli gáfulegra orða.

En dánum fannst okkur sjálfsagt að þakka þér
og þyrptumst hljóðir um kistuna fagurbúna.
Og margir báru þig héðan á höndum sér,
sem höfðu í öðru að snúast þangað til núna.
En þetta er afrek, sem einungis látnum vinnst
í allra þökk að gerast virðingamestur.
Því útför er samkoma, þar sem oss flestum finnst
í fyrsta sinn rétt, að annar sé heiðursgestur.

[...]

Þú ættir, vinur, að vita hvað konan þín grét,
hún var í mánuð næstum því óhuggandi.
Þó gefur að skilja, að loksins hún huggast lét
og lifir nú aftur í farsælu hjónabandi.
Og gat hún heimtað af hjartanu í brjósti sér
að halda áfram að berjast fyrir þig einan?
Nú þakkar hún hrærð þá hugulsemi af þér
að hafa dáið áður en það var um seinan.

[...]

Mér dylst að vísu þín veröld á bak við hel,
En vænti þess samt, og fer þar að prestsins orðum,
að þú megir yfirleitt una hlut þín vel,
því okkar megin gengur nú flest úr skorðum.
Og hér eru margir horfnir frá þeirri trú,
að heimurinn megi framar skaplegur gerast,
og sé honum stjórnað þaðan, sem þú ert nú,
mér þætti rétt að þú létir þau tíðindi berast.

Þvílíkur kveðskapur sem þetta er og húmorinn, maður lifandi. Sjóðandi ádeila sem gerir lesandanum svo gott að lesa að við liggur að maður verður betri maður fyrir vikið.

Tómas má ekki gleymast frekar en önnur stórskáld 20. aldarinnar.


Ótrúlegt ráðaleysi vegna Brexit, ekkert varaplan

Margir urðu hissa þegar Bretar kusu að ganga úr Evrópusambandinu. Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar var mikið áfall fyrir ríkisstjórnina, atvinnulífið og þá sem kusu með aðild og ekki síður þá sem kusu með brottför. Ekki síst brá mönnum hrottalega í stjórnkerfinu í Brussel sem og ríkisstjórnum fjölda ESB-landa. Eiginlega bjóst enginn við Brexit. Handritið var ekki skrifað á þann veg.

Í raun er útganga Breta stórmál, ekki aðeins fyrir þá sjálfa heldur líka fyrir Evrópusambandið. Framleiðsla, verslun, þjónusta og samgöngur eru orðnar svo samtvinnaðar í Evrópu að úrsögn mun valda miklum afnahagslegum vanda. Bretar byggja á aðföngum frá ESB fyrir margvíslega framleiðslu sína en selja síðan fullunnar vörur út um alla álfuna og þetta á raunar við önnur lönd sem hafa hag af því að stunda viðskipti við Bretland.

Breytingar á þessu fyrirkomulagi, hærri tollar, verða ekki sársaukalausar, hvorki fyrir Breta, Þjóðverja, Frakka, Hollendinga eða aðrar þjóðir. Þeim mun fylgja uppstokkun í atvinnulífi, atvinnuleysi, tímabundið eða viðvarandi. Fjárfestingar munu minnka, tekjur launafólks munu dragast saman víða um lönd.

Hvorki meira né minna en 48% af útflutningi Breta fer til ESB. Velta fjármálageirans í Bretlandi er um 8% af landsframleiðslu. Bretar eru vissulega afar háðir ESB og öfugt. Það er því furðulega digurbarkalegt þegar kommissarar ESB eru farnir að krefjast þess að Bretar fari umsvifalaust úr sambandinu. Heiftin vegna Brexit er svo mikil að ekki er horft til þess efnahagslega skaða sem brottförin veldur.

Viðbrögðin í Brussel ollu Bretum og fjölmörgum öðrum miklum vonbrigðum. Aðrir voru furðu losnir. Þar var brugðist afar harkalega við og við lá að gera ætti út af við Breta.

Ríkisstjórnin í London virkað á móti afar ráðalaus og hefur hingað til varla vitað hvernig taka eigi á málum. Cameron forsætisráðherra sagði af sér en ekkert annað gerðist. 

Allt er þetta með miklu ólíkindum. Þetta byrjaði með ruglingslegri vegferð bresku ríkisstjórnarinnar með kröfum um betri kjör innan sambandsins. Samningurinn milli Breta og ESB virkaði hins vegar ekkert sannfærandi. Engu líkar en samningurinn væri bara til málamynda, svona til að róa óþekka krakka.

Allt virkaði þetta eins og illa gert handrit að enn lélegra leikriti sem sett var á svið vegna ótta Camerons, forsætisráðherra, við uppgang UKIP og þá var gripið til örþrifaráða. Allt þetta þurfti ekki að gerast.

Hvorki Cameron né ESB voru undirbúnir undir Brexit, ekkert varaplan var til heldur var því trúað að Bretar væru varla svo vitlausir að kjósa sig út úr sambandinu. Kokhraust ríkisstjórn gekk til þjóðaratkvæðis sem reyndist stærstu pólitísk mistökum Camereons, forsætisráðherra.

Og hvað svo? 

Undarlegt er að ESB og breska ríkisstjórnin hefðu ekki komið sér saman um varaplan yrði Brexit ofan á. Engum innan ESB hefur dottið í hug að hægt væri að hægt væri að endurtaka samningaviðræðurnar, fá enn betri samning og láta kjósa um hann aftur. 

Óánægja fólks innan ESB-landa með Lissabonsáttmálann er mikil. Mörgum þykir vald embættismanna í Brussel meira en góðu hófu gegnir. Skoðanakannanir í fjölmörgum löndum sýna vaxandi andstöðu við ESB og þá sérstaklega miðstjórnarvaldið. Engu að síður flögrar ekki að kommissörum, pólitískum eða ópólitískum, að leggja til breytingar.

Nei, ESB er steingelt og sama má raunar segja um ríkisstjórnina í Bretlandi. Afleiðingin verður efnagaslegur vandi sem bitna mun freklega á almenningi í Evrópu og jafnvel okkur hér á klakanum. Erum við þó hvorki í ESB né í hluti af Breetlandi.

 

 

 


Getur kirkjan annað en boðið flóttamönnum grið

Sem mikill stuðningsmaður Þjóðkirkjunnar varð ég fyrir miklum vonbrigðum þegar prestar Laugarneskirkju, að því virðist með stuðningi yfirstjórnar þjóðkirkjunnar, skyldu hafa frumkvæði að því að reyna að koma í veg fyrir að lögregla gæti framfylgt lögum í landinu með því að hýsa hælisleitendur sem vísað hafði verið frá landinu.

Þannig skrifar Brynjar Níelsson, alþingismaður, á Facebook síðu sína. Margir hafa skrifað í svipaða veru og lýst yfir vonbrigðum með afstöðu kirkjunnar og sumir hverjir tekið enn dýpra í árinni. Ég held að þetta sé misskilningur hjá þessu fólki öllu saman. 

Rökin eru einfaldlega þau að ekkert var gert til að hindra lögreglu í starfi sínu, engin lög voru brotin. Hins vegar fengu tveir flóttamenn hæli í Laugarneskirkju. Þeir voru ekki faldir, lögreglan vissi hvert skyldi sækja þá.

Áður en lengra er haldið er brýnt að tvennt komi fram. Hið fyrra er að ég er eins og flestir alinn upp í kristinni trú og sótti kirkju með foreldrum mínum og tók virkan þátt í KFUM í æsku minni. Hið seinna er sú bitra staðreynd að barnatrúin hefur mikið dofnað mér til sárinda en við því er fátt að gera.

Engu að síður er boðskapur kristinnar trúar mér ofarlega í huga, það er sú siðfræði sem í henni felst. Engan skaða hef ég borið af henni hvað sem um annað má segja.

Vegna tilvitnunarinnar er mér ofarlega í huga dæmisagan af miskunnsama Samverjanum sem Jesú sagði lærisveinum sínum. Maður hafði veri rændur, barinn og skilinn eftir á veginum slasaður nær dauðvona. Menn sem áttu leið um sinntu honum ekki heldur sveigðu framhjá.

Svo kom þar að þessi maður frá Samaríu sem hikaði ekki heldur aðstoðaði þann slasaða, batt um sár hans, flutti til gistihúss og lagði fram fé fyrir umönnun hans. Og Jesú beinir því til lærisveina sinna að fylgja fordæmi Samverjans.

Ekki eru allir sem átta sig á því þetta með Samverjann. Hann var af þjóðflokki sem gyðingar fyrirlitu innilega af sögulegum ástæðum, höfðu engin samskipti við hann og lögðu frekar lykkju á leið sína en að ganga um land þeirra. Það er því engin tilviljun að Samverjinn er notaður til að sýna fram á firringu samlanda Jesú, skort á samhygð og umburðarlyndi.

Sá fyrirlitni var hins vegar bjargvættur þegar hinir aðhöfðust ekkert, tóku meðvitað á sig krók til að komast hjá því að horfast í augu við hremmingar annars manns.

Sagan endurtekur sig. Um gjörvalla hina kristnu Evrópu reynir fólk að líta framhjá þeirri ógn sem steðjar að mörgum þjóðum í Afríku og Asíu. Þær eru bókstaflega í sporum þess sem ræningjarnir nær drápu í dæmisögunni. Munurinn er aðeins sá að þær flýja ræningja sína. Og hvert annað en í friðinn í Evrópu?

Hin kristna Evrópa tekur hins vegar ekki á móti þessum fjölda með opnum örmum heldur vaknar hræðsla um að aðstoð muni valda tekjumissi og atvinnuleysi. Landamærum er skellt í lás, háværir hópar fordæma aðstoð við flóttamenn, leggjast gegn komu þeirra og jafnvel ráðast með ofbeldi að þeim. Evrópa fer nærri því á hliðina. Kristnin er um leið lögð til hliðar.

Samtök Evrópuríkja geta ekki tekið við óvæntum gestum sem þó eru ekki nema um 0,2% af eigin mannfjölda. Hræðsluáróðurinn er yfirgengileg hávar sem og þögnin vegna þess fólk sem þegar er komið. Undantekningin er þegar flóttafólk ferst í hundraðatali á Miðjarðarhafi. Jafnvel slíkar fréttir eru orðnar svo algengar að þær teljast vart til tíðinda. Þúsundir barna hafa týnt foreldrum sínum og fjölda þeirra er rænt og þau misnotuð, en engar fréttir eru sagðar af þeim.

Hér á Íslandi gerist þá að prestar í Laugarneskirkju taka tvo auma flóttamenn inn í kirkjuna sína og lítill hópur fólks fylgir til stuðnings. Talað er um kirkjugrið, gamalt hugtak sem notað var til forna þegar ekkert var ríkisvaldið og löggjöfin takmörkuð.

Hvað er eiginlega að þessu? Hvað var annað hægt að gera? Hvernig getur kirkjan litið framhjá hinum kristna boðskap og neitað því að koma fólki í neyð til hjálpar?

Hafði ekki upphafsmaður trúarinnar margbrotið ævafornar reglur samfélags gyðinga með því að umgangast Samverja. Og munum að þessar reglur byggðust á fordómum gagnvart Samverjum.

Sem stuðningsmaður þjóðkirkjunnar hvet ég hana til að setja sig í hlutverk hins miskunnsama Samverja. Hún á raunar ekki annarra kosta völ.

Íslensk þjóð getur hins vegar viðurkennt hinn kristna menningararf, ekki aðeins á sunnudögum eða við venjubundnar kirkjulegar athafnir heldur dags daglega. Tekið á móti flóttamönnum, veita þeim grið og ... greitt eins og „tvo denara“ fyrir uppihaldið og sagt eins og Samverjinn: 

Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meiru til, skal ég borga þér þegar ég kem aftur.

 


Tilvonandi embætti ...

„Verð að segja - nýkjörinn forseti fer ekki vel af stað í tilvonandi embætti,“ segir Vigdís Hauksdóttir, þingkona Framsóknarflokksins, eftir að hafa hlustað á viðtal við Guðna Th. Jóhannesson verðandi forseta á Rás 1 í morgun.

Þetta stendur í visir.is. Líklega er það vonlaust að kenna blaðamanninum um fyrstu málgreinina, meiri líkur á því að hinn málvillti þingmaður eigi alla sök á þessu bulli.

Guðni Th. Jóhannesson er tilvonandi forseti. Embætti forseta Íslands er þegar til og ekki neitt tilvonandi við það. Betur hefði farið á því að sleppa þessu „tilvonandi embætti“.

Að vísu hefði blaðamaðurinn átt að leiðrétta þessa vitleysu sem hrökk upp úr þingmanninum. En hver nennir að eltast við allra villurnar sem hún lætur út úr sér og reyna að leiðrétta þær?


Lukkuriddararnir safnast til Pírata

... fyr­ir beinna og virk­ara lýðræði, upp­lýst­ari og fag­legri stjórn­sýslu, tján­ing­ar­frelsi, net­frelsi og auknu upp­lýs­ingaflæði, fé­lags­legu frjáls­lyndi, sterk­um ein­stak­lings­rétt­ind­um - m.a. vel­ferðarrétt­ind­um - prag­ma­tískri efna­hags­stefnu, skaðam­innk­andi vímu­efna­stefnu og bara flestu því sem frá þeim kem­ur ...

Þetta segir maður sem ætlar sér í framboð fyrir Pírata. Maður velti því fyrir sér hvort hér sé eiginlega allt upp talið. Maðurinn ætlar sér greinilega að verða svo óskaplega góður og gegn, en þá hringja viðvörunarbjöllur og maður spyr hvar er hugsjónin og eldmóðurinn

Alltof margir ætla sér að vera svo óskaplega góðir og gegnir sem þingmenn. Svo man maður eftir Borgarahreyfingunni en í henni voru þrír þingmenn og hún klofnaði, tveir þingmenn lögðu þann þriðja í einelti.

Píratar eru þrælklofnir. Einn þingmaður óð yfir aðra í frekjukasti, annar hætti þá á þingi og sá þriðji ætlar ekki að gefa kost á sér áfram. Sá sem er yfirgangsamastur heldur áfram.

Svo laðast lukkuriddararnir að Pírötum, sjá þingsætið í hillingum. Eitt eiga þeir þó sameiginlegt og það er að hafa aldrei fjalla opinberlega um stjórnmál eða samfélagsmál. Kjósendur vita ekkert fyrir hvað þeir standa.

Skyldu kjósendur þá treysta þeim? Jú, ábyggilega. Alltaf gaman að leikjum eins og rússneskri rúllettu, nema þegar leikurinn hittir kjósandann í andlitið.


mbl.is Viktor Orri gefur kost á sér fyrir Pírata
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband