Skrýtni Tómas gegn flensufjanda

Í því allsherjans tilgangsleysi að vera veikur líður tíminn hægt. Ég get ómögulega skilið hvernig þessi svæsna flensa fann mig, tel mig ekki hafa umgengist einn eða neinn veikann, en hvað veit maður svosem.

Skyndilega á föstudaginn síðasta fann ég fyrir einhverjum ónotum og á laugardagsmorguninn vaknaði ég helsjúkur - að mér fannst. Verra hefði þó verið að vakna dauður en slíkt er ekki vænlegt til framtíðar afreka.

Þetta með tilgangsleysið er kannski aðeins orðum aukið. Líkaminn verður að fá að ná sér, ekki skal dregið út því. Andinn þarf hins vegar sitt. Þó svo að ég eigi langan stofuvegg þakinn bókum nennti ég ómögulega að lesa einhverja þeirra aftur og þaðan af síður að leita að þeim örfáu sem ég hef ekki lesið. Verstur fjandinn var hins vegar sá að ég var búinn með síðasta skammtinn sem ég fékk á bókasafninu og átti bara eftir að skila honum.

Þannig er það nú víða á landsbyggðinni að bókasafnið er ekki alls staðar opið um helgar, ekki einu sinni fyrir veika. Ég þurfti því að bíða til mánudagsins til að komast í bækur. Hélt raunar að þá yrði ég yrðiheill heilsu en það var nú öðru nær.

Við búum tveir saman, ég og sonur minn, hann Bjarki, átján ára besserwisser. Ekki var mikilli samúð fyrir að fara hjá honum, engu líkar en þetta væri bara aumingjaskapur í karlinum að liggja svona flatur. Það breyttist hins vegar þegar flensan læddist að piltinum þar sem hann gerði grín að föður sínum, sló hann flatann og skömmu síðar, skildi hann ekkert og það sem meira var hann var gjörsneyddur öllum húmor yfir ástandi sínu.

Mánudagurinn rann upp og ég komst flensumæddur í bókasafnið og sankaði að mér fjórum álitlegum bókum. Meðal þeirra var bók eftir hinn bandaríska Dean Koontz, Skrýtni Tómas eða Odd Thomas eins og hún heitir á frummálinu.

Í stuttu máli er þetta bara hin skemmtilegasta bók. Skrýtni Tómas, söguhetjan, er eiginlega ekkert skrýtinn en hann er skyggn. Sér látið fólk og ekki síður váboða, verur sem nærast á óhæfuverkum og þeim mun stærri sem þau eru þeim mun fleiri safnast váboðarnir saman. Hins vegar virðist sá Skrýtni vera einfaldur í margra augum en er frekar djúpur og fróður. Bókin fjallar um tilraun hans til að koma í veg fyrir válega atburði sem eru í uppsiglingu í heimabæ hans.

Stíllinn hjá Koontz er frekar knappur og þýðingin verður stundum óþarflega stirð en að flestu leyti hefur þýðandinn, Björn Jónsson, skilað góðu verki. Einna helst finnst mér óþarfi að þýða nöfn fólks. Skrýtni er þó ágæt þýðing á enska viðurnefni söguhetjunnar Odd. Þó íslenska nafnið sé frekar framandi venst það þokkalega. Verra fannst mér með ömmuna Perlu Sykurs. Ekki get ég ímyndað mér að höfundurinn hafi nefnt hana Pearl Sugar en það getur þó vel verði. Hryðja Llewellin nefnist unnusta söguhetjunnar en nafn hennar finnst mér einna erfiðast að sætta mig við. Mörg önnur nöfn eru ekki þýdd.

Nóg um það. Bókin er afar skemmtileg og ég mæli hiklaust með henni. Hún vinnur á þó gallarnir margir. Þegar sagan endar er hún einfaldlega ekki sú sama og er hún hófst. Söguhetjurnar taka óþarfa breytingum. Skrýtni virðist í upphafi vera metnaðarlaus einfeldningur en verður djúpvitur mannvinur, vinamargur og samfélagslega önnum kafinn. Unnustan virðist í upphafi vera undurfurðulegur rugludallur en endar sem ástúðleg gáfumanneskja sem virðist stjórna söguhetjunni en er henni þó engu að síður um allt undirgefin.

Gallar sögunnar pirruðu mig ekki neitt. Svona eftiráséð hefði höfundurinn getað gert betur en sagan er ágætis afþreying þó ekki hafi hún dregið úr flensufjandanum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband