Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2012

Séra Sigurður Árni sem biskup

Ég tel mig þekkja Sigurður Árna Þórðarson nógu vel til að geta mælt með honum í biskupskjöri. Hann er sómamaður, prestur góður en umfram allt hefur hann til að bera samúð og blíðu við annað fólk. Og svo er hann svo fj.... vel giftur að hann myndi sóma sér vel sem biskupinn yfir Íslandi. Verst að ég má víst ekki kjósa þó enn sé ég í þjóðkirkjunni.
mbl.is Sigurður Árni verður í kjöri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gjaldþrot er ekkert annað en kistulagning

Afskaplega auðvelt er að setja saman gáfulegan texta og halda að hann geti verið leiðbeinandi um lífið. Í flestum tilvikum er ekki svo. Lífið er svo flókið og umfangsmikið að það sem einum á að farnast vel með kann að eyðileggja allt fyrir öðrum.

Þetta flaug svona um hugann þegar ég las ágæta samantekt í Morgunblaðinu í morgun um svokallaða greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara. Í greininni er viðtal við Sigurvin Ólafasson, lögmann hjá Bonafide lögmönnum, og er þetta m.a. haft eftir honum: 

Með því að bjóða upp á greiðsluaðlögun er komið úrræði sem hefur það markmiði að einstaklingar fari almennt ekki í gjaldþrot. Fyrirtæki fara í gjaldþrot og eru þar með dáin, en einstaklingar hætta ekki að anda þó þeir fari í fjárhagslega endurskipulagningu.

Þessi orð líta líklega ákaflega vel út og ugglaust er hugsunun falleg og vel meint. Ég þekki þó fjölmörg dæmi um að einstaklingar verði einfaldlega sem liðin lík eftir gjaldþrot. Eftir það eru þeir oft hundeltir af kröfuhöfunum. Bankar meina þeim að eignast nokkurn skapaðan hlut vegna þess að allt ekkert gleymist, allt er skráð. Viðkomandi er dæmdur núll og nix hjá bönkunum, gömlum og nýjum, hjá íbúðalánasjóði, lánasjóði námsmanna. Leigjendur hrökkva við þegar þeir frétta af nafni viðkomandi á vanskilaskrá.

Sá gjaldþrota má þakka fyrir að fá að nota debetkort, kreditkortið er tekið af honum og bankaliðið horfir með vanþóknun á manninn enda er hann líkþrár á nútímavísu. Ótrúlega margir skilnaðir verða vegna fjármála, ekki endilega vegna gjaldþrots heldur vegna afleiðinga þeirra.

Eftirfarandi veit Sigurvin þessi Ólafsson líklegast ekki þrátt fyrir sín fallegu orð að eftir gjaldþrot er það nánast formsatriði að hætta að anda.

Gjaldþrot er kistulagning einstaklingsins, eftir það er eiginlega ekkert líf nema að forðast hefndarþorsta banka og annarra stofnana. Auðvitað eru þeir til sem gjaldþrot hefur engin áhrif á. Aðrir hafa lent í óhöppum, tekið rangar ákvarðanir eins og gengur og bíta út nálinni með það, sumir með þeim hörmulegum afleiðingum sem hér að ofan er lýst. Til viðbótar má nefna sálræna kvilla sem oftast ágerast smám saman, t.d. þunglyndi, svefnleysi og annað miður geðfellt.

Miskunarleysi rukkunarfyrirtækja lögmanna sem send eru út til að eltast við þann gjaldþrota er svo hrikalegt að það hefur jafnvel gerst að menn hafa svipt sig lífi, stundum á skrifstofu lögmanns. Jafnvel þó nýi bankinn eigi enga kröfu á hendur einstaklingi lifir á einhvers konar minnistýru inni í lögnu týndu herbergi ofan í kjallara. Kennitala birtist á tölvuskjá og bankinn man samstundis eftir gamalli ávirðingu, einhverju löngu fyrir hrun, kröfu sem eru afskrifuð en engu að síður notuð til að vísa einum aumum einstaklingi á dyr ... Þó þykir bankanum ekkert verra að notast við veltuna á launareikningnum.

Og lögmannstofan á svo afskaplega auðvelt núorðið með að viðhalda kröfu út í það óendanlega. Gott tölvuforrit sér um að halda henni vakandi. Lögmanninum er nákvæmlega sama um allt og alla nema þóknunina sem gerir líf hans svo skemmtilegt. Jafnvel kröfueigandinn er fyrir löngu búinn að afskrifa aurana og snúið sér að meira uppbyggjandi málum en að gera einhverjum lífið enn verra.

Jú, að sjálfsögðu tapar einhver á gjaldþroti. Peningar fara forgörðum. Það er samt engin ástæða til þess að líf einstaklings sé eyðilagt? 


Jóhanna sem stundum treystir þjóðinni

Stundum er allt svo fyndið svo maður getur jafnvel hlegið af mistökum og misskilningi náungans. Til eru þeir sem hlægja hæst ef einhver dettur og meiðir sig. Það á þó ekki við í þessu tilviki. Ég rakst á skondna klausu á amx.is. Þar er þetta haft eftir Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, sem lét eftirfarandi orð falla í gær í umræðunum um ESB:
 
Varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu og ESB, þá er munurinn á mér og Vigdísi Hauksdóttur að ég treysti þjóðinni til að meta það hvort hún vilji þá samninga sem við komum með þegar samningsferlinu er lokið.

Og er ekki nema eðlilegt að á amx sé spurt:
 
Er þetta sama Jóhanna Sigurðardóttir og lagðist gegn þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave samkomulagið? Er þetta sú sama og lagðist gegn þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort sækja ætti um aðild að ESB? Eða sú sama og neitar að halda almennar kosningar?

Skrýtin fréttamennska

Er ég einn um að finnast þetta dálítið undarleg fréttamennska? Fréttamaður BBC í London hringir í fréttamann Ríkisútvarpsins í Reykjavík og býr til frétt á þeim grundvelli. „Ólygin sagði mér ...“ Með fullri virðingu fyrir íslenska fréttamanninum finnst mér þetta eins og svona „second hand news“.

Ekki hef ég grænan grun hvernig fréttamaður Ríkisútvarpsins blandast inn í þetta mál eða hvers vegna í ósköpunum hún á að tjá sig um það. Gerir hún það sem fréttamaður eða almennur borgari.

Þetta segir mér eitt að jafnvel fréttamenn BBC geta verið hroðvirknislegir og reyni að klára frétt á sem ódýrastan og fljótlegastan hátt.


mbl.is „Ekki á mína ábyrgð“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru dómstólar tilraunastofur?

Viðbrgöð margra þingmanna og fjölmargra annarra við fyrirhuguðum umræðum á þingi um tillögu Bjarna Benediktssonar um að landsdómsákærunni gegn Geir H. Haarde, fyrrum forseætisráðherra, vekja undrun.

Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, ritar afar góða grein í Morgunblaðið í dag og fjallar um landsdómsmálið og ummæli einstakra þingmanna. Hann segir:

Þingmenn eins og aðrir geta haft misjafnar skoðanir á því hvort rétt sé að afturkalla ákæruna á hendur Geir H. Haarde. Að koma í veg fyrir að þingmenn taki málið aftur upp, meðal annast á grundvelli þess að landsdómur hefur þegar vísað veigamiklum ákæruliðum frá, á ekkert skylt við sanngirni. Hótanir sem byggðar eru á lögleysu eru ekki til marks um að þingmenn vilji tileinka sér ný vinnubrögð. Rangfærslur um að Alþingi hafi ekkert lengur með lögsóknina að gera eru til þess að blekkja almenning.

Auðvitað er þetta rétt hjá Óla Birni. Í orði kveðnu eiga réttarhöldin yfir Geir H. Haarde ekki að vera pólitísk en engu að síður hafa þau orðið það. Þar að auki virðast málin vera eitthvað blandin meðal þeirra sem tóku ákvörðun um ákæruna. Sumir halda því meðal annars fram að hún snúist um stjórnmálaskoðanir og stefnu. Jafnvel hafa þingmenn haldið því fram að ákæra sé tilraun til að ákvarða um sök eða sakleysi. Óli Björn segir í grein sinni:

Í Kastljósi Ríkissjónvarpsins 16. desember sl. gekk Magnús Orri enn lengra og spurði hvort ekki væri farsælast fyrir Geir H. Haarde, væri hann saklaus, „að fá stimpil á það frá landsdómi um að svo sé“.

Er svona málflutningur sannfærandi? Nei, svo virðist sem að þingmaðurinn viti hreinilega ekkert um ákæruna eða um hvað verið er að fjalla með henni.

Í niðurlagi greinar sinnar segir Óli Björn:

Björn Valur Gíslason skrifaði á heimasíðu sína 8. júní á liðnu ári: „Ég hef ekki hugmynd um hvort Geir H. Haarde er sekur eða saklaus.“

Hvernig ætli Birni Val myndi líða ef hann sætti ákæru og síðan kæmi yfirlýsing frá ákæruvaldinu um að engin sannfæring væri fyrir sekt – það hefði „ekki hugmynd“ um hvort Björn Valur væri sekur eða saklaus?

Björn Valur og Magnús Orri líta á dómstóla sem eins konar tilraunastofur.  


Ögmundur er ólíkindatól í samvinnu

Karl Blöndal, aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins skrifar góðan pistil í opnu blaðisins í dag. Hann ræðir meðal annars um Ögmund Jónasson, innanríkisráðherra, sem sannarlega hefur ekki verið leiðitamur ríkisstjórnarflokkunum þrátt fyrir ráðherrastólinn. 

Mér finnst þó eins og Karl líti með aðdáun á Ögmund og telji hann á einhvern hátt frábrugðinn öðrum ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Að mörgu leyti er það rétt, hann er engu að síður vinstri maður, langt til vinstri. Raunar er hann gamaldags sósíalist, slíkur sem í gamla daga voru kallaðir kommar.

Hann er algjörlega á móti einkarekstri og telur íslenskt þjóðfélag slæmt vegna skorts á ríkisrekstri. Hins vegar er hann ráðherra í innanríkisráðuneytinu og verður að makka með því sem þar er gert. Annar fengi hann án efa fá yfir sig óvild hluta VG og Samfylkingar og yrði umsvifalaust sparkað.

Ögmundur er líka ólíkindatól sem slæmt er að hafa með í ríkisstjórn. Þrátt fyrir uppruna sinn rekst hann illa í þeim flokki. Samstarf tveggja flokka í ríkisstjórn krefst þess að menn vinni saman en stundi ekki einleik á stóra sviðinu í stöðugu egóflippi. Þetta er ástæðan fyrir því að Ögmundur er kolómögulegur samstarfsaðili. Hann er á það líka til að tala mikið og skiptir þá litlu máli hvort hann hafi eitthvað að segja, hann talar samt, kjaftar sig út úr öllu samstarfi áður en hann nær að hugsa.

Auðvitað má þakka Ögmundi fyrir að leggjast á sveif með þeim lýðræðissinnum sem vilja fella niður landsdómsákæruna gegn Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra. Ég skil hins vegar ekkert í því hvers vegna hann setur ekki kíkinn fyrir blinda augað og sleppi þessum stuðningi. 

Þó Ögmundur sé án efa hinn besti maður má ekki gleyma því ekki að hann er últra vinstri maður og til hans er lítið að sækja fyrir frjálslynt fólk. 

 


Ólík nálgun innanríkisráðherra og lagaprófessors

Ólíkt hafast menn að. Innanríkisráðherrann lýsir því yfir í Morgunblaðinu í dag að hann hafi gert mistök og ekki hafi átt að draga Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra, einan fyrir Landsdóm. Stefán Már Stefánsson, lagaprófessor, ritar einnig grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann fer málefnalega yfir grundvöll kærunnar og kemst að þeirri niðurstöðu að kæran á hendur Geir fyrir landsdómi sé ekki trúverðug, vikið hafi verið frá mikilvægum reglum um höfðun sakamála.

Þó báðir virðist á sama máli um að draga beri kæruna til baka er mikill munur á rökfærslu þessara tveggja manna. Annar er pólitíkus og veður á súðum, kjaftar um allt sem honum dettur í hug í einhvers konar söguskýringum sem þó halda ekki vatni. Hinn er fræðimaður, nálgast umræðuefni á akademískan hátt, er rólegur í frásögn sinni, setur fram rök og dregur ályktanir og er sannfærandi.

Auðvitað er það afar leitt að vel skynsamur maður eins og innaríkisráðherra vissulega er skuli ekki kunna rökræðuna betur en hann gerir. Fyrir því eru auðvitað margvíslegar ástæður sem eiga rætur sínar að rekja í pólitískum uppruna.  

Þó ég sé fyllilega sammála ráðherranum um að rétt sé að hætta við ákæruna þá er afskaplega margt í blaðagreininni sem orkar tvímælis og margt tel ég beinlínis rangt. Að auki hefði hún mátt vera helmingi styttri en að móti kemur sú staðreynd að greinin er öðrum þræði málvörn gegn samherjum sem hann vissi að myndu missa stjórn á sér vegna afstöðu hans.

Ég er til dæmis ekki á því að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis hafi í öllu verið jafn góð og margir vilja vera láta. Siðfræðihluti skýrslunnar er til dæmis ekki arfaslakur. Höfundar eru taka þar beinlínis pólitíska stöðu sem bitnar á Sjálfstæðisflokknum og frjálslyndum stjórnmálaviðhorfum. Skýrslan sú skýrir fátt.

Ögmundur heldur því fram að veðsetning kvótans marki upphaf útrásarævintýrisins sem Sjálfstæðisflokkurinn hafi kynnt undir. Þetta er beinlínis rangt. Með þessu er Ögmundur einfaldlega að lýsa því yfir að Íslendingar geti ekki rekið skammlaust sinnt fyrirtækjarekstri nema hann sé undir stjórn ríkisins. Þarna skilur mikið að í viðhorfi. Veðsetningin er einfaldlega hluti af rekstrargrundvelli útgerðarinnar.

Menn þekkjast af orðtaki þeirra, ekki síst ef þeir segjast vera alþýðumenn, sósíalistar. Frasamenningin getur hins vegar leitt mann í ógöngur. Ögmundi virðist sem að „fjármálakerfið“ sé orðin einhvers konar afl í þjóðfélaginu sem lúti einni stjórn og einum vilja og það helst glæpsamlegum. Hann virðir að vettugi þá staðreynd að Ríkisendurskoðun hefur farið ofan í saumanna á einkavæðingum helstu fyrirtækja í eigu ríkisins og komist að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir einhverja annmarka hafi hún farið mjög eðlilega fram. Þrátt fyrir það hefur Ögmundur og liðið í kringum hann og Samfylkinguna reynt að gera einkavæðinguna tortryggilega. Raunar hefur markmiðið hans verið að því lengra sem líður frá einkavæðingartímanum því glæpsamlegra á hann að hafa verið. 

Hafi Ögmundur ekki trú á samlöndum sínum til að eiga og reka símafyrirtæki, mjölvinnslufyrirtæki, banka og annað þá á hann bara að segja það hreint út. Staðreyndin er hins vegar sú að Ögmundur er uppalinn sem kommi, vinstrimaður, sem bregst ekki uppruna sínum. Hann og aðrir slíkir munu aldrei samþykkja að einkaaðilar hafi með höndum nokkurn rekstur. Helst af öllu vildi hann að ríkið sæi um sölu mjólkur í sérstökum mjólkurbúðum, setjarar væru enn í prentun, ríkið sæi um útvarpsrekstur ... Æ, fyrirgefið. Þannig er það víst enn í dag en sem betur fer er ríkið ekki eitt á þeim markaði þó það gíni yfir honum öllum.

Fyrir hrun mátti ekki styggja á nokkurn hátt bankanna sem höfðu verið einkavæddir. Enginn vissi hvað þar var að gerast innandyra. Þeir hótuðu að yfirgefa landið væri snert við þeim á einhvern hátt og pólitískir varðhundar og fjölmiðlar í pólitískum leik pössuðu upp á bankamenn og útrásarvíkinga.

Þrátt fyrir allt get ég tekið undir með Ögmundi í niðurlagsorðum hans: „Ef einblínt er á sekt einstakra manna er líklegt að við missum sjónar á flóknu samspili einstaklingsathafna við félagslega, menningarlega og efnahagslega þætti og að við förum á mis við þá lærdóma sem draga þarf af svo miklum atburðum.

Hins vegar má aldrei láta einskæra pólitík leiða dómsvaldið í landinu. Þá er gott að hafa fyrirmynd í nálgun Stefáns Más Stefánssonar lagaprófessors sem getið var í upphafi. Hún leiðir okkur nær málavöxtum en pólitískar upphrópanir sem Ögmundur freistast til að grípa til. Þær skila engu. 


Þingmaður kallar ráðherra sinn sótraft

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG, kallar samflokksmann sinn, Ögmund Jónasson, innanríkisráðherra, sótraft. Og hvað þýðir það orð. Tja ... þetta er ekki beinlínis gæluorð, gæti merkt það sama og lúsablesi eða sá sem ekki er dugandi.

Hitnar þannig ærlega í kolum Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs af því einu að sumum þykir ósanngjarnt að draga fyrrverandi ráðherra fyrir Landsdóm. Um leið var búið að falsa bókhaldið og ráðherrar Samfylkingarinnar undanskildir allri ábyrgð.

En mikið skelfingar ósköp er nú leiðinlegt að sjá virðulega þingmenn missa gjörsamlega stjórn á sér í þessu máli. Uppnefni og heiftarorð hjálpa engum málstað ekki frekar en einelti og ódrengskapur. Ljóst er að engin eining er með pólitíska árás á Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra. Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, mælir vel í grein sinni í Mogganum í morgun. Hann segir þar meðal annars:

Mistökin sem ég kalla svo, voru þau að stöðva ekki atkvæðagreiðsluna, þegar sýnt var að hún var að taka á sig afskræmda flokkspólitíska mynd, og gefa þingmönnum ráðrúm til að íhuga málið nánar. Mér segir svo hugur að við þá íhugun hefðu margir sem greiddu atkvæði með málsókn kosið að láta eitt yfir alla ganga í stað þess að setja alla ábyrgðina á herðar eins manns. Þar tala ég fyrir sjálfan mig.

Að öðru leiti vil ég taka það fram að margt vitlaust er í þessari grein Ögmunar. Kannski að ég komi að því í nýjum pistli síðar í dag.

 


mbl.is Árni Þór: „Flestir sótraftar á sjó dregnir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í áhrifastöðu verður kjáninn ekki lengur kjáni

Kjáni er bara kjáni hvort sem hann er verkamaður, skrifstofumaður eða skrifar þennan pistil. Ýmsir finna svo mikið til sín þegar þeir komast í áhrifastöður að það flögrar að þeim að þeir séu ekki lengur kjánar, hafi þvert á móti höndlað sannleikann. Ég er án efa kjáni en hef því miður aldrei komist í áhrifastöðu til að sannreyna kenninguna. Hún er sem sagt ósönnuð, flokkast því sem tilgáta.

Jæja. Í dag las ég frétt á visir.is. Fyrirsögnin er þessi: „Falskt eftirlit verra en ekkert -  brimsalt bjúga í skólamötuneytinu“. Vissulega er þetta löng fyrirsögn og hefur freisting blaðamannsins verið slík að hann gat ekki gert það upp við sig hvort hann ætti að hafa einfalda eða tvöfalda kynningu í fyrirsögn. Í greininni er vitnað til bloggs Margrétar Tryggvadóttur, þingmanns Hreyfingarinnar. „Þar lýsir hún yfir áhyggjum vegna lélegs eftirlits eftirlitsstofnanna ...“. Og svo segir í fréttinni:

Margrét segir málið vægast sagt sérkennilegt og bendir á að einstaklingar myndu ekki nota iðnaðarsalt til matreiðslu heima hjá sér. „Maður reynir að hafa hollan mat heima. En svo fara börnin manns í skólann þar sem þau borða í mötuneytinu. Og þar er stundum brimsalt bjúga í boði," segir Margrét og bætir við að það sé hrollvekjandi að hugsa til þess hversu lengi saltið hefur verið notað til matvælaframleiðslu.

Nú er það svo að salt er salt. Mér skilst að ekki sé til veikt salt né sterkt salt, allt er þetta sama mölin. Eftir því sem ég bes veit er eiginlega enginn munur á iðnaðarsalti og matarsalti. Það sem skilur á milli er meðhöndlun matarsaltsins sem þarf að uppfylla ýmis skilyrði eins og aðrar vörur til manneldis.

Birmsalta bjúgað í sögu Margrétar þingmanns er því ekki hægt að rekja til iðnaðarsaltsins heldur til bjúgugerðarmannsins sem líklega hefur kastað til höndunum við framleiðsluna.

Í biblíunni er haft eftir Jésú: „Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar með hverju á að selta það? Það er þá til enskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum.

Líklega má halda því fram að rangt sé hér haft eftir frelsaranum eða þá að hann noti þessi orð í yfirfærðri merkingu og eigi við mannfólkið. Ég ætla ekki að hætta mér út í túlkunina, nóg er þó sagt.

En ekki misskilja mig. Hér hef ég ekki kallað Margréti þingmann kjána. Heiður hennar er hins vegar sá að vera með sjálfum Jésú umræðuefni í litlum pistli.

Hins vegar má deila um þetta með falska eftirlitið sem Margrét þessi gerir að umtalsefni. Dreg stórlega í efa að falskt eftirlit sé verra en ekkert ... Þetta er svona leiðinda frasi sem gengur um í ræðum og ritmáli eins og afturganga en er gjörsamlega merkingarlaust nema einhver rökstuðningur fylgi.

En mikið óskaplega öfunda ég fólk eins og Margréti fyrir að vera í áhrifastöðu og vita þar af leiðandi allt ... 


Fjármálaeftirlitið lætur „doubltékka“ niðurstöðuna

Stjórn Fjármálaeftirlitsins tekur ávirðingum að forstjóra stofnunarinnar föstum tökum. Það ber að virða. Stjórnin ætlar ekki að eftirláta götunni að leiða umræðuna né heldur að leyfa getgátur og persónulegt skítkast á grunni skýrslu sem hugsanlega má draga í efa. Útfrá sjónarmiði almannatengsla er hér rétt unnið.

Tveim aðilum, öðrum lögfræðingi, hinum löggiltum endurskoðanda, eiga að skoða niðurstöðu Andra Árnasonar, „dobletékka“ þær eins og það er kallað.

Eflaust verður niðurstaðan á sama veg og hjá Andra og nær hún til að hreinsa forstjórann af öllum grun um eitthvað misjafnt. Vonandi dugar það til að þessi stofnun geti unnið eins og henni ber að gera í nánustu framtíð. 


mbl.is Endanleg ábyrgð hjá stjórn FME
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband