Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010

Öskubyljir í kringum jökulinn í sumar Myndir

aska.jpg

Gríðarleg aska er suður og austur af Eyjafjallajökli. Hún er létt og um leið og hreyfir vind fýkur hún. Ég gekk upp á Fimmövrðuháls um síðustu helgi og sá með eigin augum hvílík auðn þarna er og hversu mikið getur gengið á þegar hvessir.

Á Skógaheiði, þe.e. upp frá Skógum og að göngubrú yfir Skógá er þunnt öskulag, á að giska 2-3 cm.

Fyrir ofan göngubrú fer þykkt öskunnar vaxandi. Við Fúkka má segja að askan sé líklega um 7-10 cm þykk.

EFst á Hálsinum er hún að minnsta kosti 12 cm. Undir er vetrarsnjórinn, vel einangraður, og geymist líklega fyrir komandi kynslóðir.

Ekki veit ég hvað gerist þegar rignir í öskuna. Sumir segja að hún verði eins og steypa en aðrir segja að hún síist niður í jarðveginn. Hvað sem því líður á eftir að rigna á Skógaheiði og Fimmvörðuhálsi og svo kemur þurrkur, það hvessir og svo framvegis.

skogahei_i.jpg

Efsta myndin er tekin um þrjá km fyrir ofan göngubrúna yfir Skógá. Þar, í litlu dalbotnana, hefur safnast saman vatn og þannig verður til öskuleðja.

Næsta mynd var tekin skammt fyrir neðan. Þar hafði öskulag í brekku runnið til og opnað rennu ofan í landið..

Þriðju myndina tók ég af vefmyndavélinni í Múlakoti. Á henni má í fjarska greina Eyjafjallajökul en fyrir framan við hann er öskumökkur sem rýkur af Markarfljótsaurum.

Því miður er líklegt að sumarið í kringum Eyjafjallajökul verði á köflum eins og myndin sýnir. 

100525_vefmynd_fra_mulakoti.jpg

 


mbl.is Sólheimasandur nánast ófær
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er lögreglan eiginlega að hugsa?

Skilningur manna á eðli jarðar, eldgosum, öskufalli, jarðhræringum, óróum og þessu öllu er allur að skýrast. Hins vegar eiga fjölmargir í erfiðleikum með að skilja framgöngu yfirvalda vegna eldgosanna í Eyjafjallajökli og á Fimmvörðuhálsi.

Lögreglan veldur mér alltaf jafnmiklum vonbrigðum. Sérstaklega sú á Hvolsvelli sem á að sjá um framkvæmd almannavarna í kringum Eyjafjallajökul.

hli.jpg

Svokölluðum Þórsmerkurvegi var lokað skömmu eftir að gosið hófst. Fyrst um sinn dvöldu á veginum bílar á vegum fjölmargra björgunarsveita og meinuðu manni akstur inn að Lóni. Lengra var ekki komist.

Svo hjaðnaði gosið smám saman og björgunarsveitirnar hurfu á braut. Enn var Þórsmerkurvegur lokaður. Þá var látið nægja að setja upp grind vinstra megin á veginum. Við hlið hennar, á miðjum vegi, var grafið niður umferðamerkið „allur akstur bannaður“. Hvað var hægra megin veit ég ekki. Þar lá einhvert ræksni, líklega grind. Plastborðar tengdu svo saman þessa þrjá hluta, en rammlegt var þetta ekki.

hli_2.jpg

Þegar eldgosið var í dauðateygjunum og vaknaði lögreglan við illan draum. Ákveðið var nú að loka Þórsmerkurvegi aldeilis traustlega. Sama grindarræksnið og áður var notað og sama umferðamerkið. Til viðbótar var bætt við einfaldri keðju, og var hún treyst með sama plastborðanum. 

Nú komst enginn inn eða út því keðjan var fest með hengilás. Vísindamenn og starfsmenn ferðafélagana þurfu nú að kalla á lögregluna til að hleypa sér út og inn. Stundum var biðin löng. Þó var enginn vandi að komast í gegnum þessa lokun. Hún var greinilega aðeins táknræn.

Hvað mig varðar, þá er ég ábyggilega verri en stór hluti þjóðarinnar og jafnvel lögbrjótur í þokkabót. 

_nyja_hrauni.jpg

Hér með skal það viðurkennt að ég braut gegn boði valdstjórnarinnar. Fyrir hálfum mánuði fór ég inn að lóni, gekk um það og skoðaði.

Síðar gekk ég upp á Fimmvörðuháls með einum félaga mínum. Þegar þangað var komið þótti okkur tilgangslítið að fara sömu leið til baka svo við gengum niður í Goðaland. Þar komum við okkur út eftir þeim fræga Þórsmerkurvegi og aftur að Skógum þar sem bíllinn beið.

Niðurstaðan er þessi: Boð og bönn halda ekki gangandi fólki frá þeim svæðum sem áhugavert er að skoða nema þeim fylgi traust og góð rök. Ég fullyrði að lögreglan viti ekkert í sinn haus.

Af hverju segi ég það? Jú, sjáum til:

  1. Fólk á vegum ferðafélaganna og vísindamenn fengu að fara um hið bannaða svæði eins og það vildi. Umferðamerkið „allur akstur bannaður“ á aðeins við suma - ekki aðra. Ófáir hafa t.d. ekið upp á Eyjafjallajökul og allir komu þeir aftur. Eru t.d. vísindamenn góðir og traustir fjallamenn? að minnsta kosti er ljóst að ekki eru allir fjallmenn góðir vísindamenn.
  2. Þeir sem inn eftir Þórsmerkurvegi fóru voru aldrei skráðir. Auk þess var ekkert athugað hvort ferðalangarnir ættu erindi eða voru bara fylgifiskar annarra, þ.e. ættingjar, vinir og kunningjar. Gæti verið að stundum hafi færri komið út úr Þórsmörk og Goðalandi en þangað fóru inn? Eða fleiri?
  3. Hvergi er eftirlit er með gangandi fólki. Menn láta það nægja að setja einhvern málamyndabúnað á Þórsmerkurveg og Fimmvörðuhálsveg og ætlast til að vegirnir séu lokaðir. Vegir nýtast gangandi vegfarnendum ekki síður en þeim akandi.
stika.jpg

En nú kann einhver að spyrja hvort allir eigi ekki að fara eftir boðum lögreglunnar?

Vissulega. Því er ég algjörlega sammála. Tvennt verður þó að vera á kláru:

Ekki má mismuna fólki.

Rökin fyrir lokun verða að standast skoðun.

Hugsanleg hætta þykja ekki góð rök. 

Forsendur bannsins eru ekki haldbærar. Það er öllum ljóst sem þarna þekkja til. 

Nú hef ég þegar ekið inn að Lóni, skoðað það næstum því í smáatriðum, gengið yfir Fimmvörðuháls og skoðað Goðaland og Stakkholt, farið yfir jökulfallið úr Gígjökli og enn er ég heill heilsu. Er það bara tilviljun?

fimmvor_uhals.jpg

Ég fæ ekki séð að það sé nein hætta á þessu svæði umfram það sem gerist og gengur á ferðalögum um torfarin svæði. Að vísu er nýja hraunið á Fimmvöruhálsi afar erfitt yfirferðar, raunar leggjabrjótur.

Staðreyndin er einfaldlega sú að svæðið norðan og austan Eyjafjallajökuls engu hættulegra en sunnan og vestan hans. Þannig hefur það verið nær því frá upphafi eldgoss.

Lokunin er tóm vitleysa. Það fullyrði ég meðan yfirvöld færa mér ekki sönnun og trúverðuga skýringu á lokuninni.

Og ég tek ekkert mark á því að ekki sé hægt að hafa hemil á fjölda fólks á þessu svæði. Ástæðan er einföld. Langflestir kunna að ferðast og þekking fólks á ferðalögum og útbúnaði er áreiðanlega ekki síðri hjá almenningi en lögreglu. 

Lögreglan þarf bara að hafa haldbær rök fyrir þeim bönnum sem henni dettur í hug að setja. Það er bara alls ekki nóg að setja upp einhverjar lokanir, birta kort og segja svæði hættusvæði sem alls ekki er hættusvæði umfram það sem það hefur alltaf verið. 

Nú stendur til að ganga upp að Goðasteini á Eyjafjallajökli. Vill einhver góður fjallamaður koma með mér og brjóta gegn valdstjórninni í leiðinni? 

Myndirnar:

  1. Efstu tvær myndirnar eru af þessum málamyndahliðum sem lögreglan lét setja upp á Þórsmerkurvegi og rætt er um í fyrri hluta pistilsins.
  2. Þriðja myndin er af ferðafélaga mínum sem gengur yfir hið torfæra, nýja hraun á Fimmvörðuhálsi. 
  3. Fjórða myndin er af stiku í öskufönn skammt neðan Fimmvörðuskála, nálægt Fúkka. Mér þykir þessi mynd afskaplega falleg.
  4. Fimmta myndin er af Fimmvörðuhálshrygg. Þar uppi er Fimmvörðuskáli. Þarna er rosaleg aska og undir er vetrarsnjórinn, einangraður og bíður síns tíma. Niður hlíðarnar hafa runnið öskutaumar þegar vatn hefur náð að hjálpa til.

 


mbl.is Flogið yfir gosið fyrir hádegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grasstrá, lóa og fluga í vandræðum

fjall_og_steinn.jpg

Þá loksins eldgosinu er lokið lítur maður yfir afleiðingar þess og undrast. Magnið sem kom upp úr iðrum Eyjafjallajökuls er gríðarlega mikið. Það sést á Skógaheiði og á Fimmvörðuhálsi.

Neðar virðist gróðurinn eiga auðvelt með að stinga kollinum upp úr öskunni. Ofar er það verra. Bæði er að þar er askan þykkari og einnig er gróðurinn minni, meira um lágplöntur.

Stórkostlegt er að sjá græn strá stinga örlitlum nabba upp úr grárri ösku efst á Fimmvörðuhálsi. Í sjálfu sér er það ekkert nema kraftaverk lífsins.

stra.jpg

Vorið er tíminn og það veit gróðurinn. Einhvers staðar fyrir ofan má finna örlítinn yl og þangað leitar eðliðshvötin. 

Fyrir neðan Gígjökul er villuráfandi randafluga og veit ekkert hvaðan á sig stendur veðrið. Hvergi neitt nema auðn, jafnvel það sem á að vera gróður.Hvað á hún að gera?

Þarna féll askan í nokkra daga í síðustu viku og gjörbreytti vorinu. Hvernig á hún að komast af? Hvar er bjargráðasjóðurinn fyrir randaflugur, geitunga og aðrar flugur? Eflaust er hún ekkert að velta þessu fyrir sér.

byfluga.jpg

Jafnvel lóan er ráðþrota og veit ekkert hvað hún á af sér að gera. Hún ætti þó að hafa yfirsýnina en æskustöðvarnar eru á kafi í einhverjum hroða.

Þarna situr hún á steini og hlær ekki við neinum hjartans vini heldur bíður.

Framtíðin er svosem ekkert ýkja svört þó askan liggi yfir öllu. Brátt rignir eins og alltaf á Suðurlandi og ef heppnin er með verður þetta mikið rigningasumar. Þá má búast við því að askan skolist til, límist ofan í jarðveginn eða renni ofan í læki og ár.

Nú verði sumarið þurrt má búast við öskuþreifandi byljum í kringum Eyjafjallajökul og er átt við ösku þreifandi ... Það kemur alla vega öskunni af stað og er líklega betra en að hún sitji sem fastast. 

 

 

loa.jpg
mbl.is Gosmökkurinn nánast horfinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fimmvörðuskáli er öskubakki

dsc_0764.jpgVið gengum tveir félagar, yfir Fimmvörðuháls. Þar höfum við um árin átt ófá sporin, þekkjum næstum því hverja þúfu. Í þetta sinn var hann frekar ókennilegur og varla að við þettum okkur á einstaka stöðum. Þetta gerir askan sem liggur yfir öllu, grá og ógeðsleg.

Auðveldlega má breyta um nafn á Fimmvörðuhálsi og má hann því heita Öskubakki án þess að neinu sé logið. 

Hér er mynd af Fimmvörðuskála Útivistar sem stendur því sem næst efst á Hálsinum. Allt frá Fúkka og yfir að Bröttufannarfelli er askan mjög þykk. Hún hefur fallið á snjó sem bráðnar hæt og myndar leðjupolla stóra og smáa.

dsc_0571.jpg

Hálsinn er ekki ófær en hann er seinfær og leiðinlegur. Þó er gaman að koma að nýja Eldfellinu og skoða hraunið. Fært er yfir en segja má að hraunið sé algjör leggjabrjótur. Best er að fara niður með hrauninu, þar mjókkar það og veðrur auðveldar yfirferðar.

Neðri myndin erfrá Skógaheiði. Í lítili brekku hefur askan runnið niður og sjá má gróðurinn undir. Þarna er þykkt öskunnar um það bil 15 cm. 

Ég ætla að birta myndir úr þessari ferð minni í dag og næstu daga. Af mörgu er að taka og stórkostlegt að sjá hvernig Eyjafjallajökull hefur spillt sínu nánasta umhverfi. 


mbl.is Gosið liggur alveg niðri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta efnahagshrun verður

Jón Gnarr er þekktur maður. Hann er hins vegar alls ekki þekktur fyrir pólitíska hugmyndafræði eða eldmóð enda telur hann sig ekki hafa neina stefnu. Aðrir flokkar með sömu stefnuskrá myndu fá mjög alvarlega gagnrýni, jafnt frá andstæðum flokkum sem og fjölmiðlum.

Hvernig stendur þá á góðu gengi Besta flokksins. Taka þarf afstöðu til þriggja fullyrðinga:

 

  1. Er Besti flokkurinn listrænn gerningur með stefnu sem er hrein útópía?
  2. Er Besti flokkurinn gagnrýni á aðra flokka sem kjósendur hafa fengið nóg af og þar af leiðandi eru kjósendur að refsa gömlu flokkunum?
  3. Er Besti flokkurinn með betri stefnuskrá en aðrir flokkar og kjósendur hrífast með?

 

Í fyrsta lagi munu kjósendur sjá í gegnum listrænan gerning og ekki kjósa flokkinn þegar á kjörstað er kominn enda til einskis. Flokksmenn hafa hvorki reynslu né þekkingu í stjórnun eða rekstri og niðurstaðan verður margfalt verri fyrir borgarbúa en með núverandi flokkum við stjórn.

Í öðru lagi gætu kjósendur verið að refsa gömlu flokkunum því þeir hafa fengið nóg. Vart er við því að búast að Besti flokkurinn munu hjálpa til við endurreisn íslenskra stjórnmála. Þvert á móti. Ekkert er ljóst um stjórnmálaskoðanir félaga hans, stefnu þeirra eða hvernig þeir taki á málum þegar á reynir.

Í þriðja lagi má fullyrða að aðrir flokkar myndu aldrei komast upp með stefnu eða aðgerðaráætlun á borð við á sem Besti flokkurinn býður upp á. Stefna flokksins er í besta falli jákvætt tal, mal um að láta sér líða vel.

Flokkurinn virðist ekkert velta því fyrir sér að tekjur borgarinnar duga tæpast fyrir útgjöldum. Hann snýr bara út úr í tilraun til að vera fyndinn. Og hann er það í margra augum. Brosið mun þó frjósa á andlitum borgarbúa þegar fyrstu verk nýrrar borgarstjórnar verða þessi:

 

  • Flytja inn íkorna, froska, sauðnaut og sleppa lausum
  • Allar aspir verða felldar
  • Miklatún verði endurskírt Klambratún
  • Redda á „aumingjum“ ...!
  • Banna niðurskurð í listkennslu
  • Spara í stjórnsýslunni (líklega vegna þess að það hefur gleymst ...)
  • Hætt verður að slá gras
  • Einærar jurtir verða ekki gróðursettar
  • Leikskólagjöld fari eftir tekjum foreldra
  • Staðið verði vörðu um allskonar menningararfleið ...

 

Ekki eru til nákvæmar tillögur um sparnað, hvernig eigi að efla atvinnulífið, engar tillögur um menntamál, skuldamál borgarinnar, stöðu Orkuveitunnar og gjaldskrá hennar.

Jón Gnarr fram í nýjum fötum rétt eins og keisarinn í ævintýrinu. Allir fagna, allir skemmta sér og enginn hefur áhyggjur af framtíðinni. Enginn þorir að gagnrýna Besta flokkinn vegna þess að sá sem það gerir er sagður húmorslaus, hafi bar ekkert skopskyn. 

Þeir eru þó til sem hafa skopskyn en horfa með hryllingi fram á annað efnahagshrun sem þá verður eingöngu bundið við Reykjavík eftir næstu kosningar.  


mbl.is Jón Gnarr: „Ég er stoltur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samkeppni tryggir fjölbreytni

Ekki er víst að allir séu sammála Félagi prófessora við Háskóla Íslands sem vilja ekki að kennsla í mörgum greinum skarist á milli háskóla.

Álitamálið er samkeppnin og gæði kennslunnar. Litlu háskólarnir eru án efa mjög góðar stofnanir og kennsluhættir þeirra geta einfaldlega verið framsæknari og betri en Háskóla Íslands. Í raun og veru er ekkert sem tryggir það að Háskóli Íslands sé þess verður að vera eini handhafi háskólanáms á landinu. Þvert á móti.

Það er líklega ekki sanngjarnt að gera háskólaprófessorum upp kenndir um almenna ríkisvæðingu. Benda verður þó á að sú fjölbreytni sem ríkir í þjóðfélaginu byggist á samkeppni um hylli neytendna. Mörg fyrirtæki bjóða til dæmis upp á hjólbarðaskipti, fjöldi veitingahúsa er til, ekki er bara einn aðili sem hefur með höndum útleigu á íbúðarhúsnæði, matvöruverslanir eru fjölmargar.

Þrátt fyrir hið gríðarlega efnahagshrun sem þjóðin hefur þurft að þola er enn fjöldi fólks sem trúir á það fyrirkomulag að samkeppni í rekstri sé samfélaginu fyrir bestu enda útlokað að kenna henni um hrunið. Samkeppni í menntun fólks er góð. Hún tryggir fjölbreytni og kemur í veg fyrir að allir verði „steyptir“ í sama mót.

Vandinn hér er sá hvernig eigi að skilgreina samvinnu milli menntastofnana á því sviði sem öðrum samkeppnisfyrirtækjum er ekki heimilt að stunda slíkt. Hvar ber í raun að draga mörkin?


mbl.is Ekki hægt að réttlæta kennslu í sömu greinum í mörgum skólum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlaupi áin þarf löggan að hlaupa enn hraðar

„Lögreglumaðurinn vaktar ána“, segir í frétt mbl.is. Auðvitað er það einstaklega traustvekjandi að lagana vörður skuli vera við ána. Lækir og ár fara hvort eð er aldrei að lögum.

Vonandi er löggan spretthörð því ef áin hleypur þarf hann að hlaupa enn hraðar.

Nema því aðeins að hann sé staðsettur þarna til þess að halda Svaðbælisá í skefjum. Það er þá einstaklega göfugt starf en um leið vandasamt. Væntanlega fær lögreglumaðurinn laun við hæfi.

Svo segir að flutningsgeta árinnar sé frekar léleg. Ekki er gott að átta sig á því hvað átt er við. Væntanlega er meiningin ekki sú að áin geti flutt sig með örskotshraða, þ.e. hlaupið til og frá og jafnvel áfram. Þá er lögreglumaðurinn í góðum málum nema því aðeins að flutningsgeta hans sé yfir meðallagi.

Gera má þó ráð fyrir að með flutningsgetu sé átt við að hún geti flutt fullt af drullu, rétt eins og vörubíll. En nú er lítið vatn í ánni og því er „flutningsgeta hennar orðin léleg“. Þá væri gott að fá stóra gröfu með mikla staðbundna flutningsgetu svo hún flutningsgeti drulluna upp úr ánni.


mbl.is Varnargarðar styrktir við Svaðbælisá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leirinn frá fyrra flóði er aftur flóðsmatur

100520_leifi_hlaup2.jpg

Margir halda að gjóskan á Eyjafjallajökli sé eins og súkkulaði á ís í brauðformi. Lítið þurfi til að súkkulaðið renni af ísnum. Þannig er það áreiðanlega ekki.

Það sem gerðist í Svaðbælisá er tiltölulega einfalt. Í fyrsta lagi hefur verið óskaplega mikið af leir og eðlju eftir í farveginum eftir hlaupið í upphafi eldgossins í Eyjafjallajökli. Þetta má greinilega sjá á myndum Leifa Eggertssonar, en hann er bróðir bóndans á Þorvaldseyri, Ólafs.

Leifi gekk upp með Svaðbælisá rétt eftir að hlaupið í upphafi goss. Hann tók þar frábærar myndir sem sjá má á vefsvæðinu http://www.flickr.com/photos/leifi. Raunar eru miklu fleiri myndefni á þessu vefsvæði. Allt afskaplega áhugavert .am.k. það sem viðk eur gisinu og nágrenni Þorvaldseyrar.

Á meðfylgjandi mynd má sjá hversu gríðarlegt magn varð eftir að loknun flóðinu. 

Á mörgum þessara mynda má sjá hversu gífurlegur aurinn var í flóðinu. Þessi aur sat svo eftir þegar gosið hætti sunnan megin við toppgíginn. Í vætutíðinni upp á síðkastið verða vatnavextir í öllum ám og líka Svaðbælisánni. Eðlilega heldur eðjan áfram að renna.

Svo er það ábyggilega rétt sem fram kemur hjá jarðfræðingum að þar sem mjög mikill halli er á jökli vaskast gjóskan með vatninu niður í árnar. Það er þó langt í frá að öll gjóskan á jöklinum renni af honum rétt eins og súkkulaðið af ísnum. Hér er ólíku saman að jafna.

Og nú fer ég og fæ mér ís með dýfu.


mbl.is Ekki von á stórum eðjuflóðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er Ferðamálastofa að gera?

Tveimur mánuðum eftir að gosið á Fimmvörðuhálsi hófs og einum mánuði eftir að Eyjafjallajökul byrjaði hefur greinilega ekkert verið gert í kynningarmálum í útlöndum. Tvær vikur eru síðan ríkisstjórnin ákvað að veita um 350 milljónum króna í markaðsátak erlendis og jafnmikil fjárhæð átti að koma frá einkaaðilum.

Hvað er að gerast? Á að nota vextina af 700 milljónunum í markaðsátakið? Eftir hverju er verið að bíða?

Sé niðurstaðan sú að um 15-30% fækkun sé á útlendum ferðamönnum hér á landi þarf að grípa til alvöru ráðstafana. Staðan er ekki ásættanleg. Útlendingar halda að hér sé ekki hægt að ferðast vegna eldgossins. Þessari skoðun þarf að breyta. Ef Ferðamálastofa og Útflutningsráð geta ekki sinnt þessu einfalda starfi þá þarf að skipta um fólk, breyta um stefnu.


mbl.is Svörtustu spárnar hafa ræst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannsandlit kemur í ljós undir Gígjökli

trollid_i_gigjokli_b.jpg
Sjá, risastórt andlit búið til af sjálfri náttúrunni, meitlað inn í mikinn hamar. Andlitsdrættirnir eru greinilegir - kannski er þetta tröll svo stórskorið sem andlitið er.

Og staðurinn er svo undarlegur sem mest má vera. Yfir hamrinum lá um hundruð ára mikill jökull, Gígjökull. Hann slípaði bergi til, vatn rann undir honum enda er allt máð og tiltölulega slétt.

Fyrir nokkrum árum tók jökullinn að hörfa og hamarinn kom smám saman í ljós. Og einnig birtist sprunga sem síðar reyndist vera mikið gljúfur.

trollid_i_gigjokli_c_991553.jpg

Eftir að gjósa tók í Eyjafjallajökli bráðnaði ísinn í toppgígnum. Vatnið streymdi skemmstu leið niður Gígjökul. Milljónir tonna af vatni, möl, stórgrýti, leir og ís ruddist niður og fann sér leið út um stóra gljúfrið. Og á stundum var það sjóðandi heitt. Því má grípa til slitinna frasa og orða það þannig að mikið álag hafi verið á hamrinum góða og gljúfrinu.

Þó eldgosið sé enn í fullum gangi hefur orðið lát á hamförunum í lónsstæðinu fyrir neðan Gígjökul. Þar er áhugavert land sem í raun er í seilingarfjarlægð ef yfirvöld myndu leyfa umferð um Þórsmerkurveg að gamla lónsstæðinu.

Allir sem þangað leggja leið sína geta heilsað upp á tröllið. Kannski er það hinn einu og sanni Steingrímur. Aðrir segja að þetta sé Katla sjálf sem villtist af leið og varð að steini hjá nágranna sínum.

 

 


mbl.is Sprengigos er enn mikið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband