Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2013

Þulurinn á rás 1 fullyrðir að komið sé haust ...

Vaknaði við það í morgun að þulurinn á rás 1 hjá Ríkisútvarpinu sagði að veðrið væri þannig í Reykjavík að nú sé haustið komið.

Ég fór auðvitað út á svalir og leit til Bláfjalla. Nei, hlý suðaustanáttin huldi þau með skýjum sínum og úti var um tíu gráðu hiti.

Er haustið virkilega komið eða er værukær innisetukonan hjá Ríkisútvarpinu að útvarpa sinni persónulegu skoðun..

Fullyrði að enn sé sumar og mér finnst að útvarpsvíkingar eigi ekki að gefa út yfirlýsingar sem þeir geta ekki staðið við. 

 


Klárum ESB málið með þjóðaratkvæðagreiðslu

Í rúm fimmtíu ár deildi lítill minnihluti þjóðarinnar á veru landsins í Nató og hervernd Bandaríkjamanna á Miðnesheiði. Aldrei var farið í þjóðaratkvæðagreiðslur en yfirleitt þegar á reyndi höfðu stuðningsmenn vestrænnar samvinnu yfirhöndina í kosningum. Vinstra liðið heyktist alltaf á að reka herinn úr landi og segja ríkið úr Nató. Hinn þögli meirihluti landsmanna lét aldrei neinn bilbug á sér finna.

Við eigum að læra af reynslunni. Setjum ESB málið í þjóðaratkvæðagreiðslu og fáum það út úr heiminum í eitt skipti fyrir öll. Stuðningsmenn ESB skilja ekki aðlögunarviðræðurnar, vita ekkert út á hvað þær snúast. Meira að segja gáfumenn eins og Stefán Ólafsson, prófessor, heldur að Ísland hafi verið að semja sig inn í ESB síðustu fjögur árin. Um leið skilur hann ekkert í því að aungvar niðurstöður hafa orðið í þeim samningum. Hann fattar ekki tilgang ESB með 35 kafla viðræðum og að umsókn um aðild hafi verið í þeim farvegi að kanna hvernig Ísland ætlaði að taka um reglur, lög og stjórnsýslu ESB og hvernig.

Hinn þögli meirihluti landsmanna mun einfaldlega hafna tilraunastarfsemi með sjálfstæði okkar.


mbl.is Stefna flokkanna alltaf verið skýr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veðurvælið er einskonar áfallahjálp

Sé nýyrðið „veðuránægja“ til hlýtur að finnast andstæða þess, t.d. „veðurhryggð“. Það skiptir þó ekki öllu máli heldur hitt að fólk í norðlægum löndum er yfirleitt alltaf óánægt með veðrið.

Einn áa minna í Dölum á að hafa sagt er hann heilsaði fólki einhverju sinni: „Það er nú blessuð blíðan og bæirnir í kring“. Hið fyrsta sem bændur og búalið nefndu hér áður fyrr á mannamótum var veðrið. Og enn tölum við um veðrið, við sem eigum ekkert hey undir eða búsmala.

Fyrir flesta er ástandið á veðrinu ekkert annað en hugarástand. Þetta þýðir einfaldlega það að veðrið hefur engin áhrif á störf eða verk fólks, það getur klætt sig þannig að hægt sé að stunda útiveru hvernig sem það er.

Auðvitað vilja allir sól og krafan er sú að hér á landi sé daglega tuttugu gráðu hiti eða meira og það rigni bara á nóttunni.

Því miður er ekki hægt að verða við þessum kröfum. Veðrið er bara eins og það hefur alltaf verið ... eiginlega ekkert annað en svona og svona ... gott, vont, leiðinlegt, fínt og svo framvegis.

Hins vegar virðist mjög gagnlegt að væla daglega út af veðurfarinu, er líklega eins og áfallahjálp, gerir vælukjóunum kleift að lifa veðrið af. 


mbl.is Minni veðuránægja í ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ópera Gunnars Þórðarsonar fær frábæran dóm

Án efa vakti það athygli fleiri unnenda klassískrar tónlistar er ópera Gunnars Þórðarsonar um Ragnheiði Brynjólfsdóttur var frumflutt. Sagt var frá aðdragandanum og frumflutningnum í fjölmiðlum og ég hugsaði með sjálfum mér að best væri nú að bíða eftir krítíkinni frá alvörumönnum í tónlistinni. 

Og svo kom gagnrýnin og ég las hana í dag í Mogganum. Ríkarður Ó Pálsson er yfir sig hrifinn og kallar nú ekki allt ömmu sína í tónlistinni. Hann segir meðal annars:

Eitt er að geta samið ógrynni sígrænna dægurlaga (þótt erfiðara sé raunar en margur heldur), annað að færa í sannfærandi tónbúning aðra eins harmræna dramatík og fólgin er í átakanlegri örlagasögu Ragnheiðar Brynjólfsdóttur. Því meiri er vandinn þegar tónhöfundur bindur trúss sitt við síðrómantískan stíl þar sem alþekktar fyrirmyndir eru á hverju strái og fallgildrur klisjunnar að sama skapi. Ólíkt vanda akademískrar framúrstefnu sem hirðir hvort eð er minnst um aftasta hlekkinn í keðjunni (hlustandann!) í linnulausri leit sinni að »nie erhörte Klänge«. Gætu ugglaust fleiri en Churchill sagt í dag að sjaldan hefur jafnmikið af leiðinlegri músík verið samið af jafnhámenntuðum í óþökk jafnmargra - hvað svo sem annars má segja um margt slípirokk nútímans í fjarveru upplýsts valfrelsis.

Og líður þá að kjarnanum. Að fyrrtöldum fallgildrum lýstum kom það mér nánast í opna skjöldu hvað tónmál Gunnars, og ekki síst hljómaframvindan, vatt sér að virtist áreynslulaust fram hjá flestöllum fyrirsjáanleika. Við og við hugsaði maður með sér: »Ónei! Nú kemur þetta!« En svo kom það ekki - heldur eitthvað annað og betra. 

Þvílíkt lof og vonandi ekki skjall. Nú bíður maður eftir því að óperan verði flutt í Hörpu og þá ætla ég ekki að láta bíða eftir mér. Þar mun ég eiga sæti.

Og heillandi frásögn Ríkarðs endar á eftirfarandi:

Æra myndi óstöðugan að reifa öll 43 söngatriði í 2½ klst. langri óperunni. Nægja verður að segja að valinn maður virtist í hverju rúmi. Einsöngvararnir níu sungu einatt af innlifun á allt að hríslandi heimsmælikvarða, ekki síst í aðalhlutverkum Ragnheiðar, Brynjólfs og Daða. Sömuleiðis var söngtært framlag skólapilta, vinnukvenna og sóknarbarna úr röðum Kammerkórs Suðurlands óskorað eyrnayndi; kraftmikið og sveigjanlegt í senn.

Hvergi var sem sagt kastað til höndum. Er því ekkert annað eftir en að hvetja til sómasamlegrar sviðsuppfærslu á óperunni sem allra fyrst! 


Þjóðaratkvæðagreiðslu á réttum forsendum

Þegar hætt var í að samþykkja aðildarumsókn í þinginu, (m.a. af ráðherrum sem lýstu því yfir við atkvæðagreiðsluna að þeir hefðu aldrei verið jafnmikið á móti aðild og þá!) var sagt þar að svo afdrifaríka ákvörðun væri fráleitt að taka án þess að bera hana undir þjóðina.

Því var hafnað. Það studdu fastast þeir aðilar sem nú hrópa í þjóðarinnar nafni að halda verði sérstaka þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort halda eigi áfram viðræðum sem hafa ekki átt sér stað!

Og þeir heimta að ríkisstjórnarflokkar sem lýst hafa yfir harðri andstöðu við að Ísland gerist aðili að ESB standi fyrir slíkri atkvæðagreiðslu.

Þetta er úr leiðar Morgunblaðsins í morgun. Hvers vegna í ósköpunum skyldi núna vera þörf á þjóðaratkvæðagreiðslu um að hætt skuli við aðildarumsókn að ESB þegar umsóknin var samþykkt á þingi án þjóðaratkvæðagreiðslu í júlí 2009?

Þetta breytir hins vegar ekki þeirri skoðun minni að efna eigi til þeirrar þjóðaratkvæðagreiðslu sem vinstri stjórnin sveik þjóðina um 2009. Í eitt skipti fyrir öll þarf að kanna hvort þjóðin vilji inn í Evrópusambandið eða ekki. Það dugar ekki að þetta mál hangi yfir ríkisstjórnum komandi ára án slíkrar niðurstöðu.


PR maðurinn sem breytti Samfylkingunni - og stjórnmálunum

Allt frá því að Samfylkingin var stofnuð og lengi síðar vakti það athygli að Samfylkingin var yfirleitt með landsfundi eða flokksstjórnarfundi ofan í sömu fundum Sjálfstæðisflokksins. Þetta var með vilja gert og til þess að fá helming þeirrar fjölmiðlaumfjöllunar sem Sjálfstæðisflokkurinn fékk vegna landsfundar. Sí og æ var Samfylkingin ósjálfrátt borin saman við Sjálfstæðisflokkinn og um hana var rætt í sömu andrá. Það skilaði árangri.

Þegar horft er til baka hófst sérkennilegur tími sem raunar má rekja aftur til ársins 2003, þremur árum eftir stofnun Samfylkingarinnar. Einnig til þess er Ingibjörg Sólrún var kjörin formaður í maí 2005. Hún styrkti sambandið við almannatengslamann sem verið hafði flokknum til ráðgjafar í nokkur misseri, mann sem hafði sjálfur verið starfandi á vinstri hlið stjórnmálanna. Hann kom úr Fylkingunni, síðar Þjóðviljanum, þekkti þar alla innanbúðar, var sjálfur róttækur en sjálfmenntaður í auglýsingagerð og síðar almannatengslum. Við stofnun Samfylkingarinnar fór hann með fjölda Alþýðubandalagsmanna og yfirgaf „kverúlantana“ sem síðar stofnuðu Vinstri græna.

Smám saman breyttist ásýndi stjórnmálanna, Samfylkingin stýrði þeim í upphafi og þar var almannatengslamaðurinn hugmyndafræðingurinn. Innan flokksins réði forystan sér ekki fyrir fögnuði. Nú var komin leyndarstefna sem frá fyrsta degi virtist hafa jákvæð áhrif.

Samfylkingin átti að verða stærst stjórnmálaflokka. Til að svo mætti verða var forystu flokksins ráðlagt að ráðast miskunnarlaust gegn einum manni og í honum holdgerður óvinurinn eini og sanni. Með þessu átti að losna við Davíð Oddsson, sem var talinn stórhættulegur krötum.

Hin fræga Borgarnesræða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur markaði upphafið. Þá var sú einfalda og árangurríka stefna mörkuð innan Samfylkingarinnar að ráðast á vegginn þar sem hann er hæstur, klifa á „sannindum“ eða með orðum Richard Nixons: „Let the bastards deny it“. Það er koma með ásakanir, helst um spillingu og misferli með almannafé, jafnvel rangar ásakanir, og sjá síðan hvernig andstæðingunum tækist að afneita þeim. Með öðrum orðum gera formann Sjálfstæðisflokksins tortryggilegan. Það tekur sinn tíma, sagði almannatengslamaðurinn, en það skilar sér í minna og minna fylgi flokksins og þar með betra gengi Samfylkingarinnar.

Við þurfum bara að starta herferðinni og innan skamms gengur hún eins og eilífðarvél, sagði hann og hafði rétt fyrir sér. Davíð hefur aldrei síðan fengið nokkurn grið. Þó svo að vel hafi verið að verki staðið var svona herferð eins og hið álstralska vopn bumberang. Það fór hringinn og kom loks í bakið á Samfylkingunni, varð til þess að moldhaugabloggarar urðu til af því að allt í einu var sem öll vopn voru leyfð og málefnalegar umræður urðu lítið vinsældar. Þetta varð Samfylkingunni nærri því  að fjörtjóni, þó það gerðist löngu síðar.

Gróa á Leiti hefur jafnan verið dyggasti liðsmaður hins ófyrirleitna stjórnmálamanns en það krafðist þekkingar, útsjónarsemi og karakters að slíta samstarfi Gróu við stjórnmálamanninn og setja hana beinlínis í lið með moldhaugabloggurum og ruddaliðinu í athugasemdadálkum fjölmiðla. Þetta tókst almannatengslamanninum og fyrir vikið urðu þeir ófyrirleitnu stjórnmálamenn Samfylkingarinnar stikkfrí, gátu vitnað í „almenning“.

Sjálfstæðismenn áttu ekki nokkurt svar við þessari árás Samfylkingarinnar undir skipulagi almannatengslamannsins. Skildu ekki hvað var að gerast og jafnvel Davíð Oddsson áttaði sig líklega ekkert á stöðu mála fyrr en löngu síðar. Þá var hrunið yfirstaðið og hann gat litið rólegur til baka. 

Hvað varðar almannatengslamanninn, þá var starf hans á fárra vitorði. Svo leynt fór það að hann starfaði fyrir ýmsa Sjálfstæðismenn í prófkjörum þeirra, þó yfirleitt með arfaslökum árangri, enda fylgdi því starfi engin sannfæring, var aðeins féþúfa í augum hans.

Smám saman hefur hann þó komið upp á yfirborðið, meðal annars sem milligöngumaður um launagreiðslur.

Það sem núna vantar eru upplýsingar úr innsta hring Samfylkingarinnar. Brátt kemur þó að því að þeir stjórnmálamenn sem þekkja til fara að hætta. Í sjálfsánægju sinni munu þeir vita viðtöl og skrifa minningar sínar og þá er við því að búast að sagan um upphafið að skipulögðum árásum á Sjálfstæðismanna komi upp á yfirborðið.

Brot og brot raðast upp hér og þar og ef til vill á bókin „Ísland ehf. Auðmenn og áhrif eftir hrun“ eftir Magnús Halldórsson og Þórð Snæ Júlíusson eftir að varpa lítilsháttar ljósi á þessi mál.


mbl.is Bloggher gæti komið til varnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kistufellið í Esju fyrir fimmtán árum og nú ...

980700-10_copy

Lífið gengur í hringi, að manni finnst. Hegðunin er fyrirsjáanleg. Það sem gerðist fyrir fimmtán árum gerist aftur í dag. Ég geng stundum á fjöll, eins og þeir vita sem fylgst hafa með þessu bloggi mínu.

Hér á höfuðborgarsvæðinu hef ég nokkuð mikið dálæti á Kistufelli í Esju. Hvort tveggja er að fjallið er tígulegt og einnig er uppgangan þangað nokkuð skemmtileg. Svo er það útsýnið. Alveg stórbrotið og ekki síst til Hátinds og Móskarðshnúka.

Fyrsta myndin er tekin fyrir fimmtán árum, í júlí 1998. Þá gekk ég einn upp á Kistufelli og efst í klettabeltinu efst tók ég myndina sem er hér efst. Þarna blasa við Móskarðshnúkar og nær er Hátindsfjallið.

Nú, svo gerist það að ég geng nokkrum sinnum upp á Kistufell en í júlí 2013 geng ég aftur einn á Kistufell og hvað haldið þið? Auðvitað tek ég mynd á svipuðum stað og fyrir fimmtán árum. Mundi þá ekkert eftir þeirri ferð fyrr en ég fór að skoða myndasafnið mitt og rakst á fyrstu myndina.

Kistufell, frá hömrum í austur - Version 2

Raunar er hér um að ræða tvær myndir sem ég náði að skeyta saman. að vísu verður hún dálítið flöt við fyrstu sýn en betra er að klikka á hana nokkrum sinnum og stækka. Þá nýtur hún sín vel.

En svona er þetta með landslagið. Ekkert breytist á fimmtán árum. Þarna eru öll fjöllin á sama stað og í fjarska er Þingvallavatn óbreytt og stöðugt sem endranær.

980700-17 Kistufell í SV, höfuðborgarsvæðið b - Version 2

Og fyrir fimmtán árum var útsýnið til höfuðborgarsvæðisins eins og sést á þriðju myndinni. Mér þykir merkilegt að ég gat sett saman þrjár myndir, algjör tilviljun. 

Og í júlí síðastliðnum tók ég svipaða mynd en neðar í fjallinu. Breytingar á landinu eru ekki miklar, þó má greina húsin á Esjumel sem voru miklu færri fyrir fimmtán árum.

Úlfarsfell er þó á sama stað og það er gott. Sólin gyllir sundin, það hefur nú ekki gerst oft í sumar.

Höfuðborgarsvæðið frá Kistufelli - Version 2

Mesta breytingin sem orðið hefur finnst mér sú að mosinn uppi á Esju hefur aukist að miklum mun og hann hefur þykknað.

Þegar rýnt er í næstu tvær myndir má sjá að mosinn hefur breyst talsvert á fimmtán árum. Spáum ekkert í meinta litabreytingu, önnur myndin er tekin á slidesfilmu en hin er stafræn.

 

980700-11bIMG_0194 - Version 2

Mér sýnist að mosinn hafi þétt sig umtalsvert og hann er þykkari. Líklega er þetta bara góðs viti sérstaklega fyrir mig því í síðustu ferð minni lagði ég mig þarna uppi og dottaði í um klukkustund og hafði bara gott af því.


Gísli Marteinn með hendur í vösum ...

Sá höfgi sem hefur verið á borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins undanfarin ár var rofinn í Morgunblaðinu í morgun. Þar skrifaði Gísli Marteinn Baldursson grein um útsvarið og ætlast til þess væntanlega að loforð um lækkun skatta hilli okkur borgarbúa þar sem prófkjör vegna kosninganna á næsta ári er framundan.

Gísli er hinn mætasti maður en það breytir því ekki að hann og flestir borgarfulltrúar flokksins hafa ekki staðið í stykkinu í borgarmálapólitíkinni. Staðan þar hefur verið sú að staða borgarstjóra er nú ekki nema nafnið tómt, verkefni hans hafa verið útvistuð til embættismanna borgarinnar og reynslulausir borgarfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar hafa verið í vinsældaleik og ekki sinnt þeim verkefnum sem þeim ber.

Á meðan hefur borgarstjórnarflokkurinn verið gjörsamlega hlutlaus og fátt lagt til málanna sem gagn hefur verið að. Gísli Marteinn hefur snúist og styður nú að miklu leyti nýtt aðalskipulag sem meirihlutinn hefur unnið að, hann er á móti Reykjavíkurflugvelli og fleira mætti til taka.

Forystuleysi meirihlutans, aðgerðarleysi hans og úrræðaleysi hefur smitast yfir í borgarstjórnarflokk Sjálfstæðisflokksins. Í stað þess að standa fyrir harðri stjórnarandstöðu innan borgarinnar hefur hann orðið linur og vesæll, ekkert ber á honum. Fréttaflutningur fjölmiðla af borgarstjórn miðast nú eingöngu við uppátektir mannsins sem skráður er sem borgarstjóri og koma borgarmálum alls ekkert við. Á meðan stendur borgarstjórnarflokkurinn álengdar, með einni eða tveimur undantekningum, og horfir á vitleysuna með hendur í vösum.

Gísli Marteinn! Ein blaðagrein um lækkun útsvars breytir hér engu. Miðað við stöðu borgarsjóðs er mér til efs að lækkun skatta sé forgangsatriði. Detta þér engin önnur úrræði í hug?

Hvað með atvinnuleysið í borginni, flótta fyrirtækja úr henni eða njólann og aðra órækt í augum og eyrum borgarstjórnar? Hvað með hringlandaháttinn í Orkuveitunni, hvað með okkur borgarbúa, hvað með gamla Sjálfstæðishúsið og Nasa, hvað með gömlu húsin í borginni sem fá að grotna niður, hvað með eyðileggingu á öllu því sem okkur er kært og niðurrif. Hvers vegna á miðbærinn að vera fyrir útlenda ferðamenn? Hvar er menningin fyrir borgarbúa? Hvers vegna er ekkert gert í stærstu útivistarsvæðunum. Af hverju er ekkert gert vegna gönguleiða á Esjunni?


Símaskráin, úrelt þing

Fyrir aldamót og líklega nokkuð fyrr var símaskráin nauðsynlegt þing. Nú er hún hins vegar algjörlega gagnslaus og það er vegna þess að upplýsingabylting hefur orðið með tilkomu tölvunnar. Maður er margfalt fljótari að finna símanúmer á ja.is eða með því að fletta upp á vefsíðum fyrirtækja.

Hér áður fyrr var símaskráin slíkt einokunarapparat að við lá að maður tæki ofan og bugtaði sig fyrir ritstjóranum vildi svo til að maður mætti honum á förnum veg, jafnvel sölumönnunum. Þá voru reglur um skráningu í símaskránna miklu strangari og enginn hefði getað skráð sig skeggræktanda  nema hann gæti sannað með vottuðu skjali að honum sprytti grön, mynd hefði vart dugað.  

Þetta var svona eins og með Ríkisútvarpið, annað úrelt þing. Kunningi minn seldi ýmiskonar varning, s.s. perur, lampa og álíka. Hann fékk til dæmis ekki útvarpið til að birta auglýsingu sem orðið „loftljós“ kom fyrir. Ritskoðunin var slík að stjórnendur fullyrtu að „loftljós“ væri ekki til þó í almennu tali væru þeir lampar sem héngu úr loftum íbúða einfaldlega kölluð loftljós.

Símaskráin er að verða úrelt. Vænst væri ef prentun hennar væri hætt, þó ekki væri nema af umhverfisástæðum. Þetta er nú kannski of róttæk tillaga, líklega er enn til eldra fólk sem notar ekki tölvu og treystir á að geta blaðað í prentuðu eintaki undir loftljósinu heima. 


mbl.is Skeggræktun og hænsnahvísl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ensk nöfn á innlendum fyrirtækjum

Víkverji er ekki sérlega hrifinn af því nýmæli að nefna íslensk fyrirtæki útlendum nöfnum. Um daginn las hann viðtal við framkvæmdastjóra hótela Flugleiða nema hvað talað var um Icelandair Hotels. Víkverji áttar sig ekki á hvaða markaðssjónarmiðum það þjónar að tala um hótelin upp á ensku. Í það minnsta styggist Víkverji við svona tiktúrur og er þó yfirleitt skapgóður, að minnsta kosti að sumarlagi.

Ofangreint er að finna í pistli sem nefnist Víkverji og birtist daglega í Morgunblaðinu. Mér skilst að blaðamenn skiptist á að skrifa hann. Ég tek undir með Víkverja dagsins.

Ég man að á unglingsárum mínum var oft talað um þessa áráttu að nefna fyrirtæki útlenskum nöfnum og fylgdi jafnan að eflaust þætti eigendum þeirra íslensku nöfnin ekki nógu fín. Á ferðum mínum hef ég komist að því að þess gætir hjá flestum þjóðum að einhverjir nefni fyrirtæki útlenskum nöfnum og þá sérstaklega enskum.

Sumir segja að ensk nöfn séu ómetanleg aðstoð fyrir útlendinga. Ég held að þetta sé rangt og tek bara eign reynslu sem dæmi. Mér finnst til að mynda lítið mál að ferðast um Evrópu og þurfa að leita uppi fyrirtæki af ýmsu tagi sem bera heiti á viðkomandi tungumáli.  Því til viðbótar má nefna að allflestar götur bera nöfn sem eru á því tungumáli sem í landinu er talað. 

Ég vona að aldrei komi til þess að íslenskar götur og örnefni beri útlensk nöfn. Þó er dæmi um örnefni. Morinsheiði á Goðalandi er sagt bera nafn William Morris, enskum herramanni sem ferðaðist um Ísland á árunum 1871-74. Hann mun þó aldrei hafa stigið fæti á þetta fallega fjall sem af einhverjum ástæðum er til viðbótar nefnt „heiði“. 

Útlendingur leitar ekki eftir enskum heitum á fyrirtækjum. Finni hann slík nöfn undrast hann. Minnir að sá hafi verið Englendingur sem spurði mig hvort íslenskan væri svo fátækt mál að baðstofa við Laugarvatn væri nefnd Fontana eða að rútubílafyrirtæki heiti Iceland Excursion. Ef til vill liggja einhver markaðssjónarmið að baki svona nafngiftum en ég dreg það stórlega í efa.

Útlend nöfn á íslenskum fyrirtækjum eru annað hvort merki um algjört virðingarleysi fyrir menningu þjóðarinnar eða bara einfaldur þekkingarskortur. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband