Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2014

Gáfu skít í andstæðingana!

Ef ekki væri fyrir hugmyndaríkt ung fólk sem stundum fer út á ystu nöf væri lítið gaman af tilverunni. Nokkrir ungir menn í Menntaskólanum við Sund gáfu bókstaflega skít í nemendur í Flensborgarskóla.Þetta er kostulegt uppátæki og mikið má vera ef hann Maggi skólameistari skilji ekki grínið.

Þeir Flensborgarar eiga ekki annað svar við þessu frábæra leik Sundmanna en að gjörsigra þá í ræðukeppninni. Þeir hafa engan tíma til táknrænna mótvægisaðgerða.

Hrossaskítsgrínið hefði ábyggilega ekki náð tilgangi sínum nema því aðeins að strákarnir hefðu verið gripnir á vettvangi. Ella hefði mátt halda að einhverjir fallistar í Flensborg hefðu hefnt sín á skólanum eða eitthvað álíka.

Hrekkir á borð við þennan tilheyra þessu aldursskeiði og vont væri er skólarnir væru svo húmorslausir að þeir skildu þetta ekki. 


mbl.is Settu hrossaskít fyrir framan skólann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Val á öndveegisritum og plebeiisminn

Útaf fyrir sig getur verið skemmtilegt að setja upp lista yfir „öndvegisrit“. Slíkur listi verður þó aldrei neitt annað en mat þeirra sem völdu, síst af öllu skoðun okkar hinna. Við getum virt þennan lista spekinganna fyrir okkur og dáðst að valinu að sumu leyti en dregið í efa skynsemi þeirra þegar kemur að því að þau rit sem okkur þykja góð vantar.

Að sumu leiti er svona listi frekar „plebeiiskur“ eins og hann Ólafur M. Ólafsson, íslenskukennari í MR hefði orðað. Svipað eins og þegar einhverjir gáfumenn stóðu fyrir valinu á þjóðarfjallinu og Herðubreið var valin en ekki Vífilsfell, Búrfell (þau eru vissulega mörg, veldu bara eitt), Spákonufell, Esja, Skarðsheiði, Kirkjufell, Búlandstindur eða Sauðafell við Mosfellsheiði. Vandinn við þetta val er sá að sumir halda að valið sé hafið yfir allan vafa og gagnrýni og Herðubreið eigi þennan titil skilið.

Enn áður var Gleymmérei valið þjóðarblómið. Ekki var baldursbrá valin né heldur geldingahnappur, eyrarrós, lúpínan (veit ekki hvort megi nefna hana í sömu andrá og þjóðarblóm!) og fleiri og fleiri.

Næst er ábyggilega skoðanakönnun um þjóðartréð og síðan þjóðargrjótið og loks þjóðarlækinn (dugar líklega að „læka“ þann sem manni þykir bestur). 

„Plebeiisminn“ byggir á viðmótinu í gulu pressuni, sem segir yfirleitt í vefhlutanum að öll greinin sé í prenthlutanum og hann þurfi að kaupa.

„Plebeiisminn“ byggir einnig á því að ná sem flestum saman til að velja eitthvað eitt einstakt sem sé framar öðru þrátt fyrir að það sé í sannleika ekki hægt. Ekki frekar en að hægt sé að gera upp á milli barna sinna. Kynþokkafyllsti karlinn eða konan, sá eða sú best klædda, fyndnasti gæinn, vinsælasti stjórnmálamaðurinn, besti hljóðfæraleikarinn og svo framvegis. Horfið á Edduna eða hvað þessar uppákomur heita þar sem leikarar og fjölmiðlamenn eru valdir sem „bestir“. Óskaplega getur svona verið ómálefnalegt og leiðinlegt svo ekki sé talað um tilbreytingarleysið í þessu öllu saman.

Ég get ómögulega talað fyrir þjóðina og ætla ekki einu sinni að reyna það. Hitt veit ég að bókmenntasmekkur minn hefur breyst frá því fyrst ég fór að lesa og allt fram á þennan dag. Einu sinni þótti mér Gerpla mikið öndvegisrit en eftir því sem ég las hana oftar fann ég að hún er langt frá því að vera heilsteypt rit vegna þess að höfundurinn lendir að í afskaplega miklum ógöngum með sögu sína og kemst ekki sennilega frá þeim. Íslandsklukkuna skildi ég ekki fyrr en ég las hana í menntaskóla og með tilsögn. Þannig er það með mörg rit. Þau eru margslungin og erfið og oft þarf lesandinn leiðbeiningar við til að skilja til fullnustu. Þetta er kosturinn við mörg rit. Hægt er að lesa þau aftur og aftur og alltaf sjá nýjar og áður óþekktar víddir. Svo finnst mér með Njálu og Sturlungu.

Ef til vill má nefna bókina Palli var einn í heiminum sem ég las sem barn og nokkrum sinnum síðar fyrir börnin mín. Dýptin í þeirri sögu leynir á sér.

Út frá henni var samin stysta smásaga í heimi. Hún er svona, í endursögn gamalls vinar sem ég hef ekki hitt í mörg ár, hann er eignleg týndur:

Palli var einn í heiminum - og þá var bankað. 

Þessi smásaga komst ekki á Kiljulistann. 


mbl.is Brennu-Njálssaga besta verkið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiðindin með Gnarr og Dag

Skerjafjörður

Leiðindin með núverandi borgarstjórnarmeirihluta er að hann hlustar ekki. Hann byggist framar öllu á fámennri klíku sem veður fram með eigin hugmyndafræði þvert á vilja borgarbúa.

  1. Bílar eiga að víkja fyrir gangandi og hjólandi umferð, jafnvel þó hún sé sáralítil.
  2. Allt er gert til að takmarka bílaumferð
  3. Einn og aftur skal þétta byggð jafnvel þó það hafi í för með sér óhagræði, jafnt fyrir þá em fyrir eru sem og hina sem neyðast til að takar sér búfestu í „þéttri byggð“. Skiptir litlu hvernig aðstæður eru, lítum t.d. á skipulagið við enda suðvesturflugbrautarinnar við hlið byggðarinnar sem kenndi er við Skerjafjörð ...
  4. Stór fjölbýlishús eiga að taka við af einbýlishúsum, raðhúsum eða smærri blokkum. Með góðu eða illu skulu Reykvíkingar læra að búa í fjölbýli eða flytjast í önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu eða jafnvel á Selfoss, Hvolsvöll, Höfn, Blönduós eða Skagaströnd. Á þessum stöðum fer afar vel um fólk þó það búi ekki í blokkum.
  5. Hofsvallagatan var dæmi um uppárengjandi vitleysu sem jafnvel við hjólamenn sáum í gegnum.
  6. Borgartúnið á að vera gata þar sem akandi umferð er refsað en strætisvögnum umbunað. Við hjólamenn munum líklega aldrei nota Borgartúnið til hjólreiða, við förum frekar niður að sjó og notum stíginn þar. Sama er með göngufólk.

Ég kalla þetta leiðindi vegna þess að meirihlutinn í borgarstjórn kann ekki einu sinni að skipuleggja fyrir almenning. Hann heldur að hann sé að gera okkur hjólreiðamönnum gott en engu að síður er víðast hvar afar erfitt að hjóla. Við erum ekki að leita eftir forréttindum heldur tryggum leiðum. Gangandi fólk leitar ekki eftir forréttindum heldur einföldum og fljótlegum leiðum.

Flestir sjá í gegnum pólitík Jóns Gnarrs og Dags. Sá fyrrnefndi hefur hringlandahátt að stefnu og sá síðarnefndi var í læri hjá fyrrum forsætisráðherra sem á allt í norrænum rauðum lit en gerði þó ekkert nema flækjast fyrir almenningi. Eftir að hafa verið áratug við kjötkatlana hefur hann engan skilning á þörfum fólks. 

Meðfylgjandi mynd er af skipulaginu í Skerjafirði. Takið eftir sláandi mun á milli gamla hlutans og þess nýtja. Þvílíkur óhugnaður sem sá nýji er. Myndir þú vilja búa í þessu blokkahverfi?

 


Til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn, Hólmarar

DSC_0551Körfuknattleikslið kvenna  í Snæfelli úr Stykkishólmi varð Íslandsmeistari um helgina. Vart er hægt að hugsa sér meiri frama fyrir íþróttalið en að verða fremst á meðal jafningja. Og þvílík upphefð sem liðið og titillinn er fyrir Hólmara.

Íþróttir eru alls staðar afar mikilvægar fyrir æsku landsins, ekki síður í smærri byggðum en hinum stærri. Hópíþróttir eru sérstaklega mikilvægar vegna þess að þær kenna fólki samvinnu.

Þó til sé hópur stúlkna úr Stykkishólmi sem áhuga hefur á körfubolta verði Íslandsmeistari er gleðilegt en þar með er ekki öll sagan sögð. Þessi hópur varð ekki til úr engu. Að baki þeim er fjöldi annarra keppenda í öllum árgöngum og raunar öllum kynjum. Ekki gleyma því að karlalið Snæfells hefur líka náð þeim glæsilega árangri að verða Íslandsmeistari. Æfintýrið í Stykkishólmi er engin tilviljun.

Uppeldið hjá Snæfelli skiptir gríðarlega miklu máli og umgjörðin er mikilvæg. Þar koma að málum fjöldi manns sem aldrei snerta boltann. Þetta eru sjálfboðaliðarnir, fjöldi fólks sem vinnur óeigingjarnt starf fyrir íþróttaliðin og úti á landi þar sem fámennið er meira er álagið á hvern og einn mikið. Safna þarf fé til rekstrar, greiða fyrir leigu á sal, kosta til þjálfara, greiða fyrir akstur eða flug í keppnisferðir og fleira og fleira.

Peningar vaxa ekki á trjánum í Stykkishólmi frekar en annars staðar á landinu. Ekki misskilja, þessi vinna fyrir íþróttafélög er ekkert auðveldari í fjölmenni höfuðborgarsvæðisins. Stundum er hún miklu erfiðari vegna þess að samstöðuna vantar og samkeppni milli íþrótafélaga og íþróttagreina er svo gríðarlega mikil.

Fyrir Stykkishólm og íbúa bæjarins er Íslandsmeistaratitill í körfubolta kvenna einfalt og skýrt tákn um að allt er mögulegt með samstöðu og samvinnu íbúa. Titillinn bendir einfaldlega til að það sé ákaflega gott að búa í Stykkishólmi og ég veit að það er satt. 

Mér þótti eftirfarandi orð úr íþróttasíðu Morgunblaðsins í morgun dálítið skemmtileg:

Hjá Haukum var Hardy sterk sem og Gunnhildur Gunnarsdóttir, dóttir formanns körfuknattleiksdeildar Snæfells, en hún lenti snemma í villuvandræðum. 

Sem sagt, körfuboltastelpur úr Stykishólmi leika með fleiri liðum en Snæfelli. Og ég veit að þeim sæmarhjónum, og góðum vinum mínum, Gunnari Svanlaugssyni, formanni Snæfells, og Láru Guðmundsdóttur, hefur ekki fundist leiðinlegt að eiga dætur í báðum liðunum sem léku til úrslita um titilinn. 

Til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn, Hólmarar og Snæfell. 


Mæli með Grími Sæmundsen sem formanni SAF

DSC_0318 Langafjöl, Gunnar

 

SAF verði í lykilhlutverki um markaðssetningu á Íslandi sem ferðamannalandi, þar sem áfram verði lögð áhersla á að dreifa gestum okkar betur yfir árið, betur um landið og ekki síst að stefnt að auknum meðaltekjum af hverjum erlendum ferðamanni, sem heimsækir Ísland, á grunni gæða og einstakrar upplifunar. 

Ofangreind tilvitnun er skoðun Gríms Sæmundsen, forstjóra Bláa lónsins, en hann býður sig fram sem formann Samtaka ferðaþjónustunnar á aðalfundi sem haldinn verður fimmtudaginn 10. apríl næst komandi. 

Grímur-2

 

Alvöru atvinnugreinar

Ég hef lengi fylgst með framgangi ferðaþjónustunnar, eða allt frá því 1980 er ég hóf útgáfu á tímaritinu Áfangar sem fjallaði um Ísland og ferðir um landið. Þá þeim árum var ferðaþjónustan lítil og „hugguleg“ atvinnugrein sem afar fáir trúðu að yrði nokkurn tíman öflug. Þá voru bara tvær „alvöru“ atvinnugreinar, sjávarútvegur og landbúnaður.

Ferðaþjónustan hélt reglulega ferðamálaráðstefnur en var það Ferðamálaráð Íslands sem boðaði til þeirra. Þangað mættu flestir í atvinnugreininni, meðal þeirra menn sem jafnvel þó voru löngu orðnir þjóðsagnapersónur. Nefna má Úlfar Jacoben og Guðmund Jónasson. Fjölda annarra sem sannarlega voru brautryðjendur mættu til fundarhalda, veitingmenn, hótelhaldara, ferðaskrifstofufólk ... og jafnvel ég.

 

Gæfusporið 

DSC_0290, Dyrfjöll, Dyrnar, fólk, tvípan - Version 2

Samtök ferðaþjónustunnar voru svo stofnuð 1998 og það var gæfuspor. Síðan hefur ferðaþjónustan hefur átt ágætu gengi að fagna og vaxið frá ári til árs. Meginástæðan er auðvitað sú að gott og vandað fólk hefur valist í forsvar fyrir atvinnugreinina. Erna Hauksdóttir var framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar frá upphafi og þangað til á síðasta ári, en hún var áður framkvæmdastjóri Samtaka veitinga- og gistihúsa.

Þrír menn hafa verið formenn SAF, þeir eru núverandi formaður, Árni Gunnarsson og Jón Karl Ólafsson sem var formaður frá 2002 til 2009, og Steinn Logi Björnsson, sem var fyrsti formaðurinn. Allt framsýnir og duglegir menn.

 

DSC_0566 - Version 2

Mæli með Grími Sæmundsen 

Ég hef í langan tíma tengst ferðaþjónustunni beint eða óbeint og þekki þar fjölda manns. Ég vil beina orðum mínum til þeirra sem og annarra, þegar ég hvet til þess að Grímur Sæmundsen í Bláa lóninu verði kjörinn næsti formaður SAF.

Grímur hefur frá því ég kynntist honum í Menntaskólanum í Reykjavík, verið yfirvegaður raunsæismaður. Hann er reglusamur, orðheldinn og framar öllu jákvæður og lítur til framtíðar í störfum sínum. Mikill fengur er að fá slíkan mann sem formann SAF. 

DSC_0145 090228 - Version 2

 

Bláa lónið var bara hugmynd

Bláa lónið óx ekki sjálfkrafa frá því að vera lagleg hugmynd upp í það að vera eitt öflugasta fyrirtækið í íslenskri ferðaþjónustu. Til að leiða uppbygginguna þurfti framsýnan mann með þor og skynsemi en um leið var mikilvægt að sá hinn sami nyti trausts hjá öllum þeim aðilum sem komu nálægt starfinu, bönkum, ferðaþjónustufyrirtækjum og verktökum af ýmsu tagi. Grímur var þessi maður. 

 

DSC_0322 - Version 2

Alvöru atvinnugrein? 

Í gamla daga var sagt að ferðaþjónustan myndi aldrei geta orðið „alvöru“ atvinnugrein. Bent var á hótel víða um land sem sjaldnast virtust geta staðið undir rekstri sínum en fóru mörg hver á hausinn aftur og aftur. Haft var á orði að þegar ferðaþjónustufyrirtæki hafi þrisvar orðið gjaldþrota væri ef til vill kominn grundvöllur fyrir áfallalitlum rekstri. Auðvitað var þetta bara tóm vitleysa, það vissu allir - en samt ...

 DSC_0059 Frostastaðavatn, þrípan - Version 2

Fjárhagslega traust fyrirtæki 

Hitt er öllum ekki ljóst að Bláa lónið hefur alla tíð verið traust og gott fyrirtæki. Rekstri þess hefur ávalt verið hagað á þann veg að það gat staðið við allar fjárskuldbindingar sínar og þannig er það enn þann dag í dag.

Þetta er athyglisverð staðreynd í ljósi þess hversu margir hafa átt erfitt með að koma undir sig fótunum í ferðaþjónustunni vegna þess að þeir voru óskynsamir í fjármálum. Sumum þeirra fylgir ljót slóð.

Ég hvet fólk í ferðaþjónustu til að fylkja sér að baki Grími Sæmundsen og kjósa hann sem formann SAF.

 IMG_0196 Kistufell í austur - Version 2

Gjaldtaka á ferðamannastöðum 

Á þessum vettvangi hef ég gagnrýnt harðlega gjaldtöku meintra landeigenda af ferðamannastöðum og upptöku á svonefndum „náttúrupassa“. Skoðun Gríms á þessum málum er eftirfarandi og honum treysti ég til að leiða þessi mál til lykta:

SAF verði leiðandi í að skapa sátt varðandi varðveislu og uppbyggingu fjölsóttra ferðamannastaða og gjalddtöku af ferðamönnum. Öflug náttúruverndarstefna er í þessu efni nauðsynleg.


Góð grein Páls Magnússonar um arðinn af auðlindinni

Þetta er þó ekki efni þessa greinastúfs heldur sú miðborgarmeinloka - að það séu bara „sægreifar“ sem njóti arðsins af auðlindum í sjónum en ekki „íslensk alþýða“. Þessum málflutningi fylgja gjarnan þau hughrif, ef það er þá ekki sagt beinum orðum, að útgerðarmenn séu upp til hópa blóðugir arðræningjar og samtök þeirra skipulagður bófaflokkur. Fyrir þann sem er alinn upp í námunda við allskonar útgerð og útgerðarmenn er þetta ótrúlega alhæfingasamur og yfirborðslegur málflutningur.

Páll Magnússon, fyrrverandi útvarpsstjóri og blaðamaður, ritar góða grein í Morgunblað dagsins.

Hann ræðst gegn þeirri þjóðsögu sem Gróa á Leiti hefur statt og stöðugt reynt að koma inn hjá almenningi að þeir sem stunda útgerði séu einfaldlega bófar og arðræningjar. Auðvitað er þetta rangt og ekki til annars gert en að skapa pólitíska upplausn í þjóðfélaginu og skaða efnahagslíf þjóðarinnar svo hægt sé að sýna fram á að hið kapítalíska markaðssamfélag sé vont og þess í stað þurfi „eitthvað annað“.

Páll rekur sögu útgerðar í Vestmannaeyjum. Raunar er hún keimlík sögum víða um land. Harðduglegt fólk sem hefur byrjað smátt en stækkað við sig og rekur fjárhagslega sjálfstæða útgerð. Á slíkri vegferð hefur sumum tekist að að koma undir sig fótunum en öðrum ekki, saga sem er hvorki ný né gömul, þetta hefur gerst í öllum atvinnugreinum. Þannig eiga hlutirnir að vera. Vill einhver skipta á þessu og miðstýrðum fyrirtækjum í opinberri eigu? Getur einhver haldið því fram að „alþýða“ landsins hagnist þá meira af afrakstri útgerðarinnar?

Útgerðarfyrirtækin greiða skatta og skyldur og standa við bakið á samfélaginu. Það dugar hins vegar ekki úrtöluliðinu sem í heilagri vandlætingu talar um „alþýðuna“ en gleymir því að fólkið sem á og rekur útgerðir, starfar hjá þeim eða hefur framfæri sitt af þjónustu við þær er einfaldlega alþýða þessa lands. Þetta eru ekki ljótu kapítalistarnir með digran vindil í kjafti og sem berja starfsfólk sitt áfram. Nei, í langflestum tilfellum eru þetta burðarásar í samfélaginu, leggur til þess mikið fé fyrir utan skatta. Án þessara fyrirtækja myndi þjóðfélagið ekki þrífast.

Þetta á líka við um aðrar atvinnugreinar sem vinstra liðið sér ofsjónum yfir vegna þess að það er ósköp venjulegt fólk sem á fyrirtækin sín og rekur þau. Þetta eru oftast lítil eða meðalstór fyrirtæki með undir fimmtíu manns á launaskrá.

Í niðurlagi greinar sinnar segir Páll Magnússon eftir að hafa rakið sögu lítils útgerðarfyrirtækis í Vestmannaeyjum:

Þetta er sem sagt beinn samfélagslegur ávinningur af útgerð þessa eina báts og starfi 30 manna áhafnar hans í Vestmannaeyjum. Þá er ótalinn óbeinn ávinningur af ýmsu tagi og önnur afleidd störf sem þessi útgerð skapar í viðhaldi, veiðarfæragerð, uppskipun og svona mætti áfram telja. Hvernig er hægt að halda því fram af einhverju viti – að ekki sé nú talað um sanngirni – að engir nema „sægreifarnir“ njóti arðsins af auðlindinni? 

Undir hver orð í greininni má taka.

Mikið óskaplega er nú gott að Páll Magnússon sé laus undan oki Ríkisútvarpsins og geti loks tekið til máls um það sem raunverulega skiptir máli fyrir þjóðfélagið, atvinnulífið. 


Spana fasteignasalar upp fasteignaverð?

Þetta er alveg undarlegt ástand með fasteignamarkaðinn í Reykjavík. Allt frá hruni hafa fasteignasalar og formælendur félags þeirra haldið því fram að hann sé á uppleið. Skilja má þessar yfirlýsingar á þá leið að verð á fasteignum sé að hækka. Engu líkar er en að fasteignasalar hafi unnið að því með oddi og egg að spana upp fasteignaverðið og hafa þannig beinlínis áhrif á markaðinn. Hugsanlega hefur þeim tekist þetta enda bein tengsl milli afkomu fasteignasala og verðs á markaði.

Svo bárust þær fréttir fyrir stuttu að Íbúðalánasjóður hafi sagt að fækkun hafi orðið í útlánum að hans vegum miðað við undanfarin ár.

Hvernig á að lesa í mismunandi skilaboð? Annars vegar standa yfirlýsingaglaðir fasteignasalar og hins vegar Íbúðalánasjóður, frekar súr á svipinn. Gæti verið að það séu bankarnir sem séu lána meira til íbúðakaupa? Einhvern veginn finnst mér það ótrúlegt.

Í raun og veru þarf glögga greiningu á sölutölum undanfarinna mánaða og þá hvað liggi á bak við þær. Mér duga ekki kæti og yfirlýsingar fasteignasala. Það hefur sýnt sig að lítil innistæða hefur verið á bak við þær.

Svo stangast þetta allt á þá einföldu staðreynd að lítið framboð íbúða í vesturbæ Reykjavíkur, miðbæ og Hlíðunum bendir einfaldlega til þess að fólk sé ekkert að hugsa sér til hreyfings. Það heldur að sér höndunum og vill sjá hvað sé að gerast. Þær fáu eignir sem seljast tengjast ábyggilega eðlilegri endurnýjun eldra fólks sem vill breyta um eða þarf að breyta.

Hitt er svo annað mál að lítið er um nýbyggingar í Reykjavík. Eðlileg endurnýjun fær enga útrás og niðurstaðan er staðnaður markaður þar sem fasteignasalar reyna með öllum ráðum að halda verðinu uppi. 


mbl.is Slegist um góðar íbúðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heldur skjálftahrinan áfram til austurs?

reykjanes-kort_3Vísindamenn segja að á Reykjanesskaga séu sex eldstöðvakerfi eins og sjá má á myndinni hér til hægri.

Þegar jarðskjálftar verða þar eða á Reykjaneshrygg er eins og að framhaldið verði eftir einhverju kerfi.

Í fyrra urðu til dæmis miklir skjálftar í kringum Eldey og Geirfugladrang. Skömmu síðar kom mikil skjálftahrina í Sandvík sem er rétt vestan við Grindavík. Þessi skjálftar færðust svo austar og austar.

Í haust varð síðan skjálftahrina við Jósefsdal og Vífilsfell. Enn síðar skalf jörð við Jarlhettur sunnan undir Langjökli.

Ef til vill eru þetta einhvers konar „dómínóáhrif“ vegna snarpra skjálfta lengst suðvestan í sjó. Eftir einhverju ókunnu kerfi færast skjálftarnir lengra og lengra til norðausturs uns þeir koma á land og hliðrast þar eftir eldstöðva- eða sprungukerfi jafnvel lengst inn á hálendið.

Fyrir nokkrum dögum urðu litlir skjálftar við Eldey. Þá velti ég því fyrir mér hvort leikurinn myndi endurtaka sig. Stórir skjálftar yrðu á þessum slóðum og allt myndi gerast eins og í fyrra. Ef til vill þarf ekki glöggan mann til að sjá þetta fyrir, svona hefur þetta ábyggilega gerst í langan tíma.

Nú hefur sem sagt orðið stór skjálftahrina við Eldey og í framhaldinu fjöldi lítilla skjálfta við Eldvörp, vestan Grindavíkur. Engir hafa þó orðið við Sandvík eins og í fyrra, yfir það svæði hljóp núverandi hrina og stakk sér bara milliliðlaust niður í eldstöðvakerfinu sem kennt er við Eldvörp-Svartsengi.

Nú er sem sagt spurningin þessi. Hvar hefur orðið til spenna þegar land hreyfðist við Eldvörp? Skelfur næst jörð við Fagradalsfjall, Krísuvíkurkerfið, Brennissteinsfjallakerfið eða Hengilskerfið? Og þessu næst: Hvar verða skjálftar á Suðurlandi eða við Langjökul. 

Ég bið lesendur að taka varann á ofanrituðu því ég hef ekkert vit á jarðfræði. Spái samt stórum skjálfta í sunnan Hafnarfjarðar, jafnvel við Kleifarvatn. Byggi þessa vísindalegu nálgun mína á draumspökum manni.


mbl.is Jarðskjálftahrina á Reykjaneshrygg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glaðværð

Stundum kemur fyrir að maður les eitthvað sem er svo djúpt að spekin drýpur af því ... ef svo  má að orði komast. Í morgun las ég minningargreinar um Torfa Ólafsson, en hann var mörgum kunnur sem talsmaður Félags kaþólskra leikmanna og kom fram sem slíkur af hógværð og mildi Hann var líka gamall kommi en bar það vel, eins og sagt er. Ekki þekkti ég Torfa öðru vísi en að lesa fréttir af honum og frásagnir. 

Í afar fallegum minningargreinum um Torfa staldraði ég við niðurlagið í eftirmælum Árna Bergmanns. Hann segir þar:

En þó var enn meira virði vinarhugur hans og svo það, að sannarlega rættist á honum ágæt bæn sem sá kaþólski píslarvottur Thomas More beindi eitt sinn til guðs síns: Gef mér glaðværð nóga til þess að ég verði öðrum mönnum ekki til byrði. 

Þetta hafði ég ekki áður lesið og finnst fagurlega orðað og mættum við allflest taka okkur til eftirbreytni.


Góða liðið og svo við hin ...

Hægt og bítandi missa sum orð merkingu eða snúast jafnvel upp í andhverfu sína. Í þvælinni umræðu stjórnmálamanna verða klisjur oftar en ekki ráðandi. Almenningur á því erfiðara en ella með að átta sig á því fyrir hvað viðkomandi stjórnmálamaður eða stjórnmálaflokkur stendur. Ef til vill er það tilgangurinn með innihaldslausu eða merkingarlitlu tali.

Þetta segir Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, í grein í Morgunblaði dagsins. Hann gerir að umtalsefni þá þvælu sem stjórnmálamenn og margir aðrir skreyta sig með, sérstaklega á vinstri vængnum. Ég man eftir því að hér áður fyrr tíðkaðist að herma vinstri flokk upp á alþýðuna á einhvern hátt og jafnvel allir töldust um tíma verkalýður. Það þótti flott og vænlegt til árangurs. Tímarnir hafa breyst pínulítið að þessu leyti.

Óli Björn segir:

Á síðustu árum hafa íslenskir stjórnmálamenn í æ ríkara mæli skreytt sig með fallegum og jákvæðum orðum. Þeir segjast vera frjálslyndir (ýmist til vinstri eða hægri og jafnvel á miðjunni). Þeir eru talsmenn umburðarlyndis enda einstaklega víðsýnir. Flestir eru stjórnmálamennirnir orðnir sérstakir baráttumenn umbóta, unnendur náttúrunnar og vinir græna hagkerfisins. Stjórnmálamennirnir vilja beint lýðræði og forðast átakastjórnmál. Umræðustjórnmál er lausnarorð.

Og hann rekur dæmin og hæðist að þeim um leið svo þeim hlýtur að svíða undan sem taka til sín.

Ég held að þetta orðagjálfur hafi náð nýjum hæðum þegar stjórnmálamaður sem hefur ekki náð athygli eða frama innan eigin flokks fór að halda því fram að flokkurinn hafi yfirgefið hann og gömlu stefnuna og nú ráði vonda fólki. Eða þegar fyrrum varaformaður Sjálfstæðisflokksins sagði um daginn að við, sem erum á móti aðild Íslands að ESB, séum svartstakkar og það var meint í afar neikvæðri merkingu. Ég viðurkenni að í þetta sinn sveið verulega undan uppnefni frá fyrrum samherja og raunar skil ég ekki svona pólitík.

Yfirleitt eru ganga umræðustjórnmálin út á að niðurlægja andstæðinganna. Margir þeirra sem aðhyllast slíka blaðurpólitík telja sig víðsýnt umburðalynt, frjálslynt og fær að eigin dómi hæstu einkunn, en hinir, meirihlutinn er eiginlega bara skítapakk, vont, öfgaliðið. Eða eins og Óli Björn orðar það:

Víðsýnn, umbótasinnaður og frjálslyndur stjórnmálamaður hefur lítinn áhuga á valfrelsi. Þétting byggðar, minni og hægari umferð eru hans ær og kýr. Aðeins sá sem hefur gengið íhaldsöflunum á hönd vill greiðar samgöngur, tryggja að einstaklingar geti valið sjálfir þann ferðamáta sem þeim hentar, að ekki sé talað um hugguleg og vel skipulögð úthverfi. Forhert afturhald óskar síðan eftir mislægum gatnamótum og það gengur næst guðlasti.

Sá er þetta ritar verður vonandi aldrei kenndur við frjálslyndi eða víðsýni, en sættist ágætlega á að vera brennimerktur sem íhald eða jafnvel, ef svo ber undir, afturhald og jafnvel frjálshyggju. En kannski mun gamall samherji nota önnur orð um mig og okkur hin. 

Takið eftir síðustu setningunni. Kunna lesendur að ráða í merkingu hennar?

Hitt er svo annað mál að svona stimplapólitík hefur náð árangri gegn Sjálfstæðisflokknum. Hvað er betra en að ljúga upp á andstæðinginn og berja sér á brjóst, hæla sjálfum sér eins og fariseinn í musterinu. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband