Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Verður Ísland gert gjaldþrota?

Maður nokkur skuldaði Landsbankanum eina milljón króna. Hann greiddi ekki á gjalddaga og ekki heldur síðar.

Bankinn er með tuttugu manna lögfræðideild. Hún gekk eins hart fram og hægt var, hirtu hverja krónu af manninum og gerðu hann gjaldþrota.

Ef marka má alþjóðalög gerðu íslensk stjórnvöld upp á milli kröfuhafa íslensku bankana. Kröfuhafarnir ætla að láta reyna á rétt sinn.

Er einhver hissa? 


mbl.is Verið að höfða mál gegn Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skurðurinn var gagnslaus

Eitt sinn var maður. Hann mokaði langan skurð og afkastaði meiru en allir forverar hans og eftirkomendur, sumir segja til samans. Hann var bestur og mestur í að moka skurð. Gallinn var bara sá að á hann átti á plægja land og sá í það.
mbl.is 42 mál af 48 afgreidd á 100 dögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frétt eða slúður

Hvort er þetta frétt eða slúður? Er fréttin sú að Hallgrími hafi verið boðið í brúðkaup þingmanns Sjálfstæðisflokksins? Er það frétt að hann hafi tapað hattinum sínum? Varla.

Hvað má þá segja um annað í þessari „frétt“? Blaðamaðurinn fer þarna hamförum og ekki líta Flateyringar vel út í frásögninni.

Svo gleymist auðvitað aðalatriðið sem að skáldið hafi burstað tennurnar og klórað sér í rassinum. Í boði Baugs, „... eftir því sem sagan segir“.

Kannski kemur ítarlegri fréttaskýring um næstu helgi.


mbl.is Hattinum stolið af Hallgrími
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætlar Kaupþing að tapa 6 milljörðum?

Líklega telur bankastjórn Kaupþingi miklu meiri líkur á því að geta innheimt lánið með fjárnámi eða ganga að einhverju veði heldur en að taka tilboði Björgúlfsfeðga.

Vonandi liggur ekki að baki einhvers konar lexía eða fordæmi sem bankinn er að sýna. Svoleiðis æfing kostar 3.000.000.000 króna og er gjörsamlega gagnslaus. Raunar má fullyrða að bankinn tapi tvöfaldri þessari fjárhæð þar sem annar skuldaranna er gjaldþrota og eignir beggja líklega fullveðsettar.


mbl.is Milljarðalán Björgólfsfeðga í innheimtu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þessu fylgir viðvarandi atvinnuleysi

Þegar bílasala fellur niður um 76% og íbúðasala um 60% þá hlýtur flestum að vera ljóst að kreppan er skollin á. Samdráttur á þessum mörkuðum þýðir einfaldlega atvinnuleysi.

Viðbúið er að þessir markaðir nái sér ekki í bráð þar sem fjöldinn allur er með lán í bílum og íbúðum í erlendri mynt. Þar af leiðandi koma slíkir bílar ekki á markaðinn nema svo ólíklega vilji til að eigendur þeirra eða aðrir séu tilbúnir að greiða upp mismun á höfuðstólsskuld og markaðsverði.

Afleiðingin verða nokkurs konar átthagafjötrar og bílaflotinn eldist úr hófi fram. Hvort tveggja jafn slæmt. 


mbl.is Samdrátturinn 75,68%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítur afar illa út fyrir Borgarahreyfinguna

Þeir sem sitja enn sem fastast í Borgarahreyfingunu gera sér án efa ekki grein fyrir því hversu illa þetta mál lítur allt út fyrir flokkinn. Þó maður sé allur að vilja gerður er ómögulegt að álita annað en að allt málið snúist um að láta Þráinn Bertelssen líta illa út í augum annarra. Það hefur ekki tekist og vopnin snúist aldeilis í höndum þessa fólks.

Þremenningarnir hafa látið hafa eftir sér að allt þetta muni nú hjaðna og líða hjá. Því miður er þetta einber óskhyggja. Meðan Þráinn er á þingi mun allt þetta mál einfaldlega vera mönnum í fersku minni.

Hins vegar er greinilegt að fjölmargir sómakærir menn hafa starfaði í Borgarahreyfingunni og þeir hafa nú hætt störfum og jafnvel hætt í flokknum. Ástæðan er einfaldlega sú að enginn vill tengja sig við þá sem stunda róg eða versla með atkvæði sín á þingi eins og þremenningarnir hafa gert sig seka um í aðdraganda ESB ályktunarinnar.

Nei, þetta mál hverfur ekki og verður til þess að þessu fólki verður eki framar treyst. 


mbl.is Margrét situr sem fastast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikið vildi ég að Kolkrabbinn væri kominn aftur

Ég man þá tíma er Eimskip var burðarás í íslensku atvinnulífi. Ég man er Flugleiðir voru burðarás í íslensku atvinnulífi. Mér eru mörg önnur fyrirtæki ofarlega í minni, til dæmis Heklu hf., Sjóvá hf, Símann og fleiri og fleiri fyrirtæki.

Fyrir tíma útrásarvíkinganna gagnrýndu vinstri menn eigendur margra þessara fyrirtækja og nefndu Kolkrabbann og var þá átt við að þeir tengdust og  voru líklegast í Sjálfstæðisflokknum.

Þetta þóttu afar vond fyrirtæki og ekki síður stjórnendur þeirra. Að minnsta kosti var það mat margra sem teljast nú „málsmetandi“.

Hvað sem þeirri gagnrýni líður voru fyrirtækin stöndug, lögðu metnað sinn í að vera vinnuveitendur, hugsað var um störfin og auðvitað reynt að skila hagnaði. Stundum gekk það, stundum ekki. Eigendurnir mergsugu þau ekki. Þeir fundu til ábyrgðar sinnar gagnvart samfélaginu, gagnvart viðskiptavinum sínum og ekki síst starfsmönnum.

Nú eru breyttir tímar. Kolkrabbinn er löngu liðinn, „sem betur fer“, segir gamla vinstra liðið enn og aftur.

Hvað fengum við í staðinn?

Eimskip er í nauðsamningum, Flugleiðir sem heitir Icelandair venga þess að íslenskt mál þykir ekki nógu fínt, er komið í eigu bankanna, sama er með Sjóvá. Síminn er í eigu þessa fyrirtækis sem enginn venjulegur maður veit hvað gerir en heitir Exista af því að íslenska er ekki nógu fín fyrir þessa gæja.

Og hvað eig þessi fyrirtæki öll sammerkt? Jú þau eru á hvínandi hausnum nema ef til vill Síminn af því að ég og þú greiðum svo há afnotagjöld fyrir síma, net og sjónvarp.

Mikið vildi ég að Kolkrabbinn væri kominn aftur. Þeir sem stóðu að honum iðkuðu þó mannlegan kapítalisma. Hann skil ég.


mbl.is Allir kröfuhafar samþykktu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kántrýdagar að hefjast í sól og yl

dsc_0147.jpg

Skagströnd er að búa sig undir Kántrýhátíð. Íbúarnir hafa verið að skreyta bæinn síðustu daga og útkoman er óskaplega skemmtileg. Verðið spillir ekki heldur fyrir, glampandi sól og hiti um 15 gráður.

Skagströnd er að bú

a sig undir Kántrýhátíð. Íbúarnir hafa verið að skreyta bæinn síðustu daga og útkoman er óskaplega skemmtileg. Verðið spillir ekki heldur fyrir, glampandi sól og hiti um 15 gráður þegar þetta er skrifað um kl. 15 á föstudegi. 

dsc_0296.jpg

Starfsfólk Vinnumálastofnunar brá undir sig betri fætinum, stökk út í sólina og dansaði af lífsins list eins og sjá má á þessum myndum.

Fjöldi fólks er kominn í bæinn . Húsbílar, tjaldvagnar og fellihýsi eru víða í görðum og tjaldsvæðið er næstum því orðið fullt. 

dsc_0188.jpg

Er sambandslaust milli kjafts og heila?

Félagsmálaráðherra er ótrúleg í málflutningi sínum. Hann er einn af þessum mönnum sem virðist skipta landsmönnum í tvo hópa, góðu gæjana og þá vondu.

Málin eru ekki svona einföld nema ef vera skyldi að félagsmálaráðherra sé einfeldningur.

Ég hef ekki nokkra trú á því að einn einasti maður hafi ætlað sér að koma landinu í þá kreppu sem það er í. Sú sök sem félagsmálaráðherra hermir upp á Einar Kr. Guðfinnsson bítur hann sjálfan þar sem hann var þingmaður á þeim tíma sem allt hrundi. Vilji ráðherrann sortera samþingmenn sína lendir hann án efa í stökustu vandræðum.

Af þessu leiðir að það er lítið samband á milli kjaftsins og heilasellunnar í ráðherranum. Hann ætti að byrja á því að koma upp raunhæfu sambandi þar á milli áður en hann fer að tjá sig í nafni framkvæmdavaldsins.

Mest knýjandi er að ráðherrann komi sér upp úr skotgröfunum og átti sig á því að verkefni hans er ekki að skattyrðast við þingmenn eða almenning  heldur að vinna fyrir þjóðina. Hann ætti kannski að koma sér á In Defence fundinn á Austurvelli kl. 17 og sannfærast um að þjóðin vill ekki drápsklyfjar Icesave samningsins sem hann hefur samþykkt. 


mbl.is Klappstýra hrunsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fátt breyst í Seðlabanka frá því Davíð var sparkað

Athygli vekur að fjölmiðlar hafa ekki verið að hræra í forsætisráðherra og fjármálaráðherra fyrir þennan vaxtaákvörðunardag Seðlabankans. Skýringin er eflaust Icesave og fjölmiðlar hafa gleymt stýrivöxtunum. En hátt vaxtastig Seðlabankans er enn gríðarlegt vandamál fyrir atvinnulífið ekki síður almenning.

Allt frá því í febrúar hafa forsætisráðherra og fjármálaráðherra verið með þungan pólitískan þrýsting á Seðlabankanna að lækka stýrivexti. Þess ber þó að gæta að Seðlabankinn er sjálfstætt stjórnvald og peningamálastefnunefndin sett á fót til þess eins að styrkja þá stöðu og láta svo líta út að þessir ráðherrar komi þarna hvergi nærri.

Það sem er þó merkilegast í þessu er hversu fjölmiðlar eru allir flöktandi og ósamkvæmir sjálfum sér. Í vetur og haust voru þeir allir uppfullir af vangaveltum, fréttum og malbiki um stýrivexti. Á mörgum mátti skilja að það væri sök Davíðs Oddssonar að stýrivextir væru of háir. Sú kenning hefur fyrir löngu verið afsönnuð af þeirri einföldu ástæðu að stýrivextirnir hafa sáralítið breyst frá því að vinstristjórnin tók við og Davíð var sparkað. Með pólitísku handafli voru þeir lækkaðir úr 18% niður í 12%.

Núna er einhverri konu úr peningamálanefndinni sigað á Davíð. Í skjóli hagfræðimenntunar sinnar fullyrðir hún að Davíð hafi ekkert vit haft á stjórnun Seðlabanka. Vitleysan í Davíð var þó ekki meiri en svo að stýrivextirnir eru í samræmi við það sem ákveðið var meðan hann var í bankanum og sáralitlu hefur að öðru leyti verið breytt nema því einu að nýr bankastjóri hefur verið ráðinn sem er yfirlýstur vinstri maður og það hlýtur auðvitað að vera betra en að yfirlýstur hægri maður sitji í stöðunni.

Lætin vegna Davíð voru einungis þau að það vantaði blóraböggul. Þegar hann fór hjaðnaði froðan en ekkert breyttist. Ríkisstjórnin hefur í raun verið verri en engin, það sanna Icesave samningarnir sem hún leggur ofuráherslu á að verði samþykktir. 


mbl.is Stýrivextir áfram 12%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband