Bloggfærslur mánaðarins, október 2012

Stráið græna og fimmti gírinn ...

Strá

Eitt af því merkilegasta sem ég hef séð er lítið grænt strá sem fann til sólarljóssins og leitaði upp úr öskunni á Bröttufannarfelli efst á Fimmvörðuhálsi - og komst í gegn. 

Og þarna um miðnætti á öskuþrúgandi Hálsinum, örskammt frá tveimur sjóðheitum gígum sem nýlega höfðu lokið ætlunarverk sínu, flögraði að mér sú hugsun hversu gaman það væri að geta ort ljóð. Ef þetta væri ekki staðurinn og stundin ... En ekkert gerðist og ég tók bara meðfylgjandi mynd.

Þá datt mér í hug erindið úr kvæðinu sem ég hef svo miklar mætur á, Áföngum eftir Jón Helgason. 

Séð hef ég skrautleg suðræn blóm

sólvermd í hlýjum garði;

áburð og ljós og aðra virkt

enginn til þeirra sparði;

mér var þó löngum meir í hug

melgrasskúfurinn harði,

runninn upp þar sem Kaldakvísl

kemur úr Vonarskarði. 

Þetta flaug allt í einu í gegnum kollinn á mér þegar ég las Moggann í morgun og kom að pistli Péturs Blöndals á blaðsíðu 16. Hann nefnist „Íhaldsemi og skáldskapur“ og sker sig úr öllu þessu amstri um dæmgurmálin, rétt eins og græna stráið á Fimmvörðuhálsi.

Í pistlinum ræðir Pétur um þann ótta sem margir báru í brjósti um hefðbundið kveðskaparform, að atómljóðin svokölluðu, þessi ljós sem hafa ekkert form myndu gera útaf við ferskeytluna. Það gerðu þau ekki, eins og fram kemur.

Svo kom að þeirri meintu hættu sem ferskeytlunni stafaði af limrunni, hinu brátskemmilega ljóðaformi. Þá vitnar Pétur til Þórarins Eldjárns sem gerði lítið úr hættunni og sagði svo snilldarlega:

Alveg eins mætti þá leggjast gegn sonnettum eins og Eg bið að heilsa. Limran er löngu búin að vinna sér þegnrétt í

íslenskum kveðskap. Hún kemur aldrei í staðinn fyrir ferskeytluna þó hún geti ýmislegt sem ferskeytlunni er ekki hent. Ef til vill liggur munurinn aðallega í fimmtu línunni sem líkja má við fimmta gírinn í góðum bíl. 

Er það ekki góð byrjun á degi að lesa svona bjartan pistil um ljóð?

Eðlið sem ræður helginni ...

Sigmar B. Hauksson, veiðimaður með meiru, ritar oft skemmtilega í dálki sínum er nefnist Nýting og náttúra og birtist í Morgunblaðinu. Í morgun las ég grein hans um rjúpnaveiði. Hún var fróðleg en ég get ekki stillt mig um að snúa út úr fyrir honum. Í lok greinarinnar segir hann: 
 
Þessi þáttur veiðanna, félagsskapurinn, er ekki síður mikilvægur en vel heppnuð veiði. Sagt er að veiðieðlið sé af sama meiði og kynhvötin, það skyldi þó ekki vera, allavega þráum við veiðimenn sterkt að komast á fjöll næstu helgarnar.
 
Sem sagt, þeir sem ekki fara á rjúpnaveiðar þetta tímabilið láta líklega annað eðli sitt ráða ...
 
 
 
 

Forstjóri RÚV missir stjórn á sér

Ríkisútvarpið er furðuleg stofnun þó hún þykist vera opinbert hlutafélag. Öllum er skylt að greiða til hennar fast framlag, skiptir engu hverjar tekjur fólks eru. Tæplega 20.000 krónur eru teknar af hverjum og einum, ungum sem öldnum, fáttækum sem ríkum, atvinnulausum sem starfandi, einkafyrirtækjum, einkahlutafélögum og hlutafélögum. Enginn sleppur.

Skrýtið er hvernig Ríkisútvarpið tekur á gagnrýni. Ritstjóri Morgunblaðsins má ekki viðra skoðun sína á Ríkisútvarpinu án þess að forstjóri þess missi gjörsamlega stjórn á sér. Páll Magnússon er svo afskaplega málefnalegur þegar hann segir:

Það er ekki lengur hægt að svara því sem frussast út um samanbitna kjálkana á Davíð þegar hann fjallar um RÚV. Þetta er eins og það skrýtnasta í kveðskap Æra-Tobba – eitthvað illskiljanlegt og samhengislítið garg út í loftið. En Tobbi verður að njóta sannmælis. Flest það sem hann samdi er auðvitað miklu gáfulegra en heiftarþruglið í Reykjavíkurbréfum Davíðs.

Til samanburðar er hér hluti af því sem „frussast“ frá ritstjóra Morgunblaðsins, Davíð Oddsyni:

En þótt „RÚV“ vilji fela ríkistengslin þá fer það iðulega með yfirlýsingar eins og „útvarp þjóðarinnar“ og fleiri slíkar og reynir beinlínis að ýta undir þá tilfinningu með ítrekuðum áróðri. Það er eðlilegt að taka þessa sjálfumglöðu stofnun á orðinu og um leið virða hið mikla sjálfstraust hennar og einnig hið meinta traust þjóðarinnar á stofnuninni.

Því er skynsamlegt að gera þá breytingu að hafa valákvæði í skattafrumvarpi fólks, þar sem skattgreiðandi getur merkt við hvort hann vill að þeir tugir þúsunda, sem hafðir eru af honum sérmerktir á hverju ári, skuli ganga til „RÚV“ eða til að mynda til einhvers háskóla landsins, náttúruverndarsamtaka, Kvenfélagasambandsins, ÍSÍ, Hjálparstofnunar kirkjunnar eða Hörpunnar, svo dæmi séu nefnd.

Ekki væri sem sagt gert ráð fyrir því að menn gætu sparað sér skattgreiðsluna, því það myndi sjálfsagt ýta undir fjöldaflótta frá „RÚV“, þrátt fyrir meintar vinsældir.

En á hinn bóginn ættu skattgreiðendur val og myndu væntanlega, ef marka má yfirlýsingar forsvarsmanna „RÚV,“ í yfirgnæfandi mæli láta sitt fé renna til stofnunarinnar fremur en annað.  

Og nú geta lesendur borið saman tal Páls og „fruss“ Davíðs og metið það á eigin spýtur hvor tilvitnunin sé málefnalegri og hvor höfundurinn hafi meiri sjálfstillingu í rökræðu sinni  (feitletranir og greinaskil hér að ofan eru mínar). 

Persónulega finnst mér alvarlegt mál ef forstöðumaður ríkisstofnunar skuli ekki geta haft stjórn á sér og mætt málefnalegri gagnrýni með rökum. Er til of mikils mælst að Páll Magnússon fari að lögum um opinbera starfsmenn. Í 14. grein þeirra segir:

Starfsmanni er skylt að rækja starf sitt með alúð og samviskusemi í hvívetna. Hann skal gæta kurteisi, lipurðar og réttsýni í starfi sínu. Hann skal forðast að hafast nokkuð það að í starfi sínu eða utan þess sem er honum til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á það starf eða starfsgrein er hann vinnur við.

Held að hann hafi brotið þessa grein með ummælum sínum.


Hálfsannleikur, gróusögur og hroki

Björn Valur

Stjórnmálamenn eru mismunandi. Sagt er að löggjafarþingið endurspegli nokkuð vel þjóðina þar af leiðandi hljóta að vera til góðir og slæmir stjórnmálamenn sé út frá því gengið að einhverjir samborgarar okkar séu þannig.

Persónulega þekki ég ekki nokkurn stjórnmálamann sem er slæmur, en það er þó langt í frá að ég þekki alla.

Ef tll vill er til einn sem er virkilega illa inrættur, sem hefur þá undarlegu áráttu að hampa hálfsannleika, dreifa gróusögum og gera lítið úr öðrum. Ef til vill veit hann að hann kemst ekki á þing eftir næstu kosningar.

Ef til vill er þetta sá sem sveik kosningloforð sitt, sagðist vera á móti ESB, sá sem réðst með ruddaskap á ríkisendurskoðanda, sá sem ... nei, varla - eða hvað.

 


Hraðferðin í ESB var byggð á rugli

ESB dellan

Stundum segja stjórnmálmenn of mikið. Ákefðin ber æði oft skynsemina ofurliði. Björn Bjarnason, fyrrum þingmaður og ráðherra, bendir á þessa staðreynd á Evrópuvaktinni í dag og segir að ekkert hefur verið að marka spádóma stjórnmálamanna um inngönguna í ESB. Þeir urðu bara svo hringlandi æstir og glaðir og töldu Evrópusambandið vilja fá Ísland inn sem fyrst. En þeir reiknuðu ekki með andstöðunni hér innanlands.

Aðlögunarviðræður hafa verið í gangi frá því árið 2009 og allan þann tíma, og raunar svo lengi sem elstu menn muna, hefur þjóðin verið andsnúninn inngöngu í Evrópusambandi. Skoðanakannanir hafa aldrei sýnt fram á neitt annað.

Samþykktin um aðlögunarviðræðurnar voru fengnar með svikum. Það átti að kíkja í einhvern pakka sem enginn veit hver afhendir enda er nú verið að aðlaga íslenskt stjórnkerfi, lög og reglur að því sem gerist í ESB.


Ríkisstjórnin klýfur þjóðina í öllum málum

Vinstri grænir og Samfylkingin vita að í næstu kosningum til Alþingis munu þeir ekki ná meirihlutafylgi til að mynda ríkisstjórn. Það er ein skýring á þeirri stefnu núverandi ríkisstjórnar að láta sverfa til stáls í öllum mögulegum málum. Hin er sú að ríkisstjórnarmeirihlutinn kunni hreinlega ekki betur.

Um þetta segir Vilhjálmur A. Kjartansson, blaðamaður á Morgunblaðinu (feitletranir greinaskil eru mínar):

Það er líka óumflýjanlegt að ósætti verið um menn og málefni í lýðræðislegu samfélagi þar sem ólíkar stefnur keppa um hylli kjósenda.

Hins vegar verða stjórnmálamenn að spyrja sig hvort heppilegt sé að kljúfa þjóðina í hverju málinu á fætur öðru.

Er heppilegt að halda til streitu umsókn í Evrópusambandið þegar 2/3 þjóðarinnar eru andvíg aðild?

Er skynsamlegt að gera atlögu að undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar svo sem ferðaþjónustu og sjávarútvegi í miðri kreppu?

Er siðsamlegt að gera það sem ekki verður ekki lýst með öðrum hætti en pólitískum ofsóknum gegn fyrrverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, og draga hann fyrir Landsdóm?

Og hvers vegna að gera grundvallalög landsins, sjálfa stjórnarskrá Íslands, að þrætuepli?

Geta ekki allir tekið undir þetta? 


Orðaleikur Steingríms

Orð eru eins og ryk. Þau geta byrgt sýn og sumir nota orðræðna þannig. Láttu mig fá málstað að verja og ég skal þyrla upp moldviðri svo staðreyndir sjáist svo ógreinilga að hálfsannleikur verði lygi.

Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvegamálaráðherra og formaður Vinstri grænna, sagði á aðalfundi LÍU í gær og sagt er frá þessu í Morgunblaðinu í morgun:

Við þurftum að leggja virðisaukaskatt á ferðaþjónustuna. Af hverju? Jú, af því að hún eins og sjávarútvegurinn nýtur góðs af hagstæðu gengi krónunnar. Það eru ekki góð og gild rök fyrir því að hún borgi bara 7% virðisaukaskatt... Af hverju á að veita sérstakan skattaafslátt, svona eins og á mat og menningu, þegar forríkur Ameríkani gistir á Hótel Holti í júlí?

Þessu má auðveldlega snúa við og vörnin fyrir hækkun á virðisaukaskatti bliknar:

Við þurfum ekki að leggja virðisaukaskatt á ferðaþjónustuna. Af hverju? Jú, þó hún, eins og sjávarútvegurinn, nýtur góðs af hagstæðu gengi krónunnar þá kann þaða aðeins að vera tímabundið. á meðan getur hún styrkt sig og fjárfest, greitt hærri laun. Virðisaukaskattsþrepin eru ekki afsláttarþrep. Fátækur Grikki á þess kost að ferðast með bakpoka sinn um landið okkar. Af hverju eigum við að gera þessu fólki erfiðara fyrir? Af hverju á að vera dýrar fyrir Íslendinga að gista í ferðum sínum um landið?

Sko, það er enginn vandi að vera Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna. Hins vegar er það dálítið töff að vera í pólitík og standa ekki við yfirlýsta stefnu sína.

Það er dálítið hallærislegt að vaða fram og segja: Ykkur gengur svo vel að nú þarf ég að fá klípu af tekjum ykkar.

Hvar endar slíkt? Jú, það borgar sig ekki að leggja sig allan fram, maður gæti tapað á því.

Þegar allt kemur til alls er betra að setja upp skíðagleraugu þegar moldviðrið stendur yfir eða þarf alltaf að kalla til kremlarlógista þegar ráða þarf í orð ráðherra? 


Er Steingrímur hluti af kreppunni?

Eflaust er það stórmannlegt og varla á færi nema kjarkmanna að bera sig eins og Steingrímur gerir. Hann trúir á að verk hinnar norrænu velferðarstjórnar séu þau einu réttu. Sem betur fer eru deildar skoðanir um það.

Tilraunastarfsemi ríkisstjórnarinnar með sjávarútveginn er ekki til þess fallin að styrkja Íslands ohf. Þvert á móti. Gangi það eftir sem verið er að gera mun landið tapa helstu mörkuðum sínum af þeirri ástæðu einni saman að útflytjendur geta ekki tryggt kaupendum vöruna.

Hallinn á ríkissjóði frá hruni hefur vissulega verið mikill. Eyðsla Steingríms og félaga hans hefur verið mikil þrátt fyrir þrengingarnar. Hvað með ESB aðildina og kostnað vegna breytinga á stjórnarskrá. Samanlagt hefur þetta kostað um tíu milljarða króna.

Hins vegar hefur ríkisstjórnin ekki gert neitt í því að laða hingað til lands erlendar fjárfestingar á þeim tímum sem allt er á leið til andskotans í Evrópu. Skudlastaða þjóðarinnar gæti líka verið miklu skárri ef ríkisstjórnin og meirihluti hennar á Alþingi hefði ekki gefið vogunarsjóðum Arion banka og Íslandsbanka.

Það er annars gott að Steingrímur hafi sinnt bókhaldi Íslands ofh þokkalega. Við lifum þó ekki á því einu saman eða að strjúka hverju öðru um vangana. Sókn landsins til betri lífskjara byggist á öflugum útflutningi en hvernig er ríkisstjórnin að fara með útflutningsatvinnuvegina. Skoðum ferðaþjónustuna, lítum á sjávarútveginn og jafnvel áliðnaðinn. Allir þessir aðilar eiga í vanda vegna skattastefnu ríkisstjórnarinnar.

Er nokkur framtíð í Steingrími eða er hann bara hluti af kreppunni?


mbl.is Komi í veg fyrir gjaldþrot Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru skattsvik orsök eða afleiðing?

Meinið eru ekki skattsvik eða svört atvinnustarfsemi. Þettu eru afleiðingar en ekki orsök. Á þessu tvennu þurfa stjórnmálamenn að átta sig. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og fomarður Samfylkingarinnar, virðist ekki skilja þetta.

Grundavallaratriðið er að gera skattsvik og svarta atvinnustarfsemi óhagstæða. Það er einfaldlega gert með skattalækkunum og að efla atvinnulífið.

Fæstir nenna að svindla á skattinum fyrir nokkrar krónur. Það horfir allt annað við þegar skattheima ríkisins er orðin svo mikil að það borgar sig að vinna án svart.

Fólk er almennt heiðarlegt. Hafi stjórnmálamenn aðra viðmiðun þá er komin góð ástæða til að losa sig við þá hina sömu. Fólk greiðir skatta sína. Hins vegar er einhvers staðar þröskuldur. Þegar „of stór hluti tekna“ fer í skatta og viðkomandi á þar af leiðandi erfitt með að framfleyta sér og sínum þá er kominn möguleiki á skattsvikum og svartri atvinnustarfsemi.

Hin norræna velferðarstjórn á Íslandi hefur skapað skilyrði fyrir svindlið. Hún er því meðsek.


mbl.is Vill fjölga í skattaeftirlitinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Væri ekki ráð að kaupa nýjan

Ófært að aka á bíl sem bilar oft. Sérstaklega ef hann bilar bara í Hvalfjarðargöngunum. Átti einu sinni bíl sem bilaði þar. Ég seldi hann. Ef til vill er það þessi bíll sem alltaf bilar í göngunum.
mbl.is Bíll bilar vikulega í Hvalfjarðargöngunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband