Afgangsstærðin

Sjö hundruð manns eru á biðlista eftir gerviliðaaðgerð og sá listi lengist jafnt og þétt. Þrátt fyrir að allt sé til staðar, bæklunarsérfræðingar, tæki og aðstaða gerist fátt vegna þess að fjárveitingu vantar til að hægt sé að hefjast handa.


Eggert Hauksson, viðskiptafræðingur, skrifar um þetta í snjallri grein í Fréttablaðinu í dag, 8. desember. Hann bendir á að engir biðlistar eru eftir tannlækningum og spyr hvers vegna fólk megi ekki sjálft leita úrræða þegar það þjáist vegna ónýtra gerviliða rétt eins og það gerir þegar það fær tannpínu eða þarf á gervitönnum að halda.


Í öðru tilvikinu eru lífsgæðin „komin undir örlæti þingmanna og „velvilja“ þess sem er heilbrigðisráðherra hverju sinni“. Hann segir ennfremur:
„Fjárskorti er kennt um. Ég held að það skorti miklu fremur nýja hugsun, afstöðu og vinnubrögð í þessum efni þar sem sjúklingarnir (viðskiptavinirnir) endi ekki sem afgangsstærð. Slík úrræði eru þekkt og þrautreynd afar víða á öðrum sviðum.“


Það sem Eggert á við er einfaldlega spurningin sem brennur á vöru margra. Hvers vegna er ekki meira um að heilbrigðiskerfið notfæri sér einkaframtakið? Svarið er að sjálfsögðu pólitískt, misjafnt hverju menn svara og veltur það á hvar í flokki þeir standa.


Sameiginlegir sjóðir landsmanna greiða fyrir heilbrigðisþjónustu, þannig hefur það verið hingað til og væntanlega er pólitísk sátt um að svo verði um nánustu framtíð. Þetta kerfi er í heildina gott, en það er dýrt og oft ekki neytendavænt eins og Eggert bendir réttilega á.


Óvíða annars staðar eru þeir sem nýta sér þjónustu afgangsstærð. Í heilbrigðismálunum fer mest fyrir þeim sem veita hana sem og þeim sem halda um budduna. Þannig er það ekki ef bíllinn bilar, reisa þarf hús, fara í ferðalag, kaupa fatnað eða mat. Sá aðili sem veitir þjónustuna veit að viðskiptavinurinn er mikilvægastur, hann er grundvöllur rekstrarins. Léleg þjónusta er einfaldlega dauðadómur.


Af hverju skyldi einkaframtakið ekki mega bjóða þjónustu í heilbrigðismálum? Verður fólk í heilbrigðisþjónustu verði eitthvað lakara ef það rekur fyrirtæki? Auðvitað mætti snúa þessari spurningu við og spyrja hvort læknar, hjúkrunarfólk og aðrir verði eitthvað verra við að starfa hjá ríkinu. Nei, síður en svo. En með viðsnúningnum gleymist mikilvæg staðreynd, hvatinn til eigin rekstrar, möguleikinn að gera betur en aðrir, veita góða þjónustu og hagnast um leið. Þetta er einfaldlega ástæðan fyrir því að tiltölulega fljótlegt er að fá gert við bílinn, byggja hús, kaupa farmiða í ferðalagið, sinna innkaupum og svo framvegis.


Sá sem fær tannverk fer umsvifalaust til tannlæknis. Þar er enginn biðlisti.


Sá sem þarfnast gerviliðar tekur sér númerið 701 og bíður og bíður og bíður og bíður … þangað til að eitthvað gerist eins og fyrir tilviljun. Getum við í einlægni sagt að ekki sé hægt að bjóða upp á betri þjónustu?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband