Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2010

Los og spekúlasjónir veikja Orkuveituna

Annað hvort veit Orkuveitan eða stjórnarformaður ekki hvernig á að tjá sig í fjölmiðlum eða hann þykist mega segja alla skapaða hluti án tillits til þess umhverfis sem fyrirtækið starfar í.

Það er ekki fyrr en fyrirtækið hefur ákveðið gjaldskrárhækkanir að stjórnarformaðurinn getur tjáð sig um þær. Áður en það gerist á maðurinn auðvitað að halda sér saman og vera ekki með neinar spekúlasjónir í fjölmiðlum. Hann er ekki stöðu sinni til að þóknast þeim.

Upplýsingar um skuldastöðu OR hafa runnið í gegnum alla fjölmiðla enda gúrkutíðin mikil. Opinskátt hafa margir fjölmiðlamenn sem og aðrir talað um hugsanlegt gjaldþrot fyrirtækisins. Varla er hægt að ímynda sér að slík umræða hafi góð áhrif á lánamarkaðinn, sé hann yfirleitt fyrir hendi.

Með dæmalausu kæruleysi hefur Orkuveitan látið frá sér fara viðkvæmar upplýsingar sem matreiddar hafa verið svo einhliða að ætla mætti af fréttaflutningnum einum saman að fyrirtækið eigi enga framtíð nema gjaldskráin sé hækkum um allt að fimmtíu prósentum. Það sem verra er, fyrirtækið hefur enga tilburði haft til þess að leiðrétta þetta. Eða er eitthvað að leiðrétta?

Eignarhald OR skiptir í sjálfu sér engu máli. Það þarf að beygja sig undir það fjölmiðlaumhverfi sem er í landinu og haga upplýsingagjöf á skipulegan og markvissan hátt. Stjórn fyrirtækisins verður að skilja að rekstur þess er ekki leikvöllur hvað þá heldur félagsmálastofnun. Forsendur rekstrarins verða að vera rekstrarlega pottþéttar sem og öll umgjörðin.

Uppá síðkastið hefur mikið los verið í kringum OR. Engu líkar er en að þeir sem þar stýra séu einfaldlega að undirbúa gjaldþrot þess. Sé það rangt þá er mikil vinna eftir í endurskipulagningu.


mbl.is Tveggja stafa hækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hey, enn er sumar þrátt fyrir kuldakast

Í dag er 22. ágúst. Sumri er tekið að halla. Samt er ekki komið haust. Vel getur verið að það sé kuldakast á landinu, en engu að síður, ... það er ekki komið haust. 

Við búum á Íslandi og veðráttan hér getur verið talsvert undarleg fyrir útlendinga en ekki fyrir Íslendinga. Strax eftir verslunarmannahelgina var farið að bera á því hjá ljósvakavíkingum að haustið væri á næstu grösum. Kommon, eru fjölmiðlamenn virkilega svo illa að sér að þeir þekki ekki á dagatal eða inn á íslenska veðráttu.

Nú er sumar. Sættum okkur við að oft á sumrin verður stundum kalt og það hefur komið fyrir, jafnvel á þessu ári að það snjói í fjöll í júní og júlí. 

Þessu til viðbótar má fullyrða að haust á Íslandi hafa undanfarin ár frekar verið mild, stundum langt fram á vetur ... fram í desember. 


mbl.is Haustið sýnir klærnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hálfpólitíkus prédikar hömlur á tjáningafrelsi

Nú ráðast þeir fram málsvarar ritfrelsis, lýðræðis og tjáningafrelsis og krefjast þess að manni nokkrum verði refsað fyrir skoðanir sínar. Jafnvel hálfpólitíkus Samfylkingarinnar Bjarni Karlsson stígur fram og og prédikar að Geir Waage verði sviptur hempunni fyrir þær. Ástæðan er sú að í ítrustu dæmum um afleiðingar þagnarbindindis þess síðarnefnda gæti það kannski, ... ef til vill, ... hugsanlega ... orðið til þess að maður sekur um ógurlega glæpi verði ekki gripinn.

Gallinn við allt þetta ef og kannski er sá að með öllu er óljóst hvort sá sem skriftar fyrir séra Geir Waage sé bankaræningi, njósnari Rússa, morðingi, forstöðumaður Wikileaks, kynferðisglæpamaður eða bara þingmaður Samfylkingarinnar nema því aðeins að'ann Geir segi frá. Og Geir ætlar ekki að segja frá, ekki fekar en blaðamaður sem gætir heimildamanna sinna.

Bjarni Karlsson er greinilega einn af þeim sem reiðir hátt til höggs af því að honum þykir þyturinn í högginu og hljómurinn þegar það fellur eftirsóknarverður. Honum skiptir líklega engu máli hver verður fyrir. Hann vill refsa manni fyrir eitthvað sem hugsanlega getur gerst. Er þá bara ekki í lagi að setja hann Bjarna inn fyrir að geta hugsanlega framið glæp.

Tjáningarfrelsið skiptir öllu í þjóðfélagi, síður hvað er sagt eða ósagt. Það er ekki hægt að bera kápuna á báðum öxlum og krefjast þess að einhver embættismaður lofi því fyrir guði almáttugum að segja frá  verði hann þess vís að einhver hafi sprengt Álfastein, drepið og étið æðarfugl eða kastað brauðmolum á flötina fyrir framan stjórnarráðið. Hvað þá að um alvarlegri glæpi sé að ræða og jafnvel þá sem maður veigrar sér við því að nefna.

Um leið og ég fordæmi skrif hálpólitíkusarins Bjarna Karlssonar tel ég ekkert að því að hann tjái sig með þessum hætti um Geir Waage og þann rétt Bjarna skal ég verja á sama hátt og Geirs. Það þýðir síst af öllu að ég sé sammála þeim.


mbl.is „Nú þarf Geir Waage að hætta“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru þessir tveir gjörsneiddir allri dómgreind?

Til hvers eru þessir tveir menn að deila, Björgólfur Thor Björgólfsson, og Róbert Wessman? Þetta virkar frekar eins og sandkassaleikur tveggja vina sem orðið hefur sundurorða um stundarsakir. Rökin eru engin og skilningur fólks eins og mín, sem asnast til að lesa fréttir og yfirlýsingar frá báðum þessum mönnum, minnkar stöðugt.

Það sem verra er, og það ættu þessir ágætu menn að íhuga, að sárafáir hafa áhuga á deiluefninu. Hvorugur mun fá nokkuð upp í sinn herkostnað annað en fyrirlitningu þeirra sem þegar hafa myndað sér skoðun á svokölluðum útrásarvíkingum eða auðmönnum.

Er virkilega enginn í herbúðum Björgólfs eða Róberts sem segir þeim að hætta, hingað og ekki lengra? Eða eru þeir báðir svo miklir besserwisserar að þeir telji sig vera með þann eina sannleik sem almenningur á að trúa. Gallinn er bara sá að það virðist ekkert vera svart og hvítt í deilunni og því er hún tilgangslaus leikur. Þeir virka báðir dómgreindarlausir í karpi sínu.


mbl.is Varð algjör trúnaðarbrestur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nennti enginn að tala við Björgvin?

Hvað þýða þessi orð að „Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, hafi verið fjandsamlegur í garð Íslands í kjölfar þess að neyðarlögin voru sett í október 2008“? Höfundur skýrslunnar lætur vera að spyrja Björgvin B. Sigurðsson út í þá sálma. Að minnsta kosti koma engar skýringar á þeim.

Hvað gerðist þarna? Var Bildt fjandsamlegur í garð Íslands eða líkaði honum persónulega ekki við Björgvin?

Ljóst má vera að aðstaða Íslands var vægast sagt undarleg og flestum ríkisstjórnum vantaði nákvæmar upplýsingar um hver væru áform þeirra íslensku. Gerði kannski Björgvin ekkert í að skýra út málstað þjóðarinnar í viðtölum sínum við erlenda ráðamenn eða sat hann hnípinn í stól sínum þegar Lavrov „eyddi talinu“ eins og það er orðað í skýrslunni. Eða nennti konan ekki að ræða við Björgvin, rétt eins og Bildt og Bernard Kouchner, utanríkisráðherra Frakka.

Meðan ekki fást frekari skýringar er þá hugsanlegt að þessir atburði segi meira um persónu Björgvins og framkomu hans en stöðu Íslands í bankahruninu?


mbl.is Bildt var fjandsamlegur í garð Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar Björgólfur Thor efnir loforð sitt ...

Segja má að varanlegt tjón hafi orðið á mannorði Björgólfs Thors Björgólfssonar í kjölfarið á bankahruninu. Á móti koma yfirlýsingar hans um að hann vilji eftir fremsta megni aðstoða þjóðina við að komast út úr kreppunni og nýta til þess fjárhagslegt afl sitt og sambönd. Og nú birtir hann vefsíðu og vill koma sinni hlið að í umræðunni.

Draga má í efa að þetta sé góður leikur hjá Björgólfi. Hann berst nú einn gegn því sem má kalla yfirlýst skoðun alls almennings í landinu. Það hlýtur að verða afar ójafn leikur og er þá ekki tekið tillit til þess hvort Björgólfur hafi yfirleitt góð rök fyrir máli sínu. Hins vegar er það óumdeilt að meirihlutinn hefur ekki alltaf rétt fyrir sér, síður en svo.

Margir sem líta á aðstæður Björgúlfs hefðu ráðlagt honum að halda sér til hlés þangað til einhverjar efndir hafa orðið á loforði hans. Gerist það til dæmis að hann geti einn og sér eða með samböndum sínum orðið til þess að auka fjárfestingu hér á landi, aukið verðmætasköpun þeirra fyrirtækja sem fyrir eru eða lagt eitthvað það í pottinn hér innanlands sem styrkir samfélagið, mun dæmið áreiðanlega breytast. Þá, en ekki fyrr en þá, munu landsmenn skoða vefsíðuna með jákvæðari augum.

Þó mun alltaf vera hætta á því að hluti fólks muni aldrei fyrirgefa honum þann þátt sem það álítur, með réttu eða röngu, að hann hafi átt í hruninu.


mbl.is Reynt að fegra stöðu bankans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brottrekstur forstjóra OR kostar 80 milljónir króna

Stjórnarformaður Orkuveitunnar virðist í æ meiri vandræðum með að skýra brottrekstur forstjórans. Fyrst þurfti „nýjan verkstjóra, í Mogganum“ í morgun þurfti „nýjan þjálfara“ og innihaldslausir frastar eins og að fá mann er „gengi til verka óbundinn af fyrri ráðstöfunum“.

Svo mikið lá á að reka forstjórann, svo mikið að annar var ráðinn til bráðabirgða og sá gamli kostar fyrirtækið næstu tíu mánuði um að minnsta kosti 80.000.000 krónur, áttatíu milljónir króna. Hversu margir verða reknir til að fjármagna þá fjárhæð?

Ekkert hefur komið fram um hæfi nýja forstjórans eða verkefnisstjórans eins og sá vill láta kalla sig eða hvers vegna sá var valinn. 

Stjórnarfomaðurinn hefur svo engu svarað um sparnaðartillögur fráfarandi forstjóra og starfsmanna hans. Hann hrekst með svörum sínum úr einu horninu í annað, gefur engar skýringar, flissar og talar eins og véfrétt. Það sem verra er að fréttamenn ganga ekki á manninn og krefjast skýringa meðal annars á því hvernig sparnaðardæmið geti gengið upp með þrjá forstjóra á fullum launum á einu ári.

Fordæmið er nú gefið. Borgin getur framvegis rekið fólk „afþvíbara“. Enginn er öruggur með starf sitt vegna þess að Besti flokkurinn þarf fólk sem er „óbundið af fyrri ráðstöfunum“. Það þýðir eiginlega það að skotleyfi er veitt á hvern sem er.  


mbl.is Ekki ánægja með tillögur um sparnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt gengur í lokuðu hagkerfi

Allt hangir þetta saman. Hin sjálfstæða stofnun Seðlabankinn er nú ekki sjálfstæðari en það að hann tekur við fyrirskipunum frá fjármálaráðherra. Sá þar á móti að svara til saka hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og til að allt sé nu í lukkunnar velstandi eru settar upp æfingar í lokuðu hagkerfi. Skattar eru hækkaðir og þá fær ríkisstjórnin plús í kladdann hjá AG. Pöntuð er lækkun á stýrivöxtum og annar plús kemur í kladdann. Frekari skattahækkanir eru kynntar fyrir AG sem gerir þær að sínum tillögum og fjármálaráðherra fer í boðunarherferð. Þriðji plúsinn í kladdann.

Svo halda allir að allt stefni í rétta átt í hagkerfi sem er svo gjörsamlega lokað og teygt til hins ítrasta. Allir sjá að þetta ástand gengur ekki þrátt fyrir meinta plúsa.

  • Enn eru 15.000 manns á atvinnuleysisskrá og þeim á eftir að fjölga með haustinu, þannig er það alltaf.
  • Aukning í verðmætasköpun er engin enda öllum innlendum og erlendum fjárfestingum í fyrirtækjarekstri hafnað.
  • Hnekkja á dómi Hæstaréttar vegna gengistryggðra lána, verið er að vinna að tillögum um slíkt enda leggst AG gegn honum.
  • Bankar veita enga fyrirgreiðslu til fyrirtækja sem auka vilja umsvif sín, stækka eða bara halda sjó gegn ríkisvæðingu banka á einkareknum fyrirtækjum.
  • Markaðir íbúða og bíla eru ónýtir.
  • Strangar hömlur eru á viðskiptum með gjaldeyri.
  • Tillögur eru uppi um eignarnám á kvóta í sjávarútvegi
  • Lögfesta á einokun í landbúnaði.

Þarf að telja upp meira til að sanna að allt er hægt í lokuð hagkerfi?


mbl.is Vextir lækka um 1%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB stendur Ísland til boða

Íslendingum stendur nú til boða að gerast hluti af ESB. Engin leynd hvílir yfir þessu tilboði. Ljóst er að Samfylkingin telur hagkvæmara að Ísland sé hluti af stóru „sambandsríki“ en að það sé smáríki utan þess.

Rökin með þessum breytingum geta svo sem verið ágæt en þau breyta því ekki að sjálfstæði þjóðarinnar mun breytast að verulegu leyti, miklir hagsmunir þjóðarinnar verða komnir undir ákvörðunum erlendra aðila, auðlindir í sjónum munu verða sameiginlegar með öðrum ríkjum ESB. Það er þó huggun harmi gegn að við fáum að hafa forsetann áfram. 


mbl.is Bauð Þjóðverjum Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skyggði forstjórinn á yfirforstjórann?

Nú eru sýningar hafnar á leikriti Besta flokksin. Byrjar með hreinsunum í Orkuveitunni. Forstjórinn er látinn fara og skýringin er sú að meirihlutinn vildi fá nýjan verkstjóra.

Út af fyrir sig eru þetta afskaplega góð rök með afar víðtækum möguleikum til notkunar víðar í borgarkerfinu. Rökin eru þó engin önnur en þau að forstjórinn er ekki leiðitamur fyrir nýja stjórnarformanninn og fylgjendur hans í stjórninni. Skyggir kannski á hann?

Skyldi engan furða því stjórnarformaðurinn er launaður starfsmaður, nokkurs konar yfirverkstjóri með miklu takmarkaðri yfirsýn en „undirforstjórinn“. Samanburðurinn er því þeim fyrrnefnda óhagstæður og einhver þarf því að taka pokann sinn og það er ekki yfirforstjórinn. Ljótt ef satt er að forstjórinn skyggir á yfirforstjórann. Klár brottrekstrarsök.

Höfum í huga að fráfarandi forstjóri var ráðinn á tímum R listans í borgarstjórn og hefur starfað með mörgum stjórnarformönnum frá ýmsum flokkum og ótal stjórnarmönnum frá enn fleiri flokkum. Enginn þeirra virðist hafa neitt út á fagmennsku forstjórans að setja. Hann hefur ekki brotið af sér í starfi á nokkurn hátt heldur unnið með öllum meirihlutum af trúmennsku. Verkefni hans hafa verið fjölmörg, við fjárfestingar og ekki síður þegar draga þurfti saman seglin og hagræða innan Orkuveitunnar og það hefur óumdeilanlega skilað miklum árangri. Klár brottrekstrarsök

Þetta reynist ekki sá verkstjóri sem meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur er þóknanlegur. Vammlaus embættismaður með yfirburðarþekkingu. Klár brottrekstrarsök.

Frekar vill meirihlutinn efna til ófriðar um Orkuveituna, búa til óvissu sem jafnvel kann að hafa áhrif á fjárfestingamöguleika fyrirtækisins í náinni framtíð. Ef til vill er það sem koma skal að Orkuveitan eigi að sitja með hendur í skauti.

 


mbl.is Vildu fá nýjan verkstjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband