Bloggfærslur mánaðarins, maí 2013

Íhaldsmaðurinn hann Steingrímur ...

„Til lengri tíma litið geta skynsamlegar og örvandi breytingar í atvinnumálum ýtt undir fjárfestingar og hagvöxt. En það gerist ekki samstundis. Það sem gerist yfirleitt fyrst þegar skattar eru lækkaðir er að tekjur ríkisins minnka. Við erum í það þröngri stöðu með ríkisfjármálin að þá má ekkert út af bregða. Þannig að öll tilraunastarfsemi er mjög varasöm að mínu mati.“

Hver skyldi tala svona? Íhaldsmaður af guðs náð, kerfiskall sem búinn er að vera of lengi í embætti? „Blýtantsnagari“ úr Seðlabankanum?

Nei, þetta segir Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi formaður hins róttæka, framsækna og femíníska stjórnmálaflokks Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs.

Hann varar við róttækni en virðist þó skilja að hægt er að nota skatta sem hagstjórnartæki þó hann hafi brúkað þá fyrst og fremst til að moka aurum í ríkiskassann. 

Í grunninn virðist Steingrímur vera afturhaldssinnaður íhaldsmaður. Lítið fer nú fyrir róttækninni. 


mbl.is Segir ríkið standa tæpt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórn vonleysis hrökklast frá

„Ríkisstjórn hinna glötuðu tækifæra“ kallar Jón Baldur L'Orange fráfarandi ríkisstjórn. Það er réttnefni þó vantar að nefna að hún nýtti tækifærið til að efna til upplausnar og erfiðleika innanlands og raunar líka erlendis.

Farið hefur fé betra, má fullyrða. Heimilin í landinu, atvinnulausir, aldraðir, almennt launafólk  mun minnast þessarar ríkisstjórnar fyrir vonleysið. Margir halda því fram að hún hafi gert margt gott. Ég sé fátt. Hún sinnti að vísu bókhaldinu en fátt annað. Hún var vonlaus. 


mbl.is Síðasti ríkisráðsfundurinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Látið verkin tala og hafið hemil á eigin talanda

Nú er ástæða til að óska Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, til hamingju með stjórnarmyndunina. Einnig öðrum ráðherrum flokksins, Hönnu Birnu, Illuga, Kristján og Ragnheiði Elínu.

Þau taka að sér mikil verkefni. Annars vegar afleiðingar hrunsins og hins vegar afleiðingar óstjórnar vinstri stjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins fylgja góðar óskir frá meirihluta þjóðarinnar. Hunsum bölbænir frá illa innrættu fólki.

Fylgst verður með hverju skrefi í stjórnsýslu nýrrar ríkisstjórnar. Vonandi tekst henni að stýra landinu og tryggja hag almennings. Við eigum að gagnrýna ríkisstjórnina málefnalega og það mun ég gera og hæla henni fyrir það sem hún mun standa sig í.

Ég hef haldið því fram hingað til að þrjú meginviðfangsefni ríkisstjórnarinnar séu þau að lagfæra skuldastöðu heimilanna, útrýma atvinnuleysi og stuðla að aukinni fjárfestingu hér á landi. Allt annað er aukaatriði. Ekkert gerist nema við aukum tekjur þjóðarinnar, þá verður meira til skiptanna.

Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna klúðruðu tækifæri til uppbyggingar. Hún hélt að ríkisstjórn mætti gera allt en komst að þeirri stórmerkilegu staðreynd að ríkisstjórn á ekki að reyna að stýra landinu gegn vilja almennings.

Fengi ég að ráða ríkisstjórninni heilt, væri það eftirfarandi: Látið verkin tala og hafið hemil á eigin talanda. 


mbl.is Hanna Birna innanríkisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hraunað yfir andstæð rök

Afstaða bæjarstjórnar Garðabæjar og Vegagerðarinnar er slæm. Nú er svo komið að báðir þessir aðilar telja það nauðsyn að standa á fyrri skoðun, breyting sé merki um veikleika. Ekki virðist örla fyrir neinum skilningi á rökum gegn framkvæmdunum, sem er enn verra.

Verst er þó að bæjarstjórnin og Vegagerðin gera enga tilraun til að bera saman álíka umferðarþunga og ætlað er á hinum nýja vegi við þann sem er á álíka stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Væri það gert kæmi í ljós að vegurinn nýi er ofmat á aðstæðum.

Það sem upp úr stendur er samt stórkostlegar skemmdir á afar fallegri hraunbreiðu sem á ekki sinn líka innan marka höfuðborgarsvæðisins. Vont er að kjörnir fulltrúar skuli ekki sjá þetta. Ekki örlar á tilraun til að koma til móts við andstæð rök heldur einfaldlega hraunað yfir þau, ef svo má að orði komast.


mbl.is Breyta ekki fyrri áætlun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrítnar fréttir

Þær eru skrítnar fréttirnar eða fyrirsagnirnar öllu heldur um þessa hvítasunnuhelgi. Þannig vildi kirkjugarðsvörður ,,meira líf í kirkjugarðinn", Jóhanna Sigurðardóttir var orðin stjarna í Simpson, golfari tók víti inn á klósetti og svo var það fréttin með erlendu ferðamönnunum sem fóru á rek á ísjaka með uppbúið veisluborð og stólum. Nei, ekki 1. apríl kominn aftur heldur allt fréttir á netmiðlum.

Ég hló þegar ég las þetta. Höfundurinn er hann Jón Baldur L'Orange sem er oft fyndinn og skemmtilegur í pistlum á bloggsíðu sinni og ekki síst er hann réttsýnn. Svo er hann mikill smekkmaður í tónlist og birtir oftast myndbönd af stókostlegum listamönnum. Mæli með blogginu hans.


Eru vegir að verða flöskuháls í ferðaþjónustunni?

Vaxandi umferð einkabíla, fólksflutningabíla svo ekki sé talað um flutningabíla hefur farið illa með vegina. Fjallvegirnir spænast upp og grafast niður og verða fljótt ófærir vegna vatnselgs eða forar. Á vorin opnast þeir ekki fyrr en seint og um síðir og þeir lokast óþarflega fljótt vegna þess að snjór safnast í þá þótt umhverfið sé nær snjólaust. Og hvað gera þá ökumenn? Jú, eins og göngumennirnir krækja þeir fyrir verstu pyttina, aka út fyrir eins og það er kallað. Að lokum verður landið umhverfis roföflunum að bráð.

Ofangreint er úr grein sem ég skrifaði í Morgunblaðið 10. maí 2004. Tilefni var umræða um veginn inn í Þórsmörk sem Vegagerðin var að laga. Fannst mönnum sem lítill væri orðinn sjarminn af því að aka þangað inneftir þegar þangað væri komin næstum því. Einu sinni taldi ég 52 ár læki og sprænur á leiðinni. Þeim hefur fækkað allverulega vegna lagfæringa á vegum sem ekki allir eru sammála hvort teljst bætur eða spjöll.

Vandamálið við vegi er að vegir þarfnast viðhalds. Gamlir vegir eru ónýtir. Þeir grafast enn meira niður og verða enn verri eftir því sem tímar líða.

Hvernig á að standa að vegagerð á hálendinu? Þetta er stóra spurningin sem varðar hvort tveggja, umhverfismál og náttúruvernd en ekki síður ferðaþjónustuna. Þó Úlfar Jacobsen og Guðmundur Jónasson hafi verið brautryðjendur og haft tekjur af því að ryðjast um nær ótroðnar slóðir hálendisins er sá tími einfaldlega liðinn. Sjarminn í akstrinum hvarf líka enda skiptir áfangastaðurinn núna oft meira máli en akleiðin þótt hún haldi vissulega gildi sínu meðal útlendra ferðamanna.

Með köldu raunsæi má segja að við höfum aðeins um tvennt að velja.

 

  1. Byggja upp vegina á hálendinu, leggja af þá gömlu og tryggja að umferð komist klakklaust leiðar sinnar hvort sem vorar eða haustar seint eða snemma og bleyta skemmi ekki vegina.
  2. Loka hálendinu fyrir akstri ökutækja, setja einfaldlega í lás frá til dæmis 15. apríl til 1. október, sem sagt leyfa akstur þegar snjóalög eru næg.

Hvorugur kosturinn er góður, það viðurkenni ég fúslega. Seinni kosturinn er þó verri að mínu mati, því til hvers eigum við landið ef okkur er meinað að njóta þess. Þar af leiðir að fyrri kosturinn er skynsamlegri en hann þarf að útfæra með varfærni.

Ferðaþjónustaðilar sem gera út á Kili segja í ályktun sinni: 

Kjalvegur er að stærstum hluta slóði sem ruddur var á sínum tíma til að flytja efni í varnargirðingar vegna mæðuveiki í sauðfé. Þessi niðurgrafna ýtuslóð er barn síns tíma, óravegu frá því að standast kröfur fólksflutningatækja nútímans.

Þetta er rétt. Ég þekki Kjalveg vel, hef ekið hann og gengið. Þetta er ekkert annað en ruddaslóð, á eiginlega ekkert sameiginlegt með öðrum vegum nema nafnið. Raunar er það svo að á stundum er vonlaust fyrir ferðaþjónustubíla að halda áætlun sinni, svo slæmur getur hann orðið og valdið auk þess skemmdum.

Ályktun ferðaþjónustuaðila sem birtist í frétt á mbl.is er skynsöm. Ekki er beðið um annað en þokkalega góðan veg, þeir nefna slíka veg „ferðamannaveg“ sem er ágætt nafn. Þeir segja:

Um 80 km langur og 6 metra breiður vegur, sem risi hálfan metra upp úr umhverfi sínu í stæði núverandi vegslóða að mestu leyti, myndi kosta um 330 milljónir króna og allt að 60 milljónum króna til viðbótar ef tengileiðir Kjalvegar eru taldar með (skv. upplýsingum frá Vegagerðinni).

Ætli þjóðin að halda áfram að hafa tekjur að þjónustu við ferðamenn þurfa stjórnvöld að skilgreina hvað sé ferðamannavegur og hvernig skuldi hátta uppbygginu slíkra á hálendinu og í hvaða röð. Að öðrum kosti stefnir í óefni. Þvílíkur vandi sem það verður ef samgöngumálin verða sá flöskuháls sem tefur framþróun í ferðaþjónustunni hér á landi.

 

 


mbl.is Kjalvegur ekki boðleg ökuleið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gönguleið vörðuð húsum

Mér finnst óskiljanlegt að brautryðjendafyrirtæki eins og Fjallaleiðsögumenn skuli leggja áherslu á að bjóða upp á gönguferðir milli Landmannalauga og Þórsmerkur, Laugaveginn svokallaða. Alltof margir fara þessa leið, hún er ofsetin, má fullyrða að það sé lítil skemmtun að fara með fólk eftir gönguleið sem er yfirfull.

Þessi athugasemd á einnig við Ferðafélagið. Það vekur líka undrun hvernig á því stendur að það ágæta félag skuli ekki reyna að byggja upp fleiri gönguleiðir, þó ekki sé nema til þess að minnka álagið á Laugaveginum. Raunar er uppbygging lengri gönguleiða verðugt viðfangsefni þeirra sem áhuga hafa á ferðaþjónustu.

Það er svo sem ágætt viðfangsefni og gott auglýsingaefni að segjast leggja gjald á farmiða vegna uppbyggingar salernisaðstöðu á milli gönguskála á Laugaveginum. Svona PR mál. Langt er orðin síðan að uppbygging á Laugaveginum varð of mikil og núna á að bæta við byggingum sem þýðir að eiginlega er lítill munur orðinn á Laugaveginum og „Laugaveginum“. 

Staðreyndin er einfaldlega sú að Laugaveginum hefur hnignað og er síst af öllu sú stórkostlega gönguleið sem margir vilja halda fram. Langt frá því. 


mbl.is Gjaldtaka til verndar Laugaveginum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að vita eða vita ekki er ekki siðfræðilegt álitamál

„Ég skil vel siðfræðingana því þeir vinna fyrir salti í grautinn með því að hafa skrítnar skoðanir. En þetta er sami landlæknir og krafðist þess að nálgast konur sem höfðu fengið [PIP] brjóstapúða til að láta þær vita að þeir væru gallaðir. Þá var allt í lagi að fórna réttinum til að vita ekki! En þegar um er að ræða sjúkdóm sem gæti deytt konur þá má ekki hafa samband við þær. Ég skil ekki þennan lækni,“ sagði Kári Stefánsson.

Þetta er úr frétt í Morgunblaðinu um Íslenska erfðagreiningu. Fyrirtækkð getur léttilega fundið 2400 Íslendinga sem búa yfir stökkbreyttum brjóstakrabbameinsgenum, en má það ekki.

Hver er eiginlega munurinn á kröfunni um að vita um brjóstapúða eða krabbamein? Allir vita þó hver munurinn er að vita og vita ekki og líf án lífsnauðsynlegrar vitneskju hlýtur að vera illt.


mbl.is ÍE vill ná til allra arfbera
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skúli, eru orlofsíbúðir í Reykjavík gistiþjónusta eða húsaleiga?

Við lestur á ágætri grein um húsaleigu og gistileigu í mbl.is vakna margar spurningar. Stéttarfélög eiga aragrúa íbúða og sumarhúsa víða um land og hafa leigt út frá einni nótt og upp undir hálfan mánuð eða þrjár vikur, jafnvel lengur. Tugir þúsunda hafa notfært sér þessa þjónustu.

Launþegafélög á höfuðborgarsvæðinu eiga íbúðir á fjölmörgum þéttbýlisstöðum og einnig sumarhús. Launþegafélög á landsbyggðinni eiga íbúðir í Reykjavík og nágrenni.

Eru íbúðir launþegafélaga, orlofsíbúðirnar sem svo eru kallaðar, húsaleiga eða gistiþjónusta? Og hver í ósköpunum er munurinn? 

Ég efast um að Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, læðist um með stækkunargler og sektarbók í hendi og kanni orlofsíbúðaþjónustuiðnað launaþegafélaganna, enda engin ástæða til, jafnvel þó þau leigi fyrir meira en milljón krónur á mánuði.

Nú er hins vegar svo komið að ríkisvaldið er leiftursnöggt að átta sig á matarholum sem fjölmargir hafa fundið og nú á að stoppa útleigu Jóns og Gunnu á íbúðinni sinni. Og skiptir engu þó þau skötuhjú skipti á íbúð við fjölskyldu í Frakklandi eða Þýskalandi. Allt skal ríkisvaldið eyðileggja.


mbl.is Má leigja út íbúðir án gistileyfa?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

21 spark í rassinn á ríkisstjórninni

Þeir hafa margi stjórnmálamennirnir spreytt sig á því að gylla fortíð sína og mörgum tekst það sérstaklega ef því óþægilega er sleppt. Hvers vegna skyldu kjósendur hafa sparkað ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar?

Tökum nokkur dæmi um málefni sem kjósendur horfa til: 

  1. Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra: Hæstiréttur dæmdi 2011 að umhverfisráðherra hafi ekki haft heimild til að hafna tillögu sveitarstjórnar Flóahrepps um aðalskipulag sem gerði ráð fyrir virkjun við Urriðafoss.
  2. Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra: Kærunefnd jafnréttismála úrskurðaði í ágúst 2012 að innanríkisráðherra hefði brotið lög er hann skipaði karl en ekki konu í embætti sýslumanns á Húsavík.
  3. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra: Kærunefnd jafnréttismála úrskurðaði 2012 að forsætisráðherra hefði brotið lög er hún skipaði karl en ekki konu í sem skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu. Ráðherra var dæmd í fjársekt.
  4. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra í þætti á mbl.is fyrir kosningar 2009: „Við höfum hérna nýja skýrslu, Evrópuskýrsluna, og það hafa verið samtöl við forsvarsmenn Evrópusambandsins og þeir segja að innan árs, kannski 18 mánaða, mundum við geta orðið fullgildir aðilar að Evrópusambandinu …“.
  5. Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra: Veitti forstjóra Landspítalans launahækkun upp á 450.000 krónur á mánuði sem er meira en flestir starfsmanna spítalans hafa í mánaðarlaun.
  6. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra: Sagðist á blaðamannafundi í Stokkhólmi 27. júní 2009 vonast til að Ísland yrði formlega gegnið í ESB innan þriggja ára.
  7. Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG: Fullyrti sem stjórnarandstöðuþingmaður að ekki kæmi til mála að semja um Icesave. Sveik það. - Var harður andstæðingur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem stjórnarandstæðingur en dyggasti stuðningsmaður hann sem fjármálaráðherra.
  8. Vinstri hreyfingin grænt framboð: Forysta flokksins sveik stefnu hans um ESB
  9. Ríkisstjórnin: Þjóðin hafnaði árið 2010 Icesave samningi þeim er ríkisstjórnin hafði fengið samþykktan á Alþingi. Kosningaþátttaka var 63% og 98% kjósenda hafnaði samningnum.
  10. Ríkisstjórnin: Þjóðin hafnaði 2011 Icesave samningi er ríkisstjórnin hafði fengið samþykktan á Alþingi. Kosningaþátttaka var 75% og 60% kjósenda hafnaði samningnum.
  11. Ríkisstjórnin: Kosningar um stjórnlagaþing vakti litla athygli, kjörsókn var aðeins 36%. Þann 25. janúar 2011 dæmdi Hæstiréttur kosningarnar ógildar.
  12. Ríkisstjórnin: Landsdómsmálið gegn Geir H. Haarde fyrrum forsætisráðherra kostaði ríkissjóð 187 milljónir króna.
  13. Ríkisstjórnin: Sótti um aðild að ESB án þess að gefa kjósendum kost á að segja hug sinn áður.
  14. Ríkisstjórnin: Kostnaður vegna ESB umsóknarinnar hefur verið tæplega tveir milljarðar króna á kjörtímabilinu.
  15. Ríkisstjórnin: Loforð um orkuskatt svikin, átti að vera tímabundinn skattur
  16. Ríkisstjórnin: Gerði ekkert vegna skuldastöðu heimilanna
  17. Ríkisstjórnin: Setti ÁrnaPáls-lögin til höfuðs skuldurum en til hagsbóta fyrir skuldareigendur.
  18. Ríkisstjórnin: Gerði ekkert vegna verðtryggingarinnar sem var að drepa stóra hluta skuldara í kjölfar hrunsins.
  19. Ríkisstjórnin: Hækkaði skatta á almenning sem átti um sárt að binda vegna hrunsins.
  20. Ríkisstjórnin: Réðst gegn sjávarútveginum með offorsi og ofurskattheimtu.
  21. Ríkisstjórnin: Breytti lögum, reglum og stjórnsýslunni í landinu til að þóknast ESB í aðlögunarviðræðunum.

Fleira má eflaust til taka en ég bara man ekki meira í augnablikinu. Eflaust verða einhverjir skynugir lesendur og minnisbetri til að bæta hér í.

Staðreyndin er einfaldlega sú að Steingrímur J. Sigfússon getur alveg reynt að þykjast í augum útlendinga en við hérna heima vitum hvernig hann og ríkisstjórnin hagaði sér. Skiljanlega vill hann ekki minnast á ofangreind mál. Kjósendur vita hins vegar um þau og vegna þeirra og fjölda annarra tapaði ríkisstjórnin meirihluta sínum.

 

 


mbl.is Væntingar kjósenda óraunhæfar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband