Séra biskupinn

SólHONUM séra biskupi Sigurbirni Einarssyni er mikið hampað þessa dagana. Hvort tveggja er að maðurinn er orðinn 95 ára og þykir víst orðinn hinn spaki öldungur, viskubrunnur þess liðna. Svo er hann líka kennimaðurinn og þar af leiðandi hlýtur þekking hans að taka allri annarri fram og svo mikil er nándin við guð. Þetta fannst mér kannski.

Hann talar svo fallega," sagði konan og gerði sig guðsóttalega í andlitinu, kannski til að leggja meiri áherslu á orð sín. Þetta segja líka margir og bæta því við að hann sé skrifari góður og sannfærandi prédikari. „Ég þekki sko góða ræðu þegar ég heyri hana," bætti konan við og henni leið áreiðanlega vel í sálinni sinni.

Alla mína ævi hef ég hlustað og horft á séra Sigurbjörn biskup úr fjarlægð og stundum undrast hann. Foreldrar mínir höfðu á honum svo mikið dálæti að þau létu börn sín ávallt hlusta á boðskap hans. „Þei, þei," sagði faðir minn strangur á svip. „Nú hlustum við á biskupinn." Jól, nýársdag, páska, hvítasunnudag, sautjánda júní og aðra helgidaga. Og þegar broddborgarar þjóðarinnar burtkölluðust var hann tilkallaður að kasta rekunum. Og ég hlustaði ... og ég hlustaði.

Og ég hlustaði líka á séra biskupinn þegar ég var drattaðist á fullorðinsár ...
Væri ég spurður, nákvæmlega á þessari stundu, hvað mér þætti nú merkilegast við prédikanir séra Sigurbjörns, hvað standi upp úr eftir alla þennan tíma myndi ég eflaust svara svona eins og þúsundir annarra Íslendinga: „Hann talar bara svo fallega."

Væri ég krafinn frekari útskýringar um hvað væri svona fallegt við prédikanir hans stæði ég eiginlega á gati. Kannski myndi mér takast að stama því upp að hann væri svo sannfærandi.

Sannfærandi í hverju?"

...tja, í guðorðatali sínu," myndi ég kannski asnast til að segja, svolítið rauður í framan eins og þegar ég gataði í munnlegu prófi í MR í gamla daga.

Þarna er það loksins komið og best að viðurkenna það hér með. Í hreinskilni sagt veit ég eiginlega ekkert um hvað séra Sigurbjörn hefur verið að tala síðustu fjörutíu árin, þau og þó hefði ég átt að hafa nægilegt vit til skilnings, ... en maður lifandi hvað hann sagði þetta allt fallega!

Ef til vill segir þetta meira um mig heldur en séra biskupinn, en ég held því miður að hið sama gæti nú átt við um marga aðra Íslendinga. Staðreyndin er bara sú að svo ósköp fáir vita um hvað hann hefur verið að tala nema útvaldir leikmenn og svo kennimennirnir allir, þátttakendurnir í iðnaðinum, kallarnir í svörtu kjólunum sem allir sem reyna að tala svo fallega á sunnudögum og öðrum helgidögum í þeim tilgangi einum að láta manni líði vel í flakandi sálinni.

Já, mikill er máttur orðsins, hins talaða og ritaða.

Skiptir þá í raun og veru engu hvað sagt er svo fremi sem það er vel og mildilega flutt? Gengur bissnisinn út á það eitt að raða saman orðum í sennilega runu og bæta af og til guðræknisorðunum blessi þig og varðveiti þig og nokkrum amenum?

Þegar ég var svona í kringum tíu ára aldur hlustaði ég einu sinni sem oftar á messu í þvingunarútvarpi ríksins, þeim eina útvarpsmiðli sem þá var leyfilegur, og þá heyrði ég frægan prest bæta því við í stólræðu sinni um hina síðustu og verstu tíma, þar sem allir voru óalandi og óferjandi: „... og svo herma þeir líka eftir sjálfum prestunum."

Ó, þvílíkir tímar, þvílíkur lýður, hugsaði ég, barnið, án efa, og upp fyrir mér rann að það væri ljótt að gera grín að köllunum í svörtu kjólunum og ekki síður að guðsorðatal væri eitthvurt gamanmál. Ég sá samt í gegnum þetta og lagði engan trúnað á svona vitleysu.

Hvaða hefur svo séra biskupinn verið að boða alla sína tíð sem ekki hefur þegar verið framborið í einni mynd eða annarri? Ekkert veit ég um það. Kannski er engu við að bæta nema því sem einsetumaðurinn mælti af því að hann er einsetumaður og fjarri öllum lýðnum. Og þá sjaldan sem hann mælir hlusta allir opinmynntir. „Og hver er leyndardómur lífsins, kæri spaki einsetumaður?"

Hann svarar svo undurmjúkt og fallega, horfir fjarlægum augum út fyrir skýin, himinhvolfið og líklega inn í næsta heim. „Borða reglulega, sinna líkama sínum og anda." Og nærstaddir undrast og ljúka lofsorði á þann spaka sem allt eins gæti verið séra biskupinn, Jón Baldvin eða einhver annar sem ekki brúkar sig lengur í orrahríð stundarinnar. Um einhvern var sagt að hann væri „elskaður og dáður af öllum þeim sem ekki þekktu hann".

Og hvað er þá það sem ég undrast? Er ég kannski ekki trúaður?

Sko, mennirnir eru í meginatriðum eins, hvert sem kyn þeirra er, litur, trúarbrögð eða starf.  Eiginlega er munurinn þessi sérhæfing sem menn tileinka sér. Sumir eru bændur, aðrir, læknar, margir vinna við framleiðslu, sinna fjármálum og þeir eru til sem stunda ýmiskonar rannsóknir á mannslíkamanum, jarðarkringlunni eða alheiminum og svo framvegis og efla þannig þekkingu og visku mannkyns. Ég undrast hins vegar alla þá sem höndlað lífsviskuna, þá einu og sönnu alla saman í einum pakka, og telja sig geta jafnvel boðað hana án þess að stökkva bros á vör eða telja lífið svo súrt að smávegis grín skaði boðskapinn. Þetta kemur samt barnatrú minni ekkert við.

Ég skildi ekkert í biskupnum þegar ég var barn og enn er ég barn. Hitt skil ég ekki heldur og hef aldrei skilið hvers vegna biskupinn gat haft eitthvað þarfara að gera en að vitja konunnar sem lá banalegu sína. Var hann þó beðinn um það, sárbeðinn. Fyrir því hef ég bara orð hans sem „talar svo fallega".

Og þannig er nú guðsorðaiðnaðurinn orðinn mikilvægur að æðsti presturinn sjálfur, forstjóri kirkjunnar, hafði svo mikið að gera að hann hafði ekki tíma fyrir eina sál. Skilja það nú fæstir því jafnvel forstjóri Icelandair má vera að því að sinna viðskiptavinum sínum, svo dæmi sé tekið úr öðrum bissniss. Þó ber að taka skýrt fram að markhópur Icelandair eru ekki þeir sem ætla að ferðast inn í eilífðina, ef svo væri hefði forstjóri fyrirtæksins örugglega kvatt hvern og einn með handabandi í brottfararsal,  kannski án orða, því návistin ein myndi veita hverri sál öryggi.

Hann var elskaður og dáður af öllum þeim sem ekki þekktu hann." Doldið til í því.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband