Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Löbbumenn labba langa löbbuleið

Í morgunútvarpinu var sagt frá tveimur náungum sem eru að labba frá Ísafirði til Reykjavíkur. Í sumar gengum við feðgar yfir Kjöl. Held að við göngumennirnir höfum notað sömu aðferð og löbbumennirnir. Hef þó trú á að löbbuleið þeirra sé mun lengri en gönguleið okkar.

Í gærkvöldi sat ég lengi fyrir framan tölvuna þangað til ég stóð loks upp og labbaði inn í stofu.

Um mann fer þegar labbakútar meðal fjölmiðlafólks getur ekki druslast til að vanda mál sitt.

 


Spámaðurinn mikli eða kjaftaskurinn

Talaðu oft, mikið og lengi. Eftir nokkur ár verður sagt um slíkan mann að hann hafi lengi verið baráttumaður og svo er endalaust hægt að vitna í ræður og skrif hans.

Auðvitað er þetta ekki geðfellt ráð. Sá sem fer eftir því verður kjaftaskur. Fleiri myndu eflaust mæla með því ráði að tala sjaldan, tala stutt og reyna að vera skorinorður.

Jón Baldvin Hannibalsson hefur vit á fjölmörgu og talar lengi og mikið um allt frá ESB til breytinga á vegarstæði við Álafoss. Hann skrifar líka óhemju langan texta og lætur allt vaða. Sem fyrrverandi ráðherra og þingmaður er hann endurnýtanlegur. Alltaf er hægt að vitna í kallinn og stundum hljómar það spaklega. Hann hefur hlaðið fram öllum skoðunum og hlýtur því oft og mörgum sinnum að hafa rétt fyrir sér.

Svona eru margir, en sumir kjafta alveg rosalega. Reynsla þeirra er mikil. Þeir hafa hitt höfðingja og stórmenni beggja vegna Atlantshafsins, drukkið brennivín með ráðherrum og fyrirmönnum, dottið í´ða með kokkinum, tekið á leigu einkaþotu, vaknað í Kaupmannahöfn, setið fullir á tröppum á samkomuhúsinu í Hnífsdal með bindið um hausinn og stelpu í fanginu, staðið í brúnni hjá Sameinuðu þjóðunum og þrumað yfir hausamótunum á allra þjóða kvikindum.

Og hvað situr eftir. Jú, ótal sögur og mikil eftirspurn eftir áheyrendum. Þeir sem hlusta tala um spámanninn mikla, þeir sem hlusta grannt finna fyrir kjaftaskinum.


Greinaskrif byggjast á fjórum aðalatriðum

Ég velti því stundum fyrir mér hvers vegna í ósköpunum sumt fólk ryðst fram á ritvöllinn í bloggi eða blaðagreinum án þess að hafa áður mótað hugsun sína. Ekki síður er það furðulegt þegar fólk virðist ekki einu sinni hafa haft fyrir því að lesa skrif sín yfir.

Daglega les maður í Mogganum greinar sem eru svo fátæklegar af sjálfsögðum hjálpartækjum lesenda. Í raun skipta þrjú til fjögur atriði meginmáli svo grein geti vakið athygli. 

 

  1. Fyrirsögnin
  2. Upphaf greinarinnar
  3. Millifyrirsagnir
  4. (Notkun greinaskila)

 

„Kreppuþankar“ nefnist grein eftir Valgerði Bjarnadóttur í Mogganum í morgun og hún fellur á öllum þessum ofangreindu atriðum. Fyrirsögnin er vond, upphafið og langt og engar millifyrirsagnir. 

Grein Sigurðar Kára Kristjánssonar fyrrverandi alþingismanns er nákvæmlega á sömu bókinna brennd. Stjórnmálamenn eiga það oft til að ganga í fótsporum Gunnars Thoroddsen fyrrverandi forsætisráðherra sem átti það til oftar en ekki að rifja upp atburði frá landnámsröð í réttri tímaröð þangað til hann kom að efni máls.

Grein lögmannsins Einars Þórs Sverrissonar þar sem hann ver sig fyrir árásum Agnesar Bragadóttur blaðamanns er annars eðlis. Honum tekst þó ekki vel upp. Einar er í mikilli vörn og breytir því ekki með grein sinni. Hins vegar virðist hann hafa nægt efni til að hreka rök Agnesar en nýtir þau ekki og veit greinilega ekki af þessum ofangreindum fjórum atriðum.

Versta greinin er þó eftir þingmenn Borgarahreyfingarinnar. Verð þó að viðurkenna að samúð mín með þessum ógæfusömu þremenningum hefur farið hraðminnkandi eftir því sem lengra hefur liðið frá kosningum. Það breytir þó því ekki að greinin er alltof löng, fátt er um greinaskil, engar millifyrirsagnir, upphafið er vont og fyrirsögnin allra verst. Því til viðbótar má nefna þennan réttlætingartón sem rekur sig í gegnum alla greinina og hvetur mann til að hætta lestri.

Jafnvel vanir pennar flaska oft illilega á greinaskrifum. Takið bara eftir upphafinu á þessari grein, hún er alls ekki í anda þess sem hér hefur verið sagt. Hins vegar hefur allt sitt eigið viðmót, grein í dagblaði, tímaritagrein, frétt og svo framvegis. 

Og las ég greinina mína yfir? 


Stórkostlegar skemmdir á Þverfellshorni

 

DSCN1610

Þverfellshorn er aðeins hluti af Esjunni. Lítið er gert í því að hvetja fólk til að njóta gönguleiða á aðra hluta fjallsins til dæmis Kerhólakambs, Kistufell, Lág-Esju og ekki síður Móskarðshnúka sem tengjast Esju órofa böndum.

Þegar fólki er smalað á einn stað hlýtur landið að bera þess merki, átroðningur hefur vaxið og víða hafa orðið stórskemmdir á landi. Sérstaklega er ástandið slæmt í mýrinni á Langahrygg og undir klettabelti Þverfellshorns. Á báðum stöðum hafa troðist margir göngustígar og vatn náð að grafa þá niður og þannig stórlega aukið við skemmdirnar.

Staðan á Þverfellshorni er orðin svo slæm að borgaryfirvöld og Skógræktin þurfa nú að huga að því byggja upp tröppur upp hlíðina undir Horninu til að hlífa landinu. Ástandið getur ekki annað en versnað og í svona bratta eins og þar er gerast hlutirnir mjög hratt þegar göngumönnum fjölgar - og þeim á eftir að fjölga..


mbl.is 90% aukning í gönguferðum á Esju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðeins fyrir skoðalausa, sérsinna sérvitringa

Stendur dálítið sérstakt að sérlegur ráðgjafi sérstaks saksóknara skuli hafa leyfi til að tjá sig um menn og málefni en sá sem sækir um starf sérstaks þurfi að hafa verið með öllu skoðanalaus til að geta komið til álita. Minnir á trúarlega staðhæfingu um að kona hafi verið mey fyrir og eftir getnað.

Líklega er þetta starf ekki nema fyrir sérlundaða og sérsinna sérvitringa, skoðanalausa fyrir og eftir hrun.

 


mbl.is Jón dregur umsókn til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eva Joly gerir það sem forsætisráðherra á að gera

Þau skilaboð eru nú send til nágrannalandanna að verið sé að rannsaka ástæður bankahrunsins. Hins vegar veltir maður því fyrir sér hvers vegna Eva Joly þurfi að taka að sér þetta verkefni, sem hún vissulega gerir vel. Hvar er forsætisráðherra? Hvers vegna heldur hún sig heima bak við lokaðar dyr.

Eru til einhverjar leiðbeiningar fyrir forsætisráðherra í hverjum stendur að embættið skuli ekki tjá sig um mikilvægustu mál þjóðar sinnar?

Eða er möguleiki á að forsætisráðherra Íslands skemmi fyrir málstað þjóðarinnar með því að tjá sig á erlendum vettvangi?

Er ástæða til að senda fleiri embættismenn en sérlegan ráðgjafa í bankahruninu í kynningarmálin fyrst forsætisráðherra og ríkisstjórnin vilja halda sig til hlés ... 

 


mbl.is Bankahrun líkist máli Madoffs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gerir Ísland innrás í Holland?

aa_onytt.jpg

Hún er lúmsk þessi frétt á mbl.is og sú sama á bls. 7 í Mogganum. Halda mætti að íslensk stjórnvöld væru að byggja upp einhvers konar áróður gegn Hollendingum og jafnvel Bretum. Eitthvað álíka mátti áreiðanlega sjá í fjölmiðlum Þjóðverja skömmu fyrir innrás þeirra í Pólland.

Þó að ekki sé rétt að bera hamfarirnar í Hollandi 1953 saman við gosið í Heimaey 1973, þá er fróðlegt að renna yfir lista um framlög þjóða til Íslands og Eyjamanna, sem Morgunblaðið varð sér úti um hjá Viðlagatryggingu, áður viðlagasjóði. Samkvæmt honum er hvergi að sjá framlög frá Hollandi, en þau gætu engu að síður hafa borist eftir öðrum leiðum.
 
Þetta er ekki skemmtilegur leikur. Vísast er verið að gera að því skóna að Hollendingar krefjist efnda af Íslendingum vegna Icesave og taki jafnframt ekkert tillit til bágrar stöðu Íslands, hvorki nú né í kjölfar Heimaeyjargossins.

Auðvitað er þetta bull sem ekki á að bera á borð fyrir skynsamt fólk. Metingur um gjafmildi þjóða er alls ekki viðeigandi. Eða má búast við innrás Íslendinga í Holland?


mbl.is Hollandshjálpin enn vinsæl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorry, computer says NO!

Þessi litla saga kemur manni ekkert á óvart. Bankarnir hafa alla tíð haft aðeins eitt markmið; tryggja öll útlán. Út af fyrir sig er ekkert út þá þá stefnu að setja. Varla getur nokkur maður fullyrt að bankar skuli vera einhvers konar félagsmálastofnanir.

Og þó. Þeir hljóta að bera einhverja ábyrgð í samfélaginu aðra en þá að geyma peninga. Staðreyndin er sú að sumir eiga í fjárhagsvanda um skamman tíma eða lengri rétt eins og Sigrún Dóra Jónsdóttir sem fréttin fjallar um. Eflaust kunna sumir að halda því fram að þessi ágæta kona geti bara sjálfri sér um kennt. En málið er sjaldnast svona einfalt jafnvel þó bankarnir haldi því fram.

Það er auðvelt að hafna fyrirgreiðslu, viðskiptavinurinn er bara kennitala, eitthvað nafn sem aldrei þarf að hafa áhyggjur af. Viðkomandi þjónustufulltrúi getur auk þess vísað í vanskilaskrár, ónefnda yfirmenn og jafnvel einhverja útlánanefnd. Allir koma sér hjá því að rökstyða öðru vísi en á þennan hátt: Sorry, computer says NO.

Þó svo að fjármálin geti verið erfið, viðkomandi eigi í vandræðum með að standa í skilum, þá skiptir mestu máli að veita þá aðstoð sem leiðir til tekjuauka og betri stöðu.

Ef til vill er það til of mikils mælst að bankarnir sýni liðlegheit og hjálpi til. Þeir þykjast þó ekkert nógu góðir að geyma það lítilræði sem maður fær í laun.

Hvernig er hægt að berja skilning inn í hausinn á þessu bankafólki? 


mbl.is Móðir hrökklast frá námi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er sök Landsvirkjunnar?

Það er eins og þetta sé háalvarlegt svikamál. Lítið sveitarfélag þarf að breyta aðalskipulagi hjá sér og sá aðili sem valdur er að stærstum hluta breytinganna greiðir kostnaðinn. Og hvað með það?

Umhverfisráðherra gerir sig nú gildan og heimtar upplýsingar. Gæti verið að ekki sé nógu mikið að gera á þeim bæ eða saknar ráðherrann athygli fjölmiðla.

Samgönguráðuneytið er búið að skera úr í þessu máli. Ætti einhver einhver annar hlut að máli en Landsvirkjum væru samgönguráðherra og umhverfisráðherra í mikilli samkeppni um að fá að lýsa því yfir að breyta þyrfti lögum litla sveitarfélaginu í vil.

En munum að Landsvirkjun er „ljóti kallinn“ og nú þarf að rannsaka „sök“ þess. 


mbl.is Óskar eftir frekari upplýsingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kerfið segir að allt sé í himnalagi

Skuldir hafa vaxið án þess að lántakendur hafi nokkuð gert til að verðskulda það. Hver í veröldinn gat séð fyrir að forsendur lána myndu breytast á þann hátt sem þau gerðu. Forsendur lána miðuðu við frávik sem allir gátu í raun ráðið við. Við ákváðum að taka lánið sem var hagstæðast.

Núna hefur allt breyst. Hagstæðasta lánið er orðið að versta. Og hvað hefur maður gert annað af sér en að vera til.

Fjármálaráðherrann er orðinn að talsmanni einhvers kerfis. Hann hlustar ekki á fólkið í landinu, hann les skýrslur frá kerfinu, ráðgjafar hans koma úr kerfinu, þeir þiggja laun sín frá kerfinu. Enginn vill rugga bátnum, enginn segir söguna eins og hún raunverulega er. Ráðherran veit ekki að fasteignamarkaðurinn er hruninn, bílamarkaðurinn er vart til, verslun hefur dregist saman, gengið heldur áfram að falla. 

Þetta er sama staða og var fyrir hrun. Enginn sagði frá, allir voru innviklaðir í kerfið, þágu laun sín þaðan.

Ráðherrann nota orðfæri verjenda kerfisins: „Ábyrgðarlaust“, „háskalegt“, „hættulegt“, „ófarnaður“. 

Við þurfum að bylta kerfinu. Skiptum þeim út sem hvorki hlusta né vilja breytingar.


mbl.is Háskalegt að borga ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband