Bloggfærslur mánaðarins, maí 2012

Slys við Gljúfrabúa

GlúfrabúiÞarna er stórt og gott tjaldsvæði og þar sem konan hefur hrapað heitir Gljúfrabúi. Fossinn sést ekki allur og því gengur fólk upp á klettinn fyrir framan hann og litast þar um.

Meðfylgjandi mynd var tekin um miðjan maí, í lok gossins í Eyjafjallajökli. þess vegna er allt frekar grátt á myndinni þó farið sé að vora.

Ástæða er til að mæla með tjaldsvæðinu á Hamragörðum, það er einstaklega skemmtilegt og umhverfið mjög fallegt. 

Hin myndin er tekin á sama tíma og er af Seljalandsfossi.

Seljalandsfoss

Óneitanlega setur askan svolítið fallegan svip á umhverfið þó svo að það hefði alveg geta verið án hennar. 


mbl.is Hrapaði ofan í gil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Getur hraun ógnað höfuðborgarsvæðinu?

heidmerkureldar

Einn af málefnalegri og betri pistlahöfundum á blogginu er Emil Hannes Valgeirsson. Í dag birtir hann hugrenningar sínar um hugsanlega Heiðmerkurelda, eldgos sem fræðilega séð gæti komið upp og valdið hraunrennsli niður í byggð á höfuðborgarsvæðinu.

Með pistlinum birtir hann kortið sem hér er til vinstri og ég leyfi mér að endurbirta hér, bið Emil að virða mér hnuplið til betri vegar. Munum að hér er aðeins um tilgátu að ræða. Eldsprungan gæti verið styttri, hún gæti legið á annan hátt og eldvirkning kann að verða slík að hraun rynni ekki úr henni allri á þann hátt sem myndin lýsir.

Með þessari umfjöllun sinni ræðir Emil þau mál sem fæstir hafa rætt og almannavarnir hafa ekki sinnt eða tjáð sig um opinberlega að neinu leyti. Þó er mikil ástæða til.

Hér eru mörg álitamál sem þarf að huga að: 

  • Mannmargar byggðir eru í rennslislínu hrauns
  • Hraunrennsli lokar leiðum út úr höfuðborgarsvæðinu
  • Fjölmargar götur lokast og hverfi geta einangrast vegna hraunrennslis
  • Rafmagnlínur, hitaveituleiðslur, vatnsleiðslur skemmast eða eyðileggjast vegna hraunrennslis, jafnvel eldsumbrota

 Ljóst er að eldgos af þessu tagi getur fræðilega gerst. Því er ástæða fyrir yfirvöld að gera ráð fyrir því sem þarf að gera til að stjórna hraunrennslinu með vatnskælingu. Það er hægt, var gert í Vestmannaeyjum. Það sem liggur beinast við er að undirbúa eftirfarandi:

  1. Verja líf og nánasta umhverfi fólks 
  2. Verja íbúðahverfi og atvinnuhúsnæði
  3. Verja veitulagnir
  4. Halda meginleiðum opnum
  5. Koma í veg fyrir að einstök hverfi eða hús króist af
  6. Koma í veg fyrir að hraunstraumar renni til sjávar í gegnum byggðirnar
  7. Hraun verður að fara suðvestan við höfuðborgarsvæðið og álverið

Síðst en ekki síst þarf að vega og meta hvort vinnandi vegur er að bjarga öllum mannvirkju eða hvort einstaka fórnir séu leyfilegar vegna heildarinnar.

Kostnaðurinn við að stýra hraunstraumnum er áreiðanlega gríðarlegur, jafnvel þó tækjanotkun og vinnutími sé ekki reiknaður til fulls.

Nú er brýnast að yfirvöld almannavarna fari í það að útbúa áætlun um það hvernig t.d. er hægt að koma í veg fyrir að hraun falli ofan í Elliðaárdal eða ofan í miðjan Hafnarfjörð. Hvernig er það gert á hagkvæmasta máta? Um leið fá tillögur til úrbóta umræðu í þjóðfélaginu og smám saman næst einhver samstaða um réttar aðgerðir. Vonandi gýs ekki áður.


Villtist fólkið á gönguleiðinni?

Kattahryggir

Fólk sem finnst á gönguleið hefur ekki villst. Það hefur haldið kyrru fyrir líklega vegna þess að það þekkti ekki framhald leiðarinnar.

Björgunarsveitarmenn voru sendir upp Hvannárgil og Kattahryggi ...“. Svo segir í fréttinni á mbl.is. Látum vera að björgunarsveitir hafi gengið upp Hvannárgil. Það er hins vegar hrikalega erfið leið og eiginlega ótrúlegt að þær skuli hafa farið hana meðan ekki var gengið úr skugga um það að fólkið væri sunnan Heljakambs.

En það er þetta með að senda menn „upp Kattahryggi“. Það á bara ekki við að taka svona til orða miðað við aðstæður. Kattahryggir eru að mestu einstigi, bratt til beggja handa, varla meira en um 300 m vegalengd. Björgunarsveitirnar voru sendar upp á Morinsheiði, það er allt og sumt. Ef áhugi er að troða inn fleiri örnefnum hefði mátt taka með Strákagil, Kattahryggi og Foldir.

Fréttin gengur út á að fólkið var á leið yfir Fimmvörðuháls. Þegar yfir Hálsinn er komið, sunnan Heljarkambs, er fólkið komið á Goðaland. Væntanlega hefur það verið á leið ofan í Bása. Þeir eru í Goðalandi. Hafi fólkið ætlað lengra þarf að fara yfir Krossá, væntanlega á göngubrúnni, sé áin enn undir henni. Norðan Krossár er Þórsmörk.

Fyrir alla muni höfum landafræðina á hreinu. Meðfylgjandi mynd er af hluta af Kattahryggjum.

 Viðbót kl. 13:30: 

Hef greinilega haft Moggann að hluta til fyrir rangri sök. Eftir að hafa heyrt útvarpsfrétt um atburðinn sem var nánast samhljóða frétt Moggans fletti ég upp á heimasíðu Landsbjargar. Þar stendur:

PARS LEITAÐ Á FIMMVÖRÐUHÁLSI

27. maí 2012 

Björgunarsveitir af Suðurlandi voru kallaðar út í nótt til leitar að pari sem var á göngu yfir Fimmvörðuháls en villtist á leið sinni niður í Þórsmörk. Fólkið hringdi sjálft til Neyðarlínu og óskaði eftir aðstoð og voru björgunarsveitir kallaðar út klukkan rúmlega eitt í nótt.

Sendir voru hópar upp Hvannárgil og Kattahryggi þar sem vitað var að fólkið var komið niður fyrir keðjuna við Heljarkamb og því ekki þörf á leitarhópum upp frá Skógum.

Björgunarsveitir fundu fólkið rúmum tveimur tímum eftir að leit hófst og var það þá statt á gönguleiðinni yfir Útigönguhöfða, nokkur hundruð metra frá Heljarkambi. Var það í þokkalegu ástandi þrátt fyrir að hafa verið á göngu í 13 tíma enda ágætlega búið og vel nestað. Var parinu fylgt niður í Þórsmörk. 

Ástæða er til að hvetja Landsbjörg um að sinna landafræði og textagerð betur og ennig að hvetja fréttamenn til að taka ekki allt umhugsunarlaust frá Landsbjörgu. Keðjan sem við settum við Heljarkamb í október er nú næstum því orðin að örnefni. Miðað við vegalengdina yfir Heljarkamb, frá keðju að vörðu, um 100 metrar, er alveg nóg að staðsetja fólkið sunnan eða norðan megin. Varla þarf að kenna Landsbjörgu áttirnar ...

Að mínu mati eiga fréttir frá Landsbjörgu að vera ítarlegar og vel skrifaðar. 


mbl.is Par villtist á leiðinni í Þórsmörk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innihaldslausir kveinstafir Jóns Bjarnasonar

Þeir sem til þekkja vita hvaða afleiðingar uppsagnir í litlum byggðum á landsbyggðinni. Yfirleitt eru það konur sem starfa í bankaútibúunum. Sé þeim sagt upp störfum og enga aðra atvinnu að hafa leiðir það oftast til þess að fólk flyst á brott.

Þetta er vandi landsbyggðarinnar í hnotskurn. Hvert einasta starf er svo ákaflega mikilvægt að allar breytingar hafa veruleg áhrif. Jafnvel fasteignaverð byggist á því að jafnvægi sé í atvinnulífi hvers staðar.

Nú stendur Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri grænna, og mótmælir. Fleiri þingmenn Vinstri grænna mótmæla. Því miður er ekkert að marka þetta lið. Það er þekkt fyrir að ganga á bak orða sinna. Munum bara eftir ESB aðlögunarviðræðunum. 

Ekki stóð Jón Bjarnason þingmaður Vinstri grænna upp þegar gengið var á heilbrigðisstofnanirnar á landsbyggðinni og þær knúnar til samdráttar. Afleiðing var auðvitað fækkun starfa. Ríkisstjórnin ber ábyrgð á uppsögnun hundruða fólks, jafnvel þúsunda, og stór hluti þeirra eru á landsbyggðinni.

Jón Bjarnason hefur hingað til haldið sér saman þegar ríkisstarfsmönnum hefur verið sagt upp. Nú telur hann sig og aðra krossferðariddara Vinstri grænna vera meira en hæfilega langt í burtu frá Landsbankanum, með Bankasýsluna á milli, og þá er óhætt að góla og kveina, berja sér á brjóst og krefjast hins og þessa - að minnsta kosti athygli í fjölmiðlum. 

Við almenningur erum orðnir þreyttir á þessari ríkisstjórn og innihaldslausum kveinstöfum Jóns Bjarnasonar og annarra vinstri manna sem eru ekki grænir af öðru en myglu í ríkisstjórnarmeirihluta.

Sannleikurinn blasir við öllum; ríkisstjórnin kann ekki nokkur ráð til að stjórna landinu. Það er rétt sem formaður Framsóknarflokksins hefur haldið fram að ríkisstjórnin hefur orðið þjóðinni dýrari en sjálft hrunið.


mbl.is Þvert á stefnu ríkisstjórnarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orkuveitan reynir að tala sig frá vandamálunum

Orkuveita Reykjavíkur ætti að líta sér nær. Fyrirtækið rekur virkjun á Kolviðarhóli og hefur gengið þar mjög illa um landið. Það er nú orðið nær ónýtt til útiveru. Ómar Ragnarsson hefur bent afar kurteislega á vanefndir fyrirtækisins samkvæmt leyfi til virkjunar. Í stað þess að reyna að tala sig út úr vandræðunum þarf OR að taka til hendinni heima við.

Enginn heldur því fram að OR hafi vísvitandi farið með rangt mál, miklu frekar hafa talsmenn þess ekki vitað um staðreyndir og talað því út og suður.

Nú skiptir mestu máli fyrir OR að reyna að bæta umhverfismálin á svæðinu, snyrta til, laga eins og hægt er og koma í veg fyrir uppsöfnun vatns á svæði sem aldrei tjarnar hafa verið áður utan Draugatjarnar. Svo ættu þeir að reka þann sem sér um almannatengslin. Hann er ekki að standa sig, hvers svo sem hann er. 


mbl.is Harma óvæginn fréttaflutning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bullið í þingmönnum ríkisstjórnarinnar

Hvað ætli Bíldudalur, Eskifjörður, Flateyri, Súðavík, Grundarfjörður, Króksfjarðarnes og Fáskrúðsfjörður eigi sameiginlegt? 

Jú, það voru íbúar þessara staða sem settu bankakerfið á hausinn. Þangað má rekja fall íslenska bankakerfisins. Þar eru breiðu bökin sem réttu eiga að bera afleiðingar Hrunsins á herðum sínu. Sökudólgarnir fundust loksins í þorpum og bæjum víða um land þegar við héldum flest að þeir væru í þéttbýlinu á suðvestur horni landsins. 

Eða hvað? 

Það mætti allavega ætla að svo sé þegar litið er til rekstrarhagræðingar Landsbankansog kynntar voru fyrr í dag. 

Til hamingju að það, Landsbanki allra landsmanna! 

Eða ... 

Hvað ætli Snæfellsbær, Ísafjörður, Sauðárkrókur, Akureyri, Húsasvík, Fjarðabyggð og Höfn í Hornafirði eigi sameiginlegt? Jú, það voru íbúar þessara staða sem settu bankakerfið á hausinn. Þangað má rekja fall íslenska bankakerfisins. Þar eru breiðu bökin sem réttu eiga að bera afleiðingar Hrunsins á herðum sínu. Sökudólgarnir fundust loksins í þorpum og bæjum víða um land þegar við héldum flest að þeir væru í þéttbýlinu á suðvestur horni landsins.

Eða hvað? Það mætti allavega ætla að svo sé þegar litið er til fjárfestingaáætlunar ríkisstjórnarinnar og kynntar voru 18. maí.

Til hamingju að það, byggðastefna gegn byggðum landsins!

Svona má snúa út úr bullinu í þingmönnum ríkisstjórnarinnar. Þeir halda að þeir geti hættulaust kastað grjóti úr glerhúsi sínu, brúkað einhvers konar morfís talanda og halda það að með því að benda á eitthvað fyrirtæki sem bregst við á erfiðum tímum sleppi ríkisstjórnin við gagnrýni. Sá tími er liðinn að hægt sé að kenna hruninu um vandræðagang ríkisstjórnarinnar.

Við höfum ekki gleymt svikunum og prettunum:

  • Icesave I
  • Icesave II 
  • Atvinnuleysi, dulið atvinnuleysi, landflótti
  • Innistæðulaus loforð um atvinnuuppbyggingu
  • Ítrekaðar árásir á sjávarútvegsfyrirtækin
  • Aðlögunarviðræður við ESB
  • Byr, SpKef, Sjóvá
  • Sýndarmennskan í kringum þjóðaratkvæði um stjórnarskrármálið
  • ...
Muna lesendur eftir fleiri ruglmálum ríkisstjórnarinnar?

 


Jóhanna ætti að fá gulaspjaldið, jafnvel það rauða

Í fótboltaliði mega aðeins ellefu leikmenn spila í einu úti á velli. Þeir geta verið færri, eins og flestir vita. Komi það fyrir að tólf leikmenn séu inn'á í einu er leikurinn stöðvaður, sá tólfti fær viðvörun og tekin er aukaspyrna.

Á þingi eru þrjátíu og þrír leik... afsakið, þingmenn, og skiptast á milli flokka. Fari þingmaður flokks í leyfi kemur auðvitað varamaður inn í staðinn. Þegar sá fyrrnefndi kemur aftur fer hinn út.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, fór til útlandsins. Varamaður kom í hennar stað. Forsætisráðherrann kom aftur, settist á þing og tók til máls, rétt eins og ekkert hefði í skorist. Varamaðurinn sat einnig sem fastast og ræddi um veiði og dekk (sjá Staksteina Moggans í dag). Auðvitað hefði þingforseti átt að gefa Jóhönnu gula spjaldið fyrir að hafa tekið til máls, að minnsta kosti að reka varmanninn útaf með veiðigræjur og dekk.

Út af þessu segir Halldór Blöndal, fyrrverandi forseti Alþingis, og er þungt í honum, finnst eðlilega að virðing þingsins hafa sett niður.

Á fundi Alþingis á fimmtudag var atkvæðagreiðsla »um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnskipunarlaga«. Samkvæmt þingsköpum geta alþingismenn kvatt sér hljóðs um atkvæðagreiðsluna eða gert grein fyrir atkvæði sínu - og er sá réttur að sjálfsögðu bundinn við þá, sem atkvæðisrétt hafa. Á þessum fundi var Jóhanna Sigurðardóttir ekki alþingismaður heldur hafði hún tekið inn varamann, Baldur Þórhallsson. Henni bar því að sitja þegjandi í ráðherrastól sínum eða hverfa úr þingsal ella meðan á atkvæðagreiðslu stóð. Hún hafði með öðrum orðum sömu stöðu gagnvart þinginu og Ragna Árnadóttir og Gylfi Magnússon meðan þau voru ráðherrar.

Með því að gefa forsætisráðherra orðið um atkvæðagreiðsluna urðu forseta Alþingis á alvarleg mistök, sem henni ber að leiðrétta úr forsetastóli. 


ESB flokkur Íslands

VG

Þetta er þingflokkur Vinstri Grænna að undanskyldum tveimur þingmönnum.

 

  • Vinstri grænir eru á móti ESB aðild Íslands samkvæmt öllum flokksfundarsamþykktum.
  • Þingflokkur Vinstri grænna samþykkti aðlögunarviðræður að ESB þvert gegn öllum flokkssamþykktum.
  • Þingflokkurinn leggst gegn þjóðaratkvæðagreiðslu um aðlögunarviðræður við ESB.
  • Þingflokkurinn hefur samþykkt að taka við fé frá ESB til að liðka til í aðlögunarviðræðunum.
  • Þingflokkur ESB á Íslandi 
Vinstri grænir hafa samkvæmt skoðanakönnunum tapað meira stórum hluta af fylgi sínu frá því í síðustu kosningum, fengu þá 14% atkvæða en myndu nú fara ofan í 7%.

 


Óþarfa jarðrask eða þarft ...?

úlfarsfell„Ekkert „óþafa jarðrask“ á Úlfarsfelli“, segir kaldhæðnislega í fyrirsögn í frétt í Morgunblaðinu í morgun. Og á myndinni eru verktakar á kafi í jarðraski.

Og svo er frá umsögn heilbrigðisteftirlis borgarinnar „að gæta þurfi að »óþarfa jarðraski,« að umhverfisspjöll verði ekki á framkvæmdatíma »og að frágangur framkvæmdasvæða sé í sama eða betra horfi en fyrir var«.“.

Allt fellur þetta að sama brunni í skemmtiferð Jóns Kristinssonar, borgarstjóra, og Besta flokks hans. Engin stjórnun, ekkert skipulag, engin forusta, engin eldmóður. Aðeins gott innistarf og lítið að gera.

Borgin er orðin sóðaleg, henni er illa við haldið og frekar ljót ásýndum. Og svo kemur þetta í ofanálag. ER ekki kominn tími til að skemmtikraftarnir í stjórn borgarinnar segi hreinlega af sér? 


mbl.is Ekkert „óþarfa jarðrask“ á Úlfarsfelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afstaða Hreyfingarinnar veðsett ríkisstjórninni?

Hreyfingin styður ríkisstjórnina til „allra góðra verka“, sagði í yfirlýsingu þessara undarlegu stjórnmálasamtaka sem skiptir reglulega um nafn og númer. Einungis vantaði niðurlagið í yfirlýsinga þess efnis að góðar greiðslur þurfi að koma yfir stuðninginn.

Nú er það milljón króna spurningin, hvort Hreyfingin muni styðja þjóðaratkvæðagreiðslu um aðlögunarviðræðurnar við ESB. Eða hefur hún veðsett afstöðu sína í þessu máli eins og öðrum til ríkisstjórnarinnar?


mbl.is Spurning um ESB á öðrum kjörseðli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband